Júlía Margrét Einarsdóttir og Steinunn Sigurðardóttir skrifast á:
Elsku Steinunn.
Nú sit ég hérna í sófanum í íbúðinni sem ég bý í í Aþenu um þessar mundir. Ég hef verið á ferðalagi um Evrópu með kærastanum mínum síðan um miðjan júní og hef heimsótt ótal borgir og núna er ég hér, ári eftir að ég var hér síðast, og ég elska þessa borg.
Það er glampandi sól eins og hefur verið síðustu daga og þó að klukkan sé að nálgast eitt og komið framyfir hádegi er borgin eiginlega ekki vöknuð.
Það er svo heitt úti að það svífur yfir mann einhverskonar drómi um leið og maður stígur fæti útfyrir dyrnar. 40 stiga hitinn úti fleygir sig yfir líkamann með höggi, skynjun og umhverfi verður sljótt.
Það er fátt fólk á ferli og þau þegja mestmegnis, skref þeirra eru silaleg. Kisurnar dorma í forsælum undir bílum og sólskýlum, líta einstaka sinnum upp og horfa fullar vandlætingu í kringum sig og leggjast svo aftur. Eina þeirra hef ég hænt að mér, ég held hún sé flökkukisi en hún kemur reglulega við hérna á svalirnar á íbúðinni sem við leigjum. Hún klórar í svalahurðina og þá færi ég henni kaffirjóma og hún leyfir mér að klappa sér.
Þegar líða tekur á kvöldið og kólnar í veðri vaknar borgin. Göturnar fyllast af angurværum tónum banjóspilarans, fólk streymir út á göturnar, ljósin eru kveikt sem lýsa upp Akrapólisthæðina í myrkrinu svo það breytist í kórónu, kisurnar skjótast á milli stræta og Aþenubúarnir gefa þeim mat og fagna þeim með orðunum: „Pou esai re file?“ eða „hvar hefurðu verið vinur?“
Hvað er að frétta hjá þér Steinunn, eða „pou esai re?“
Ertu stödd í Berlín um þessar mundir?
Ég bjó eitt sinn í Berlín eins og þú veist og þykir afar vænt um þá borg. Ég var samt á erfiðum aldri þegar ég flutti þangað, og með „erfiðum aldri“ meina ég að ég var á því skeiði þar sem mér fannst tilveran aðeins flóknari og dramatískari en á öðrum stigum ævinnar (mér finnst hún það reyndar að mörgu leyti alltaf, og hefur verið sagt að ég sé svona dramatísk því ég er í ljónsmerkinu).
Ég var tólf ára þegar við fluttum til Berlínar og ég var með fýlusvip alla leiðina þangað, ég man að liggja í rúminu nóttina áður en við fluttum og ég grét og grét því mér fannst ég myndi sakna rigningarinnar sem barði bárujárnsþakið á bílskúrnum í bakgarðinum svo mikið.
Við bjuggum í Schöneberg (ef ég er ekki að rugla) í götu sem heitir Storkwinkel, og stóran hluta tímans sem við vorum þar vorum við bara þrjú í heimili, ég, mamma og pabbi.
Eins og þú veist líka er ég einstaklega heppin með mömmu og pabba, og meira að segja í mestu gelgjunni fannst mér félagsskapur þeirra notalegur og ákjósanlegur, en það var tómlegt fara frá því að vera umkringd vinum og systrum og með hálfpersneskan dekurkisa á heimilinu í að verða bara þrjú.
Á meðan vinkonur mínar á Íslandi héldu náttfatapartý, byrjuðu saman á blæðingum, fóru í flöskustút í pizzuafmælum og eina krónu á kvöldin á Klambratúni, sat ég í vinnuherberginu hans pabba og skrifaði harmþrungin ljóð um einmanaleikann. Eitt þeirra, sem fjallaði um „lest gleðinnar“ sem þeystist framhjá húsinu mínu hvern morgun en bauð mér aldrei far, hlaut viðurkenningu í ljóðasamkeppni og var birt í safnbók stuttu eftir heimkomu. Ég uppgötvaði lagið „Sloop John B“ í Þýskalandsdvölinni og í staðinn fyrir að spila þungarokk í herberginu mínu og skella hurðum eins og alvöru unglingur, setti ég þetta angurværa Beach boyslag á fullan styrk í herberginu og lét mér nægja að halla hurðinni svo að mamma og pabbi heyrðu áreiðanlega textann, og söng svo með:
So hoist up the John B’s sail
See how the mainsail sets
Call for the Captain ashore
Let me go home, let me go home
I wanna go home, yeah yeah
Well I feel so broke up
I wanna go home
Í dag er mér hlýtt til borgarinnar, ég fór þangað síðast þarsíðasta haust með Kamillu systur og Júlíu systurdóttur minni og fannst æðislegt að sjá þessa staði sem ég kannaðist við, geta vísað þeim á ísbúðirnar og pæjubúðirnar, sem er það sem 12 ára stelpu fannst mikilvægast á sínum tíma að leggja á minnið, og það kemur sér oft vel að kunna ágætis þýsku. Í seinni tíð hef ég líka heillast mikið af því sem þýskt er, drindl, tírólskir hópsöngvar, bjórgarðar, hús eins og þau hafi verið teiknuð upp fyrir ævintýri og þessi nákvæmi þýski kúltúr. Á Evrópuferð minni og kærastans fórum við til München og Nürnberg til að fá bæverska fílinginn beint í æð. Við þræddum þrönga steinilagða göngustíga, skoðuðum fornbókabúðir, gamlar kirkjur og settumst á torgið á hæðinni á kvöldin þar sem íbúarnir sátu á stéttinni, drukku bjóra og spiluðu tónlist.
Ég hlakka mikið til að heyra frá þér Steinunn. Mér finnnst eins og við þekkjumst vel þó við höfum örsjaldan hist. Manstu þegar þú varst með erindi í háskólanum og ég kynnti þig til leiks með því að segja frá okkar fyrsta fundi?
Ég man mjög lítið finnst mér, það er að segja skammtímaminnið mitt bregst mér mjög oft. Þegar ég vaknaði í morgun var draumurinn sem mig var að dreyma til dæmis næstum því hjá mér en ég missti hann. Hann skildi eftir sig slóð. Örlitla óræða kvíðatilfinningu sem blandaðist óskilgreindri eftirvæntingu og minningu um að liggja upp í rúmi hreyfingarlaus og sjá hvernig það rigndi úr loftinu. Öll önnur atburðarrás var horfin. Svo þegar ég fór að pakka í ferðatöskuna fyrir Barcelona þá duttu úr henni bleik barna-sundglerauau sem ég og kærasstinn minn stálum í Árbæjarlauginni í vetur og þá mundi ég að í draumnum var ég með þau á mér á meðan rúmið fylltist af regnvatni.
Mér finnst ég stundum lenda í þessu með minningar úr daglegri vitund líka, ég er að hugsa um eitthvað, sérstaklega eitthvað sem ég þarf að muna og svo hverfur það og það eina sem ég er skilin eftir með er einhver tilfinning.
Afi er með alzheimer og hann hefur ekki hugmynd um það lengur hver ég er. Eftir að hann fór að veikjast og maður sá það á honum að hann væri ekki með það á hreinu hvar hann væri staddur eða hvaða fólk það væri sem umkringdi hann gat hann samt enn sagt frá atburðum seinni heimstyrjaldarinnar þegar Goðafoss, skipið sem fórst og hann var um borð í, eins og hann væri að rifja upp atburði gærdagsins svo mikil var nákvæmnin. Ég rata ekkert, gleymi jafnóðum öllum lyklum, fundum sem ég lofaði að mæta á, hvað ég ætlaði að segja…. en ég man mjög vel eftir því að vera barn. Sérstaklega hvernig ég skynjaði og hugsaði um lífið sem barn.
Ég man eftir þvi að liggja upp í “pabbaholu” sem var pabbamegin í rúminu þegar hann var staðinn upp og farinn að fá sér kaffi, hlusta á útvarpið á hæsta styrk og lesa blöðin. Þar var ólýsanlega þægilegt að liggja því rúmið var svo hlýtt eftir hann. Hann hafði skilið útvarpið eftir í gangi í vekjaraklukkunni og ég starði á rauðu ljósin á tölvuúrinu, klukkan var 9:37 og það var óperusöngkona að þenja sig í viðtækinu. Ég hugsaði með mér á meðan ég hlustaði að ég gæti sungið jafnvel og hún, og einn daginn myndi fólk fá að heyra röddina mína og þau myndu tárast.
Það er til myndband af mér þegar við fórum fjölskyldan í sólarlandaferð og ég var 6 ára, þar sem ég er með einhver óræð óp á svölunum og veit ekki að það er verið að taka myndband. Aðeins ég veit að ég var að æfa mig þarna fyrir komandi óperusöngkonuferil.
Ég byrjaði líka snemma að velta fyrir mér málverkum og listrænu gildi þeirra. Mér fannst mjög hneykslanlegt að á fínustu málverkunum, sem stillt var upp á listasöfnum eins og einhverju merkilegu, væri ekkert að finna nema óræð form sem var handahófskennt slett á striga. Ég lýsti því yfir við Kamillu systur sjö ára gömul að Erró væri eini listamaðurinn mér að skapi því hann málaði að minnsta kosti ekki útfyrir.
Ég ákvað svo, líkt og með óperusöngkonuferilinn, að sýna fram á að ég gæti gert það sem fólk var að hrópa húrra yfir, og enn betur, og teiknaði mynd í herberginu mínu af ketti í innkaupakerru. Ég ákvað að það hlyti að teljast listrænt myndefni, það væri temmilega órætt og óvænt til að teljast listrænt, og aukþess var ég lunkin við að lita án þess að fara útfyrir.
Ég sýndi mömmu hróðug verkið, eins og ég gerði oft þegar ég teiknaði myndir, og hún sagði ástúðlega: „flott hjá þér Júlí mín.“
Ég sá fyrir mér að þegar fyrsta opnunin á málverkum mínum yrði haldin, myndi mamma tárast og halda ræðu og segja: „ég vissi þetta vel, frá þeim degi þegar hún sýndi mér köttinn í innkaupakerrunni,“ og allir myndu klappa.
Mikilmennskubrjálæði barna-Júlíu lak af mér þegar ég varð einmana unglingur í Berlín að skrifa harmaljóð og drekka “Kakao” alein á skólalóðinni, óskandi þess að það myndi enginn þýsku barnanna gefa mér gaum í því hádegishléi.
Ég var í Hlíðaborg á leikskóla. Hlíðaborg var æðisleg og ég man ennþá margt við dvölina þar, með ýktri skynjun barnsins auðvitað því í minningunni er allt mun stærra og mikilfenglegra en það lítur út í dag þegar ég geng framhjá leikskólanum gamla.
Við mamma fórum stundum samferða í leikskólann en það var dálítill spölur að labba þangað og þá breyttust Hlíðarnar í ævintýraland. Oftar fór líka pabbi með mér, og við sungum “tveir fílar lögðu af stað í leiðangur” og leituðum sérstaklega eftir “kísúm”sem voru sérstakt áhugamál okkar, og í hvert sinn sem við urðum vör við slíka var stoppað til að klappa.
Einn daginn leiddi Sigrún, fóstran okkar á Drekadeildinni, okkur krakkana niður í kjallara þar sem hún kynnti okkur fyrir Völundi.
Völundur var frekar sjúskuð handabrúða sem leit út eins og frekar tekinn og aldraður álfur (ég held hann hafi bókstaflega verið orðinn tekinn og aldraður). Ég sá Sigrúnu setja höndina inn í álfinn og tala fyrir hans hönd. Völundur útskýrði fyrir okkur að hann byggi í raun í hólnum, sem var á miðjum leikvellinum. Hann sagði að þar inni hjá honum byggi hann með konunni sinni, þau væru alltaf með kraumandi súpu á boðstólnum og eins mikið bakkelsi og hver gæti í sig látið. Inni hjá þeim loguðu kertaljós. Þau sögðu álfabörnum sínum sögur á meðan þau drukku kakó og stundum spiluðu þau öll saman. Ég var dolfallin.
Við fórum nokkru síðar í lautarferð, allur leikskólinn saman, og Völundur með.
Rósa, önnur fóstran okkar, tróð hönd inn í Völund og kallaði krakkana saman til að hlusta á sögurnar hans. Rödd hans var of skræk, hann sagði asnalega hluti, spurði kjánalegra spurninga og var ólíkur sjálfum sér. Hann virtist hafa gleymt öllu um bólstað sinn í hólnum og loforðum um að bjóða okkur í heimsókn.
Ég rétti upp hönd og bað um að Sigrún myndi framvegis leika Völund, þar sem Rósa væri fullkomlega ófær um það. Sigrún tók við Völundi og hann varð sjálfum sér líkur á ný.
Völundur bauð okkur í heimsókn til sín í hólinn, og hann sagði að ef maður bankaði á réttum stað þá lykist ilmandi heimili þeirra upp og maður gæti tekið þátt í sögustund með fjölskyldunni og þegið hjá þeim kakóbolla.
Ég vissi að það var Sigrún sem gerði Völund svona ævintýralegan og að það var hennar rödd sem hljómaði þegar Völundur kynnti okkur fyrir lífi sínu. Samt lagðist ég reglulega, lagði eyrað upp að grasinu og bankaði í hólinn, en bara þegar enginn sá til. Ég bað Völund vin minn vinsamlegast að sýna mér hurðina og hleypa mér inn til sín.
Ég var álíka matvönd sem barn og í dag, ég vildi nánast ekkert borða nema súkkulaði og fransbrauð. Það var samt eitt sem ég var alltaf til í að fá mér, og það voru kartöflur. Það var alveg sama í hvaða mynd, ég var botnlaus þegar kartöflur voru annars vegar. Þegar fjölskyldan fór saman á veitingastað pantað ég mér alltaf bara skammt af frönskum, og þá fannst mér ég vera í himnaríki. Pabbi hefur masterað nokkrar útfærslur af kartöflum, þá sem við köllum “brasaðar” og svo þær sem ég nefndi sjálf „kartöflur sem maður drepst úr æði,“ en þá eru þær kryddaðar og grillaðar svo þær verða stökkar. Þegar foreldrar mínir gáfu mér titilinn “Kartöfluprinsessan” var ég enn á þeim stað þar sem ég nýtti hvert tækifæri til að næra eigin messíasarkomplexa. Ég tilkynnti vinum mínum því virðulega að ég myndi ekki svara öðru nafni en “Kartöfluprinsessan” eða “Yðar hátign” því ég væri í raun hin eina sanna kartöfluprinsessa. Ef efasemdir vöknuðu hjá sjálfri mér um réttmæti þess titils spurði ég foreldra mína sem svöruðu að bragði: „Jú, auðvitað ert þú kartöfluprinsessan!“
Krakkarnir í leikskólanum og hverfinu gáfu lítið fyrir þessar yfirlýsingar og gerðu mér alls ekki alltaf til geðs að ávarpa mig yðar hátign. Þau efuðust mjög um að ég væri konungborin í raun og höfðu engar haldbærar sannanir fyrir því en að ég væri bara óbreytt leikskólabarn í Stigahlíð.
Einn daginn vorum við Magnús Björgvin, vinur minn, að leika okkur rétt fyrir utan útidyrahurðina að blokkinni sem við bjuggum í, og ókunnug kona nálgaðist. Þegar konan sá mig spurði hún: „Nei, er það ekki sjálf Kartöfluprinsessan!?“
Ég veit ekki hvoru okkar brá meira, mér eða Magnúsi, en ég ákvað að leggja mig fram við að láta sem ekkert væri svo ég svaraði bara: “Jú, einmitt,” og heilsaði eins og þetta væri bara hversdagslegur viðburður. Magnús fullvissaði alla krakkana í hverfinu um að ég væri konungborin og flestar efasemdaraddirnar þögnuðu langan tíma eftir þetta.
Ég spurði svo pabba þegar ég varð miklu eldri út í þessa minningu sem, eins og svo margt úr æskunni, ég man svo nákvæmlega.
„Við vorum í Stigahlíðinni og það kom kona sem ég kannaðist ekkert við upp að húsinu og ávarpaði mig kartöfluprinsessuna. Ég hef aldrei fengið botn í því hvernig þetta gat gerst.“
Pabbi þurfti ekki lengi að hugsa sig um því hann sagði: „Þetta var ekki einhver kona, þetta var Steinunn Sigurðar, hún hafði verið svo glöð þegar ég sagði henni að við skyldum kalla þig Kartöfluprinsessuna í höfuðið á ljóðabókinni hennar.“
Næst þegar við hittumst var haustkvöld í Iðnó. Pabbi ýtti mér í átt að þér til að heilsa og þú sagðir: „Júlía mín, pabbi þinn sagði að þú værir besti lesandinn minn!“
Og ég náði ekki að svara því alveg þá, eða ég man ekki hvað ég sagði, en svarið er jú, ég er einmitt sú.
Elsku Steinunn, ég er ótrúlega spennt að fá að heyra af þér. Þú ert svo mikill pönkari og svo klár í að raða orðum saman þannig að maður fær verk í magann á góðan hátt, sumir jafnvel lesa setningarnar aftur og aftur, taka af þeim myndir til að rifja upp þegar þá skortir orð. Mig langar að segja þér betur frá bókinni minni sem kemur út áttunda september og geri það í næsta bréfi. Nú er kisa byrjuð að klóra í svalahurðina, borgin er að vakna og mér heyrist kaffivélin vera farin í gang, lyktin er allavega svoleiðis.
Ástarkveðjur þína leið
þín vinkona
Júlía Margrét
~
Elsku Júlía,
(fyrri hluti. september 2016 snemma)
að fá svona undursamlegr bréf, það eru forréttindi, frátekin fyrir fáa.
Ég hugsa til þín oft þótt við þekkjumst formlega séð ekki mikið og höfum sjaldan hist.
En mér líður eins og þú sért góður ættingi eða vinkona sem ég eignaðist óverðskuldað um síðir. Ég fylgist með ævintýrunum þínum á facebook og hugsa eins og
Aþenubúarnir þínir um kettina: „Hvar hefurðu verið vinur?“ „Pou esai re file?“
Í hvert skipti sem ég hitti uppáhaldið, Þorstein Gylfason, spurði ég hann formálalaust: „Hvar hefurðu verið allt mitt líf?“ Í síðasta sinn sem ég sá hann, í afmæli Vigdísar Finnbogadóttur, þá svaraði hann: „Ég var nú bara að leggja mig.“
Og nú ertu Júlía komin með bók, Grandagallerí, hana ætla ég að lesa. Þó hún væri ekki nema brot af því fíniríi sem ég hef séð frá þér hingað til, þá væri hún something to write home about.
Home vel á minnst. Ég er í Strasbourg, þar á ég heima núna. Mér var boðið að koma og kenna skapandi skrif og flytja fyrirlestra við háskólann tímabundið í fyrra. Þá tók ég mig upp með tónskáldi og við fluttum hingað frá Berlín.
Ég sakna Berlínar, þar sem við áttum heima í þó nokkur ár. Sérstaklega sakna ég Kreuzberg, skrýtinna staða, vatnsins og garðanna, og vina minna góðu. En ég sé það núna, hafi ég ekki séð það áður, að ég er staðafrík. Ef ég finn góðan stað, getur verið hvað sem er, bara eitthvert horn í bænum, þá er ég hátt uppi. Í dag fann ég tjörn. Það var tjörn sem Þorsteinn var búinn að finna einhvern tímann þegar ég var í burtu, í nærliggjandi þorpi. Grátviður hékk yfir, það voru eyjur með vatnaliljum, og gangan kringum tjörnina er sirka 800 metrar. Það var smárigning og á eftir fundum við garð með fuglum, þar á meðal tveimur stórum sem eru greinilega skyldir páfuglinum en eru ekki páfugl. Furðufuglar.
Hér í Elsass eru það tré sem halda mér uppi, og myndrænar staðsetningarnar á þeim, í húsagörðum, uppi í tómri sveit, í Vogesafjöllum. Þau vaxa beint upp í loftið, verða svo stór, með svo miklu bolmagni og laufskrúði og eru á alla kanta það undur að ég er helst að hugsa um að safna í ljósmyndabók um gamalgróin síung persónuleikatré.
Þegar að stöðum og staðsetningum kemur hef ég þó aldrei kynnst öðru eins og Berlín. Enda held ég helst að Berlín sé ekki staður heldur hugmynd. Hugmynd um borg sem er ekki borg heldur land. Inspírasjón sem maður fékk á hverjum degi beint í æð við að sjá ný áður óþekkt stórundarlegheit, hvað staði og mannlíf varðar, sú inspírasjón verður hvergi nokkurs staðar svona rjúkandi heit.
Hins vegar var ég að koma frá uppáhaldsborginni minni Stokkhólmi. Það er fallegasta borg sem ég veit um og Gamla Stan unaðslegasti borgarhluti í heimi, að svo miklu leyti sem ég þekki heiminn. Ég átti einu sinni heima í Stokkhólmi og alltaf þegar vorar þá langar mig aftur í tröppurnar á Konserthuset, að sitja bara þar og sóla mig og bíða eftir enn meiri sól.
(seinni hluti. 18.október 2016)
Nú held ég áfram að skrifa þér á afmælinu hennar Öldu Tímaþjófs, sem ég er búin að halda upp á með Sachertertuáti eins og þær gerðu landlæknisdæturnar í Sörlaskjóli. Hef ég sagt þér frá því að ég ímyndaði mér alltaf að þær ættu heima á númer 74. Einu sinni var ég á ferð þarna í bíl með Magdalenu Schram Sörlaskjólsbúa, og sagði henni þetta. Hún varð hlessa og sagði: „Nú, þær áttu heima þarna alla tíð biskupsdæturnar.“ (Jóns Helgasonar víst). Þannig að þetta var nú viss hittni hjá höfundinum óvart. Hins vegar benti mér einhver á að það væru ekki svalir á númer 74, eins og eru í bókinni. Hvað það er dásamlegt að vera arkítekt án byggingarleyfis.
Ég tafðist við að skrifa þér því ég þurfti að fylgja tveimur bókum eftir alla leið. Meira um það einhvern tímann. En ég hef hugsað til þín, á ferðalögunum þínum. Mér finnst þú vera ævintýrastelpa. Svoleiðis hefði mig áreiðanlega langað að vera. En við vorum það varla á mínum tíma. Við vorum litlar kellíngar minnir mig í þröngum pilsum með heysátuhár. Gerðum kannski litla uppreisn eins og að ganga í gúmmístígvélum í skólanum (ef snjóaði eða rigndi þeas). Stígvélin voru víst minn roknalegasti uppsteitur, ekki síst af því að ég gekk í pilsi við þau. Við vorum bæld kvikindi stelpurnar og héldum kjafti í tímum í MR og víðar. Ég er ekki að segja að ég hafi endilega haldið kjafti, og þó. Nóg til þess að ég fór á kleppshraðferð gegnum MR, las fimmta bekk utanskóla um sumar, og var þá í stanslausu námi, í hvað, eitt ár og níu mánuði? (Annars kann ég ekki að telja) Það hlýtur að hafa verið góður undirbúningur undir ritmennskumaraþonið, skrifiskrif á hverjum einasta andkostans degi, líka á jólunum, ef aðstæður leyfa, og sérstaklega þá, ef aðstæður leyfa.
Ótrúlega er gaman, elsku Júlía, að lesa barnaminningarnar þínar. Svo lifandi og fallegar og færa manni þennan furðutíma, barndóminn, í fangið. Það eru tiltölulega fáir rithöfundar sem nenna að skrifa um barnæskuna, kannski af því að það er gleymdur og glataður tími – eða er það ævitími sem best væri að gleyma, jafnvel þótt ekkert illt hefði á dagana drifið? Nema svona fáir spreyti sig vegna þess hvað það er erfitt að skrifa um æskuna. En þetta kannt þú, amk í bréfi til mín. Að lesa um æskuna eftir stórsnillinga eins og Tolstoj, tala nú ekki um þegar Áslaug Agnarsdóttir þýðir, magnaðri lestur finnst varla. Einn nútímameistari er snillingur í að skrifa um æskuna, John Coetzee. Mér finnst að Boyhood ætti að vera skyldulesning í skólum. Hann skrifaði líka stórmagnaða skáldsögu sem kom út 2013 og heitir The Cildhood of Jesus. Þar fiskar hann á æskumiðunum og leyfir rödd barnsins að heyrast, í landi sem er ekki til. Ein merkilegasta skáldsaga sem ég hef lesið. Heimspeki um það að vera barn, barn einhvers eða einskis, og löng hugleiðing um siðferðilega stöðu barnsins í heiminum, ábyrgð fullorðinna. Nú getur vel verið að ég hafi misskilið þetta meistaraverk. Þá það. En svo mikið er víst að ég heyrði þennan hlédræga og mannfælna snilling sem höfundurinn er lesa úr bókinni. Sjaldan hef ég orðið meira hlessa en heyra hann fara með replikkur barnsins í bókinni. Það var þá ekki bara við skrifborðið sem hann lifði sig inn í veröld barnsins.
Það er ein lítil framhaldssaga af Kartöfluprinsessunni. Haukur Tómasson samdi roknalega fínt tónverk við einhver ljóðin þar, Tímans tönn heitir það. Vinur hans pantaði það af honum, það er nú skemmtilegt, nema það að hann ætlaði að kaupa slatta af bókinni. Þá höfðu þessir tugir eintaka sem skráð voru á lager gufað upp … síðast þegar ég vissi. Nú leyfi ég þér að fylgjast með afdrifum Kartöfluprinsessunnar ef eitthvað nýtt kemur í ljós.
Þú ert betri en maltöl, besta Júlía, bætir hressir og kætir. Það hlýtur að vera óhætt hjá mér að halda áfram að skrifa úr því ég á slíkan lúxuslesanda sem þú ert.
Hafðu það sem allrabest hvar sem þú gengur og skrifist þér vel, áfram.
Blíðar heilsur úr Strassborg,
Steinunn