Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands

Að þekkja sig og þekkja sig ekki, lóðbeint og af drukkinni einbeitingu

Skrifa athugasemd

Hrafnhildur Þórhallsdóttir og Bragi Ólafsson skrifast á:

Sameinuð HÞ minnkuð

 

Reykjavík, júlí 2016

 

Kæra Hrafnhildur,

alveg vissi ég að þessi bréfaskrif myndu byrja með spurningu. Ég spyr mig nefnilega að því hvernig maður eigi að koma sér að efninu þegar maður skrifast á við manneskju sem maður þekkir jafn lítið og ég þekki þig. (Hvaða efni? spyr ég mig líka.) Og svarið sem ósjálfrátt kemur upp í hugann er að best sé að láta sem ég þekki þig alls ekki, að ég hreinlega viti ekki hver þú ert. Ég veit reyndar ekki hver ég er sjálfur, þannig að þetta gæti ekki byrjað betur.

Alltaf best að byrja frá grunni.

Ég ætlaði að vera búinn að skrifa þér fyrr, en bakmeiðsl (eftir átök við sandpoka) ollu því að mér tókst ekki sem skyldi að draga líkamann að skrifborðinu, og koma honum þannig fyrir við borðið að ég ætti gott með að skrifa. Ég þarf nefnilega borð til að geta skrifað; mér finnst eitthvað tilgerðarlegt við hitt, að geta skrifað án þess að hafa borð.

En það eru forréttindi að geta leyft sér að skrifa fólki bréf. Ég veit að orðið forréttindi er of mikið notað nútildags; mér finnst það samt eiga við hér. En aðeins aftur að þessu með að vita ekki hver maður er. Auðvitað er það hallærisleg spurning, og of mikið gert af því að klæða hana í nýjan búning til að hún þekkist ekki. En þá verður maður bara að gangast við því að vera hallærislegur sjálfur, því ég fyrir mitt leyti verð oft dauðhræddur (við sjálfan mig) og svitna af angist yfir þeirri vissu (eða óvissu) að hafa ekki hugmynd um hver ég er. Þess á milli gerist það þó stundum (ekki síst þegar ég hlusta á ákveðna tónlist) að ég fyllist þvílíkri vissu um áðurnefnt atriði að mér líður eins og ég sé að springa úr þekkingu. Það gerðist núna síðast fyrir nokkrum dögum, daginn eftir að EM í fótbolta lauk (ég ætla ekki að lýsa því nánar). En eins og gerðist með Ibsenleikarann í bókinni um Skógarhöggið, bókinni sem Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi hafði ætlað sér að þýða (í framhaldi af Steinsteypu sama höfundar) – og hefur vonandi enn – þá varð mín augnabliksuppgötvun um daginn (um hver ég væri, og allt það) jafn fljót að verða að engu og það tók hana að verða til. Á svipaðan hátt og drukkin einbeiting Ibsenleikarans gufaði upp, þótt ekki hefði það gerst á jafn skjótan hátt hjá honum og hjá mér. (Þetta með drukknu einbeitinguna sagði Eggert Þorleifsson mér að væri kallað að vera „sljóbeittur“ – hann hafði það frá Magnúsi Þór Jónssyni, Megas.) En ég var að tala um forréttindin sem felast í því að mega skrifa manneskju bréf. Alveg vissi ég að ég færi að tala um eitthvað svoleiðis. Ég þekki sjálfan mig nefnilega betur en mig grunar. Ég hafði ætlað mér að vitna í skáldið Apollinaire í því sambandi, í fyrstu línu ljóðsins um tónlistarmanninn frá Saint-Merry, en mundi svo eftir að ég var búinn að nota þá línu í skáldsögunni sem ég gaf út í fyrra, Sögumanni, að minnsta kosti óbeint. (Maður verður að leyfa aðeins lengri tíma að líða milli þess sem maður vitnar í sömu hlutina, finnst þér það ekki?)

Ég las ljóðverkið sem þið Heiðrún gáfuð mér þegar við lásum upp saman á Selfossi í fyrra. Ég erfði dimman skóg. Ég las bókina held ég mjög vel, og reyndi að geta mér til um hver höfundanna sjö ætti hvaða línur. Og núna þegar ég skrifa þér læt ég mér detta í hug að segja við þig: Þessa línu skrifaðir þú, en ekki þessa, osfrv. En ég þori það ekki, enda skiptir það ekki máli; bókin er sameiginlegt verk ykkar sjö. Mér finnst hún rosalega vel heppnuð; það er sterk og kraumandi tilfinning fyrir upphafi og endalokum, og „fyrir og eftir“, undir fínlegu yfirborðinu. Og auðvitað á orðið „rosalega“ ekki við í þessu samhengi! En nú verður mér aftur hugsað til línu Apollinaires um að leyfa sér að ávarpa þann sem maður þekkir ekki. Ég veit að þetta hringl mitt með frönsku ljóðlínuna, og útlegging mín á henni, stenst ekki alveg skoðun, og er ábyggilega frekar ruglingslegt; en ég ætla samt að leyfa þessu að standa (þetta er nú einu sinni bara sendibréf), því línan er nefnilega það sem ég hafði ætlað mér að leggja út af í þessu bréfi, í þeim tilgangi að nálgast það efni sem mér datt upphaflega í hug að hafa sem grunn að bréfinu: spurninguna um það hvenær maður öðlast rétt til að ávarpa manneskju sem maður þekkir ekki, eða þekkir lítið. Sú spurning er að mínu viti það „vandamál“ sem býr að baki flestu því sem ég skrifa og gef út undir eigin nafni. Handritið sem heldur mér uppteknum í augnablikinu hefur til að mynda í sér góðan skammt af einmitt þessu umfjöllunarefni; sú saga fjallar um unga ekkju sem tekur upp á því að halda einhvers konar dagbók, og er því um leið, með þeim skrifum, að ávarpa einhvern – einhvern sem fljótlega kemur í ljós að hún veit ekki hver er. Á fyrstu blaðsíðu dagbókarinnar virðir hún fyrir sér son sinn, sem er á unglingsaldri, og veltir því fyrir sér hvort hún hafi upphaflega fengið þá hugmynd að halda dagbókina sonarins vegna; hvort henni beri að varðveita eitthvað í áframhaldandi lífi þeirra mæðgina eftir að faðir drengsins er fallinn frá. Fyrst og fremst hugsar hún þó um hvern hún sé að ávarpa með skrifum sínum, því í raun getur hún ekki hugsað sér að önnur manneskja muni einhvern tíma lesa þau. (Margt af því sem hún skrifar er of persónulegt að hennar mati – og reyndar að mati höfundarins líka, því auðvitað er maður að skrifa um sjálfan sig.) Á hinn bóginn gerir hún ráð fyrir að bókin verði lesin að henni látinni, rétt eins og hún á sjálf von á að fá aðgang að dagbókum föður síns heitins eftir að móðir hennar deyr. (Faðir ekkjunnar ungu hafði stytt sér aldur, og það hefur sömuleiðis eiginmaður hennar gert.) En núna er ég komin út á hála braut, kæra Hrafnhildur. Á ég að vera að segja þér frá efni þessarar bókar svona löngu áður en hún kemur út, og áður en ég lýk við að skrifa hana? Ég er ekki einu sinni hálfnaður með hana. Ég hef reyndar ekki sagt þér frá því sem „gerist“ í bókinni, bara frá „formi“ hennar, og þeirri ósvöruðu spurningu hvaða manneskju – eða yfirhöfuð hvað – sögumaður hennar er að ávarpa með skrifum sínum. Fljótlegast væri að svara þeirri spurningu á þann „sjálfvirka hátt“ að ekkjan sé að skrifa fyrir sjálfa sig, en eitthvað segir mér (einhver fuglsleg rödd í höfði höfundar) að það sé ekki rétt, að það sé beinlínis rangt.

En ég get lofað þér því að þessar vangaveltur mínar hér gefa ekki tóninn fyrir söguna sem ég er að skrifa. Í sögunni „gerist“ mun fleira en „gerist“ hér, og þar nota ég hlutfallslega færri orð til að lýsa því.

Ekki aðeins vissi ég að þetta bréf til þín myndi byrja á spurningu. Ég vissi líka að það myndi enda á spurningu. Og um leið vissi ég að sú spurning – lokaspurningin – yrði „hin augljósa“, út frá því sem ég var að tala um hérna áðan; það er að segja spurningin um hvern þú hefðir í huga þegar þú skrifaðir skáldskap? En ég ætla að hafa spurninguna aðra, og með því ekki aðeins vitna í það sem ég sagði um sjálfan mig í upphafi bréfsins, heldur líka í persónuna Pee-Wee Herman í bíómyndinni Pee-Wee Herman´s Big Adventure, þegar hann segir svo eftirminnilega: I know what you are, but what am I?

Veist þú hver þú ert?

Kær kveðja,

Bragi

~

 

Mosfellsbær, síðla í júlí 2016

 

Minn kæri Bragi,

þakka þér innilega fyrir bréfið sem ég verð að segja að mér þótti með allra merkilegasta móti! Svo merkilegt þótti mér reyndar efni þess, sem og hversu lóðbeint það efni talar inn í líf mitt í augnablikinu, að ég hreinlega velti því fyrir mér hvort brögðum hefði verið beitt við ritunina. Mér datt jafnvel í hug að þú hefðir diktað upp þennan bakverk í þeim tilgangi að vinna þér inn tíma til að afla þér upplýsinga um mig og mitt innra líf (hvernig sem þú hefðir nú átt að fara að því). Sem var auðvitað ekki fallega hugsað af mér. Þú fyrirgefur. Þetta er bara svo með ólíkindum.

Í sjálfu sér hefði þetta ekki þurft að koma mér að óvörum, það er hversu naskur þú varst á umræðuefni. Þegar ég les bækurnar þínar fyllist ég að jafnaði svo mikilli samkennd að jafnvel núna, þegar ég horfi á þær í bókahillunni hér hægra megin við mig og renni augunum yfir titlana, finnst mér algjörlega fjarstæðukennt að ætla að þú hafir mögulega skrifað þær fyrir einhvern annan en mig. Svo sjúkleg er nú sjálfhverfa mín.

En ég er engu að síður örlítið slegin. Líkast til mun það taka mig nokkurn tíma að skrifa þér skilmerkilegt svar (þú sérð hér ofar að ég treysti mér ekki til að dagsetja bréfið nákvæmlega). Sér í lagi þar sem ég er í einhverju undarlegu ástandi í dag. Ég veit ekki hvað gengur að mér. Einhverra hluta vegna virðist mér fyrirmunað að taka eina einustu ákvörðun aðra en þá að ég vilji hafa basilíku með rauðrófunum og mikið af dilli með hrærðu eggjunum. Á þessu hef ég mjög skýra og afdráttarlausa skoðun. En ég treysti mér engan veginn í neitt flóknara. Hvort þetta flokkist undir að vera „sljóbeittur“ veit ég ekki. Takk annars fyrir það áhugaverða orð. Ég finn á mér að það mun koma að haldi síðar. Og takk fyrir að minna mig á bókina Steinsteypu sem lúrir hér í hillunni og ég hef lengi ætlað að lesa en ævinlega slegið á frest því einhvern veginn finnst mér eins og hún sé meira fyrir stráka. Mun það vera misskilningur?

Eitt vil ég að sé á hreinu áður en lengra er haldið en það er að þetta bréf verður ekki skrifað „í einni setu“ – reyndar stend ég yfirleitt við skriftir og myndi helst vilja skrifa á hreyfingu, ég er í hópi þess fólks sem þarf að hreyfa sig til að geta hugsað. Ég held nefnilega að það sé töluvert útbreidd blekking að bréfaskrif fari þannig fram að bréfritari setjist niður, byrji svo einfaldlega á fyrstu setningunni, segjum einhvern tímann laust eftir hádegi, setji saman kveðjuorðin um það bil klukkustund síðar (veltur aðeins á lengd bréfsins og hversu knýjandi sú þörf er sem drífur ritarann áfram) og komi svo bréfinu áleiðis til viðtakanda fljótlega eftir það. Ég skrifa ekki bréf með þessum hætti. Og ég er sannfærð um að fólk hafi ekki skrifað bréf með þessum hætti í gamla daga. Þegar fólk kunni að skrifa bréf. Ég man að þegar ég skrifaði þér í vetur til að þakka þér fyrir Sögumanninn var ég einmitt að ljúka við að endurlesa safn ástarbréfa, sum allt að tveggja alda gömul, sem ég keypti í París fyrir tveimur árum og hef mikið dálæti á. Og ég man að ég hugsaði einmitt mikið um þetta eftir lesturinn; að þessi bréf væru vandlega hugsuð, rituð og endurrituð, yfirlesin, fleygt, sótt aftur í ruslakörfuna (eða eldstóna), lesin að nýju og endurrituð í það minnst tvisvar í viðbót. Nýlega heyrði ég Árna Bergmann meira að segja lýsa því í útvarpinu hvernig tiltekinn rússneskur rithöfundur (í svipinn man ég ekki hver) hafi farið fram á það við vini og vandamenn að þeir skiluðu honum öllum sendibréfum sem hann hafði sent þeim svo hann gæti endurskrifað þau ef svo færi að þau yrðu gefin út að honum látnum. Þú áttar þig kannski ekki á því (nema þú áttir þig einmitt á því, hvað veit ég, kannski er þetta allt að þróast nákvæmlega eins og þú hafðir hugsað þér) að þetta tengist efninu okkar beint. Það er þessu með sjálfið; því hver maður er. Það er einlæg sannfæring mín að sá sem skrifar bréf – og jafnvel sá sem yfir höfuð skrifar – sé fyrst og síðast að ávarpa sjálfan sig. Aðeins þannig gefur hann sér leyfi til að ávarpa annan. Ég er sömuleiðis sannfærð um að sá sem skrifar bréf (geri hann það af einhverri alvöru – og alveg örugglega geri hann það af drukkinni einbeitingu), leitist við, meðvitað eða ómeðvitað, að gefa heillega mynd af því sem í raun er ekki „heilt“ eða „eitt“; sjálfum sér og eigin sjálfi. Að komast nálægt því er það sem ég vil nefna „hinn mögulega ávinning“.

En nú er kannski tímabært að ég geri tilraun til að skýra þessi allt að því yfirdrifnu viðbrögð við bréfinu frá þér. Sjáðu til, nánast allt mitt líf, í það minnst nokkurn veginn svo langt aftur sem minni mitt nær, hef ég verið mjög upptekin af hugmyndinni um að allt verði heilt. Þar með talið, og kannski ekki síst, persóna mín. Hvort manneskjan fæðist heil og splundrist svo smám saman í meðförum heimsins, eða hvort mannssálin er sköpuð í brotum og smám saman – með vaxandi vitund þess sem hugsar um sjálfan sig og um það að hann hugsi um sjálfan sig að hugsa – verði þau brot að ógnarflóknu og óreiðukenndu verkefni sem þeim hinum sama finnst hann verða að koma einhverju skikki á ef hann ætli sér á annað borð að halda áfram að vera til, get ég aldrei gert almennilega upp við mig. Ég veit það eitt að vangaveltur þessar og tiltekið nýliðið atvik, sem ég get ekki tekið ákvörðun um hvort ég ætli að fara útí nánar, hafa leitt mig á þann stað að ég hef innritað mig í meðferð hjá konu sem ætlar að breyta í mér heilanum. Og hví skildi ég gangast undir slíka meðferð? Jú, einmitt í þeirri von að ná að framkalla heillegri mynd af því hver ég raunverulega er. Þannig að þú sérð að þú hæfir mig á versta stað. Eða þeim besta. Við höfum alla vega eitthvað að tala um.

Sjálfsagt er best að ég skýri frá atvikinu sem kom mér á þann „botn“ að ég leitaði mér slíkrar meðferðar (þótt ég skilji aldrei þetta tal um að „finna sinn botn“, samkvæmt minni reynslu er aðeins til falskur botn, botninn er yfirleitt lítið annað en þunnt þil, lagt yfir op að nýjum þanka). Téð atvik átti sér stað snemma morguns á heimili mínu fyrir rétt rúmlega tveimur mánuðum. Úti var skínandi bjart. Ég var að ljúka við að klæða mig – að venju sjálfsagt að verða of sein til vinnu – og í því að ég smeygi hvítum stuttermabolnum undir strenginn á ljósgráum gallabuxum verður mér litið upp og í spegilinn sem stendur andspænis mér í herberginu og samsvarar mér nánast fullkomlega í stærð. Og þá gerist það, án þess að gera boð á undan sér og algjörlega hljóðlaust að faðmbreiður gluggi svefnherbergisins, óvarinn öðru en þunnri hvítri blúndu, hleypir í gegnum sig slíkri ofgnótt af hvítu ljósi að ekki ræðst neitt við neitt og þetta hvíta ljós fellur, ákveðið og beinskeitt, á hvít sængurfötin sem aftur endurkasta því á hvíta veggina sem aftur skjóta því á hvítar hillurnar sem rakleitt senda það á hvítan stuttermabolinn þaðan sem það skellur á speglinum í tærandi blossa svo engu er líkara en líkami minn birtist um stund sem það hýbýli rafboða sem hann svo sannarlega er. Og þá sé ég það. Alveg kýrskýrt og eins og ég hef aldrei séð það fyrr. Sögnin að sjá er hér lykilatriði. Ég finn það ekki einvörðungu. Ég raunverulega það. Með augunum. Að sú sem stendur inni í speglinum. Og hin sem stendur fyrir utan hann. Eru ekki ein og hin sama. Ég sé þetta. Alveg skýrt. Og það sem meira er, ég veit að sú sem stendur inni í speglinum er konan sem fólk mætir á götu. Konan sem þú hittir á Selfossi fyrir jólin. Hún er það sem ég hef ákveðið að kalla „mitt utanáliggjandi sjálf“. Ég er ekki ólík flestu fólki hvað það varðar að ég hef oft velt því fyrir mér hvernig ég birtist öðru fólki. Og í þetta örstutta upplýsta augnablik sá ég það. Raunverulega. Mér fannst ég þekkja þessa konu ágætlega, finnst hún viðkunnanleg, gæti jafnvel sagt að ég beri til hennar traust. Það var ekki hið óþægilega. Hið óþægilega var að þessi kona inni í speglinum hafði nákvæmlega ekkert með mig að gera. Mig sem stóð utan við spegilinn í eins og hálfs metra fjarlægð. Mig sem gat reyndar ekki fyllilega hent reiður á hver ég væri að öðru leyti en því að ég væri alls ekki sú sem ég horfðist í augu við. Kannski þetta sé það sem Rimbaud átt við með að vera fully awake? Ég held alla vega að þetta kallist ekki að vera sljóbeittur. Eða hvað? Er ég farin að rugla með þetta allt?

Þú sérð að þetta bréf er þegar orðið allt of persónulegt. Og hreint ekki hæft til birtingar á jafn virðulegum stað og vef Rithöfundasambandsins – sem ég er ekki einu sinni gildur meðlimur í! (Þarna lauk ég setningu á forsetningu. Best að bíða aðeins lengur með að sækja um aðild að þessu sambandi). Og af hverju skildi ég vera að skrifa þetta bréf sem mér, rétt eins og ekkjunni þinni með dagbækurnar, verður hálf órótt við tilhugsunina um að „komist undir bert loft“? Eina svarið sem mér kemur til hugar er að „hinn mögulegi ávinningur“ sem ég minntist á hér ofar, verði á einhverjum tímapunkti öllum öðrum kenndum yfirsterkari. Það að mér takist að framkalla eitthvað í áttina að heillegri mynd af sjálfri mér, jafnvel í hinum smæsta skilningi (hver svo sem hann nú væri), mynd sem fær svo staðfestingu í því að þú lest bréfið, verður vitni að myndinni, yfirtekur einfaldlega ráð mitt og rænu. Ég veit ekki hvort þetta gæti flokkast undir það sem í afbrotasálfræði er kallað „yfirtaka möndlungsins“ (the hijack of the amygdala), og er heiti yfir það sem gerist í heilanum þegar fólk fremur ástríðuglæpi. Mögulega – gefi maður sér það að skrif séu ástríðuglæpur. Mér dettur engin önnur sennileg skýring í hug. Nema þá kannski sú að fjarlægðin á milli þess sem skrifar og þess sem les sé alltaf svo óendanleg að hugmyndin um lesandann verði aldrei fyllilega raunveruleg fyrir höfundinum. Að sá sem skrifar upplifi sig alltaf sem eina mögulega lesanda eigin texta. Aðeins einu sinni get ég sagt að ég hafi skrifað ljóð fyrir annan lesanda en sjálfa mig. Eða í raun áheyranda. Ljóðið var afmælisgjöf til Hallgríms Péturssonar og sérlega samið til flutnings í Hallgrímskirkju, þó ekki fyrir afmælisbarnið, heldur fyrir Guð. En hvernig læt ég. Sá sem ávarpar Guð er auðvitað um leið að ávarpa sjálfan sig. Þetta er allt á sömu bókina skrifað. Sökum samhengisins mun ég líklega aldrei flytja þetta ljóð aftur. Nema þá ef vera kynni á krá. Hvað það gæfi skemmtilegan Caravaggio-fíling! Kristur á kránni. Ég hef alltaf verið hrifin af þeirri hugmynd.

En í sannleika sagt veit ég afar lítið um þetta allt. Eins og ég veit lítið um flest. En eitt veit ég og hef hugsað mér að deila með þér, að mínu mati er þetta reyndar ótvíræður hápunktur þessa bréfs, en það er eftirfarandi yfirlýsing (manifesto):

 

Sá sem skrifar verður að gæta að sér.
Skrif eru birtingargaldur.
Allt sem þú skrifar getur þá og þegar birst í líf þínu.
Vertu viðbúin.

 

Sönnun: Um þetta leyti fyrir þremur árum gaf ég út litla ljóðasögu, Saltvatnaskil, sem segir frá konu í fremur bágu andlegu ástandi – mögulega er hún reyndar ekki ein heldur tvær. Kona þessi óttast einmitt að ástæða þess hvernig fyrir henni er komið sé sú að um nokkurt skeið hefur hún stundað óhamin og ofsafengin ljóðaskrif; hún óttast að hafa „skrifað ófarir sínar yfir sig“. Líkn sorga sinna fær konan þegar hún einn daginn vaknar við það að önnur kona, kona sem er mögulega hún sjálf en þó ekki, situr yfir henni og „hreyfir hendurnar“. Og þetta, og haltu þér nú, er nákvæmlega það sem konan sem ætlar að breyta í mér heilanum gerir. Hún hreyfir hendurnar. Situr andspænis mér og hreyfir hendurnar. Það lygilegasta er að ég held að henni sé að takast það sem hún ætlar sér. Í hvert skipti sem ég yfirgef stofuna hennar líður mér beinlínis líkt og eitthvað hafi „færst úr stað“, eða kannski væri réttara að segja „fallið í réttar skorður“, í höfðinu á mér. Ég gæti sagt þér ýmislegt fleira um þessa meðferð. Um það hvernig allt veltur á því að allir hlutar heilans séu tilbúnir til að vinna á sama tímaásnum. Ég gæti líka sagt þér frá samúræjanum. En ég er ekki viss um að við viljum það. Þá á ég við mig og þig. Ekki okkur samúræjan.

En. Þetta er orðið ágætt.

Þannig að, minn kæri Bragi, þú sem ert mér jafn ókunnugur og þú ert sjálfum þér (reyndar fór ég strax að hafa áhyggjur af því þegar þessi hugmynd kom upp að við skiptumst á bréfum hvort ég gæti leyft mér jafn innilegt ávarp og „kæri“, hvort ekki væri réttara að segja bara „sæll“), þú sem oftar en ekki skrifar um þá manngerð sem ver tíma sínum í að „forða sér“, vera „fjarverandi“ (kannski ég noti tækifærið og komi því að hvers misráðið mér þótti það af þér að gefa næstsíðustu skáldsögu þinni titilinn Fjarveran. Augljóslega ætti þetta að vera titill á heildarsafni verka þinna, því sem mun koma út að þér látnum … Þótti þér þetta óþægilegt? Að ég skildi  minnast á þig „að þér látnum“?), þú sérð að sú sem þú ávarpar er engu minna flækjusækin en þú ert sjálfur. Eðlilega. Sá sem ávarpar annan, ávarpar um leið sjálfan sig. O.s.frv.

 

Þín einlæga vinkona í skáldskap og veruleika,

H

 

P.s.

Þakka þér fyrir falleg orð um ljóðabókina okkar skógarkvenna. Þau gleðja mig óskaplega. Og fyrirgefðu þetta sem ég minntist á þegar ég skrifaði þér í vetur. Þetta með að ég væri öll að jafna mig og erfði það ekki við þig að ég hefði lent í þessari háskalegu bílferð. Ég fékk verulega bakþanka yfir þessu. Algjörlega óþörf athugasemd.

 

~

 

Reykjavík, 1. ágúst 2016

 

Kæra Hrafnhildur,

hingað til hef ég ekki vanið mig á að hafa kommu á eftir ávarpi í bréfi, og byrja síðan meginmálið með lágstaf. „Hingað til“ merkir reyndar fram að bréfinu sem ég sendi þér um daginn, því þar gerði ég einmitt þetta: setti kommu fyrir aftan nafnið þitt (eða til hliðar við, öllu heldur) og síðan lágstaf. En takk kærlega fyrir bréfið. Lettersbrjefið. Hér er strax komið kjörið tækifæri fyrir útúrdúr. Og ég er að hugsa um að notfæra mér það. Og vona um leið að þú nennir, þrátt fyrir það, að lesa áfram. Þetta með útúrdúrana háir mér reyndar allverulega (best að það komi fram) í mínu lífi, og í allri minni „framsetningu“ eða „-göngu“. „Tækifæri fyrir útúrdúr“. Sem líklega er skylt hinu svokallaða photo opportunity, þegar eitthvað spennandi ber fyrir augu manneskju sem heldur á myndavél. Auðvitað ætti ég á þessum stað í bréfinu að byrja að minnast á eitthvað úr þínu bréfi, til dæmis á hið undarlega ástand sem þú sagðist hafa verið í (framarlega í bréfinu) eða rússneska rithöfundinn hans Árna Bergmann sem vildi fá sendibréfin sín aftur í hendurnar til að geta endurskrifað þau fyrir útgáfu. Nú eða á hugmynd þína um að allt verði heilt (góð hugmynd, en fullkomlega óraunhæf, myndi ég halda). En þetta verður allt að bíða (því ég er engu minna sjálfhverfur en þú sagðist vera) og hér kemur útúrdúr nr. 1. Ef minnið lýgur ekki þeim mun meir að mér, þá var orðið lettersbréf frekar vinsælt orð þegar ég var unglingur. Við félagarnir (að minnsta kosti tveir okkar) notuðum það óspart í bréfaskriftum okkar, og höfum ábyggilega talið okkur frekar góða að láta okkur detta í hug að nota svona virðulegt orð, sem aftur minnir mig á að bréfaskriftir voru algeng iðja í þá daga, jafnvel hjá unglingum (að minnsta kosti tveimur unglingum). „Þeir dagar“ eru reyndar svo langt í burtu að auðvitað er mest við hæfi að nota gömlu stafsetninguna á lettersbrjefi, með joðinu og e-inu. En til að fyrirbyggja að ég fari að reyna að grafa upp of miklar minningar úr æsku, þá ætla ég að láta útúrdúrnum lokið núna. Enda man ég svo að segja ekkert úr æsku, eða frá unglingsárunum. Til gamans fletti ég þó upp orðinu lettersbrjefi á netinu, og fann þar nýlega færslu, eiginlega alveg nýja (frá 12. júní síðastliðnum), í grein á fréttamiðli, þar sem maður að nafni Jack Daniels skrifar „eitt lítið lettersbréf til frambjóðenda til embættis forseta Íslands“.

Jack Daniels? Verður boðið upp á Jack Daniels á Bessastöðum í kvöld? (Þetta er skrifað daginn sem stórfjölskyldan flyst inn á Álftanesinu. Og ég þekki mann sem fer í boð til Guðna í kvöld.) Verður vínskápurinn loksins opnaður, eftir tveggja áratuga áhugaleysi fráfarandi?

Ég hafði ekkert lítið gaman af þínu bréfi um daginn. Lettersbrjefi. Og gagn. Þú verður samt að virða það við mig að ég mun líklega ekki svara öllum efnisgreinum þess eða punktum. Þegar ég svara tölvupóstum hef ég oftast þá reglu að fara í gegnum þá lið fyrir lið (séu þeir svo langir, sem gerist ekki oft) og svara eftir bestu samvisku; en einhverra hluta vegna finnst mér sú aðferð ekki eiga við þegar maður fær svona bréf eins og ég fékk frá þér, kannski helst vegna þess að flest af því sem þú gerir að umtalsefni finnst mér vera útrætt, og ekki þurfa frekari vangaveltna við. Þetta bréf mitt núna til þín verður engu minna ruglingslegt en hið fyrra. Ég á eftir að fara úr einu í annað. Og aftur til baka. Enda líður mér ágætlega með það, að hlutirnir séu óljósir eða þokukenndir, en samt á auðlæsilegu máli. (Þannig finnst mér að minnsta kosti best að hafa skáldsögur sem ég les eftir aðra: auðvelt að lesa en ekki hlaupið að því að skilja.) Þú ert held ég mun agaðri en ég í því að forma hugsanir þínar. „Þínar,“ segi ég, því varla ertu betri en ég í að forma hugsanir „mínar“ (jafnvel þótt ég sé ekki best til þess fallinn sjálfur). Og ég leyfi mér að láta mér detta í hug að einmitt sá munur á tveimur bréfriturum gefi skrifum þeirra það gildi sem ég held að þurfi að vera til staðar til að réttlæta skrif; að lesendur (og um leið ritararnir sjálfir) geti velt fyrir sér ólíkum röddunum, og hvers vegna þær eru jafn ólíkar og raun ber vitni. (Þú sérð: ég er strax kominn út í móa.)

Þú veltir fyrir þér hvort „rétt“ sé að nota ávarpið „kæri“ þegar við ávörpum hvort annað. Hvort ekki sé nóg að segja bara „sæll“? Eflaust má skilja „minn kæri“ á mismunandi vegu, en ég er sjálfur vanur þessu ávarpi úr verslunarskólanámi mínu, þannig að notkun þess í bréfaskriftum okkar virkar á mig fullkomlega „eðlileg“. Alls ekkert of persónulegt. Ég ímynda mér nefnilega stundum (og hef lýst því yfir í að minnsta kosti einu útvarpsspjalli) að öll mín skrif séu ákveðin tegund viðskipta. Ég veit samt ekki hvort ég á að reyna að útskýra þá skilgreiningu. Mér nægir að vita – eða þykjast vita – að ég sé með henni að réttlæta þá ákvörðun mína fyrir næstum því 40 árum að fara í verslunarnám. Sú ákvörðun er í baksýnisspeglinum afar einkennileg. Skáldsagan sem ég sagði þér frá um daginn að ég væri að skrifa, sú sem fjallar um ekkjuna og son hennar, á rætur sínar að rekja til þeirrar þrjósku minnar að ég verði einhvern tíma á ævinni að skrifa sögu sem nýtir sér form hins staðlaða verslunarbréfs (og þá hef ég aðallega í huga hið enska verslunarbréf). Ég hef gert nokkrar atlögur að því verkefni, en það er ekki fyrr en núna sem það virðist vera að takast. Ég veit að þetta hljómar furðulega, því hvað hefur einhver saga sem fjallar um unga ekkju og son hennar – saga sem þar að auki er í dagbókarformi – að gera með verslunarbréf? Hún hefur það í raun ekki. Það er einfaldasta svarið við spurningunni. Ekki með beinum hætti að minnsta kosti. Það er í henni eitt slíkt bréf (kannski verða þau tvö); en það sem skiptir máli er að hið klassíska verslunarbréf var það element sem ýtti sögunni minni af stað. Á sama hátt og eitt orð fæðir af sér annað. Verslunarskólanám mitt var því ekki algerlega til einskis. Þar fyrir utan lærði ég að vélrita (það voru skemmtilegustu tímarnir – tónlist í mínum eyrum – þegar allur bekkurinn hamraði rafmagnsritvélarnar). Svo lærði ég að lesa ljóð eftir Þorstein frá Hamri, og nokkrar þýskar sagnir, sem að vísu eru að gleymdar í dag. Og ég fékk 2,0 í stærðfræði, 4,5 í bókfærslu, og 4,0 í hagfræði – ég elska að rifja upp þessar tölur. Aðaleinkunn nemandans (eins og það er orðað í prófskírteininu) var III (þriðja einkunn): 5,64. En það nægði. Ég er með verslunarpróf.

En hvert er ég kominn núna? Ég hef verið að tala um bréf. Rithöfundar, og kannski aðallega ljóðskáld, eru oft sökuð um að verk þeirra séu ekkert annað en sendibréf milli skálda. Einhver prívatmál sem komi öðrum ekki hið minnsta við. Auðvitað er alltaf verið að skamma ljóðskáld fyrir hitt og þetta. Ljóðskáld eru aldrei látin í friði, ekki frekar en framsóknarmenn. En þó svo að ég vildi gjarnan koma skáldunum til varnar í þessu tilliti (og mér sjálfum um leið), þá er ekki alveg hægt (ekki alveg 100%) að neita þessum ásökunum á hendur þeim. Ég kannast til dæmis sjálfur við að hafa skrifað nokkur ljóð – og gefið út – sem ekki var ætlað að tala til annarra viðtakanda en þeirra sem þau voru skrifuð til. (Skýrasta dæmið um slíkt ljóð er líklega ljóðið Sendibréfið í bókinni Rómantískt andrúmsloft.) En kannski fer best á því að ljóðskáldin séu ekkert að hugsa út fyrir þann ramma (svo gripið sé til vinsæls orðalags nú um stundir: að hugsa út fyrir rammann), heldur bara skrifa hvert öðru, án þess að hika eða skammast sín fyrir það. Þú nefndir í bréfinu þínu konuna í ljóðsögunni sem „skrifaði ófarir sínar yfir sig“. Ég þykist kannast mjög vel við það vandamál. Og ekki síður annað vandamál tengt því, sem er öllu alvarlegra, nefnilega það að „skrifa ófarir yfir aðra“. Í fyrstu fjórum ljóðabókum mínum (hugsanlega þó bara í nr. 2, 3 og 4) eru ljóð sem vísa til alvarlegra hluta sem gerðust í heiminum eftir að ljóðin voru skrifuð, eða til staða þar sem háskalegir atburðir áttu eftir að gerast, og sem mér fannst að ég hefði með skrifum mínum kallað yfir þá. Ég vil ekki rifja upp hvað þetta var nákvæmlega, eða í hvaða ljóðum þessa „spádóma“ er að finna, því mig grunar að við slíka leit muni ég komast að því að þetta hafi verið eintóm ímyndun í mér.

Best að vera ekkert að tékka á því.

Aftur er ég kominn út á hálan ís hvað varðar umræðuefni. Ég er farinn að bulla. Kannski ætti ég einfaldlega að feta mig eftir stígnum sem þú lagðir í bréfinu þínu, og nota þá aðferð sem ég lýsti fyrir þér í sambandi við tölvupóstinn. En geri ég það, þá mun ég ekki gera það lóðbeint, eins og þú orðaðir það svo skemmtilega. (Ég á reyndar frekar von á að ég geri það sljóbeitt.)

Óneitanlega kitlaði það (og nærði) hégómagirnd mína að þú skyldir vilja kalla heildarsafn verka minna (að mér látnum) Fjarveruna. Og mér fannst í fínu lagi, og alls ekkert óþægilegt, að þú sæir mig fyrir þér látinn (ég geri það oft sjálfur); og ég held líka að það sé ekkert að því (þótt þú haldir annað) að nota titilinn Fjarveran yfir heildarverkið (stórbókina?), jafnvel þótt ein bókin innan þeirrar útgáfu myndi líka kallast Fjarveran. Mér finnst að höfundar eigi að gera meira af því að nota sama titilinn aftur og aftur, að minnsta kosti í óeiginlegri merkingu. Auk þess held ég að líkamleg fjarvera mín (þegar þar að kemur) verði ekki svo áberandi að minningu nafns míns veiti ekki af tveimur bókum í hillum landsmanna sem bera titilinn Fjarveran. Nú stenst ég reyndar ekki freistinguna að rifja upp annað orðasamband sem vinur minn Eggert kenndi mér, sá sami og sagði mér frá orði Megasar, sljóbeittur. Þú kannast eflaust við þetta, en Eggert sagði mér frá manni sem hafði þau orð yfir annan mann að hann „hefði svo þægilega fjarveru“. Á meðan ég skrifaði skáldsöguna Fjarveran hugsaði ég mikið um hvort ég ætti að láta eftir mér að nota þessa snjöllu mannlýsingu, en til allrar hamingju (finnst mér núna) stóðst ég þá freistingu. Að vísu kemur orðið fjarverandi fyrir í textanum, en það er alls ekki sama orð og fjarveran.

Þú þakkar mér fyrir að minna þig á bók sem lúrir í hillunni hjá þér. Mér finnst auðvitað mjög gaman að geta bent fólki á bækur í bókaskáp þess, án þess að hafa nokkurn tíma komið inn á heimili þess. Ekki síst þegar um er að ræða jafn fínar bækur og bækur Thomasar Bernhard. Jú, það er stór misskilningur að bókin Steinsteypa sé strákabók. Ég ímynda mér að einhverjum finnist ég vera óskaplega tilgerðarlegur þegar ég lýsi því yfir að bækur Thomasar Bernhard séu kvenlegar (frekar en hitt); en þannig upplifi ég bækur þessa merka (og makalaust fyndna) höfundar mjög sterkt. Allar hans kvartanir yfir umhverfi og samferðafólki – hvernig til dæmis sögumaður Steinsteypu barmar sér yfir yfirgangi systur sinnar, og hennar einbeitta vilja til að koma í veg fyrir að hann geti skrifað bókina sína um Mendelssohn – hefur ekkert með „strákabókmenntir“ að gera. Þetta er miklu fínlegra en það (án þess ég viti alveg nákvæmlega hvað strákabókmenntir þýðir). Hefði ég aldrei lesið neitt eftir Thomas Bernhard, en væri þó meðvitaður um hvað hann stæði fyrir (hvað stæði í bókum hans) – eins og ég hefði í raun lesið allar þær bækur eftir hann sem ég hef lesið, án þess að hafa lesið þær – þá liði mér eins og hálfum manni – ein halber Mensch. Svo er auðvitað hitt (sem hefur ekkert með Thomas Bernhard að gera): að mér líður oftast eins og hálfum manni. Ætli sú sé ekki ástæðan fyrir því hversu gaman mér finnst – og gott – að skrifa; að ég ímyndi mér að með því að skrifa verði ég heill maður – eða manneskja?

Ef ég væri þú, þá myndi ég lesa þessa bók sem þú átt í hillunni þinni. Thomas Bernhard er ábyggilega einn hættulegasti höfundur sem aðrir höfundar lesa, í þeim skilningi að erfitt er að verða ekki fyrir áhrifum frá honum. En það er alveg þess virði að taka áhættuna. Þú sagðir að sá sem skrifaði yrði að gæta að sér, því skrif væru birtingargaldur; en maður þarf ekki síður að passa sig þegar maður velur sér lesefni. Hvort sem sú „djúpa“ viska mín hafi eitthvað með eftirfarandi að gera, þá ætla ég að vera óskaplega hallærislegur núna, í lok þessa ómarkvissa spjalls – því nú verð ég að fara að setja punkt; ég þarf að keyra gamla konu út á Keflavíkurflugvöll, og í framhaldi af því langar mig til að fylgjast með nýkjörnum forseta verða forseti – og ég ætla að vitna í nokkrar línur úr ljóðinu sem ég minntist á áðan, Sendibréfinu. Þær línur koma úr p.s.-inu (því auðvitað er p.s. í bréfinu) – ég hef þetta innan gæsalappa:

„Það er verið að fylgjast með okkur ofan frá. Ég veit það vegna þess að þegar maður horfir af brúnni er eitthvað á bláum himninum sem líkist auga. Það líkist helst lokuðu auga, en lokað auga táknar einungis eitt: það er verið að hlusta.“

 

Kær kveðja,

Bragi

ps. Til að reyna að vera „heill“, svona rétt í lokin, þá verð ég að játa að ég skrifaði þetta bréf ekki „í einni setu“, eins og þú orðaðir það í sambandi við þín skrif. Ég reyndi eflaust að láta líta út fyrir það; en það er bara það sem maður gerir allan daginn: maður þykist.

 

~

 

Mosfellsbær

Á fyrstu vikum ágústmánaðar 2016

 

Minn kæri Bragi,

bestu þakkir fyrir lettersbrjefið. Það orð hafði ég aldrei heyrt áður en mun framvegis reyna að koma því sem oftast að, hvort sem er í ræðu eða riti. Alveg superbe! Og alveg er það merkilegt að þú minnist á þetta með kommuna á eftir ávarpinu og lágstaf þar á eftir! Sjálf var ég að vandræðast með þetta við ritun síðasta bréfs og hugsaði með mér að ég yrði að fara að koma mér niður á hvernig ég ætti að hafa þetta framvegis. Af einhverjum slóðaskap, sem annars er ekki einkennandi fyrir persónu mína, hef ég aldrei tekið um það almennilega ákvörðun hvorn háttinn ég vilji hafa á og geri því til skiptis. Sem er plebbalegt. En ég ákvað að halda þessu óbreyttu frá því síðast – sér í lagi þar sem þú gerir það sjálfur – til að gæta samræmis. Að vera samkvæmur sjálfum sér er ágætis vani. Í það minnsta fyrir þann sem vill vera eða virðast „heill“.

Þú afsakar að ég tók mér nokkurn tíma til að svara. Hér rekur allt á reiðanum. Síðustu vikur, frá því ég snéri heim eftir nokkra vikna dvöl í heimabæ mínum, borg ástarinnar og ufsagrýlanna, hef ég ætlað mér að gera eitt og annað, hugsa jafnvel ýmislegt til enda og komast að niðurstöðum í mikilvægum málum tengdum lífi mínu og list, en ekkert orðið ágengt sökum veðurs. Dag eftir dag er ekki nokkur friður fyrir sólarljósi. Yfirleitt þarf maður ekki, sem íbúi þessa lands, að velkjast í vafa um hvar maður sé staddur; efst á toppi bláu spiladósarinnar, þeirri er snýst um möndul sinn; þar sem vaxa engin kirsuberjatré og fólk á stöðugt von á næstsíðustu snjókomunni (skilgr. mín). En upp á síðkastið hefur maður hreinlega spurt sig. Það er með ólíkindum hvernig ég er orðin á litinn!

Þar sem þitt síðasta bréf felur ekki í sér sérstaka spurningu eða tiltekið þema tek ég við keflinu þar sem þú lagðir það allt að því tilviljanakennt frá þér og leyfi mér að flæða sem leið liggur inní hver þau frjálsu hugrenningartengsl er kunna að kvikna við lesturinn. Í því flæði hnýt ég fyrst um verslunarbréfið. Ég veit ekki hvað verslunarbréf er. Og hef ekki af því teljandi áhyggjur. Það sem aftur á móti vekur með mér áhyggjur, og vakti reyndar þegar ég las bloggið þitt nýlega, er sú staðreynd að þú sért yfir höfuð með þetta verslunarpróf. Reyndar veit ég ekki heldur almennilega hvað því prófskírteini fylgir en finnst það engu að síður einhvern veginn ekki ríma – hvorki sem endarím né innrím – við störf þín og persónu. Í allri hreinskilni þykir mér þetta út úr öllum kortum! En ég gleðst engu að síður innilega yfir einkunnum þínum í stærðfræði og hagfræði. Ég hef alltaf sagt að lélegar einkunnir í þessum tilteknu fögum séu sterk vísbending um næmi og góða greind. Ef ekki hreinlega manngæsku. Sjálf státa ég af svipuðum einkunnum á þessum sviðum. Mínar eru bara aðeins lægri.

Þetta með verslunarprófið sló mig næstum jafnmikið og það að þú fylgist með fótbolta – svo ég haldi áfram á þessum nótum undrunar og uppgötvana í tengslum við lestur á blogginu þínu (sem ég les oft og mikið – svo oft og mikið reyndar að lestur þess virðist vera að taka yfir lesturinn á bréfi því er ég þykist vera að svara – talandi um prívatblaður höfunda!). Í fyrstu hélt ég reyndar að þú værir að ljúga þessum knattspyrnuáhuga uppá sjálfan þig. Myndin af þér sitjandi fyrir framan sjónvarp að horfa á fullorðna karlmenn í boltaleik framkallast svo óskýrt í huga mínum að mér liggur við að segja að hún sé mér fjarverandi (svo ég grípi til orðs sem hefur farið okkar á milli áður). Sjálf vandaði ég mig við að láta þetta fótboltamót framhjá mér fara og tókst það með ágætum. Jafnvel þó ég væri stödd nánast allan júnímánuð í því landi þar sem það fór fram. Ég einfaldlega afber ekki samkomur þar sem fólk málar fána á andlitið á sér. Enda er ég alltaf erlendis á þjóðhátíðardaginn. Það algjört prinsipp.

En nú hætti ég þessum blammeringum. Þetta nær engu tali hvernig ég haga mér! Þess í stað held ég að ég vindi mér að því efni sem ég, í upphafi þessa pennavinskapar, átti hálft í hvoru von á að yrði mál málanna. Tónlist. Þú minntist reyndar stuttlega á það í þínu fyrsta bréfi að þú kæmist næst því að vita hver þú værir þegar þú hlustaðir á vissa tónlist. Ég viðurkenni að það voru nokkur vonbrigði þegar þú fórst ekki dýpra í þessa sálma og þá sérstaklega að þú skyldir ekki nefna nánar hvaða tónlist veki með þér svo sterka tilfinningu fyrir sjálfum þér. Ekki að það skipti öllu máli. Á mínum ráðvilltustu augnablikum, þegar mér hefur þótt sem þungi himinsins hvíli milli brjósta minna, veit ég ekki hvernig mér hefði reitt af hefði ég ekki haft tónlist mér til halds og traust; hún er mitt leiðarljós og lausnari; sproti minn og stafur við hverja fótaferð og náðagöngu. Í því samhengi langar mig að segja þér sögu. Því miður verð ég að skáletra sögnina langa því sannleikurinn er sá að ég get það ekki. Ég man hana ekki ennþá. Þegar ég segi ennþá meina ég ekki beinlínis að ég hafi gleymt henni. Mér þætti réttara að segja að hún hafi ekki enn rifjast nægilega vel upp fyrir mér. Líkt og draumur sem maður reynir að ná í skottið á í svefnrofunum en smeygir sér alltaf undan og hverfur mjúklega inn í ranghala hugans þar sem hann blandast öðrum draumum, minningum um tiltekna birtu og ljóðum sem maður lærði utan að í bernsku. Samt er sagan ekki draumur. Um það er ég viss. Hún gerðist. Jafnvel þó hún birtist í minni mínu líkt og draumur; sveipuð í mörg lög af dökkum blæjum sem blakta í andvara hugsana minna, næfurþunnar og hálfgagnsæjar, flettir frá og feykir jafnvel burt einni og einni en aldrei meir en svo að rétt glitti í það sem undir liggur. Þetta er að gera mig brjálaða. Ég hef reynt allt mögulegt til að laða þessa sögu fram á þau svæði heilans þar sem hún gæti framkallast í heild sinni; sem fjórvíður heimur í raunstærð og lit og hljómi. Ég hef leitað á náðir spákvenna og sjáanda, sálfræðinga og látinna skálda, eitt sinn sætti ég langri meðferð hjá dáleiðanda, daglega iðka ég flókin jógaflæði sérlega ætluð til að losa um stíflur milli heilahvela og orkustöðva auk þess að fasta og stunda víxlböð og hugleiðslu, en allt ber það að sama brunni, öll mín leit fær endi í sömu blindgötunni, strandar á sama skerinu; sama hvað ég geri þá kem ég ekki fyrir mig hvaða lag það er sem ómar í bakgrunni sögunnar. Og eins og ég veit að þú veist, vinur minn, þá er tónlist allt þegar kemur að því að segja sögu.

Hér lægi auðvitað beinast við að biðja þig um aðstoð, þú svona líka sprengmenntaður maður í mússssík (satt að segja örkumlast ég alveg úr minnimáttarkennd þegar þú talar um tónlist á blogginu þínu, hvílíkur plebeus maximus sem maður er!). En sannleikurinn er sá að þetta lag er mér svo utan seilingar að þó ég glöð vildi gæti ég ekki einu sinni raulað fyrir þig meginstefið sem liggur í gegnum það, jafnvel þó það ásæki mig í draumi jafnt sem vöku. Það eina sem ég get sagt með einhverju í áttina að efablandinni vissu er að þetta sé gamalt dægurlag, leikið á fiðlu í tangóútsetningu en upprunalega sé lagið úr ættbálki djassins. Þetta er auðvitað mjög almenn lýsing. Í sjálfu sér lýsir hún engu. Og ég veit ekki hvort ég þrengi hana eða víkka ef ég bæti því við að það sem helst einkennir þetta lag er tær en þungur tregatónn, aðeins greinilegur þeirri konu sem um of langt skeið hefur elskað rangan mann. Lagið berst mér til eyrna líkt og neðan úr vatni, líkt og sá sem á hljóðfærið leiki sé á gangi í stilltu djúpi. Við og við lætur hann sig fljóta upp að yfirborðinu, sjálfsagt til að draga andann, og um leið og hann fyllir lungun lofti sleppa frá honum nokkrir tónar, lítið stef sem rétt nær að gára bifhárin í kuðungum eyrna minna áður en laglínan drukknar aftur og týnist mér.

Svo þú sérð að ég get alls ekki sagt þér þessa sögu. Nema að mjög litlu leyti. Ég er ekki einu sinni alveg viss um hvenær hún gerðist. Einhvern tímann í öðru lífi líklega en þó í mjög nálægri nútíð, svo nálægri meira að segja að enn má, í tiltekinni vindátt þegar ljósaskiptin gerast svo snögglega að maður á aldrei von á þeim fyrr en um seinan, finna frá henni sterka og auðþekkjanlega angan; keim af brenndri salvíu, kertavaxi og einhverju sem minnir á blautan við. Ég held að ég hafi búið í bárujárnshúsi á þessum tíma í grennd við lítið stöðuvatn sem ég get engan veginn munað hvað heitir. Mér finnst eins og líf mitt hafi verið fremur hversdagslegt og tilfþrifalítið þar til einn daginn að eitthvert undarlegt utanaðkomandi afl byrjaði, af ástæðum sem aldrei urðu að fullu kunnar, að trufla orkusviðið í kringum húsið mitt með þeim afleiðingum að allt innanstokks var svo hlaðið rafmagni að maður mátti ekkert snerta öðruvísi en straumur hlypi eftir líkamanum endilöngum. Þetta var agalegt ástand. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig þetta fór með taugakerfið. Svo ekki sé minnst á þurrkinn sem fylgdi þessari rafmögnuðu tilveru. Ég svo gott sem lá undir krananum allan liðlangan daginn en var engu að síður síþyrst og skraufaþurr eins og pottaplanta í miðri eyðimörk; við minnstu hreyfingu sáldruðust af mér húðflögurnar og settust sem fíngert ryk á milli gólffjalanna, neglurnar flögnuðu upp frá naglabeðunum og hárendarnir klofnuðu einn af öðrum svo tvö hár urðu til úr því sem áður var eitt og eitt, koll af kolli þar til hár mitt hafði breyst í fíngerðan flögrandi hjálm sem engin leið var að eiga við eða hemja. Það var sama hvert ég leitaði mér aðstoðar, rafvirkjar og læknar voru allir jafn ráðþrota gagnvart vandanum. Það eina sem þeir gátu ráðlagt mér var að láta vatn flæða yfir gólfin og skipta öllum málmi út fyrir við. Sem þýddi að ég þurfti að klæða húsið að utan upp á nýtt og láta mig hafa það að vaða vatn upp að ökklum alla daga svo tær og iljar fór að minna óþægilega mikið á truflusveppi, mjúka og bólgna eftir haustrigningar.

En eins og ég segi þá man ég þetta ekki skýrt. Líkt og í þínu tilviki er minni mitt afar vafasamt. Þannig að kannski var þetta ekki nákvæmlega svona. Að muna er ómögulegt. Það er sem ég segi; skáldskapur er eina leiðin til að ná fram einhverju í átt að heillegri mynd af sjálfum sér. Ég veit bara að það er nauðsynlegur þáttur tilverunnar að ljúga því alla daga að sjálfum sér og öðrum að maður hafi verið og sé yfir höfuð til. Eða eins og þú orðar það svo skemmtilega, að þykjast.

Þú sérð að ég er komin með þér út í móa. Þangað fer ég reyndar oft og yfirleitt kann ég ágætlega við mig á þeim slóðum. Persónulega finnst mér samt alltaf betra að geta áttað mig á hvernig ég komst þangað. Eftir að ég byrjaði í meðferðinni sem á að breyta í mér heilanum (kannski ég deili því með þér að það hafa orðið hreint undraverðar framfarir í innra lífinu!) geri ég einmitt æfingar daglega til að þjálfa huga minn í að vera fyllilega meðvitaður um það þegar hann heldur í humátt á eftir sjálfum sér út í móa. Með þessu móti finn ég fyrir auknum tilgangi með veru minni þar. Og get vandræðalaust rakið mig til baka. Það er nefnilega munur á því að sjá eitthvað óskýrt, til dæmis tré, þegar maður horfir á það einbeittur í gegnum þykka þoku, og því að greina þetta sama tré óljóst þegar maður fer á fleygiferð framhjá því hlaupandi. Ég veit ekki alveg hvað ég er að fara með þessu en þetta er mikilvægt.

En nú vona ég að ég hafi ekki gengið algjörlega fram af þér. Allt verður þetta að lesast í ljósi þess að ég er með stóra kúlu á enninu eftir harðan árekstur við húsgagn og að afmælið mitt nálgast óðfluga. Mig langar dálítið að bjóða þér í veisluna en finnst það samt ekki alveg viðeigandi að því athuguðu hversu lítið við þekkjumst. Kannski fæ ég smásögurnar þínar í afmælisgjöf. Eða ljóðin hennar Ewu Lipsku. Það yrði heldur betur skemmtilegt! Þá dettur mér reyndar í hug að eitt sinn hélt ég fyrirlestur um ljóðin þín í háskólanum. Þegar ég segi ljóðin þín á ég við heildarverkið (the entire body of work). Fyrirlestur er kannski full umfangsmikið orð þegar ég hugsa út í það, kynningarspjall væri kannski nær, það skiptir ekki öllu hvað við köllum það, það sem ég verð að freistast til að segja frá er að það var einmitt í því spjalli sem ég kom sérstaklega inná ljóðið þitt Að loknu sumri sem ég impraði einhvern tímann á við þig að mér þætti skýr fyrirboði um síðustu skáldsögu þína, Sögumanninn. Þarna vil ég meina að þú hafir með ritun þessa ljóðs „skrifað síðustu skáldsögu þína yfir þig“, svo ég komi inná það aftur að öll skrif séu birtingargaldur. Þetta var ljómandi skemmtilegt og ekki síður skemmtilegt að geta slegið þessu hér fram og þannig sýnt fram á yfirgripsmikla þekkingu mína og innsæi í lestri bókmenntatexta of value.

En. Þetta er ekki nokkur hemja hvernig veður á mér. Og ég sem er ekki einu sinni byrjuð að þeyta hvíturnar í Pavlovuna fyrir afmælisveisluna á morgun. Nú dettur mér í hug að segja eitthvað um afmælisveislu Pinters en ég ætla að sleppa því. Læt nægja að segja að ég sé nokk viss um að mín verði eilítið minna ruglingsleg. Ég ætla að hafa blöðrur með Pavlovunni. Og glimmer. En áður en ég kveð verð ég að koma einu að, lokahnykknum á ljóðaspallinu hér ofar, og birta the sensation of the day:

 

God speaks to each of us as he makes us,
then walks with us silently out of the night.

These are the words we dimly hear:

You, sent out beyond your recall,
go to the limits of your longing.
Embody me.

Flare up like a flame
and make big shadows I can move in.

Let everything happen to you: beauty and terror.
Just keep going. No feeling is final.
Don’t let yourself lose me.

Nearby is the country they call life.
You will know it by its seriousness.

Give me your hand.

 

(R. M. Rilke. Book of Hours, I 59)

 

Þín einlæga vinkona í skáldskap og veruleika,

H

 

Ps. Þakka þér enn og aftur fyrir að spyrja ekki nánar út í þetta með bílferðina frá Selfossi. Þar er ekkert að ræða. Ekki nokkur hlutur.

 

~

 

Skildu eftir svar / athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s