Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands

Furðulegur hryllingur og fullorðin börn

Skrifa athugasemd

Emil Hjörvar Petersen og Gunnar Theodór Eggertsson skrifast á:

pjimage

Lundur, Svíþjóð, 13. apríl, 2016.

 

Heill og sæll, Gunnar.

Það er allt of langt síðan við hittumst. Mig rekur minni til að síðast hafi það verið haustið 2012 þegar við rákumst hvor á annan í Eymundsson á Skólavörðustíg. Við vorum þá báðir nýbúnir að gefa út nýja bók og komnir fremur langt inn á braut furðunnar (ég kýs að nota þetta orð yfir hugtakið Fantastic) og þurftum augljóslega á því að halda að skrafa aðeins. Við settumst niður í kaffibolla, gleymdum stað og stund — enda fékk ég stöðumælasekt — og ræddum um höfunda, um heima og geima og um hvers konar sögur við værum hrifnir af. En ég man ekki eftir því hvort við ræddum ritstörfin sérstaklega.

Margt vatn hefur runnið til sjávar síðan þá, við höfum skrifað fleiri bækur en á sama tíma fjarlægst, sem á sér eflaust skýringar í önnum og fjölskyldulífi. Og, já, ég bý víst í öðru landi.

Fjarlægðin. Hún virðist vera eða hafa verið eitt af einkennum íslensku furðusagnahöfundanna. Hvert okkar hefur þurft að feta sína eigin leið, en þrátt fyrir að við vinnum hvert í sínu horni held ég að fjarlægðin sé að minnka. Tengingar og samræða er farin að myndast. Finnst þér ekki? Verkunum fjölgar ár hvert og umræðan eykst að sama skapi. Mætti tala um furðusagnabylgju?

Fyrir um sex árum voru engin viðmið fyrir furðuna á Íslandi, engin sérstök hefð fyrir slíkum bókmenntum, sem má vafalaust útskýra með smæðinni, of hægum þreifingum á markaði og þar fram eftir götunum. Jú, að sjálfsögðu finnast stöku furðuverk hér og þar í íslenskri bókmenntasögu, og við höfum blessunarlega aðgang að botnlausum brunni þjóð- og goðsagna, en frásagnarháttur furðunnar var ekki til staðar. Hvað á ég við með því?

Ég skal reyna útskýra, stutt og skorinort, hvernig ég sé þetta fyrir mér, byggt á skrifum rithöfunda og fræðimanna. Í fantasíu er yfirnáttúran grunnur sögunnar, fantastíkin er innbyggð í alla þætti verksins, lesandinn gengst við lögmálunum og les verkið á þeim forsendum. Hið ómögulega er mögulegt. Furðusaga er samt háð raunsæi og raunsæislegu formi skáldsögunnar, ólíkt til dæmis goðsögnum, því rót þeirra liggur í trúarlífi, ekki endilega skáldskap. En raunsæið spinnst og leggst ofan á furðuna, ólíkt því sem gengur og gerist í töfraraunsæi og absúrdisma, þar sem óvænt furða kemur inn í annars fremur raunsæja sögu og verður þá að hinu ankannalega. Þar liggur munurinn. Með öðrum orðum: í furðusögum kemur furðan á undan raunsæinu, í töfraraunsæi kemur raunsæið á undan furðunni.

Ég held að einn af göldrunum við að skrifa furðusögu er að hafa þetta í huga.

Sem stendur er furðan haldreipi mitt í skrifunum. Hún er stoðsúlan sem má ekki brotna. Um þessar mundir finn ég mig best í því að gera tilraunir með ýmis form og frásagnarhætti fantasía og vísindaskáldsagna.

Og þá komum við að ritstörfunum.

Án þess að hnýsast leikur mér forvitni á hvernig vinnslan fer fram hjá þér. Mér þætti gaman að fá smá innsýn í störf annars furðusagnahöfundar, það er að segja ef við viljum skilgreina okkur á þann hátt. Leyfum okkur það núna?

Í staðinn get ég sagt þér svolítið frá mínum ritstörfum, minni upplifun.

Þetta hljómar kannski eins og versta klisja, en ef ég hlusta ekki á sjálfan mig, ef ég veiti ekki ástríðu minni, áhuga og eldmóð eftirtekt stirðnar sagan og verður eins og ófrjór múlasni sem vill ekki haggast.

Ef ég sleppi hins vegar fram af mér beislinu, hugsa ekki um að ganga í augun á neinum og leyfi á sama tíma því sem ég hef áhuga á að flæða í gegn þá verður sagan til. Furðusagan.

Ég veit ekkert betra en að vera langt kominn í handriti og á það stig að vera „einn með sögunni“. En til þess að það getur átt sér stað verður mér að hafa tekist að búa mér til þann tíma sem til þarf svo ég geti tekið langa og strembna vinnutörn. Í þessu ferli er ég í raun að segja sjálfum mér söguna, eins og Terry Pratchett heitinn komst að orði varðandi skrif á fyrsta uppkasti. Utan rannsóknarvinnunnar skrifa ég fremur hratt og af harðfylgni, en að þessu ferlisstigi loknu endurskrifa ég nokkrum sinnum allt handritið eða „skrifa ofan í“ það og ímynda mér gjarnan að ég máli fleiri umferðir og gefi öllu meiri dýpt, ég skyggi, gef sögunni áferð og fleiri liti.

Í umræddri törn reyni ég að vera óhræddur við hugmyndir mínar, eins undarlegt og það kann að hljóma. Ég á það nefnilega til að hræðast hugmyndir. Sumar hugmyndir láta mig ekki vera. Ég lifði og hrærðist til að mynda í Sögu eftirlifenda í mörg ár. Það er saga að segja frá öllu því ferli, frá þeim árum, en ég ætla ekki að rekja það allt saman hér. Einhvern tímann seinna.

Núna, þegar ég vinn að nýrri skáldsögu og lít til baka, sé ég hversu þroskandi þríleiksárin voru. Það mætti tala um þau sem einskonar eldskírn. Ég þekki betur inn á sjálfan mig, þekki afköst mín en einnig takmörk. Auk þess sé ég á greinilegri og yfirvegaðri hátt hversu margt er hægt að læra, og það er það sem drífur mig áfram. Á því grundvallast löngunin til að skrifa; að vera heltekinn af því að segja öðrum fleiri sögur.

Þegar ég er kominn á kaf í sögu hugsa ég þó lítið um lesandann, en við og við staldra ég við og hugsa: Er ég genginn af göflunum? Hvað í ósköpunum var ég að skrifa? Sjálfum finnst mér þetta skemmtilegt en mun einhverjum öðrum finnast það? Þá áhættu verð ég að taka og þessar efasemdir verð ég að leggja til hliðar. Það er hluti af aganum en það er líka hluti af furðunni. Útfærslan á hinu yfirnáttúrulega er undir furðusagnahöfundinum komið og hann verður að vera frjáls undan öllum höftum. Sjálfsgagnrýni og efasemdir eru samt nauðsynlegar og hollar í hófi. Rithöfundur verður sífellt að takast á við efann og reyna að færa sér hann í nyt. Það er ekki alltaf auðvelt.

Eflaust vinna margir höfundar á svipaðan hátt og ég lýsi. En ég velti því fyrir mér hvort einhver munur sé á ferlinu hjá þeim sem skrifa furðusögur og þeim sem skrifa raunsæjar sögur.

Ég hef þetta ekki lengra í bili. Dóttir mín sefur í næsta herbergi og ég ætla að athuga hvernig hún hefur það. Þetta er búinn að vera langur en góður dagur, ég er sáttur við afköstin og heimilsverkin eru að baki. Núna nenni ég ekki að fara út að skokka, sem endranær. Ég er að hugsa um að lesa í klukkutíma eða svo, spila síðan aðeins Fallout 4 og enda kvöldið á einum þætti af Daredevil á Netflix. Í augnablikinu er ég að lesa The City and the City eftir China Miéville, Oryx & Crake eftir Margaret Atwood, fjórðu bókina í The Dresden Files-seríunni eftir Jim Butcher, Skaparann eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og bók um merki og tákn heimsins. Hvað ert þú að lesa?

Ég hlakka til að heyra frá þér.

 

Þinn félagi og kollegi,

Emil

~

 

Reykjavík, 3. maí 2016

Kæri Emil

Alveg rétt – þú ert í Svíþjóð! Ég var þar um daginn, á rithöfundaþingi í smábænum Strömstad, fyrir nokkra barnabókahöfunda frá ströndum Norðursjós, og þar ræddum við einmitt þó nokkuð um fantasíuna, furðuna, og mörkin – ef þau er þá að finna – á milli þess að skrifa ævintýri fyrir börn og fullorðna. Kem eflaust að því á eftir, enda hefur það verið mér hugðarefni síðustu vikur og mánuði, þar sem ég er farinn að teygja meira og meira á þessum línum. Ég biðst annars afsökunar á hversu seint ég svara þér. Tölvupósturinn hefur eflaust týnst einhversstaðar í Norðursjónum. Eða horfið í gegnum tímagat, eins og gengur og gerist með mín skrif.

Takk fyrir reglulega áhugavert bréf, stútfullt af spennandi pælingum og spurningum varðandi furðusagnaskrifin. Ég ætla að byrja á að svara því auðveldasta: hvað er ég að lesa? Ég hef einmitt markvisst reynt að kynna mér hinar og þessar fantasíuseríur upp á síðkastið, sem hafa farið framhjá mér hingað til. Þannig las ég til dæmis Earthsea-seríuna eftir Ursulu Le Guin í fyrsta sinn í hittífyrra – algjört meistaraverk og ótrúlegt að ekki nema fyrsta bindi hafi verið þýtt á íslensku (og er nú nokkurn veginn gleymt!). Úrsúlu tókst það sem gerist örsjaldan: hún hræddi mig upp úr skónum með bók sem var upprunalega skrifuð fyrir börn, eða a.m.k. markaðsett þannig (talandi um þessar línur á milli lesendahópa … þvílíkt bull). Það er í raun alveg fáránlegt að ég hafi ekki lesið Úrsúlu fyrr en núna – og þó, ég er kannski bara heppinn að eiga svona margt gott eftir – en hún er greinilega farin að hafa áhrif á mig. Ég er enn að vinna mig í gegnum Úrsúlu og er samtímis að færa mig hægt og rólega í gegnum The Once and Future King eftir T.H. White, annan hornstein 20. aldar ævintýrabókmennta, sem er reglulega gaman. Ég er líka að kynna mér nýrra efni, er alveg fallinn fyrir Robin Hobb (þó tuttugu árum eftirá) og mjög ánægður með Kingkiller Chronicles, sem er það nýjasta á leslistanum. Var einnig að ljúka við The Unnoticeables, sem var mjög hressandi pönk, en ekkert sérstaklega djúpstætt, og spændi í mig Station Eleven fyrir skemmstu. Satt best að segja hef ég ekki verið sérlega iðinn við fantasíulesturinn síðan ég var strákur – hef meira haldið mig í hryllingnum, sem er þó vissulega skyldmenni – og svona úr því að ég er kominn svona langt inn í furðuna með “barna- og ungmennabókunum” mínum er löngu tímabært að reyna að halda í við alla gróskuna.

Ég lenti til dæmis í því, rétt eftir að ég skilaði af mér lokauppkastinu af Drauga-Dísu til ritstjórans, að ljúka við fyrstu bók Önnu McCaffrey um drekariddarana á Pern, Dragonflight. Ég hafði mjög gaman af henni (þótt hún hafi reyndar ekki fengið mig til að halda áfram með seríuna, enn sem komið er, enda af nógu öðru að taka svo sem). Nema hvað, þegar ég kom að lokaúrlausn bókarinnar fékk ég hálfgert áfall, því í ljós kom að lokaúrlausnin (eða hluti af henni) í Drauga-Dísu var nokkurs konar öfugsnúin útgáfa af mekanismanum hjá McCaffrey. Ég varð umsvifalaust skíthræddur um að allir fantasíunördar myndu strax bera kennsl á þetta og saka mig um að hafa stolið hugmyndinni frá þessari frægu bók, sömu bók og gerði McCaffrey að fyrstu konunni til að hljóta Hugo og Nebula verðlaunin virtu á sínum tíma. En ég hafði ekki hugmynd um líkindin – þetta var ekki einu sinni dæmi um að ég væri að endurvinna eitthvað úr undirvitundinni (eins og þegar ég setti óvart senu úr Empire Strikes Back inn í Steindýrin…) því ég hafði aldrei lesið Dragonflight, sagan aldrei verið kvikmynduð og ég man ekki eftir annarri sögu sem notar sama mekanisma.

En þetta kom aldrei upp. Enginn sem las yfir, enginn sem gagnrýndi, bar kennsl á þetta. OK, kannski var þetta bara paranoja í mér frá upphafi, kannski var þetta ekki einu sinni svo líkt (jú, jú, þetta er ansi líkt, og ég vil ekki spilla þessu, ef ske kynni að þú hafir ekki lesið Dragonflight eða Drauga-Dísu …). En þetta segir kannski eitthvað um stöðu furðusagnanna á Íslandi, þ.e. að enginn hafi bent á þetta. Að McCaffrey sé svona lítið þekkt. Úrsúla líka. Pældu í Harry Potter og Earthsea: margir bentu svo sem á þetta á sínum tíma, en Úrsúla var virkilega skúffuð að J.K. skyldi ekki telja Earthsea upp sem innblástur Potterversins, því galdraskólinn á Roke og stór hluti fyrstu bókarinnar sem gerist í þeim skóla er svo augljós forveri. En furðusagan er svo nýkomin inn í meginstrauminn, sérstaklega hér á landi býst ég við, að svona textatengsl eru fjarri því að vera á hreinu. Vá hvað ég vildi að ég hefði lesið Earthsea þegar ég var strákur. Hún kom út árið 1977 í þýðingu Guðrúnar Bachmann, en fór einhvern veginn alveg framhjá mér. Og greinilega flestum öðrum, því oftast þegar ég minnist á LeGuin hefur enginn lesið hana.

Og jú, það er vissulega einhver furðusprengja í gangi núna, sem helst jafnframt í hendur við hryllinginn líka. Umræðan sem ég upplifði í kringum DD í jólabókaflóðinu núna síðast snerist að miklu leyti um þetta: allir að skrifa hrylling, börn vilja ekkert nema hrylling, og markaðssetningin skellti iðulega okkur hryllings- og furðusagnahöfundum saman í einn pakka. Þetta er auðvitað frábært, en mér fannst alltaf jafnskrítið að þurfa að svara fyrir þennan skyndilega áhuga, því síðan ég var strákur hef ég alltaf sótt í þessar bókmenntir og nú þegar ég er farinn að skrifa fyrir krakka (og sjálfan mig, fullorðinn, í leiðinni, því ég skrifa bara það sem ég hef gaman af að lesa) þá hef ég skiljanlega laðast að sams konar efni og ég las sjálfur sem strákur. Munurinn er bara að þá var ég að lesa íslenskar þjóðsögur, Tolkien og Stephen King, því ungmennahreyfingin hafði enn ekki náð utanum mátt hryllingsins á yngri lesendur. Ætli Græna höndin hafi ekki verið eina bókin sem var virkilega markaðsett fyrir minn aldurshóp, fyrir utan fyrstu bylgju kvikmynda snemma á níunda áratugnum sem Hollywood kunni ekki að aldursmerkja og þurfti því að búa til “bannað innan 12 ára” (Gremlins, Ghostbusters, Temple of Doom, allar frá 1984), en áður voru myndir annað hvort leyfðar börnum eða bannaðar þeim – og ekkert þar á milli. Þarna var ný lína dregin í sandinn, línan sem skapaði nýja markaðssetningu fyrir “barnahrylling”, línan sem ég vinn í kringum og veit aldrei nákvæmlega hvernig lítur út eða hvort sé yfir höfuð til.

Um daginn hitti ég kunningja minn í kaffi – annan rithöfund sem hefur einnig skrifað fantasíur – og lýsti nýju sögunni minni, framhaldi af Drauga-Dísu, í grófum dráttum, og að fyrirlestri mínum loknum (sem var eflaust ansi flókinn og ruglingslegur, eftir á að hyggja)  hló hann og sagði að ég væri týpískt dæmi um fantasíuhöfund sem væri greinilega búinn að sprengja utan af sér barnabókahlekkina! Gott og vel, nýja sagan tekur á mörgum ansi erfiðum málefnum, að miklu leyti um dauðann, að horfast í augu við mistök, og hversu erfitt (ef ekki ómögulegt) það getur verið að finna auðveldar lausnir á vondum flækjum – en ég er ekki svo viss um að ég þurfi endilega að brjóta af mér neina hlekki. Þetta eru allt mál sem hægt er að ræða í “barna- og ungmennabókum”. Bara spurning um hvernig. Og það er einmitt stigið sem sagan er á núna, hvernig ég get náð góðum balans á ævintýralegheitum og erfiðum tilvistarlegum krísum. Ef það er einhver lína til staðar sem aðgreinir það sem skrifa má fyrir börn og það sem skrifa má fyrir fullorðna snýst það heldur um framsetningu heldur en efnið sjálft. Það var að minnsta kosti niðurstaðan úr spjalli mínu við hina höfundana í Svíþjóð. En meira um það næst. Ég ætla að stoppa mig af hérna – ég sem hef ekki minnst einu orði á ritstörfin sjálf! Það kemur. Boltinn rúllar, það skiptir öllu máli. Yfir til þín og þar til næst.

 

Bestu kveðjur,

Gunnar Theodór

~

 

Lundur, Svíþjóð, 8. maí 2016

 

Kæri Gunnar.

Takk fyrir skemmtilegt svarbréf! Ekkert að afsaka seinkun, ég er þessa dagana á bólakafi í nýju bókinni og veit því varla hvað tímanum líður, nema að ég á að skila af mér handritinu til ritstjóra um miðjan júní. Ég er á lokaköflunum, þræðirnir spinnast saman, sagan er í þann mund að rammast, og svo tek ég eina endurskrifssrispu til viðbótar áður en ég sendi frá mér.

Ég veit ekki hversu mikið ég ætti að segja um nýju bókina á þessum tímapunkti, en hún kemur út í haust hjá Bjarti & Veröld, verður young adult/crossover og það mætti segja að hún sé einskonar borgarfantasíuþriller. Þetta tvennt kemur einmitt inn á það sem þú ræðir helst í bréfinu þínu.

Það er gott að þú veltir upp pælingum um mörk barna- og fullorðinsfurðusagna. Þá umræðu hefur maður orðið var við á furðusagnaráðstefnun erlendis og það er farið að örla á henni á klakanum.

Hingað til hef ég alltaf lagt áherslu á furðusögur fyrir fullorðna, nema að núna skrifa ég young adult (kem að því á eftir). Ég er sammála þér hvað varðar það að barna- og unglingafantasíur höfði oft einnig til fullorðinna. En svo er það spurningin hvort fullorðinsfantasíur geti líka verið fyrir börn. Vissulega geta sumar það, en ég á erfitt með að sjá fyrir mér barn lesa til dæmis Perdido Street Station eftir China Miéville eða hina frábæru vísindaskáldsögu The Left Hand of Darkness eftir téða Ursulu Le Guin (ójá, Earthsea-kvartettinn er magnaður!)

Eitt sinn, þegar ég var að árita í Nexus fyrir jól, spurði mig kona hvort ég mælti með því að hún gæfi níu ára syni sínum bækurnar mínar í jólagjöf. Í stað þess að reyna að selja eintök sagði ég konunni í hreinskilni að sagan væri ekki ætluð börnum. Oft of grófar lýsingar, efniviður sumra bókahluta og framvindan höfðaði eflaust ekki til níu ára og svo framvegis. En ég veit það ekki, hvað er ég að reyna að skilgreina söguna? Bæði hefur verið fjallað um hana sem fullorðinssögu og í tengslum við ungmennabækur. Kannski hefði strákurinn haft gaman og gott af því að upplifa grótesku, sem hann hefur örugglega þegar gert í tölvuleikjum. Ég komst alla vega í tæri við mikinn óhugnað þegar ég stalst í hryllings- og splattermyndirnar sem stóri bróðir átti. En hafði ég gott af því? Jájá.

Með þríleiknum hafði ég sem sagt það að markmiði að skrifa furðusögu fyrir fullorðna á íslensku, og fannst ég stundum dálítið sér á báti, á meðan flest hin skrifuðu fyrir börn og unglinga (samt líka fyrir fullorðna, eins og þú bendir á). En ég var meðvitað að skrifa fyrir fullorðna, varð þrjóskur, því ég vildi sýna fram á að þetta væri hægt; að íslenskan geti verið tungumál fyrir fullorðinsfantasíur. Ein helsta áskorunin þegar ég skrifaði fyrstu bókina var að finna rétta tóninn. Tungumálið mátti ekki vera of uppskrúfað, því að þá virkaði það tilgerðarlegt og sagan yrði ótrúverðug, og það mátti heldur ekki vera of harðsoðið, en þá kæmi sama staða niður. Ég dansaði því alltaf mitt á milli og lék mér með mörk bókmenntagreina og poppkúltúrs. Sagan varð margstíla ef svo mætti segja, og sá stíll varð stöðugri eftir því sem leið á söguna, sem markaðist af því að ég fór að hlusta betur á sjálfan mig, líkt og ég lýsti í fyrra bréfinu.

En núna er ég að skrifa það sem útleggst á íslensku sem ungmennabók. Ég verð að viðurkenna að ég á erfitt með að taka íslenska hugtakið í sátt. Nær það nógu vel utan um heildarhugmyndina? Er ekki pælingin á bakvið young adult, öðru nafni crossover, að brúa bilið á milli unglingabóka og fullorðinsbóka? Er aldurinn þar á milli kallaður ungmenni? Það er eitthvað við þetta orð … æ, það gildir einu. Hvað sem markaðsástæðum líður finnst mér ungmenna-kategórían snilld. Hún virkir breiðan hóp lesenda og minnkar kynslóðabil. Þar skýrist líka heitið crossover.

Það sem fékk mig til að taka ungmennabókina í sátt og njóta þess að skrifa slíkt var aðallega það að ég áttaði mig á því að ég gæti haldið frásagnarstílnum eins og ég væri að skrifa fyrir fullorðna, nema að persónurnar verða að höfða til ögn yngri lesenda, yngri fullorðinna. Umfjöllunarefnin geta verið jafn alvarleg og/eða heimspekileg, eins og þú lýsir Drauga-Dísu. Í nýju bókinni minni koma fram ýmis fjölskylduvandamál og tilvistarkreppa á meðan hið yfirnáttúrulega eykst — fantastíkin er háð raunsæinu, það er bara að finna jafnvægið á milli, sem þú kemur einmitt inn á. Ah, ég vildi að ég gæti sagt meira um nýju bókina! En ef ég geri það finnst mér eins og sagan „fari frá mér“ og það má ekki gerast svona á lokametrunum. Veistu hvað ég á við?

Þú nefnir að hrollvekjan haldist í hendur við fantasíurnar. Mér finnst það líka frábært, því það opnar á möguleikann að blanda þessu tvennu saman, og það er nokkuð sem ég er hvað spenntastur fyrir í ástríðu minni á furðusögum: að blanda saman greinum og gera tilraunir. Í Sögu eftirlifenda mættust ýmsar furðugreinar, en ég kýs að tala um söguna sem póst-apokalýptíska fantasíu (ég vildi að það væri til gott íslenskt hugtak yfir post-apocalyptic). Vættir og töfrar í válegum eyðilöndum. Fyrsta bókin dró lesandann inn í atburðarás og söguheim sem sprengdi síðan algjörlega utan af sér í annarri og þriðju bók. Greinablöndunin bauð gjarnan upp á kynjafulla framvindu og úrlausnin kom stundum sjálfum mér á óvart, og þá var mér sem höfundi skemmt.

Í nýju bókinni fer ég á nýjar en kunnuglegar slóðir, blanda saman borgarfantasíu og spennusögu, reyni að koma sjálfum mér á óvart og vinna úr því. Í mínum augum verða ritstörf að endurnýjast og vera krefjandi. Á hverjum degi breytist maður ögn sem manneskja og ég held að sem rithöfundur verði maður að gera það líka. Halda áfram, alltaf. Hvert er ég annars kominn?

Eitt í viðbót úr bréfinu þínu sem mig langaði til að spjalla um: textatengsl og ófyrirséð líkindi við önnur verk. Þú lýsir því hvernig lokaúrvinnslan í bókinni þinni var næstum því sú sama og í bókinni Dragonflight. Ég skil paranojuna vel, en það hefur hent mig nokkrum sinnum að úrvinnsla á köflum, persónuþróun eða ákveðnum þráðum dúkkar upp í bókum sem ég er að lesa eða í kvikmyndum eða þáttum sem ég glápi á — og þá oftast í einhverju furðusagnatengdu. Ég veit ekki hvort maður ætti að tala um þetta sem textatengsl, t.a.m. à la Julia Kristeva, heldur dettur mér frekar í hug að það mætti líkja þessu við formgerð goðsagna, à la Leví-Strauss.

Minni goðsagna og þjóðsagna lifa góðu lífi í furðusögum. Mýtemið, hetjuförin, erkitýpurnar, mentorinn og elexírinn — allt varðveitist þetta í furðusögunum, sem skrifaðar eru innan lögmáls skáldsagnaformsins, sem gerir það að verkum að mýtan, sama hvort hún er utanaðkomandi eða byggð inn í sagnaheiminn, hverfur inn í fleiri flækjur, fleiri þræði, en hún viðheldur sér samt alltaf. Frásagnarformið þróast og hugmyndirnar sem hverfast um mýtuna þróast, en grunnformgerðin er oft undirliggjandi. Og mýtan í sinni upprunalegustu mynd er hvernig manneskjan, hvar sem er í heiminum, hugsar. Við hugsum í grunninn öll eins, við hugsum og munum í sögum. Hugur mannsins er ævintýralegur, hugur nútímamannsins er auk þess fullur af flækjum og við erum berskjölduð firringunni, en furðusagan miðlar mýtunni og kjarnar út það sem okkur öllum er eðlislægt: að segja sögur. Umm, já, það sem ég vildi sagt hafa er að þessi óviljandi líkindi eiga sér þá skýringu í frásagnarmáta furðusagna, í formgerðinni. Við ættum ekki að hafa áhyggjur af því að skrifa óvart eins, frekar njóta þess að sjá að einhver annar vann úr hlutunum á svipaðan hátt, sem þýðir vonandi að maður hafi gert eitthvað rétt.

Ætli ég segi þá ekki stamar numið. Það er sunnudagskvöld, ég ætla að lesa eitthvað og fara tiltölulega snemma að sofa (en svo verður klukkan skyndilega hálf eitt). Það er löng vika framundan. Skriftörn. Mæðgurnar fara í heimsókn til Íslands á þriðjudaginn og verða í viku. Ég kemst ekki með, heldur verð eftir og skrifa lokakaflana.

Yfir til þín!

 

Allra bestu kveðjur,

Emil

~

30. maí 2016, The Double R Diner, Reykjavík, Ísland

 

 

Gaman að heyra af nýju bókinni! Ég hlakka til að fá að vita meira um hana, þegar þú ert reiðubúinn að deila þræðinum nánar. Góðar pælingar með kjarna og mýtur fantasíunnar, það útskýrir vissulega að miklu leyti tengingar sem verða til, og eru svo sem hluti af allri úrvinnslu á skapandi efni. Ég fór t.d. á X-Men: Apocalypse í gær og sá þar nokkrar hugmyndir sem ríma ágætlega við hugmyndir í nýju bókinni minni … ekkert of líkt, bara þematískt svipað, og í þessu tilviki ágætt að vita af því áður en ég klára mína sögu. En dæmið með Dragonflight og Dísu var svo andskoti nákvæmt (og ég hef hvergi séð það annars staðar) að það var alveg á öðru plani, en annars snerist sú anekdóta kannski frekar um það að enginn annar hafi tekið eftir því í íslensku senunni, eins og McCaffrey er frægur höfundur úti í heimi (kannski minna lesin nú en áður, samt), sem segir kannski sitt um hversu stutt saga er að baki fantasíuskrifum og umfjöllun hér á landi. Ég er greinilega ekki einn um að þurfa að lesa afturábak og kynna mér hina og þessa heima, en tek því algjörlega fagnandi, enda ógeðslega skemmtileg vinna.

Annars ætla ég ekkert að biðjast afsökunar á seinu svari í þetta sinn, jafnvel þótt það sé enn seinna en hið fyrra. Ég er líka fastur í lokaköflum, reyndar með bók sem er ekkert á leiðinni úr hreiðrinu á þessu ári (ég setti mér sjálfur það markmið að klára hana fyrir sumarið), þannig að við skiljum hvor annan væntanlega. Ég veit nokkurn veginn hvert sagan stefnir, en er enn að átta mig á hver endalok Galdra-Dísu verða, hversu nærri sagan færist því að enda „vel“ eða „illa“. Það tengist einmitt þessum pælingum um mörkin á milli fullorðins og ungmenna, og blöndunina þar á milli. Hvað varðar hrylling, og fantasíuna honum tengdri, þá er tvennt sem mig langar að nefna. Í fyrsta lagi ofbeldi og annan líkamlegan, áþreifanlegan hrylling, og í öðru lagi existensjalískan og hugmyndafræðilegan hrylling. Byrjum á hinu líkamlega og bókstaflega.

Það er til dæmis nokkuð harkalegt ofbeldi í Drauga-Dísu í formi blóðugrar skrímslaárásar í miðju unglingapartíi uppi í sveit, og það verður ljótt ofbeldi í framhaldinu, sem kemur í ljós síðar. Í Steindýrunum og -skrípunum var líka þó nokkuð af óhugnanlegum senum, einn strákur brotnaði til dæmis í sundur á hlaupum í þeirri fyrri (þegar fætur hans steingerðust og hann féll til jarðar) og önnur aðalpersónan í þeirri síðari sér sæskrímsli gleypa foreldra sína lifandi. Ég hef mikið velt fyrir mér ofbeldi í barnabókum, ekki síst sem sagnaþulur á frístundaheimilinu í Hlíðaskóla, þar sem ég hef unnið samhliða skrifum marga vetur. Að skilja hvað má og hvað má ekki, hvenær er ég farinn að gefa hlustendum/lesendum martraðir og hvenær ekki. Auðvitað er þetta afskaplega persónubundið, en samt má draga fram nokkrar þumalputtareglur, út frá minni reynslu.

Fyrsta veturinn sem ég vann á frístundaheimilinu lifði ég í stöðugum ótta við foreldra sem myndu koma og kvarta yfir soranum sem ég var að lesa fyrir börnin þeirra (sora sem kom þó alfarið úr gömlum barna- og unglingaútgáfum af þjóðsögum Jóns Árnasonar og öðrum ævintýrabókum sem ég gróf upp á bókasöfnum, bókaskápum og úr Kolaportinu). Ég lenti samt aldrei í neinum vandræðum og jafnt og þétt gekk ég lengra og lengra, þorði að lesa ljótari sögur, sem náði hámarki með einni gleymdri þjóðsögu sem ég ætla ekki að nefna með nafni hér því mig langar að endurútgefa hana við tækifæri, vel myndskreytta og jafnvel sem myndasögu. Ég var dauðsmeykur að lesa hana fyrir börnin af ótta við að þau myndu ekki fatta húmorinn í henni (væri hún kvikmynduð yrði hún væntanlega flokkuð undir grínsplatter) og ef illa færi myndu öll börnin halda heim og segja mömmum og pöbbum frá afhausunum og limlestingum sem þau lærðu um í skólanum hjá mér.

En það var að sjálfsögðu óþarfa stress. Börnin skelli skellihlógu og ég hef sjaldan skemmt mér jafnvel að lesa þjóðsögu fyrir krakka. En svo kom að því að ég átti að halda opna smiðju fyrir foreldra til að koma og kynna sér starfið í frístundinni og þá blossaði hræðslan aftur upp. Fullt af fólki mætti að hlusta á mig segja frá söguklúbbinum, sem hafði reynst svona svakalega vinsæll (hmmm … hvers vegna ætli það hafi verið?), og heyra brot af sögunum sem voru þar á boðstólum. Ég mannaði mig hægt og rólega upp í ljótari sögurnar til að reyna að átta mig á foreldrahópnum og prófaði loks að segja þeim frá Draugshúfunni, sem er með skuggalegri sögum, vegna þess að ung stúlka er drepin af draugi, en það er í raun öðrum krakka að kenna, stráki sem var alltaf að stríða henni. Ég sagði foreldrunum frá þeirri sögu, en bætti við að ég hafði líka smíðað varíant af henni, þar sem stúlkan dó ekki, og ég fékk allan hópinn upp á móti mér. Hvað átti þetta eiginlega að þýða, má ekki tala við börnin um dauðann??? (NB: Þetta var áður en ég byrjaði að skrifa barnabækur sjálfur og ég tel þessa smiðju með foreldrunum með því allra lærdómsríkasta sem ég hef upplifað sem rithöfundur). Þessi viðbrögð sýndu að ég var greinilega í öruggum hópi og þá þorði ég loksins að segja þeim frá hinni sögunni, þeirri ógeðslegu, og mér til mikillar gleði voru allir foreldrarnir hæstánægðir með hana. Það hefur í rauninni bara komið upp einu sinni að einhver krakki hafi fengið martröð eftir sögustund hjá mér (þótt ótrúlegt sé) og það var um sæskrímsli (í Vesturhópsvatni, minnir mig). Mamma stráksins kom til mín daginn eftir og sagði mér frá því og ég var snöggur að biðjast afsökunar og allt það, en hún blés alfarið á afsökunarbeiðnina og virtist hæstánægð að hann hafi fengið martröð, því hann var greinilega að nota ímyndunaraflið, og var að hlusta á sögur en ekki bara glápa á myndir og spila tölvuleiki (þótt það geti nú líka alveg virkjað ímyndunaraflið líka).

Þetta kenndi mér að alls konar ofbeldi á erindi inn í barnamenninguna, því börn upplifa hræðslu og ofbeldi líka í sínu umhverfi (og stundum á mun skýrari og beinni hátt en flestir fullorðnir gera). Það þarf ekki mikið til – bara hrekkjusvín sem ýtir og ógnar getur látið manni líða eins og skrímslið sé mætt og hafi bitið af manni hendur eða fætur. Það skiptir held ég meira máli að ofbeldið sé merkingarbært, heldur en að rífast um hversu ógeðslegt það kann að vera. Ef ofbeldið er bara til skrauts, yfirgengilegt til þess eins að vera yfirgengilegt, eins og í mörgum hryllingsmyndum, þá á það ekki erindi í barnamenninguna. En ef það er notað rétt, hefur áhrif á söguna, eða persónurnar, og er merkingarbært, þá má það vera ógeðslegt. Ég myndi jafnvel ganga svo langt og segja að það þurfi að vera ógeðslegt, því ofbeldi á að vera ljótt og láta lesendum líða illa að lesa um það. Sjónmenningin hefur tekið mikið af blóði úr ofbeldi og þær myndir og þeir leikir sem krakkar kynnast nú á dögum draga alveg svakalega úr ljótleika ofbeldis. Tölvuleikir sýna sjaldnast afleiðingar þess að drepa og misþyrma, en ég myndi þó frekar kvarta yfir kvikmyndum, sem eru oftar en ekki gjörsamlega blóðlausar, þótt þær séu stútfullar af dauða og drápi. Fyrir því er markaðsfræðileg ástæða: blóð hækkar aldurstakmarkið, þannig að Hollywood strokar markvisst út blóðið til að geta selt yngri áhorfendum aðgangsmiða. Þetta hefur verið ítarlega rannsakað: síðustu tvo áratugi hefur þróunin verið sú að hasarmyndir geta verið með meira ofbeldi og morð en hasarmyndir árin á undan, en hins vegar minna blóð, minna raunsæi. Vissirðu að það er svo gott sem ekkert blóð í Taken? Og hvað myrðir Liam Neeson marga misyndismenn í þeirri mynd? Þá held ég að það sé hollara að hafa alist upp á níunda áratugnum, eins og við, þegar hasarmyndir áttu það til að vera svo ógeðslegar að ég fæ enn hroll að hugsa um sum ofbeldisatriðin … enda voru þau ljót og viðbjóðsleg eins og alvöru ofbeldi.

Gott og vel – merkingarbært ofbeldi er málið, held ég, og annars þekki ég engin mörk á milli fullorðins- og barna/unglinga/ungmennabókmennta hvað varðar bókstaflegt, líkamlegt ofbeldi, fyrir utan kynferðisofbeldi. Það hef ég ekki skoðað og ekki sett í mínar sögur og ég er ekki viss hvernig það stendur hvað varðar þessi mörk. Mögulega er línan skýrari þar heldur en með annað ofbeldi, en ég held samt að það sé hægt að fjalla um kynferðisofbeldi í barnamenningunni án þess að gera það beinum orðum. Þetta er órannsakað efni mín megin, en nýlegt dæmi (sem reyndar kemur úr kvikmynd en ekki bók) sýnir hvernig hægt er að fjalla um svo erfitt og flókið efni óbeint í gegnum ævintýralega linsu. Það kemur úr Maleficent, nýlegri Disney-mynd sem segir ævintýrið um Þyrnirós frá sjónarhóli nornarinnar (Maleficent titilsins) og leitast við að útskýra brjálað hatur hennar á kónginum. Þar kemur í ljós að nornin og kóngurinn voru bestu vinir í æsku, jafnvel kærustupar, nokkurs konar Rómeó og Júlíu-týpur, hann bjó í konungsríkinu en hún með furðuverunum í ríki fantasíunnar. Maleficent var með glæsilega vængi og tilheyrði álfaætt í ævintýraskóginum í kring og það sem gerir út af við vinskap þeirra tveggja og kveikir hið mikla hatur hennar á mannfólkinu og á konugsættinni sérstaklega er þegar þau eru orðin unglingar og prinsinn ungi byrlar henni svefnlyf og sker af henni báða vængina. Hún vaknar alein og vængstýfð og að eilífu breytt. Krakkar sem horfa á þetta upplifa sársaukann í gegnum ungu álfkonuna, ofbeldið, árásina og svikin, en ég held að hver einasti fullorðni áhorfandi sjái ekkert annað en æpandi myndlíkingu um nauðgun, og það í mynd ætlaðri yngri kynslóðinni. Þetta er reglulega áhugavert dæmi um mörkin (eða ekki-mörkin) á milli þess sem má og má ekki tala um, á milli fullorðinssagna og ungmennasagna, og Maleficent er að mörgu leyti mjög fín mynd, en flöktir annars svo mikið í tón á milli þess að vera myrk og fullorðinsleg og síðan litrík og kjánaleg að hún endar dálítið á milli þilja.

En svo ég fari þá aðeins út í síðara atriðið, hugmyndafræðilega hryllinginn og existensjalismann – áður en þetta verður alltof langt bréf og fer að umbreytast í fræðilega ritgerð (eða kvikmyndagagnrýni). Ég hef mikið velt þessu fyrir mér varðandi muninn á barna- og fullorðinshryllingi og það er einn munur þar á sem ég hef skynjað. Út frá pælingum um hlutverk gamaldags ævintýra innan reynsluheims barna er stundum talað um að þau snúist um að gefa krökkum tilfinningu fyrir góðu og illu og hjálpi þeim að ná utan um að illska sé til í heiminum. En þau snúast líka um að illsku sé hægt að sigra og að von sé alltaf til staðar. Þannig geta ævintýrin verið uppfull af viðbjóði, ofbeldi, hryllingi, blóði og dauða, svo fremi sem að þau endi vel og að illvirkjunum er refsað almennilega í lokin, hent ofan í naglatunnu og rúllað upp og niður hæðir og svona. Fullorðinshryllingur, eða að minnsta kosti sá hryllingur sem ég sæki í sem fullorðinn lesandi, snýst miklu frekar um vonleysi frammi fyrir óreiðu, um skeytingarleysi heimsins, um máttleysi gagnvart kosmósinu. Þarna er einhver grundvallarmunur til staðar. Í hryllingi fyrir yngri kynslóðir eru skrímsli – og það er lykilatriði. Það eru skrímsli sem eru til og eru skilgreinanleg og er því hægt að drepa. Það er hægt að leysa vandamálið. Oftar en ekki eru líka ákveðnar reglur tengdar þessum skrímslum, hvernig má drepa þau, hvernig er best að kljást við þau. Þau meika sens. Það endurspeglar von og jákvæðni sem er hluti af uppbyggingu slíkra sagna og sama hversu ljótar þær kunna að vera, þá er sú von óaðskiljanlegur þáttur í sögunni. Meira að segja þegar skrímslið sigrar, þá er von um að einhver annar geti komið og drepið það seinna meir. En í öðruvísi hryllingsbókmenntum – Lovecraft er augljósasta dæmið – eru engar skýrar úrlausnir og oftast upplifir lesandinn hrylling út frá óreiðunni og handahófskenndini sem stýrir veröldinni. Þetta er sami munur og skilur að t.d. J.R.R. Tolkien og G. R.R. Martin. Fantasía Tolkiens er með skýr illmenni, skýr góðmenni og skýra úrlausn sem lagar heiminn – að tortíma hringnum. Það sem gerir A Song of Ice and Fire að fantasíu fyrir fullorðna er einmitt óreiðan sem stýrir öllu, a.m.k. hvað varðar mannlega þáttinn í þeim sögum, þar sem mörk hins góða og illa eru afar óljós og það er engin ein leið til að afgreiða illskuna (smá einföldun á flóknum heimi beggja höfunda, en meikar samt sens held ég innan þessarar umræðu).

Ég er að reyna að skrifa Galdra-Dísu þannig að sagan ávarpi þessa óreiðu, þennan fullorðinshrylling þar sem ekkert er öruggt og allt sem virkaði pottþétt og auðvelt í fyrri bókinni reynist mun flóknara, og ófyrirsjáanlegar afleiðingar af hegðun Dísu í fyrra ævintýrinu koma nú fram á yfirborðið til að eyðileggja allt fyrir henni í því síðara. Þetta er eins og hugmyndin um að tragedía komi fram þegar gott fólk neyðist til að gera eitthvað illt – eða jafnvel þegar fólk reynir að láta gott af sér leiða en gerir óvart eitthvað illt samhliða því.  En nú er ég kannski farinn að röfla fullmikið og tala út í loftið og í hringi … sem endurspeglar hugarástandið akkúrat núna, því ég er í miðjum klíðum að berjast við síðustu kafla bókarinnar og átta mig á hvernig (og hvort) ég geti náð að sameina þessa tvo heima: að ávarpa óreiðuna án þess að ýta undir vonleysi. Að sýna lesendum að svona hryllingur sé til – að heimurinn geti virst einkennast af óreiðu – en samt sé hægt að gera eitthvað í málunum, láta gott af sér leiða, þótt sagan endi ekki endilega „vel“ í hefðbundnum ævintýralegum skilningi. Ég er fastur á þessu erfiða svæði, því barnabókahöfundurinn í mér vill hafa skýrt skrímsli sem hægt er að sigra, vandamál sem hægt er að leysa, en hryllingsrealistinn vill meira kaós og óreiðu! Þýðir það að ég hafi sprengt utan af mér hlekki barnabókanna? Nei, ég held ég hljóti að finna rétta tóninn til að vísa í báðar áttir samtímis. Til þess eru ungmennabókmenntirnar, er það ekki?

Jæja. Látum þetta gott heita. Klárum nú bækurnar okkar og tökum annað spjall þegar við erum búnir að jafna okkur á þeim.

 

Kær kveðja,

Gunnar Theodór

~

 

 

 

 

Skildu eftir svar / athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s