Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands

Hið háleita slím og röddin á bókasafninu

Skrifa athugasemd

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

Uppsala, 3. september 2016

 

Kæra Kristín,

 

Nú kemst ég loksins í að skrifa þér bréf og mikið er það nú gaman. Hér hefur hversdagurinn blandast ofurlöngu sumarfríi því börnin mín fengu ekki skólavist í nýju landi fyrr en núna. Í næstu viku byrjar sem sagt hjá okkur vetrar-rútínan með öllum sínum yndislegu reglum og römmum. Núna eru krakkarnir í herbergjum sínum að leika sér, hvort með sínum hætti. Úr herbergi sonarins heyrast iðulega skemmtileg hljóð eins og skothljóð og söngur. Rétt áðan sönglaði hann einkennislag evrópskra sjónvarpsstöðva og stundum sönglar hann auglýsingastef eða lög úr barnaþáttum eða laglínur úr lögum sem við höfum verið að dansa við af jútúb. Á stofuborðinu er risaeðla sem hefur dottið á höfuðið við hliðina á umsóknareyðublaði til sjúkratrygginga Íslands. Ég hef ekki tölu á umsóknareyðublöðunum sem ég hef fyllt úr undanfarnar vikur. Til að geta klárað þetta tiltekna eyðublað vantar mig staðfestingu frá þjóðskrá. Yfirleitt eru svona eyðublöð voðalega sniðug að biðja um önnur eyðublöð eða staðfestingar frá öðrum stofnunum og þannig  geta stofnanirnar talað saman í gegnum þann sem fyllir út eyðublaðið. Fyrrum samstarfsfélagi minn sagði mér einu sinni frá því að í gamla daga starfaði maður hjá ríkinu sem bar starfstitilinn ,,eyðublaðasérfræðingur”, það þótti mér gaman að heyra. Eflaust var þetta fyrir tölvuvæðinguna miklu og þá þurfti sér starfsmann í að passa upp á dálkana. Ætli einhver hafi búið til listagjörning þar sem þátttakendur þurfa að komast í gegnum rýmið með því að fylla út alls konar eyðublöð og svo blikka rauð ljós ef þau fylla blöðin út vitlaust? Nei, það væri ekki nógu skemmtilegt og í raun of realískt. Á hverjum degi dett ég ofan í skáldsögu eftir Kafka, þannig er það nú bara. En risaeðlan er á borðinu og skapar mikilvægt mótvægi við eyðublaðið.

Hér eru trén svo mörg svo falleg; stór og mikilfengleg að við hvert fótmál eru tré sem hljóta að vera goðsöguleg. Ég er alltaf að ramba á nýtt og nýtt tré þar sem ég tek andköf og álykta: ,,Þetta er goðsögulegt tré, hér er kominn askurinn mikli!” Hér um slóðir er líka stórgrýtt og á mörgum stöðum stórar jökulsorfnar klappir. Þetta bíður upp á einstakt samspil steina og róta. Á nokkrum stöðum hafa laufin skipt úr grænu yfir í gult. Það virðist fullkomnlega handahófskennt hvaða lauf verða gul og hver ekki. Stundum er eins og haustguli liturinn hafi sópast yfir örfáar greinar og látið aðrar í friði. Það er byrjað að kólna og umbreyting framundan. Nýir tískulitir eru væntanlegir. Um daginn ákváðum við að breyta hjólaleiðinni örlítið og rákumst þá á nálægan garð sem kallast Musikparken en þar eru alls konar leiktæki fyrir börn og íþróttavellir. Þar birtist tré 34. viku sem fær hér formlega lýsingu.

tre-34-viku

Tré 34. viku er stórt birkitré sem stendur beint upp af steinklöpp. Ræturnar ná að hlykkjast ofanjarðar niður í mold sem er upp við steinklöppina. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig þessu tré tókst að hreiðra um sig á miðri klöpp en skríða samt niður í mold sem er talsvert í burtu. Ég spái því að það hafi byrjað í moldinni en síðan skriðið upp á steininn, kannski af því að af steininum er betra útsýni yfir músíkgarðinn með öllum sínum krakkaskörum. Ég ræddi þetta við vin inn sem vill meina að fræið hafi byrjað á klöppinni og ræturnar leitað niður eftir meiri næringu. Það er alltaf jafn merkilegt að fá að sjá rótarkerfið og hér er víða rætur sem gægjast upp úr mold á ferð sinni um djúpið. Kannski er hægt að skipta öllum trjám í tvær gerðir: þau sem sýna rætur og þau sem fela rætur. Á sama hátt eigum við þessar tvær manngerðir og jafnvel innan lífkerfis einnar manneskju skipast á tímabil þar sem rætur fá ýmist sólarbirtu eða moldarmyrkur. Hormónar og dulvitund stjórna því síðan hvaða tímabil ríkir hverju sinni.

Ég var rétt í þessu að taka brauð úr frystinum. Enn eitt hádegið fáum við okkur drykkjarjógúrt og brauð. Síðan (trommur) vaska ég upp. Svo þarf ég að hjóla út í Gottsunda centrum og kaupa snakk og gotterí fyrir kvöldið. Gottsunda centrum er sér kapítuli sem ég þarf að segja þér betur frá seinna. Í kvöld ætlum við að hitta aðra Íslendinga til að borða krabba og ost og syngja drykkuvísur sem er víst einhver sænsk hefð sem ég veit ekkert um. Ég bæði hlakka til þess að hitta hóp af Íslendingum og kvíði því líka því það er orðið svo langt síðan ég hef hitt hóp af fólki. Reglulega efast ég um félagsfærni mína en það er líka allt í lagi því ég veit ég er ekki ein með flókna komplexa, held að galdurinn liggi í því að láta komplexana ekki stjórna ferðinni, hlusta á þá en taka ekki alveg mark á þeim. Ég man að þú nefndir það í síðasta bréfi hvað þér fannst gaman að sjá gamalt fólk á ferðinni í Danmörku. Það sama henti mig þegar ég kom hingað fyrst. Hér eru gamlingjar út um allt á ferðinni með öflugar göngugrindur sem eru með breiðum dekkjum og jafnvel körfu. Hér eru líka gamlingjar sem hjóla um allt. Meðalhitinn stjórnar þessu örugglega að einhverju leyti en ég held að það sé mjög alvarleg staða ef við erum hætt að sjá gamalt fólk á rölti um Reykjavík, að þar fari bara um hressir skokkarar og reiðhjólamaníumenn og túristar sem sveifla seðlum. Á Íslandi hýrumst við of mikið í bílum og nennum oft ekki að labba og þá verður áfallið ennþá meira þegar eldri borgarar hætta að geta keyrt. Á Íslandi er það að keyra bíl of mikið tengt allsherjar frelsi og virðist eina ferðafrelsið sem er í boði, þar spilar inn í bæði veðurfar og metnaður í almenningssamgöngum. Nú þarf ég að leggja á borð og týna til hádegismatinn og hlakka til að fá bréf frá þér. Hvað varstu annars að gera á jógadýnu í Skipholtinu?

 

Adios og ciao og bæjó,

Bjarney

 

~

3. september, 2016

 

Kæra Bjarney,

 

Til hamingju með september og takk ágúst fyrir hlýjuna, sólina og berin. Takk pennavinur fyrir bréfið og teikningarnar (þá sem þú drógst og þá sem þú skrifaðir), takk tré fyrir að vera tré vikunnar og takk allar fínu sænsku skissubækurnar sem búnar hafa verið til frá upphafi.

Hvernig brögðuðust krabbinn og ostarnir?

Þetta yrði æðislegur gjörningur! Ég lofa því.

Nú er haustið að koma, þrestirnir byrjuðu fyrir nokkrum dögum að gæða sér á rauðu berjunum á trénu í næsta garði, eftir matinn sungu þeir, einsog sonur þinn í herbergi sínu hjá leikföngunum. Það er best ég byrji þar sem bréf þitt endar: ég veit ekki hvað ég var að gera á jógadýnunni þannig lagað en ég gekk þangað uppeftir í morgun og settist á þessa dýnu, fylgdi fyrirmælum kennarans sem hreyfir sig einsog balletdansari afþví hann er balletdansari líka, svo mig langaði að fá að sjá betur hreyfingar hans en var á dýnu aftast í salnum, margir hausar og skrokkar fyrir. Götuheitið kann að vera rangt.

Á heimleiðinni keypti ég brauð sem mun endast til miðvikudagskvölds.

Næstum því viku síðar

Kæri pennavinur,

Ég henti brauðinu í gærkvöldi og í morgun henti ég úr krukkum gömlum mat. Í gær eldaði ég indverskan baunarétt, stóra uppskrift, nóg til af mat í dag. Það kostar stundum um átta þúsund krónur að fara í matvöruverslun. Hef farið þrisvar í búð í þrítugustu og sjöttu viku, í eitt skipti keypti ég mat í marga maga, í eitt skiptið kostaði ferðin þrjú þúsund. Svo hef ég náð í lauslegt: mjólk í kaffið. Ég drakk ekki kaffi í mörg ár, fyrr en í vor, og neyslan eykst – fyndið að nota orðið: neysla – ég hef aldrei gerst sek um neyslu fyrr en á þessu augnabliki. Kaffineysla! Kaff- neysla! Er það móðgun við kaffi að kalla tignun þess neyslu? Orðið neysla meiðir málsverðina í heiminum, allar nautnir heims. Afsakaðu kaffibaun fyrir að vera notuð hér til að sýna fram á fátækt í menningu sem kallar nautn neyslu. Kaffið í morgun var yndislega gott enda er ég með góða könnu í láni og gott kaffi sem vinur systur minnar benti mér á að kaupa.

Hm, já, ég vil ræða um meyjarhaftið og hreinar meyjar. Það væri aldrei klippt á borða fyrir framan nýja vegi ef ekki væri fyrir meyjarhaftið, það er fyrirmyndin, þökk sé þessari himnu. Elsku besta meyjarhaft. Ég tel að stjórnmálakonur ættu að vera hreinar meyjar, búa í klaustrum og hugleiða tíu prósent af tímanum. Lýðræðið ætti að krefjast þess þær væru ólofaðar og gengju ekki erinda spilltra eiginmanna. Kona er í eðli sínu hrein. Hún hefur ekki frelsi til að óhreinkast og spillast. Myndi hún ýta á takkann: Endir heimsins? Hún hugsar um börnin. Myndi karl ýta á takkann? Hann hugsar minna um börnin. Konan er hrein þangað til hún missir meydóminn. Móðir er guðleg vera. Þessi klaustur væru ekki guðstýrð og þar færi ekki fram neysla heldur væri borðað og drukkið og vonandi nóg til af mat, hænum og geitum og grænmetislóð í garðinum. Þær – Alþingiskonurnar – mættu eiga börn. Núna er loksins hægt að vera hvort tveggja hrein mey og móðir. Líklega væri allt í lagi þó Alþingiskarlar viðhefðu ekki skírlífi á meðan á þingsetu stæði, færu á strippbúllur eftir vinnu, eðli þeirra er óhreint, breyskleiki fer körlum betur en konum. Kannski ættu þeir þó einnig að hreinsa sig og dvelja í klaustri sem byggt væri við hliðina á Alþingishúsinu þar sem áður stóð búlla.

Ójá, nú fara kosningar í hönd einsog heyra má í morgunútvarpinu. Í gær mímaði Justin Bieber í Kópavoginum. Það hefur verið hitabylgja í Reykjavík það sem af er septembermánaðar. Farfuglarnir kveðja þegar byrjar að rigna og regntímabilið hófst í gær. Borgin var orðin ansi þurr.

Í sumar hafa flust nýir flækingar út, nýjum andlitum bregður fyrir í miðbænum og stinga í stúf – og þó ekki – við túristana sem flestir klæðast útilífsfötum. Túristi fer til Spánar til að klæða sig í stuttbuxur, fleginn bol og tátiljur. Túristi kemur til Íslands til að klæða sig í vatteraðar úlpur, fjallgönguskó og vindþéttar buxur. Gamla fólkið í Barcelona hefur aldrei verið sérstaklega hrifið af fáklæddu fólki á göngu á Römblunum, því þykir það ósiðlegt, sóðalegt, móðgun við borgarbrag. Hér er – einsog við ræðum – ekkert gamalt fólk á götum úti til að gagnrýna útganginn á borgurunum. Er það móðgun við borgarbrag að fara í fjallgönguskóm niður í Austurstræti? Alþingi ætti e.t.v. að taka þetta mál fyrir og banna fjallgönguskó í miðbænum.

Elsku pennavinur, ég læt hér staðar numið að sinni. Góða skemmtun í útlandinu!

 

Adios og ciao og bæjó,

k

P.s.

Fór á bókasafnið eftir að ég skrifaði bréfið að skila bókum og endurnýja tímabilin. Bókavörðurinn er yndislegur niðri í Kvos. Þarna hitti ég hjón. Konan var líka að skila og endurnýja tímabilin, hún er með fallega rödd og ég vonaði hún mundi tala meira og óskin rættist, hún fór að tala um rafbíla: afhverju er enginn flokkur fyrir kosningarnar að tala um afnám tolla á rafbílum einsog Norðmenn gera? Afhverju talar enginn um kvótakerfið? Haltu áfram að tala, bað ég. Hún vitnaði í mann sinn og spurði svo afhverju væri ekki inntökupróf inná Alþingi? Við bókavörðurinn vissum það ekki og ekki heldur þau. Haltu áfram að tala, bað ég. Hún bað mig um að lesa bókina Hin þöglu tár.

Meira p.s.

Hefurðu kynnt þér nýju reglurnar um stóra og litla stafi?

Enn meira p.s.

Á ég að skrifa bók um meyjarhaftið? Meyjarhaftið fyrr og nú?

Enn og enn meira p.s.

Veit svosem hvað ég var að gera á dýnunni: reyna að róast, held ég.

Sit á kaffihúsi í druslulegum fötum, get ekki látið sjá mig svona í bænum. Föst. Pass.

 

~

 

15. september 2016

 

Kæra Kristín,

 

Afsakaðu margfaldlega seinaganginn á mér við bréfaskrifin. Ég hef enga haldbæra afsökun og skil sjálf ekkert í mér að hafa ekki dempt mér í bréfið fyrir löngu síðan. Takk fyrir bréfið þitt og þá mörgu þræði sem þar birtast og mig langar að taka upp og spinna áfram. Hér hefur líka verið hitabylgja og hitinn nær upp á 20 gráður á hverjum degi og reglulega hrópa ég upp yfir mig: ,,Sjáið krakkar, við erum á bolnum, sólin skín og það er september!!!! Hugsið ykkur það er september og við erum að bráðna!!!”

Meyjarhaftið hefur lítið verið í umræðunni og gott að heyra að þú hugsar um það fram og til baka. Vonandi skrifar þú bók um það og tengsl þess við klaustur og alþingi og alls konar. Meyjarhaftið birtir stjórnsemi maskúlínsins yfir feminíninu í gegnum aldirnar, nú á dögum er stjórnsemin lúmskari, skríður undir og hreiðrar um sig í dulvitund og forritunarkóðum í frumunum. Góð vinkona mín er andlega þenkjandi og hefur prufað alls konar andlegar leiðir og ég varð óbærilega glöð þegar hún vakti mig til umhugsunar með þessum orðum sínum (umorðað því ég man ekki nááákvæmlega rétta orðaröð): ,,Þegar þau fara að skipta sér af því hvað maður gerir við klofið á sér þá þarf maður að koma sér í burtu. Í alvöru talað, sko!” Mig minnir að hún hafi verið með tyggjó þegar hún sagði þetta og það fékk að blandast orðunum í örum tuggum. Ég veit þú sérð þetta alveg fyrir þér. Já, ég hafði ekki séð áður samhengð á milli meyjarhaftsins og þess að klippa á borða, auðvitað. Hér um slóðir (hef ég heyrt) eru margir ginkeyptir fyrir orðum og borðum sem fólk ber við hátíðleg tækifæri, mjög merkilegt fyrirbæri, merkileg þörf þykir mér, en það er annað mál. Meyjarhaftið minnir mig á himnur og reyndar líka slím. Himnur eru svo merkilegt fyrirbæri, lífhimna, sé fyrir mér glæra himnu sem gæti verið poki sem er rosalega sterkur en hægt að rjúfa sé vilji til þess (meðvitaður eða ómeðvitaður). Svo er slímið annað fyrirbæri sem við höfum úthýst útvortis hluta líkamans, slímið á helst alltaf að vera innvortis eða í ruslinu. (Samt berum við á okkur krem í gríð og erg sem eru kannski bara jurtaslím). Ég held við þurfum sem samfélag að taka slímið betur í sátt, leyfa því að sjást utan á okkur, leyfa okkur að vera hold með öllum þeim grefti og öllu því slími sem því fylgir. Þetta tengist líkamshárum líka en í gegnum aldirnar fækkar alltaf þeim stöðum þar sem hárin mega vaxa frjáls og engum háð. Undir höndum, fótleggir og skapabarmar og klofið (rakvélarnar hafa rutt sér leið að klofum okkar) og nefhár og hár í eyrum og hárvöxtur á andlitum kvenna en háreyðingarmafían er að leggja undir sig líkama okkar og þar eru líkamar beggja kynja og allra kynja undir. Sé það núna að ef ég heimta slímug andlit og sýnileika graftabóla þá er ég fallin í sömu gryfju og háreyðingarmafían, þá er ég að leggja drög að slímamafíu og engu betri. Ég endurtek því það sem þú sagðir í fyrra bréfi: ég mæli með engu.

Ég er búin að heimsækja öll helstu bókasöfnin hér í borg (hverfisbókasafnið, miðbæjarbókasafnið og háskólabókasafnið) og komin með kort (og byrjuð að fá tölvupósta um að nú sé komið að skiladegi) og játa það hér og nú: Ég eeelska bókasöfn. Þegar ég geng aftur eftir dauðann vil ég ganga aftur og deyja og ganga aftur og deyja og ráfa stöðugt á milli ljóðadeildarinnar og nýjubókarekkanna og jarðfræðihugmyndasögustofnunarinnar, deyja á milli hillna og ganga aftur á ganginum, deyja í gangveginum og verða uppvakningur miðja vegu á milli ljóða í bók eftir Neruda eða Nínu Björk eða einhverjum öðrum í N hillunni. Mikið er nú gott að þú heyrðir í fallegri rödd á bókasafninu, fallegar raddir eru svo mikið yndi, þær ganga inn í húðina. En það ber líka að varast djúpar og hljómmiklar raddir því ég veit fyrir víst að fagrar raddir ráða meiru en okkur grunar. Ég hef örugglega sagt það áður og segi það aftur: Ef Sigmundur Davíð væri ekki með svona djúpa og hjómmikla rödd þá hefð hann aldrei orðið forsætisráðherra! Svo má ekki gleyma að þeir og þau sem tafsa sjaldan komast frekar til áhrifa. Ég vil úthýsa djúpraddaðri mælsku! Mig langar að sjá skrækróma, tafsandi manneskju, gröftuga og slímuga sem næsta forsætisráðherra (ekki forsætissáðherra heldur forsætissárherra), einhverja manneskju sem brýtur upp taktinn, þennan takt í stjórnmálunum sem er að æra okkur, ískrandi taktur sem stýrir öllu eins og vél sem valtar yfir allt. Manneskju sem er mennsk með öllu sem því fylgir og hvorki vélvædd málpípa né tækifærissinnaður sýnisfelupúki. Ég hef sagt þetta áður og segir þetta aftur. Ég hef sagt þetta áður og segir þetta aftur. Og aftur.

Áform mín um tré vikunnar eru að renna út í sandinn. En ég hugsa oft til litla trésins sem ég sá fyrr í sumar. Ég var í hjólaferð og við brunuðum niður brekku framhjá herragarði og eins og herragarða er siður þá er byggingin glæsileg með sinni kassalaga symmetríu. Húsin voru hvít man ég og þegar ég hjólaði framhjá á leifturhraða sá ég stór og völdug tré dreifast um grasflötina en þá var þarna mitt á meðal lítið tré, lágvaxin tegund af grenitré mundi ég halda, sem er með ótrúlega langar barrnálar sem slútta niður. Svona eins og stakt tré í þoku. Tré í annarri vídd. Ég hugsaði: ,,Þetta tré ætla ég að mun” og svo fórum við yfir á falið svæði þar sem hindber vaxa í stórum stíl. Tvö nestisbox fylltust og hindberin voru allt í kring, yfir mér og inní mér. Þegar ég hjólaði heim með krökkunum og nýjum pakistönskum nágranna (sem sýndi okkur þetta leynda svæði) hugsaði ég: ,,Þetta er hamingjan! Að hjóla í sól með magann fullann af hindberjum, alltaf að skima eftir krökkunum, umferð á hægri hönd og grösug engi á vinstri. Kribbur, fuglar, flugur.”

Núna þarf ég að henda mér í skrif um hið súblíma, mikilfengleikan eða hrikalega ægifegurð en reyndar tengist hið súblíma eða háleita ekkert endilega fegurðinni. Þetta er margslungið hugtak sem hefur borið á góma frá því að Longinus (ca 3. öld eftir krist) byrjaði að velta því fyrir sér í rituðu máli. Ef ég skil þetta rétt er um tilfinningu að ræða sem vaknar þegar maður stendur fram fyrir einhverju stórbrotnu sem vekur ugg, kannski svona eins og sálin nötri gagnvart almættinu eða náttúrunni (náttúran hefur fengið sess almættisins um þessar mundir, slímið er næst). Að standa gagnvart einhverju æðra, einhverju afli sem getur tortímt manni. Hin slímuga, skjálfandi sál! Hefurðu prufað að síga niður kletta? Kannski er þetta tilfinningin þegar maður stendur á brúninni og horfir niður í gilið, eða stendur í kirkjunni og horfir upp í hvelfinguna. Svo er spurning hvort ég sé sjálf ekki stöðugt að leita að þessu ástandi, orðin fíkin í hluti sem koma á óvart, fíkin í uppgötvanir, fíkin í þorstann, fíkin í skjálftann. Kannski eru þessi endalausa dýrkun á trjám leit að hinni háleitu upplifun.

Í dag á sonur minn afmæli, það er yndislegra en allt yndislegt. Börn eru svampar og viðkvæm blóm! Fyrir sjö árum fékk ég hann í fangið og ég man það svo vel hvað hann fæddist svangur. Fyrstu nóttina saug hann brjóstið endlaust og ég fékk stálma sem ekkert gat lagað nema hvítkál. Kálið var (og er) kalt og brjóstalaga og þarna breytti það brjóstum mínum úr grjóthnullungum í mjúk mjólkurbú. Ég er endalaust gröm út í ægivald karlaveldisins og verkefni mitt næstu árin er að yfirfæra ekki þá gremju yfir á elsku drenginn og dótturina líka. Foreldrar yfirfæra svo margt á börnin sín og þá drekka svamparnir allt í sig í varnarleysi sínu. Það kemur stundum fyrir að ég hugsa eitthvað og svo spyr hann mig út í það strax á eftir án þess að ég hafi sagt orð.

Nú er bréfið orðið allt of langt og hið háleita togar mig í aðra átt. Eigðu góðan dag, kæra pennavinkona, í þeirri umbreytingu sem haustið er.

 

Adios,

Bjarney

 

~

16. september 2016

 

Kæra Bjarney,

 

Mikilfengleikinn togar í mig eftir lestur bréfsins. Ég safna enn efni um útigangsfólk þótt ég hafi skrifað um einn í bók sem kom út í fyrra, uppgötva ný og ný atriði sem hefðu átt heima í bókinni – kom bókin of snemma út? Rithöfundar á Íslandi gefa út skáldsögur á tveggja, þriggja ára fresti. Sumar skáldsögur þurfa fleiri ár – tíu, tólf – mig minnir að Tomas Mann hafi byrjað að skrifa Töfrafjallið tólf árum áður en hún kom út. Ég á skáldsögu sem ég hef verið að vinna í síðan 2005. Fleiri eldri hugmyndir bíða. Ég elska tímann. Sá sem liggur á gangstétt uppgötvar mikilfengleika nálægðarinnar: skortdýr, lirfur, tyggjó, drasl, hráka; nálægðin verður nálægari, fjarlægðin hverfur. Hlutverk listafólks oft á tímum er líka að leita og finna gullið í draslinu, og nálægðinni, þar er endalaus fegurð, mikilfengleiki. Ég er húkt á orðinu endalaus. Súblímérum slímið. En ég efast um mér líki orðið mikilfengleiki. Geturðu fundið annað orð yfir þessa tilfinningu sem ef maður þrýstir á bensíngjöf tilfinningarinnar verður jafnvel fasísk, er það ekki? Og þar af leiðir: súblímérum ekki mikilfengleikann í sjálfum sér og súblímérum slím í rólegheitunum og án örvæntingar, slím er jafn fallegt og geirvarta.

Nokkrir vinir mínir bentu mér á fegurðina í sári, storknuðu blóði, munnvatni, slími, þessu svokallaða ljóta,  

Slím og krem – einsog þú stillir vel saman – krem og slím.

Ég deili með þér dýrkun á trjám, get horft endalaust á þau, byrjaði að teikna tré vorið 2008 þegar landið var á leið á hausinn, margt byrjaði árið 2008, m.a. byrjuðu vinkona mín og ég að fara í langar gönguferðir, vinur minn og vinkona hans stungu sér í sjóinn – um haustið – og hafa stundað sjósund síðan, margt byrjaði árið 2008. Ég er  líka fíkin í mikilfengleika trjáa. Bókasafn er einnig skógur.

Morgun fyrir fáum dögum varð ég svo hrædd um að ég væri alltaf að prédika, muna: þarf að losa mig við þennan prédikunar-, umvöndunartón. Varúð:

Áður en maður prédikar yfir barni skyldi maður hugsa sig vel um. Siðferðismál má kenna á marga vegu án prédikunar. Og þetta er líka prédikun.

Best að kvóta vinkonu þína:

,,Þegar þau fara að skipta sér af því hvað maður gerir við klofið á sér þá þarf maður að koma sér í burtu. Í alvöru talað, sko!”

Ég skil ekki alveg setninguna en hún er alveg hættulega sjóðandi heit einsog vatnið sem sýður uppúr pottunum inní eldhúsi þegar þetta er ritað: sýð kartöflur og egg, ætla að laga rússneskt salat sem í vantar í flest, held ég.

37-vika-best-klaeddi-herramadurinn

Best klæddi herramaður vikunnar 37 er leyndarmál* þótt hann sé nafngreindur á teikningunni. Vinur hans gaf honum nýjar hvítar málarabuxur og ljósbláan ómerktan pólóbol. Klæðaburðurinn vakti augun þó þau nenni ekki að sofa á meðan útilitirnir breytast hratt. Klæðaburðurinn virkaði á augun einsog ferskt vatnsglas. Í húsnæðinu sem herramaðurinn starfar í er allt á haus og í drasli og ryk um allt. Herramaðuirnn starfaði sem bóndi í fimmtán ár. Kjör bónda eru ekki góð, hann fær lítinn hluta af afurðunni, stærsti hluturinn fer annað.

Haustið, að morgni, kallar á dimmgrænan, það er fatalitur sem manneskja kontríbútar haustið með.

Þetta með raddirnar: pæla í því, kjósa bestu (klæddu) röddina í x- 2016.

Hlakka til að heyra um og sjá tré vikunnar.

Rauðu berin á trénu úti í garði eru búin.

 

*án útskýringar

 

Adios,

k

 

~

 

Skildu eftir svar / athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s