Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:
6. júní 2016
Kæra Kristín
Síðan ég skrifaði þér síðast hefur heimurinn breytt um lit, úr brúngráu yfir í grænt. Gul blóm spretta fram og líka blóm í öðrum litum. Lúpínan er að opnast en Melgresið dokar við þar til síðar í sumar. Ég ólst ekki upp í kringum rósarunna og nellikur heldur rofabörð og melgresi, mosa og blóðberg. Var meira í kringum sand en mold en elska samt moldina meira. Mér þykir vænt um Melgresið á einhvern undarlegan hátt. Kannski af því það dafnar seint, stráin eru full af sætum vökva og góð á bragðið, það vex á svörtum söndum og oft nálægt sjó. Í námunda við Melgresi er yfirleitt ilmur af fjöru og sjó. Já, ég elska moldina og lyktina af henni, moldin er frumstæð og hrá. Blaut, þung mold ber í sér kjarna, möguleika á lífi og sprettu. Moldin tekur við öllu sem hrörnar og deyr og umbreytir í græna sprettu. Moldin biður ekki um neitt nema kannski smá vatn til að þetta græna komist upp í ljósið en það er líka allt og sumt. Moldinni finnst ekkert verra ef varir sem eru ýmist blautar eða þurrar hvísla til hennar orðum um hvað sem er, hvísla og klappa mold með fingrum sem eru ýmist þurrir, klístraðir eða blautir.
Texti verður ekki til áður en hann er skrifaður, hann verður til um leið og hann er skrifaður, er sýnishorn af andartaki, skurðpunkti þegar tákn birtast á hvítum fleti og raðast saman um leið og þau birtast, verða til þegar þau birtast en það sem gerist áður og á eftir er eitthvað annað, eitthvað furðulegt sem tengist samt andartakinu/skurðpunktinum lauslega en lifir sjálfstæðu lífi, sérstaklega það sem gerist á eftir. Ætli táknum sem birtast á hvítu fleti sé umhugað um að vera lesin? Ætli táknin séu sólgin í augu sem renna eftir þeim frá vinstri til hægri? Að hve miklu leyti ætli textar mótist af þessari lestrarhreyfingu, frá vinstri til hægri, vinstri, hægri, byrja efst og fara niður? Að hve miklu leyti byggir heimsmenning okkar á þessari hreyfingu augna (eða fingra ef lesandinn er blindur)? Hvað ætli mörg augu séu núna á þessu andartaki að halda í leiðangur niður síðuna eins og svigskíðakappi sem þarf að fara út að jaðrinum, út að spássíunni og vinda sér síðan yfir á vinstri hliðina? Hreyfingin til vinstri er margfalt hraðari en hreyfingin til hægri, það gefur augaleið. Ætli þessi hreyfing augnanna, þessi lestur, smitist yfir í annað sem við lesum? Skoðum við málverk, ómeðvitað, á sama hátt? Lesum við blómahaf, landslag eða andlit annarra frá vinstri til hægri, byrjum efst og förum niður? Allt í einu þyrmir yfir mig alræði þessarar hreyfingar augnanna. Hreyfingar okkar eru margar svo ómeðvitaðar, svo samhæfðar að við eigum of auðvelt með að breytast í vélmenni sem öll gera eins af því þannig er það bara og við vitum ekki af hverju og viljum ekki vita. Rakst í gær á ljóðbrot eftir Kjell Espmark þar sem segir eitthvað á þá leið að við strokum út söguna og strokum síðan út að það hafi verið strokað út, þannig gleymist fólk og hverfur. Getum við tengt blómin og moldina hér að framan við þessa hreyfingu augnanna? Ég veit það ekki. Mold og blóm eru á stöðugri hreyfingu, yfirleitt er sú hreyfing mjög hæg. Ég ætla rétt að vona að blóm og mold hreyfi sig frá vinstri til hægri, eins og svigskíðakappi í slowmotion eða bara eins og einhver sem dansar tvist og getur ekki hætt, dansar tvist ofur- ofur – ofurhægt, svo hægt að það verður ekki greint. Kannski fara allar hreyfingar í raun frá hægri til vinstri, fram og til baka, hratt eða hægt, og eru í raun og veru tvist: heimurinn er að tvista, einmitt núna, í gær og á morgun.
Kæra Kristín, það gleður mig að byrja aftur að skrifast á við þig. Ég settist áðan andlaus við tölvuna og þá spruttu fram þessi orð (frá hægri til vinstri) um blóm, mold og hreyfingu. Þetta minnir mig enn og aftur á það að skrifin snúast ekki um það að sitja og hugsa og plana heldur að setjast niður og ganga inn í hvíta rýmið og raða inn í það táknum, táknum sem vilja stinga haus upp úr moldu, spretta fram. Ég hlakka til að lesa bréfið frá þér, manstu í síðasta bréfi var ég að spekúlera um litlar njósnastelpur og táslur, hvernig litlu tásur þessar heims horfa á heiminn. Vonandi nær sólin að gleðja þig á þessum fallega degi. Í dag á einmitt söngvaskáldið Bubbi stórafmæli, töffarinn sem mýktist sem betur fer með aldrinum, því aldurinn mýkir mýkir og mýkir.
Adios,
Bjarney
~
Ónúmerað júníkvöld 016
Kæra Bjarney,
Lífið leikur svo sannarlega við mig á margan hátt, ég iða í skinninu að segja þér hvert smáatriði og veit ekki hvar byrja skal. Um daginn fór ég í fjárhús og hafði aldrei fyrr stigið inn í fjárhús og fylgdist með sauðburði. Hingað til hef ég verið mjög fávís en héðan í frá veit ég eitthvað pínulítið. Ég hef aldrei öfundað þau sem fengu að fara í sveit þegar ég var krakki en ég hef dáðst að einu mikilvægu atriði: erótískum lýsingum þeirra þegar þau verða stór og skrifa bækur, og hef tekið eftir að þau sem fóru í sveit skrifa ótrúlega flottar erótískar lýsingar. Hingað til, sófar, hef ég ekki þekkt starfsemi náttúrunnar sem maður vitnar í nánd í sveitunum. Það gerir útslagið held ég, fyrir lýsingarnar, sem eru jafn heitar líkamanum hafi maður farið í sveit. Ég er AFAR spennt að vita hvort dagarnir í fjárhúsinu hafi áhrif á skriftirnar og vona það, og mér fannst það hefði gerst þegar ég skrifaði ljóð á heimleiðinni, að ég notaði ný orð og væri ekki eins mikið vélmenni og ég hafði verið. En nú er ég aftur orðin vélmenni.
Þá gerðist það – óvænt – að fyrir nokkrum mánuðum þráði ég að komast nær því að hugsa einsog barn, skyndilega fyrir um það bil tveimur vikur rættist draumurinn: ég nennti ekki að vera fullorðinsleg í orði og æði og megnaði ekki að taka þátt í fullorðinssamræðum sem fjalla um eitthvað, gat bara rætt um ekki neitt.
Og nú þegar ég reyni að skrifa þér fullorðinslegt bréf, með þema í, og ræða skipulega og abstrakt um lífið (og listina) stranda ég: afþví ég er í fasa sem kann ekki að hugsa þannig og helst sem barn. Samt er ég nú þegar búin að svíkja fasann hér í bréfi og farin að skrifa um áhrif bústarfa á erótískar lýsingar í bókmenntum. Enn hef ég ekkert erótískt skrifað síðan ég kom heim úr fjárhúsinu, það er engin reynsla komin á reynsluna af því að vera í sveit. Ég sakna vorsins. Ég er barnalegt vélmenni sem fullorðnast hratt.
Heyrðu: við megum engan tíma missa – í dag verðum við að gera eitthvað til þess að heimurinn farist ekki!
Nokkrum dögum síðar: 13. júní 2016
Og nú held ég áfram að skrifa þér loksins, afsakaðu töfina kæri pennavinur:
Sorgartjald lagðist utan um húsið sem ég bý í þegar ég frétti af árásinni á næturklúbbinn í Orlando í gær. Úff, fólkið sem þar dó, minnumst þess, á stað sem það kom til að fá að vera í friði og fyrir ástirnar; svona krá er heilög; þetta var árás inni í musteri.
(Allir staðir eru heilagir, jörðin, sérhvert mannsbarn, einsog forsetaframbjóðendurnir kenna, dýr og urt.)
Trúarbrögð hafa vanþóknun á samkynhneigðum ástum, samkynhneigðir fyrirgefa vanþóknuni og hatur. Í síðustu viku þegar ég var að skrifa þér bréf ætlaði ég að fara að skrifa um – byrjaði að hugsa um það þegar ég gekk fram hjá Alþingishúsinu – hvað það væri æðislegt að fólk, sem samfélagið útskúfaði áður, gæti nú eignast börn og alið upp börn og líf þess er verndað með lögum. Allar aldirnar sem liðu á meðan tveir karlar máttu ekki lifa saman í hjónabandi og ala upp börn. Og tvær konur. Ég óska heiminum til hamingju með að uppskriftin að barnsfæðingum hefur gengið úr eignaréttri gagnkynhneigðs hjónabands og verið frjáls gefin.
Viðbót:
Afhverju er hjónaband skilgreint eftir persónulegri, einkalegri kynlífsathöfn? Eftir kynlífssmekk? Afhverju þarf að marka tilfinningalífið og merkja? Ógna tilfinningar skipulaginu? Er ótamið tilfinningalíf stjórnlaust? Ætli ég sé villtur hestur?
Ég harma árásina á Orlando klúbbinn. Sorgarþögn.
Minnumst fórnarlambanna.
Hvað getum við gert kæri pennavinur, hvað getum við lagt til svo heimurinn batni?
Adiós,
k
~
14. júní 2016
Kæra Kristín
Takk fyrir bréfið og spurninguna stóru í lokin. Sorgartjaldið varpar skugga yfir húsið og allt fólk í öllum húsum. Ég hef ekki svar við spurningunn þinni, er reyni samt að finna svar. Hef undanfarið verið að velta því fyrir mér hvað virðingunni hefur farið halloka undanfarna áratugi. Virðing og áminningin um heilagleikan, að hver manneskja er heilög, hver hóll og hvert sandkorn líka. Um daginn hlustaði ég heilan dag á lækni sem heitir Gabor Mate tala um fíknir, þróun heilans, tengsl og tengslaleysi. Fyrstu þrjú æviárin eru heilabrautirnar að myndast í heilanum og þær mótast af umhverfinu, hvort þörfum okkar sé mætt eða ekki og hvort við náum að treysta heiminum. Ef þörfum barnsins er ekki mætt (eða ofbeldi beitt gegn því) þá upplifir það tráma sem veldur því að barnið missir tengsl við sig sjálft, nær ekki að þróa þau tengsl og það tengslaleysi mótar allt þess líf og getur t.d. birst í fíknum, þar liggur skaðinn. Heilinn og brautir hans halda áfram að þroskast og breytast allt lífið. Það virðist lúmskt tengslaleysi og virðingarleysi lúra inni í því þjóðfélagskerfi sem við höfum búið til. Það að margir einstaklingar rísa upp og skjóta saklausa meðborgara er flókin afleiðing af þessu meini. Fyrsta sem ég hugsaði þegar þú spurðir hvernig heimurinn geti batnað var að breyta beygingunni á heiminum í þágufall þ.e. …svo heiminum batni – því heimurinn er sjúkur, við berum ábyrgð á þeirri samfélagsgerð sem við búum til og ef virðingarleysi og tengslaleysi er mikilvægur hluti af þeirri samfélagsgerð þá þurfum við að breyta um stefnu, stokka upp. Þegar og ef ég sóa mat, sóa peningum, sóa tímanum á netinu, vanræki sjálfa mig og mína nánustu, misbýð sjálfri mér á nokkurn hátt, misbýð öðrum, valta yfir aðra, valta yfir náttúruna, leyfi öðrum að valta yfir mig o.s.frv. þá ástunda ég virðingarleysi. Spurningin þín er mikilvæg: Hvað getum við lagt til svo heiminum batni? Svar mitt er virðing. Svo má spyrja: Hvernig setjum við virðingu í líf okkar? Hvernig setjum við virðingu í uppbyggingu samfélagsins, þjóðfélagsins, heimsins? Ég bið um umburðarlyndi gagnvart varnarleysinu sem er innbyggt í líf okkar.
Mikið var gott að þú fórst í fjárhús. Það verður spennandi að fylgjast með umbreytingunni sem fjárhúsið hefur sett af stað innra með þér. Núna er ég að gramsa í tölvunni í leit að handriti sem hefur legið í dvala í mörg ár. Þegar ég gramsa rekst ég á alls konar texta og hugmyndir. Var rétt áðan að lesa brot úr dagbókum sem ég hélt 14 ára gömul árið 1989. Ég tók mig til fyrir nokkru og las allar dagbækurnar yfir heila helgi og fór aftur í tímann, endurvakti gleymdar minningar og fékk nýja sýn á líf mitt. Þá rakst ég á nokkur gullkorn sem ég varð að koma inn í tölvuna og þar lúra þau. Las líka dagbókarbrot frá Parísardvöl árið 2014 en þá vann ég af fullum þunga í handritum sem hvíla sig núna í skúffum og tölvumöppum. Mig grunar að það sé algjörri tilviljun háð (eða einhverri guðdómlegri forsjón háð) hvað endar á prenti og hvað ekki. Fyrir tveimur árum gekk ég um stræti Parísar í leit að bleikum makkarónum og hvítvíni og tók inn fegurðina og var að burðast með tvöfalda ástarsorg og ráfaði eftir þessum fallegu strætum og alls staðar, bókstaflega alls staðar, var fólk að kyssast og kjassast og brúðir í myndatöku á hverju götuhorni og ég gekk eftir ástarbrúnni sem var full af þungum lásum og einn daginn brotnaði handrið af brúnni (undan þunga ástarinnar) og brúnni var lokað. Þegar ég les þetta finnst mér eins og þetta hafi gerst fyrir tíu árum. En fjárhúsið er heillandi staður, þar er rými dýranna, rými fæðingar, varnarleysis og lífsþorsta. Lyktin stígur upp af lyklaborðinu. Núna er einbeitingin svo gloppótt og trosnuð að ég þarf að taka hlé.
17. júní 2016
Sæl aftur, kæra Kristín
Mér þykir tíminn svo undarlegt fyrirbæri. Yfirleitt hugsa ég hann línulega eins og eitt reki annað en svo reynist hann flóknari en svo. Tímaskynjunin er alltaf að breytast, eins og lífið sé stöðugt að breytast úr hraðspólun yfir í slow motion og svo inni á milli er hraðinn nokkuð samstilltur hjartslættinum og hinni merkilegu þarmastarfsemi. Æ, ég fór að hugsa um þetta því ég skrifaði óvart hér fyrir ofan 2015 og þá finnst mér eins og 17. júní 2015 hafi verið í gær en líka fyrir heilli eilífð. Til að flækja þetta enn frekar þá virðist vitundin oft stödd á mörgum tímum í einu, með sérkennilega fortíðarþrá, framtíðarþrá og núþrá og andrúmsþrá og svo er dulvitundin þarna undir og yfir öllu og allt blandast þetta saman á lífrænan hátt, tímalausan hátt. Núna er dóttirin eitthvað að bardúsa í herberginu sínu, sonur liggur afvelta í sófanum að horfa á teiknimynd og við bíðum eftir því að hæhójibbíjei byrji í Hljómskálagarðinum. Dóttirin stökk fram áðan í sparifötunum og söng línu úr hæhójibbíjei laginu. Planið fyrir daginn er þetta: Rölt um bæinn, kandífloss og gasblaðra. Gott að hafa einfalda dagskrá.
Þegar ég var lítil var Sjómannadagurinn á pari við 17. júní og þessum dögum fylgdi spenna og gleði. Þá voru gasblöðrurnar ekki búnar að sigra heiminn og himininn en rellurnar voru þeim mun flottari. Núna sé ég hvergi rellur sem snúast í íslensku roki. Ég man hvað ég elskaði rellur og nammi, ég var sjúklega sólgin í nammi. Ef við fórum í bíltúr þegar ég var lítil þá sendi ég foreldrum mínum hugskeyti þegar við keyrðum framhjá sjoppu. Hugskeytið var afar beinskeitt og sent af mikilli einbeitingu og það sagði: ,,Stoppa í næstu sjoppu og kaupa nammi! Stoppa í næstu sjoppu og kaupa nammi!” Ekki að undra að mig dreymdi um að verða nammisjoppuafgreiðsludama þegar ég yrði stór. Fann áðan íslenska fánann í geymslunni og ætla að veifa honum í dag. Annars hræðist ég þjóðerniskennd og fékk hroll um daginn þegar ég horfði á nýjustu Skyr auglýsinguna því mér fannst hún einkennast af einfaldri þjóðerniskennd í lokin. Það er gott að finna fyrir djúpu þakklæti fyrir landinu sínu og menningunni sinni og sýna landi og menningu virðingu í verki á hverjum degi. En sú hugmynd að einhver einn aðili eða hópur sé betri en annar af því hann fæddist á ákveðinni (afar fagurri) þúfu er stórhættuleg. Að eitt kyn, ein kynhneigð, litarhaft og allt annað mögulegt sé betra eða verra en annað er galið. Þessar hugmyndir valda morðum og breiða sorgartjald yfir hús og yfir lífshlaup margra. Við þurfum að hætta að hólfa og flokka og leyfa öllu að flæða saman.
Í gær keyrði ég eftir Garðvegi og Reykjanesbraut og fékk þá flugu í höfuðið að mig langar að búa í húsi sem er einstakt. Allt í einu langar mig ekki að búa í húsi sem er kópípeist af öðrum húsum, þar sem allt er klippt og límt og fjölföldun á sömu hugmyndinni. Mig langar bara að búa í húsi sem liggur við götu og að við þá götu sé ekkert annað hús sem lítur nákvæmlega eins út. Þessi hugmynd kom úr óvæntri átt (veit ekki hvaðan) en þessi græni sumarlitur hefur haft sitt að segja og svo rigndi líka í gær og þá verður lyktin svo góð, lykt af syngjandi mold og trjágróðri.
Ert þú ekki að fara í ferðalag? Ég er að pakka lífi mínu í kassa, sumt fer í geymslu, annað á bretti yfir hafið og svo fer örlítið brot í ferðatösku. Framundan eru búferlaflutningar og hver veit nema næsta bréf mitt verði skrifað í öðru landi þar sem allt er morandi í vötnum og trjám. Hlakka til að heyra frá þér!
Adios,
Bjarney
~
Jónsmessan, 2016
Kæra Bjarney,
Í kvöld myndi mig langa til að horfa á Draum á Jónsmessunótt eftir Shakespeare einhvers staðar í útigarði. Mig langar til að sjá leikritið í Laugardalnum á Jónsmessunni. Skora á Þjóðleikhúsið að sýna Draum á Jónsmessunótt í Laugardalnum árlega, aðgangur ókeypis. Maður myndi koma með teppi og nesti. Skora á menntamálaráðherrann að láta Þjóðleikhúsið sýna Draum á Jónsmessunótt í Laugardalnum á Jónsmessunni. Aðgangur: ókeypis. Þó ég sé stödd í stærri borg en heimaborg mín er hvergi verið að sýna Draum á Jónsmessunótt í kvöld. Skora á þá sem munu aldrei lesa þetta bréf en hafa vald til að framkvæma og fjármagna sýningu á Draum á Jónsmessunótt í útigörðum, almenningsgörðumi, aðgangur ókeypis, á sjálfri Jónsmessunni. Einu sinni sá ég skókassauppfærslu af verkinu, þar var ekkert fiff með leikmynd og búninga, sýningin fór fram í garði, ég hló yfir mig. Í dag er fínt tækifæri til að skipta um kyn, um gervi, um tegund, um höfuð, um búk við vin sinn, um löpp, fá sér tattú, skrifa tilviljuninni ættlaust og rótlaust og allslaust ástarbréf.
(*Ath: ég er orðin leið á ættum, fjölskyldum, hópum, hjörðum, og e.f. spurningum á eyðublöðum:
Kynþáttur:…..
Kyn:…..
Þjóðerni:…..
Háralitur:…..
Hæð:…..
Í dag nenni ég engu að svara um það. E.f. spurning er jafn vanhæf og hinar fyrrnefndu:
Kynhneigð:…..
Til hvers eru þessar spurningar? Fyrir hvers lags skipulag?
Einu sinni á ári fær maður frímínútarlangt frí frá því að svara og andartakið er núna: þegar sólin skín hátt á loft, dagurinn teygir arma sína utan um mann.)
Megi börnin í heiminum vera elskuð skilyrðislaust.
Virðingin – fyrirbærið – minnir á burknana sem vaxa í hellismunna í Hellisgerði. Ef til vill er virðing feimið fyrirbæri sem þorir ekki út, vill fela sig, felur sig – virðing er ekki til sýnis og sýnir sig án látæðis og heyrist og sést án hávaða.
Stundum er nauðsynlegt að sóa sér, eyða sér, af virðingu fyrir tímanum, lífinu og ástinni.
Öll sambönd við aðra eru af hinu góða, líka þau sambönd sem við eftirá dæmum slæman félagsskap.
Adiós,
K
ps:
blóðflokkur:…..
nauðsynlegt er að þekkja í hvaða blóðflokki maður er
Áríðandi framhaldsbréf á Jónsmessunni:
Sæll pennavinur!
Fann best klæddu dömu borgarinnar í 24. viku í dag – sjá e.f. teikningu – en teikningin er í svarthvítu.
Lýsing á litunum á klæðaburði best klæddu dömu borgarinnar í 24. viku ársins 2016, litina sem vantar á teikninguna:
Ljósbláar khaki buxur. Ljós skyrta með fíngerðum röndum, í rauðu og gráu. Gráir strigaskór úr rússskinni með dökkbleikum reimum, dökkbleiku mynstri og dökkbleikum botni. Taskan er vatteruð og dökkgræn. Daman ber fallega liðað hár.
~