Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands

Í landamæralausum heimi tökum við myndir og vöskum upp

Skrifa athugasemd

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 14. júlí 2016

 

Kæra Kristín,

Takk fyrir þínar fögru og ljóðrænu fatalýsingar. Ég vil byrja á því að svara spurningum þínum en þessa dagana spranga ég mest um á eldgömlum hlaupaskóm sem eru með slitinn sóla en sandalarnir mínir eru fastir held ég í Hamstad. Tollurinn var að hrökkva í gírinn í dag þegar ég sendi þeim staðfestingu á nýrri kennitölu og þá mun brettið sem ég sendi yfir hafið ná loksins til mín með tilheyrandi góssi. Þá fæ ég loksins sandalana og get þá spókað mig um á þeim. Ég átti engar stuttbuxur þegar ég kom hingað en fjárfesti í þægilegum munstruðum buxum með vösum og hlýrabol í stíl, keypti líka mosagrænar stuttbuxur úr gallaefni. Ég hef þegar sent til þín mynd af munstrinu fagra og það hjálpar þér vonandi við teikninguna.

Þessa dagana er ég að venjast því að búa nánast úti í sveit og með engan bíl. Strætósamgöngur eru hins vegar mjög góðar og ég get tekið þrjá strætóa frá þremur ólíkum stoppustöðvum nálægt heimili mínu. Ég er líka að venjast því að vera nýbúi og ganga hinn þyrnum stráða veg skráningarinnar með tilheyrandi regluverki og stofnanaþvermóðsku. Í gær gat ég ekki borgað stöðumælasekt (fékk bíl lánaðan í smá stund og nældi mér strax í sekt) nema að sýna vegabréf. Í dag náði ég loksins að borga sektina. Tollurinn vill sjá nýju kennitöluna mína og þau sem skrá börnin mín í grunnskóla vilja sjá húsaleigusamninginn minn. Starfsmaður hjá skattinum sagði um daginn að ég þyrfti ekki að láta ákveðin gögn fylgja með umsókn en nú fæ ég formlegt bréf þar sem annar starfsmaður neitar að skrá mig sem móður barnanna minna þar sem ég hef ekki sent nein gögn. Allir eru mjög hjálplegir og almennilegir en það er fróðlegt að sjá hve regluverkið þarf margar ólíkar upplýsingar til að geta haldið áfram með verk sitt. Ég er búin að taka lokk úr hári mínu og ætla að hafa hann tiltækan ef þarf og jafnvel líka sýnishorn af ilmvatninu mínu því það hlýtur að vera nauðsynlegt að fá að sjá slíkt ef samþykkja á manneskju inn í nýtt land. Svo ætla ég að útbúa tæmandi lista yfir sorgir mínar og sigra, algjörlega tæmandi. Núna fer ég aldrei á salernið nema með vegabréfið á mér til að vera alveg viss um að klósettið samþykki að sturta niður, og geti tengt innihaldið við manneskjuna sem þrýstir á takkann. Ballið er rétt að byrja en í næstu viku fer ég aftur í Skatteverket að fá kennitölur fyrir börnin mín og svo bíðum við og bíðum í marga daga og þegar þær koma getum við sótt um ID kort. Held að ID kort sé lykillinn að himnaríki. Maður getur veifað því og þá eru manni allir vegir færir, eyðublöðin ljúkast upp og þyrnar breytast í jordgubbaengi. Hvað þarf ég að búa hér lengi til að losna við velgjuna sem ég fæ þegar ég sé orðið jordgubba? Það tók bara viku fyrir mig að fá kennitölu en póstþjónustan var næstum eins lengi að koma til mín bréfinu sem staðfesti það. Allt er þetta samt himnaríki miðað við það sem mætir flóttamönnunum víða um heim, það er ekkert grín.

16.7.2016

Nú eru ungarnir mínir komnir til mín og það er ósköp ljúft. Síðan ég skrifaði þér síðast hefur svo margt gengið á úti í hinum stóra heimi. Fjöldamorð í Nice og misheppnað valdarán í Tyrklandi skekja heiminn og fréttaveitur. Núna sveimar þyrla yfir næsta hverfi og ég skil ekki af hverju. Reyndar kastaði einhver mólókósprengju í átt að strætó í gærkvöldi en ég tek þann sama vagn nánast daglega en svo vildi til að ég var ekki á ferðinni í gærkvöldi. Í kjölfarið brutust út ólæti og steinum kastað að lögreglu og fleirum. Enginn slasaðist þó í þessu havaríi. Hér á næsta leyti við mig eru íbúar sem rekja flestir uppruna sinn til arabalanda og indlands sýnist mér. Gottsunda hverfið er hér á næsta leyti og þar er víst kraumandi suðupottur og glæpatíðni hjá 15-19 ára unglingum mjög há. Þyrlan er á sveimi yfir því hverfi. Í húsunum hér í kringum mig er fólk alls staðar að úr heiminum og ég finn að mig langar að blanda geði, þó ég þori því ekki. Við þurfum að blanda meira geði (allt í einu finnst mér þetta orðasamband að blanda geði dáldið velgjulegt, svona ef maður hugsar bóksaflega um það) – en þar liggur ein af mörgum svörunum við flóknum spurningum nútímans. Blanda geði og sprauta umburðarlyndi yfir heiminn, leyfa mjúkum konum að stjórna heiminum í nokkur ár og sjá hvað gerist, við höfum engu að tapa. Ég fæ stöðugt áminningu um það hvað allt ójafnrétti á milli kynja og stétta er flókinn vefur sem erfitt er að uppræta, ósýnilegur vefur sem neitar að slitna og felur sig. Það er svo margt ósýnilegt í menningu okkar sem styður við þetta óréttlæti, viðheldur því með öllur ráðum. Það hvort sænsk stjórnsýsla fari um mig mjúkum höndum eða ekki er algjört aukaatriði en samt ætla ég að halda áfram að skoða það ferli frá mörgum hliðum, húmorinn má ekki hverfa.

Í dag fórum við börnin í göngu um skógarstíg og kíktum líka í dómkirkjuna fögru í miðbænum. Bæði í kirkjunni og skóginum hélt sonurinn fast í hönd mína og næstum skalf af hræðslu. Á skógarstígnum var hann hræddur við óvænt dýr sem gætu komið en í kirkjunni var það kröftugur hljómur orgelleikarans sem var að æfa sig fyrir brúðkaupið framundan. Dóttirin sýndi öllu meiri hugrekki og kjark. Þegar ég leit upp í hvelfinguna helltist yfir mig sama hugsun og gerir gjarnan í svona húsakynnum: Vertu stór, vertu svona stór, þú mátt verða miklu stærri en þú þorir, hér er eitthvað stórt, eitthvað stærra en þú, lífið er stórt, dauðinn er stór, allt er stórt.

 

Með stórhugheilum kveðjum til þín í ljósaborginni,

Bjarney

 

Ps. nú hringsólar blessuð þyrlan hér yfir hverfið og komið yfir miðnætti, vonandi fer þessu að linna hér í sveitinni. Góða nótt!

~

New York, 18. júlí 2016

 

Kæra Bjarney,

Takk fyrir gott bréfið, takk.

Já:

blanda geði, blanda drykki, líkamsvökva, maðurinn er búinn til úr brotum margra, fyrsta blöndun: móður og föður. Þá leggja margir sitt til (á vogarskálar), margt og kski allt blandast inn í líf hans. Ég hef þegið blóð annarra að gjöf sem bjargaði mér.

Við eigum heima saman á kúlu úti í himinhvolfi búin til úr mörgum, kski öllu: hvað með að leggja niður landamæri? Merkt uppruna, staðsetningu, kyni, kynhneigð, starfsgrein, og númeruð, langar mig til að vera ómerkt vara í (týndri) búðarhillu. Meira af tísku:

Ég tek ekki lengur ljósmyndir af best klædda fólkinu í borginni í bili, ástæðurnar eru tvær: önnur er sú hvað minni símans fyllist hratt og neitar mér um að bæta við myndum. Hin ástæðan: ég hef þá reglu að spyrja fólk áður: Má ég taka af þér mynd? Hún fer ekki á netið en ég mun… bla, bla. Stundum tek ég mynd í leyfisleysi afþví persónurnar eru hinum megin á götunni og ég get ekki hlaupið yfir fyrir umferðinni. Nú er ég hætt að taka myndir án leyfis eftir að ég varð (næstum því) fyrir árás tveggja íturvaxinna manna sem ég laumaðist til að mynda í lestinni, annar klæddist fjólublárri skyrtu.

Áður en þeir veittust að mér umkringdu þeir mig og snarlega á meðan tókst mér að eyða myndinni úr myndavélaminninu svo þeir fengu ekki gruninn staðfestan þegar þeir tóku af mér tækið og flettu í gegnum albúmið. Skiluðu mér símanum, sögðu eitthvað sem ég skildi ekki, kvöddu. Að líkindum voru þeir bófar. Ég hef aldrei séð fallegri vöðva, skyrtuermarnar að rifna, þó sást ekki saumspretta, fötin mjög vel saumuð.

Mér sárnar að fá ekki að eiga mynd af upphandleggjunum, af klæðaburðinum, vextinum, kúlurössunum.

Þeir gengu hnarreistir í burtu í átt að exiti lestarstöðvarinnar, annar leit við: við horfðumst í augu, ég brosti og fann að það mátti lesa úr brosinu stríðni (hættuleg) og auðmýkt (hættulaus), sá eftir brosinu og hugsaði: hver er ég eiginlega? Svipur mannsins merkti ekkert, en hann sá brosið, meðtók það og gaf mér frí, sneri sér að félaganum, mennirnir hurfu inn í mannhafið og höfðu rétt fyrir sér: ég var í fullum órétti: það má ekki taka myndir í leyfisleysi.

ÞAÐ MÁ EKKI TAKA LJÓSMYND Í LEYFISLEYSI.

Og ég má hrósa happi: þetta hefði getað farið verr, vöðvarnir mínir eru þrisvar sinnum þynnri en mannanna.

Ef myndavélasímaminnið væri ekki fullt myndi ég ganga í dag um borgina og taka myndir – í leyfi – af tattúvéruðum fótleggjum, handleggjum, hnakka, bringu, bleiku, gulu, bláu, grænu hári.

Tuttugusta og níunda vika er helguð húðflúruðum líkamspörtum og skærlituðu hári. Í landamæralausum heimi skipa ég þig best klæddu manneskju tímabilsins.

Vika 29

Best klædda manneskjan í landamæralausum heimi í 29. viku ársins 2016 heitir Bjarney. Hún er að fara í leiðangur að fá hjá yfirvöldum kennitölu fyrir ungana sína og sig svo hún megi búa í nýju landi. Alls staðar sem hún kemur þarf hún að sýna vegabréfið, þess vegna klippti hún lokk úr hári sínu og vopnuð lokknum fer hún á fund við skrifstofurnar sem skrá inn nýja íbúa, og veifar lokknum heimti þær nákvæmari staðfestingu á tilveru hennar en þá að hún sjálf standi fyrir framan fulltrúann og að auki með passann á lofti / á borðinu. Auðvitað getur manneskja alltaf verið draugur, beri hún ekki passport, sem í þessu tilviki er hvítur. En hárlokkurinn er eldlitaður og þar er hún líka heppin – eldlokkur vekur verurnar (þær vegabréfslausu) sem sofa í ljóðheimum og bíða eftir nýrri vakt, þátttöku í nýju ljóði. Skórnir eru slitnir en bera hana áfram. Gulir og rauðir strigaskór eru næsbesta samgöngutækið fyrir snatt en enginn litur situr í besta sætinu. Hún þarf ekki strax á rauðum sokkum* þess sem kemur og sigrar á að halda – sumarliturinn dugar – í haust mun hún brynjast: rauðum sokkum. Fötin keypti hún í nýja landinu afþví í gamla landinu er aldrei heitt og örsjaldan hægt að ganga úti í stuttbuxum og á hlýrabol. Mynstrið í nýju fötunum er frá Afríku, einsog mynstrið í nýju skyrtunni sem maðurinn á horninu (í einu New York hverfinu) saumaði á mig á gamlan skrjóð, brynvarða saumavél. Hann saumar fyrir fólkið í hverfinu og alltaf nóg að gera á föstudögum þegar íbúarnir ná í nýja kjóla og buxur fyrir helgarveislurnar.

Endar sænska kennitalan þín á 60? Er 60 útlendingamerkimiðinn í Svíþjóð?

Ég er lítil í mér þessa dagana, best að stækka á morgun. Bráðum fer ég burt úr þessari skemmtilegu ljósaborg og til Íslands.

Með stórhugakveðjum til þín,

k

*sbr fyrri umræða þín og okkar um rauða sokka.

~

Uppsala, 22. júlí 2016

 

Kæra Kristín,

Þakka þér kærlega fyrir bréfið þitt fagra og þessa skemmtilegu mynd. Mér líður eins og ég sé orðin teiknimyndapersóna, það er í senn undarleg tilfinning og skemmtileg. Nei, kennitalan mín endar á 84 en ég hef ekki ennþá séð útlendingamerkimiðatöluna, kannski síðar.

Í gær las ég fallegt bréf þar sem höfundurinn átti erfitt með að skrifa eftir átök við sandpoka. Vonandi er það ekki fjaráhrif þessa bréfs en ég á erfitt með að skrifa núna eftir átök í sandi. Sko, ég skal útskýra þetta betur. Í fyrradag spilaði ég strandblak með kátu og spræku fólki og ég þurfti að gefa boltann upp nokkru sinnum og dúndraði honum á úlnliðinn í hvert skipti. Núna er ég að farast úr sinaskeiðabólgu og vaknaði í nótt með verki. Marið sem ætti að koma er ekki ennþá búið að ná að brjótast út. Kannski gerði ég illt verra í gær með því að bera þunga poka úr búðinni og svo er úlnliðurinn minn skakkur allur þegar ég skrifa á fartölvu. Annars fallegt orð: úlnliður. Og líka þetta: olnbogi. En ósköp undarlegt þetta: sinaskeiðabólga. Svo er ég bókstaflega búin að vaska upp yfir mig (uppvask er ekki gott fyrir viðkvæma úlnliði). Morgunmatur, hádegismatur, kaffitími, kvöldmatur, kvöldsnarl, morgumatur, hádegismatur, kaffitími, kvöldmatur, kvöldsnarl og millimál þar á milli og svo framvegis áfram inn í rauðar nætur. Ég er alltaf að útbúa mat, leggja á borð og vaska upp. Kaupa mat og bera hann heim í þungum pokum. Ég er alltaf að hugsa um mat, hvað gæti verið í matinn næst og hvort að börnin fái nú örugglega nógu staðgóðan mat svo úlnliðar þeirra og olnbogar þroskist og stækki, blómstri. Mér finnst reyndar gaman að elda og blanda saman mat, skera, sjóða og steikja og smyrja. En blessað uppvaskið gerir ekkert fyrir mig og ég renni hýru auga til útigrillsins því útigrill með pylsum þýðir eitt: ekkert uppvask!! Þarf að grilla meira og vaska minna. Kannski verður ástandið bærilegra ef ég útbý lista yfir tónlist sem ég spila alltaf þegar ég vaska upp, þá fer sama rútínan í gang og tónlistin kætir og sefar.

Hlustar þú á tónlist þegar þú útbýrð mat? Ef ég er að útbúa sérstaklega góðan veislumat þá finnst mér bragðið verða betra ef ég hlusta á Rósu Balistreri. Þá bætist ástríða inn í próteinþræðina í kjötinu og vökvinn í glösunum kraumar. Ég skil ekki hvað hún segir en það er eitthvað mjög mjög mikilvægt, það er augljóst:

 

Rétt eins og Rósa er aukakrydd í matargerðinni þá þarf ég að finna uppvöskunartónlist sem kætir. Maður stendur vaktir við vatn og strýkur leirtau og allir fá sömu afgreiðslu: glös, diskar, skeiðar og skálar. Vaskar þú upp, kæra Kristín? Hefur uppvask (og jafnvel líka uppþvottavélar) áhrif á skáldskap þinn?

Nú er rafhlaðan að klárast í tölvunni og kroppurinn kallar á kaffi. Dagurinn er byrjaður og það stefnir í enn einn heitan daginn og við ætlum að baða okkur í nálægu vatni í dag. Sonurinn er að stríða mér og þykist ætla að pikka á lyklaborðið, þessi elska. Morgumatur er næstur á dagskrá og svo (trommur): uppvask.

Sonurinn er hér hjá mér í rúminu og ég var að útskýra fyrir honum fyrirbærið ,,að skrifast á” og ég sýndi honum bréfin og hvernig spurningar og svör fara á milli og lýsingar á hinu og þessu. Hann bað um að fá að spyrja þig einnar spurningar: Hvaða orð byrja á SÖ (og þar er hann ekki bara að spyrja um eigið nafn)?

 

Bestu sólarkveðjur,

Bjarney

~

 

Reykjavík, 22. júlí 2016

 

Kæra Bjarney,

 

Svar til sonar  þíns Sölva, um orð sem byrja á sö: söngvari og söl – viltu biðja hann um að nefna mér fleiri? Ég bið innilega að heilsa unga manninum.

Góðan bata í úlnliðnum – amma mín vann mikið á ritvél, hún bar sokk utan um úlnliðina og passaði upp á að manni yrði hvergi kalt, á tánum, bakinu, hálsinum, brjóstinu… – úlnliðunum! Passaðu úlnliði þína vel, kæri pennavinur, fyrir ömmu mína.

Mm, já, ég vaska upp, ég á ekki uppþvottavél og hef ort um uppvask. Vinkona mín málaði mynd af uppvaskara í vetur, málverkið verður sýnt í galleríi í Taipei í Taiwan á morgun. Kate Bush hefur sungið um þvottavélar. Ég man ekki um hvað ég hef ort, en í þetta skipti man ég það, afþví hvað uppvask er stór partur vikunnar: einsog þú lýsir. Það heitir Kvöldljóð uppvaskarans. Kannski man ég titilinn vitlaust – kona fékk lánaða ljóðabókina og hefur ekki skilað eftir meira en þúsund daga lán. Kæra kona, ef þú lest bréfið, sem þú lest ekki, viltu gjöra svo vel að skila bókinni, ég hef nefnt þetta við þig áður, ég á ekki annað eintak, aftast í bókina hef ég skrifað minnispunkta sem ég þarf á að halda.

Já, ég hlusta á tónlist við húsverkin. Þegar ég tek til hlusta ég á plöturnar Desire eða á Blonde on Blonde, eftir Bob Dylan. Tónlistin kveikir á athafnaþrá – prófaðu, klikkar ekki – ég kvíði alltaf stundinni þegar ég loks kveiki á ryksugunni sem yfirgnæfir sönginn – í fimm, tíu mínútur. Oftast er ég að byrja að skúra þegar Bob byrjar að syngja Sara eða Sad Eyed Lady of The Lowlands, skúringarnar eru lokaverk hreingerninganna, algjör hápunktur.

Þegar ég bý til mat og vaska upp hlusta ég stundum á Amy Winehouse, Abba, Björk, Dolly Parton, Michael Jackson, Kate Bush, The Knife, Hjaltalín, Beethoven, M.I.A., Cat Power, F.M. Belfast, dj. flugvél og geimskip, Stereototal, söngleiki, Blondie, AC DC, Gus Gus, Ghostigial, Bach, Chopin, einhver jazz, Dionna Warwick, Jóhann Jóhannson, Bob Dylan, Nina Simone, Billie Holiday, Supremes, rokk, Sonic Youth, eitthvað sem ég man ekki, nefni ekki fleiri.

Takk fyrir að kynna mig fyrir Rósu sem ég í framhaldi kynnti vinkonum mínum fyrir, ein stóð upp á vinnustofunni sinni um leið og söngur Rósu hljómaði og hóf dans.

Farangur minn er fisléttur, þannig lagað, þessi svona lífsins, en þyngist suma daga vegna blekkinga, sjónhverfinga, misskilnings. Á næturna geymi ég hann ofan í gjótu. Fyrir nokkru sat ég í stofufangelsi, án ökklabands færi ég út að labba; ökklaband var óþarft; um annað var ekki rætt en að standa dvölina af sér, dvölinni er lokið, veggirnir þeir sömu. Hvað getur manneskja dvalið lengi í sömu sporunum? Ekki í einn dag. Allt hreyfist. Hugurinn fer ekki fram úr líkamanum – og samtsemáður: jörðin hreyfist á meðan þú situr kyrr, árstíðir breytast, dagur verður nótt: ó, ó, ó, nóg að gerast! Mig langar eitthvert, með þessa tösku, þennan bakpoka, ég veit ekki hvert – hoppaði reyndar upp í strætó og hitti systur mína í sumarbústað – á bakvið þennan vegg hér undir skrifborðinu, hann snýr í suður, er skógur: fallega dökkgrænn nýmálaður flötur.

Mér finnst gott að vaska upp á kvöldin, svona rétt áður en menn fara að sofa, við opinn glugga, úti er logn, þetta fræga kvöldlogn, svo mikið logn að maður heyrir þegar andardráttur nágrannanna verður svefnvær.

 

Bestu sólarkveðjur,

k

ps

les þetta bréf upphátt fyrir vinkonu mína sem segir: þú vaskar aldrei upp nema þegar þú ert orðin of sein í ferðalag og lætur þá bíða snarlega lengi eftir þér.

pps

hér er allt óuppvaskað.

~

Skildu eftir svar / athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s