Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:
Uppsala, dagarnir fljúga
Kæra Kristín,
Já, dagarnir fljúga og núna er 28. júlí og þessir síðustu dagar mánaðarins renna meira og minna saman og ég spyr mig alla daga, oft á daga: ,,Tuttugasti og hvað er aftur í dag?” Ekki að talan skipti endilega miklu máli en við eigum það eflaust mörg sameiginlegt að þegar tölurnar hækka á almanakinu þá lækka þær á bankabókinni, og svo er talan á hitastiginu alltaf að breytast, best að miða allt við þá tölu. Mælingarárátta mannsins finnst mér bæði undursamleg og skopleg. Við mælum tíma og vegalengdir og þyngdir og ummál og hraða og allt mögulegt. Hið ómælanlega nær samt alltaf að smjúga undan þessum einingum öllum. Glottir og heldur sig handan við, fyrir aftan og framan og til hliðar. Núna helli ég í mig kaffi og gíra mig upp í stofnanarölt. Þarf að fara á skrifstofu (skatturinn sko) til að mega fara í bankann til að borga fyrir það sem ég sæki um að skrifstofan geri fyrir mig og þegar ég er búin að borga get ég farið aftur á skrifstofuna með kvittunina og þá er hægt að setja umsóknarferlið af stað, held ég. Galdurinn liggur í því að gera rétta hluti í réttri röð. En ég var að tala um hið ómælanlega og fór svo út í skattinn en það er tenging þarna á milli. Til að undirbúa þessa skattaheimsókn skrifaði ég um daginn á blað bankaupplýsingar með rauðum penna. Síðan sat þetta blað hjá mér við tölvuna og seinna hlustaði ég á tónlist sem hreyfði við mér (Amy Winehouse (Love is a Losing Game) og Adele (Set Fire to the Rain) til að vera nákvæm) og þá hripaði ég á sama blaðið rauðum stöfum: Tónlist og ljóð fitla og daðra við dulvitundina. Andrúmsloft. Í tónlistinni er eitthvað ómælanlegt, sterk áhrif sem maður getur ekki útskýrt því hvernig útskýrir maður andrúmsloft í listaverkum? Hvernig útskýrir maður hugboð, andrúmsloft, grun sem er hálf hugsun, óáþreyfanlega áferð og liti og hreyfingu? Kraftinn sem myndast þegar fullkomnlega frumleg hugsun fæðist? Þegar tveimur ólíkum þáttum slær saman og þeir mynda rafmagn, renna huganum í hugrenningatengslum yfir á aðra braut? Þarna var ég sem sagt komin með á sama blaðinu bankaupplýsingar fyrir skattinn og pælingar um tónlist og ljóð og dulvitund. Ég þurfti að taka blaðið með mér í einn banka og þá voru góð ráð dýr. Átti ég að hafa dulvitundarpælinguna með á blaðinu eða rífa á milli? Hvað ef ég þyrfti að útskýra pælinguna fyrir bankastarsmanni? Ætti ég þá að segja: ,,Well, you see both music and poetry flirt with the subconscious. Atmosphere is there and can’t be described. Can I open an account for money and atmosphere?” Ég ákvað að rífa á milli, leyfa þessum tveimur textum að fara í sitt hvora áttina. Þessa stundina er ég að uppgötva að þegar ég skrifa á blað mikilvæga hluti eins og bankanúmer og innkaupalista þá er línan alltaf lárétt en þegar ég hripa svona ómálga pælingu þá er línan á ská, hvorki lóðrétt né lárétt.
Ætli meðvitundin sé fær um að fjalla um dulvitundina? Hún getur það vissulega held ég upp að vissu marki, Jung og Freud skrifuðu snilldarlega texta um hana og margir, margir aðrir fræðlingar græðlingar. En ég held samt að listin sé ein fær um að miðla henni. Kannski stendur tjáning listarinnar nær tungumáli dulvitundarinnar, nei ég ætla að umorða þessa setningu og henda út kannski: Tjáning listarinnar stendur nær tungumáli dulvitundarinnar. Þess vegna elskum við listina, þess vegna sækjum við í hana eins og krakki í nammibúð. Þess vegna er listin fær um að breyta lífi okkar, snúa okkur á rönguna, setja af stað eldvirkni og hitasótt. Mér líður eins og ég hafi sagt þetta áður, eins og ég sé alltaf að segja það sama. Ætli ein manneskja nái að safna inn í sig viss miklu magni (úff ég er að detta inn í mælingarnar) af þekkingu og minningum og svo spólar hún sömu hugsunina og frasana á replay það sem eftir er? Fækkar eða fjölgar tækifærum til nýrra uppgötvana þegar aldurinn færist yfir? Hér í þessu bréfi er ekkert skipulag, í dag er skipulagslaus dagur. Eldhúsvaskurinn er fullur og leirtauið býður eftir strokum. Gólfin eru skítug og ísskápurinn tæmist hratt. Segi við sjálfa mig að dulvitundina mín elskar sápur og tuskur og búðarferðir og pokaburð og eldamennsku og pollýannan í mér er þakklát fyrir að hafa orku og heilsu í að sinna þessu öllu og að við í þessari litlu íbúð erum við hestaheilsu.
Þú verður að afsaka en ég er í engu teiknistuði þessa dagana en kannski kemur það seinna. Elska myndirnar þínar og tengsl mynda og texta. Gítarinn varð eftir heima og ég sé strax eftir því. Er hins vegar að mana mig upp í að kaupa ukulele í hljóðfæraversluninni hjá aðalbrautarstöðinni. Íbúðin mín er svo lítil að mér finnst ukulele passa vel hér inn. Eftir að hafa spilað á píanó í mörg ár finnst mér allt í einu svo mikilvægt að hafa tónlistina bókstaflega í fanginu, að ná að faðma hljóðfærið og tónana. Píanóið er æðislegt og engin útrás eins og að fara inn í tónlistarrýmið með puttunum (kannski eitthvað svipað í gangi hér þegar maður pikkar á lyklaborð í staðinn fyrir hljómborð) en þar er líkamleg fjarlægð frá hljómunum miðað við gítarinn. Ég vil fá hljómana nær maganum og seinna kemur kannski þörf fyrir að fá tónlistina í munninn og þá blæs ég í flautur. Hvar ætli fiðlan vinni? Kannski verkar hún mest á efri hluta líkamans, handleggi og höfuð. En alls staðar (næstum því) þurfa puttarnir að vinna sitt verk og kalla fram tónana, nema í munnhörpunni og trommunum.
Þetta bréf er að verða of langt og ég settist áðan tóm við tölvuna en maður er víst aldrei tómur. Ég er alltaf að reka mig á það að hugmyndir mínar um mig og aðra reynast rangar og skakkar. Stroka út hugmyndir og skoðanir, hlusta á tónlist og læt mig dreyma um ukulele. Stíg inn í andrúmsloft.
Kærleikskveðjur,
Bjarney
~
Reykjavík í góða veðrinu
Kæra Bjarney,
Keyptu þér ukulele – ef þú ert ekki búin að því viltu þá fara í búðina á mánudaginn? Er ekki gaman að hafa hljóðfæri á heimilinu – og jafnvel fleiri en eitt – t.d. munnhörpu, trommur? Ég mæli með þessum kaupum, alltaf gott að þiggja ráð frá Kristínum. Það er gott draumnafn líka.
Nú kemur vel á vondan: ég veit ekkert um dulvitund, mig langar til að lesa um dulvitund: viltu leiðsaga mér? Um daginn lærði ég orðið dulkynja sem mér þykir mjög fallegt – var ég búin að nefna það? – alveg einsog orðið: dulvitund og öll orð með dul-. Sjálf skrifa ég með meðvitundarleysinu, alla vega sem ég meðvitundarlaus, að ég tel.
Það er gott veður hér og búið að vera lengi. Reykjavík er sæt og allir eru glaðir, sundlaugarnar fullar, garðarnir, fólk sem hefur aldrei hist situr saman útivið og drekkur bjór. Líktog í hruninu: þá fór fólk sem aldrei talaði saman að tala saman, landamæri þurrkuðust út þar til hagvöxturinn teiknaði upp ný og líklega dróg hann bara upp þau gömlu gegnum bökunarpappír, náði í gamla sniðið, dró upp sirkabát allt eins og allt féll tilbaka ofan í hina ljúfu löð, þar sem sigurvegar halda áfram að sigra og hinir kúguðu þekkja æ betur takmörk sín. En Reykjavík er alla vega hryllilega sæt, vegfarendur léttklæddir, strákar ganga á kynlausum strigaskóm, stelpur með dulkóðuð sjöl sem of heitt er að bregða yfir axlirnar, svo þær draga þau bara letilegum skrefum eftir götunni og hangsa í frístundunum, hangsa af list. Karlarnir í laugunum sperra sig. Kerlingarnar tipla á glansandi hvítum sandölum með för eftir bikiníhaldið. Það er spenna í lofti: kynferðisleg, exístensjalísk, dulvitundarleg, siðferðisleg, hagfræðileg, faraldsfræðileg, einhvern-veginn-leg. Fólk kannast við sjálft sig af veikum mætti. Fólk kannast ekki við sjálft sig af misveikum mætti. Dæmi er um fólk sem hugar að málsókn gegn sjálfu sér. Afgreiðslustelpa á kassa í búð spyr kúnnann um leið og lesarinn les strikamerkin af vörunum:
Heyrðu kúnni, á ég höfundarréttinn á hatri mínu á öðrum?
Kúnninn svarar og veifar kreditkorti en ekki blævæng: Ef ég vil ekki fatlað fólk heim til mín þá er bannað að segja að ég sé vond manneskja.
Bannað með lögum, spyr stelpan á meðan lesarinn les.
Já, svarar kúnninn og missir kortið því það er svo þungt. Gömul kona beygir sig niður og tekur kortið upp og réttir kúnnanum. Gamlar konur eru sí og æ að hirða upp úr gólfinu fyrir aðra. Jæja. Þetta sumar býður upp á daga sem ég mæli með að fólk leggi á minnið: um t.d. hvað verði borðað um helgina, hver sagði hvað þarna og þarna, já, mæli með að fólk leggi samræður á minnið, löng samtöl og virki og þjálfi organísku minnistöðvarnar í verkið, ekki upptökugræjur. Ennnnnnn plís nót: ég er algjörlega andsnúin ráðleggingum: ég mæli með engu.
Bæst klæddu dömur Reykjavíkur í viku 30
Þær hitti ég á Hofsvallagötunni, það var heitt í veðri, allir gengu um á bol eða skyrtu og líka ég einsog ég gerði úti í löndum um daginn. Þennan dag gekk ég bæinn á enda: útá Seltjarnarnes – allir glaðir – gegnum Vesturbæinn – gleðin já, já – í miðbæinn – gleði – og upp í Austurbæ – gleði, gleði, gleði – og til baka – enginn á Klambratúni svo að gleðin þar var ómælanleg.
Dömurnar tvær voru sportlega klæddar. Önnur best klædda daman sem heitir Ingibjörg klæddist svörtu stuttu pilsi, hvítum strigaskóm og neonbleikum sokkum. Hún bar fallega ofið köflótt sjal í rauðum og dökkrauðum lit, með bláu og hvítu í, sjatteringin yfirveguð – vefarinn var í yfirveguðu skapi á meðan vefarinn óf og hugsaði um drengi að slá engi í rauðköflóttri síðdegissól þegar hvorki er of heitt eða kalt og drengirnir undir áhrifum hugvíkkandi efna. Vegna hitans lék Ingibjörg sér með sjalið og færði það af herðunum á aðra öxlina, hélt á því, skipti um hendi. Hún klæddist í ljósa tísjört og reykti rafrettu – ég mæli með mintubragði – eitt það skemmtilegasta við sumartískuna 016 er útbreiðsla rafrettunnar. Á bakinu bar hún bakpoka úr leðri, með sjóaralegu viðmóti, fyrir sunddót.
Klæðaburður Ingibjargar sameinar nútíðina við sjötta áratug síðustu aldar.
Hin best klædda daman sem heitir Hrafnhildur klæddist í mynstraðan samfesting úr léttu efni sem jafnframt virkar þungt í sér. Grunnlitur óreglulega reglulegs mynstursins er blágrænn, með hvítingjableikum formum sem minna á frumu og indígóbláan hring þar utan um. Samfestingurinn hefur yfir sér dularblæ, stemmingu nátta í gleðileik þaðan sem ofbeldi hefur verið úthýst. Mögulega á þessi tegund flíkar rætur að rekja til gleðibúra þar sem ofbeldi var prímus mótor en framtíðin mun neita ofbeldinu inngöngu á djammið og nútíðin er nú þegar byrjuð að reka það út. Hrafnhildur klæddist nettum millibrúnum skóm sem eru blanda af fimleika- og látbragðsleikaraskóm sunnan úr löndum. Á öxlinni bar hún tösku fyrir sunddót, hélt á gallajakka og svörtum pappapoka sem innihélt leyndarmál.
Ingibjörg sagðist nýbúin að skrifa tvö leikrit. Annað er súrt, hitt er þungt. Hún er að byrja að skrifa þriðja leikritið sem verður fallegt.
Hrafnhildur sagðist hugsa um fjarvíddirnar sem eru alls staðar í kringum okkur. Hún mælti orðrétt: Þessar fjarvíddir munu finna skurðpunktinn. Og Ingibjörg var sammála.
Báðar báru þær armbönd. Ég mæli með – þó ég mæli með engu – notkun armbanda í sumar, fram á haust og komandi vetur – reyndar eru armbönd eilíf og góð áminning um að frelsi mannkynsins var, er, verður enn að því er virðist, dýru verði keypt. Máske fá Ingibjörg og Hrafnhildur titlana best klæddu prinsessur sumarsins #16 hér á þræðinum okkar. Alla vega: þær skora hátt.
Best klæddi Austurstrætingurinn í viku 30
Hún heitir Rachel og starfar sem listmálari, kemur frá Englandi og býr ótímabundið á Íslandi. Ef stúlka klæðist smekkbuxum fer hún í gegnum umbreytingatímabil, kveður ákv. tímabil og heilsar nýju. Strákur sem er ekki verkamaður og klæðist í smekkbuxur er þreyttur á að vera strákur í hefðbundnum skilningi strákahlutverksins. Á sama skeiði gefur stúlka (í smekkbuxum) sérhverju tímabili kúgunar í mannkynssögunni fingurinn. Þessar smekkbuxur sem hér um ræðir tjá mótmælin jafnvel betur en ella afþví á þær vantar hinn klassíska vasa á smekkinn. Strákur mótmælir ekki kúgun þegar hann gengur um í smekkbuxum, ekki fyrr en feðraveldið tilheyrir sögunni. Þetta álykta ég að sé döpur staðreynd fyrir bæði stúlkur og pilta: að kyn manns skuli vera tekið svo ofboðs alvarlega; ofuráhersla og alvöruþungi kynhlutverkanna er álag sem engin manneskja rís undir. En um þetta veit ég annars ekki nóg, afþví ég er ekki ung, en ég veit samt að á mörgum stöðum í heiminum bregður umhverfinu við strák í smekkbuxum með tíkó.
Athugasemd: Kæru uppalendur, venjið augu barna ykkar við fjölbreytileika mannlífsflórunnar snemma í æskunni, strax.
Rakel gengur á verkamannaskóm, ekki þeim dæmigerðustu fyrir tíðarandann, margir nútildags hafa klæðst verkamannaskóm sem hafa nítjándu aldar lúkk, þessir rata lengra inní þá tuttugustu. Vínrauðar reimarnar minna á blóm og fiðrildi í blómagarði. Hún er í fallegum stakk af asískum uppruna – hvað heitir svona stuttur kímónó? Þessir litir: dökkblátt gallaefni og drabblitað (þykkt) khaki gefur augunum hvíld frá áreiti auglýsingaskiltanna í Austurstrætinu. Mynstur bakpokans brýtur upp jafnvægið í klæðaburðinum af snilld með tilvitnuninni í hippatímann; mynstrið skjanar klassíkina í buxunum, stakknum og skónum. Takið eftir pörum af böndum á bakhliðinni: þar í felast óorðanleg skilaboð, einsog svo oft koma fyrir í ljóðum.
Klæðaburður Rachelar brýtur upp siðina og venjurnar sem augað er vanast, þessi stíll vekur augað af værum svefni (auglýsingaskiltanna – hvað þau annars svæfa mann). Michael Jackson gerði hvíta sokka ódauðlega. Að klæðast hvítum sokkum í júní og júlí telur upp í taktinn í laginu Billie Jean.
Blessuð sé minning Michaels.
Máske fær Rachel titilinn best klædda prinsessa sumarsins #16 hér á þræðinum okkar. Hún alla veganna skorar hátt. Vert er að hafa í huga að fljótlega mun klæðaburður þingfólksins verða tekinn fyrir.
Best klæddi strákurinn um Verslunarmannahelgina
sem byrjar í viku 30 og endar í viku 31
þ.e.a.s. endi heimurinn ekki í kvöld
– – – á sama tíma og einni forsetatíð lýkur og ný hefst – – –
Hann heitir Hermann. Hann gekk heimagötu mína með grænan plastpoka úr 10/11 að morgni laugardags. Þegar hann nálgaðist hélt ég að persóna úr bók eftir Tolstoy kæmi nær og hugsaði: LOKSINS! Lífið – er – og – verður – og – hefur alltaf verið – fabrikkasjón. Kvöldið áður hafði ég heyrt sögur af sumarpartýjum í bænum og allar minntu þær á partýin í skáldsögum Leós. Minna partý í öðrum borgum líka á veislur úr nítjándu aldar skáldsögu? Æ, örugglega.
Hann klæddist einsog teikningin sýnir í pels úr úlfahárum á hlýjum sumardegi, í grá teinótt ullarföt, buxurnar of stórar, beltið baslar við að halda þeim uppi. Sýnin táknar að hann hafi grennst ótæpilega frá því hann eignaðist sparifötin – kannski við fermingu, kannski við útskrift, líklegast er þó um föt annars manns og feitari að ræða: það er yfirlýsing. Að mínu viti er eftirsóknarvert að tjá í fataburði þetta ásigkomulag: að hafa mjókkað óeðlilega hratt, án þess að raunveruleiki fylgi fabrikkasjóninni að máli – það er verið að búa til þessa blekkingu fyrir augað. Ennnnnn – alla veganna – ég er nostalgísk og rómantísk og er höll undir lífshættur og þess vegna finnst mér flott að vera í of stórum fötum. Undir jakkavestinu klæðist hann skrautlegum skærgrænum bol. Íþróttaskórnir eru nýir og máðir og nútímalegir með skáröndóttum reimum.
Klæðaburður Hermanns er tímalaus og sameinar skáldskap og raun. Græni plastpokinn færir tjáninguna inn í aukavíddir sem rithöfundar eru alltaf að reyna ná inn í verkin sín. (Vonandi ekki á kostnað plasteyjanna í úthöfunum). Máske fær Hermann titilinn best klædda prinsessa sumarsins #16 hér á þræðinum okkar, hann skorar alla vega hátt. Það eru enn nokkrar vikur eftir í pottinum.
Athugasemd: Ég mæli með, þó ég mæli með engu, að menn klæði sig ekki á seif hátt í nýja mánuðinum sem hefst ekki á morgun heldur hinn. Fólk, klæðið ykkur vitlaust.
Ég mæli með engu.
Orðið óeðlilegur hefur verið valið orð ágústmánans.
Ertu sammála valinu kæri pennavinur?
Senn verður hér í bréfi, næst eða þarnæst, fjallað um korpóreit litadýrð á alheimsvísu.
Og: Kæra best klædda fólk vikunnar, það var svo auðsótt og gott mál að taka myndir af ykkur, þið tókuð svo undur vel í erindið – bestu þakkir og kærustu kveðjur.
Auka athugasemd: Mörgum karlmönnum nútildags þykir leitt að vera hetrónormatífir. Það er skiljanlegt því dulvitundin er kynlaus og allrakynja. Feðraveldið kann að finna lausn fyrir karlana bráðum. Hefur þú lausn? Kannski má finna lausn hjá Freud og Jung? Og sannarlega er lausn að finna í tískunni – tískan á lausn við öllu nema dauðanum.
Jæja þá kæri pennavinur: ég ætla í mál við sjálfa mig en ekki alveg strax – en þú? Ferð þú í mál á næstunni?
Kærleikskveðjur, k
~
Uppsala, 1. ágúst 2016
Sæl mín kæra Kristín,
Ég þakka þér fyrir hvatninguna því hún virkaði og ég keypti í dag ukulele. Íbúðin verður öll miklu vistlegri þegar svona fallegir strengir liggja í sófanum. Svo keypti ég líka naglalakk. Ég skal taka mynd af neglum mínum á ukulelestrengjum og senda þér. Ég kann ekkert á svona hljóðfæri og er í öngum mínum yfir því að strengirnir fylgja ekki reglu gítarsins en þetta venst. Byrjaði á því að pikka upp nokkur lög (til að vera nákvæm: Afmælissönginn og Krummi svaf í klettagjá, er núna að leita að stefinu úr Breaking bad þáttunum) og get alltaf leitað á náðir jútúbb til að læra. Ágústmánuður verður helgaður fjórum strengjum, naglalakki og sól. Þú spurðir um dulvitundarefni og ég hef þegar sent til þín kafla úr bókinni Man and His Symbols eftir Carl G. Jung. Góða skemmtun við lesturinn, draumar eru mergjað stöff, brjálæðislega mergjað. Já, óeðlilegur gæti orðið orð mánans í ágúst. Nú ætla ég að athuga hvenær máninn verður fullur í ágúst. Jú, það verður 18. ágúst og gúrúinn sem færir mér mánaðarlega spá segir að úranus muni passa mig, vatnsberann, sérstaklega vel á þeim tíma, eins og lífvörður en þetta tungl verður sérstaklega ánægjulegt fyrir mig. Hún segir að fulla tunglið verði líka fínt fyrir þig, kæra vog, sérstaklega þegar kemur að vinnu og verkefnum sem þú munt klára. Hún segir að það verði sérstaklega gott fyrir þig að kaupa tölvu eða önnur raftæki þann 16. ágúst, þá veistu það. Ég hlæ alltaf kitlandi hlátri þegar hún ráðleggur manni bótox eða að hafa samband við lögfræðinginn sinn eða að versla sérstaklega vel á ákveðnum dögum. Hún er bæði nösk og nákvæm þessi stjörnuspekikona. Hér kemur ljósmyndin (sko fingurnir vildu fá mynd fyrst að táslurnar fengu eina hér um daginn, því miður var þumallinn ekki með á myndinni en hann er sáttur því hann skipar veglegan sess í handritinu sem ég vinn í um þessar mundir):
Jú, ég þyrfti eflaust að fara í mál við sjálfa mig. Máefnalistinn er ótæmandi en í augnablikinu gæti ég farið í mál við sjálfa mig og bannað mér að klóra mýflugnabit á síðu og öxlum. Svo varð mér á í síðasta bréfi að detta í háfleygan prédikunartón, hofmóðugan heilagleika held ég bara. En ég hermi eftir þér og slæ því á frest, gott að fresta öllu sem er dulbúin uppbygging. Heyrðu já og svo var áðan að koma nýr forseti. Hjarta mitt sló ört og ég mændi á tölvuna þegar Guðni skrifaði undir en þegar hann hélt ræðuna þurfti ég að elda pasta svo að ég missti af henni en heyrði óminn. Þetta var virkilega fínn ómur, mér líst vel á nýjan óm, nýjan hljóm, nýjan streng. Þetta er held ég A strengur, sem er bæði þungur og bjartur, undirstaðan (á gítar að minnsta kosti) sem maður stillir hina strengina eftir. Ef A er í lagi þá verða hinir strengirnir fínir líka. Þetta snýst allt um stillingar. Fínstillingar. Að stilla aftur og aftur. Hlusta eftir falsinu og stilla þá upp á nýtt.
Ó, myndirnar þínar eru svo fínar. Ég öfunda þig að hafa hitt Ingibjörgu og Hrafnhildi því ég veit að viskan sem vellur úr þeim er með eindæmum, hún er bæði djúpvitur og sprúðlandi. Um daginn fór ég að hugsa um myndirnar þínar og tískupælingar og þá sóttu á mig minningar um vinkonu mína sem hét Andý og lést í október í fyrra. Hún hefði elskað úttektir þínar í botn. Nú sakna ég hennar mikið. Söknuður finnst mér ágengari í góðu veðri, þegar sólin skín og fiðrildi hjala þá sakna ég mest. Saknar þú jafn mikið í öllum veðrum? Andý var einstök, ótrúlega sterk kona og líka viðkvæm og einu sinni skrifaði hún örsögu sem var bæði persónuleg og hættuleg og ágeng. Ég veit hún sýndi þér líka örsöguna og fékk hvatningu frá þér. Hún hafði aldrei skrifað neitt áður og var mjög stressuð man ég yfir þessu. Núna þegar hún er farin veit ég ekki hvort hún vildi að sagan færi á prent eða ekki. Ég veit bara að hún hefði elskað bréfin þín. Hún var með skemmt hné og var svolítið hölt. Ég skil ekki af hverju en ég elska fólk sem haltrar. Fók sem brosir og haltrar, Andý var oftast þannig. Kannski er það af því sérkennin verða sýnilegri og þau sem haltra fylgja öðrum takti en hinir sem þramma á fótum sem hlýða.
Í morgun náði ég að vakna á undan krökkunum og krukka í handriti. Það er svo gott að komast í handritakrukk í morgunþögn og byrja þannig daginn á skrifum. Oftast á ég erfitt með að vakna en mig langar að gera þetta reglulega. Ef mér tekst það ekki fer ég í mál við sjálfa mig og sný út úr öllum vörnum, neita öllum glufum í málsgreinum reglugerðargreina og borða lagabókstafasúpu í hádegismat. Þetta er hin fullkomna byrjun á degi og ég ætla að muna orðin sem Sigur Rós söng í einu laginu: ,,Það besta sem Guð hefur skapað er nýr dagur.”
Þetta þykja mér fullkomin orð til að enda bréf.
Megi sólin skína skært á koll þinn!
Adios,
Bjarney
Ps. Spurning þín um lausn fyrir karla sem eru þreyttir á hinni heterónormatísku pressu er mikilvæg. Normin eru orðin svo stöðluð að það þarf ósköp lítið til að brjóta þau upp, það þarf ekki mikið meira en naglalakk eða slæðu til að vera byltingarkarl. Að gera byltingu er frelsandi. Að gera byltingu með því að bregða á leik er … (ég finn ekki nógu stórt lýsingarorð). Vonandi finnur feðraveldið lausn fyrir karlana, ef feðraveldið veit hvað það vill, ef feðraveldið vill frelsi og svo stór lýsingarorð að þau finnast ekki.
Pps. Takk fyrir Billy Jean, ég gat ekki setið kyrr á meðan ég hlustaði. Stóladans er bestur og tónlist eins og þessi er með svo mikla sál að líkaminn er knúinn til að dilla sér, sálardillitónlist er …
~
Reykjavík, 2. ágúst 2016
Sæl mín kæra Bjarney,
Til hamingju með nýjan forseta! Það var hátíðleg stundin á Austurvelli við innsetningu forsetans í embættið í gær, fólk var spariklætt og fínt og stemmingin sæt og hlý. Ræða forsetans frábær. Gaman verður að hafa trambólín í túninu á Bessastöðum.
Ofsalega þykir mér sorglegt að heyra af láti Andýjar, lát hennar vissi ég ekki, var á sama tíma í útlöndum og þekkti hana aðeins lítið, og engan sem þekkti hana fyrr en nú, en í fyrra vorum þú og ég ekki byrjaðar að skrifast á. Við Andý gengum í sama framhaldsskóla, þekktumst þar ekkert en vegna þessa heilsuðum við hvor annarri þegar við hittumst á myndlistarsýningum löngu seinna. Fyrir örfáum árum töluðum við fyrst saman, hún sýndi mér smásöguna sem þú minntist á. Eigum við að birta hana, eigum við ekki að birta hana?
Blessuð sé minning Andýjar – Arnheiðar Önnu. Hvíl hún í friði.
Frænka mín segist fletta Mogganum (á vinnustaðnum) til þess að fylgjast með andlátstilkynningum. Ég sé sjaldan blaðið. Þetta er í annað sinn á hálfum mánuði að ég frétti lát manneskju löngu síðar. Kannski ég verði að kaupa áskrift. Mamma mín fylgdist líka vel með og var í góðu sambandi við umheiminn, þó hún færi lítið, hún fylgdist mun betur með mannlífinu en ég og ég naut góðrar þjónustu hennar – hvað er til ráða?
Takk fyrir fínu myndina af ukuleleinu og nöglunum og takk fyrir greinina sem ég dríf mig í að lesa. Til hamingju með heimilishljóðfærið og takk fyrir orðin frá stjörnuspekikonunni, mér þótti vænt um að heyra að ég ætti að kaupa raftæki þann sextánda og að tíminn væri góður til að ljúka verkefnum, ég er að ljúka við handrit, gott að vita að tunglið í ágúst gæti verið meðmælt vinnunni.
Ég er smá dösuð eftir æsing í sjálfri mér, búin að vera mikið að gera og margt og er allt í einu tóm í hausnum og ofsalega svöng, það er einsog ég hafi klárað tankinn. Nú er að hefjast þriðji kafli sumarsins, ágústskaflinn,* nóttin orðin dimm í nokkrar klukkustundir – fyrst um sinn verð ég alltaf smá myrkfælin og finnst draugalegt. Það var verið að mála tröppurnar upp að Menntaskólanum í Reykjavík í hinsegin litunum þegar ég gekk framhjá í dag. Mér er boðið í lagabókstafasúpu til vinkonu minnar í næstu viku.
Adiós,
k
*gæti verið fjórði kaflinn ef maí telst með sem sumarkafli og eiginlega er maí alveg sérstakur sumarkafli –
ps
feðraveldið finnur svo oft svör sem virðast vera æði en lúmskast svo til og sýna fram á seinna að eru á kostnað kvenna – ennnnnn: framtíðin mun ekki flokka eftir kynjum og hjónaband og sambönd verða ekki skilgreind eftir því sem hvað fer fram í svefnherberginu, þá munu systur giftast, bræður, mæðgin – kannski getur maður þá gifst kisunni sinni.
úff, já, smart orðað: STÓR LÝSINGARORÐ!
(hér er smart = í enskri og íslenskri notkun)
~