Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:
9. nóvember 2016
Kæra Kristín,
Hér kyngir niður snjónum og allt í hægagangi og við byrjuðum daginn á því að mæta of seint í skólann og ég hugsaði að þetta væri svona dagur þar sem hvítt vetrarríkið leggst yfir allt og það hægist á öllu og allt mætir of seint alls staðar. Þegar ég tilkynnti úrslit kosninga hrópaði sonurinn ,,Neii, þessi prump-trömt ætlar að byggja múr!“ en um daginn þegar Dylan fékk nóbelinn spurði hann ,,Já eru þetta ekki Nóbel Trump verðlaunin?“ Dóttirin sagði ,,Æ, er það?“ og varð hugsi. Áfram kyngir niður snjónum og ruðningstækin voru mætt fyrir utan hjá okkur kl. 6 í morgun og komu aftur á hálftíma fresti, það kyngir niður sjó og við ryðjum snjó. Kyngjum, ryðjum, höldum út í daginn í hægagangi og handleikum von í úlpuvasanum, reynum að missa ekki veika von úr vasanum.
Rétt í þessu setti ég þennan texta inn á fésbókina mína en ég verð að halda áfram. Þegar ég vaknaði í morgun og sá fréttirnar um að Trump yrði næsti forseti Bandaríkjanna fékk ég ómælda þörf fyrir að ræða við aðra, tengja með tali, skiptast á orðum við aðrar manneskjur af holdi og blóði. Og þessu fylgir líka þrýstingur, þörf til að skrifa, knýjandi þrýstingur sem heimtar útrás í fingurgómunum sem benda á bókstafi til að móta heila brú. Ég vatt mér að næstu skrifstofu þar sem situr ung stúlka frá Kanada og stúderar hugmyndasögu fósturvísa og fjölskylduforma og ræddi við hana um þessa undarlegu stöðu. Svo kom ég mér upp á kaffistofuna þar sem sátu tveir menn frekar hljóðir yfir kaffibollunum sínum. Maður er bara að reyna að átta sig á þessari staðreynd að þetta öfluga ríki, Bandaríkin, eru komin með nýjan forseta sem hefur látið óvönduð orð falla. Þetta er merkilegur tími og ekkert nema framtíðin mun sýna merkingu hans. Samt reynum við að rýna í merkinguna og hvað muni mögulega gerast. Þeim sem skrifa dystópíur bendi ég iðulega á þá staðreynd að ef dystópían er möguleg þá er útópían það líka. Ég man hvað ég fylltist mikill von, smitandi von, þegar Obama varð forseti og ég hoppaði af kæti þegar ég sá að hann er örvhentur. Auðvitað er maðurinn örvhentur. Hef ekki kannað stjörnumerkið hans né nýja forsetans en eflaust margir búnir að rýna í afstöðu stjarnanna, orkubrautir og þrýstinginn. Ég skrifa til að þrýstingsjafna mig, skrifa af þörf og veit ekki hvað ég er að segja því þetta kemur í einum graut. Þetta er sterk áminning um það að orð hafa vald, orð eru til alls fyrst og áhrifamáttur þeirra er mjööööööööööööööööööööööööööööööööööööööööööööööööö-öööööööööööög mikill. Vonandi áttar Trump sig á því og vandar orðin sín, velur þau vel og gerir sér grein fyrir afleiðingum þeirra fyrir saklausar manneskjur sem hafa ekki málsvara, hafa ekki rödd. Ég læt þetta duga í bili og sendi þetta bréf af stað til þín um rafræna netheima þar sem fréttir spranga um eins og mý en í Gandreið sagði Jón Daðason árið 1660: ,, … árahópar eins og mý, út um löndin spranga.”
Sendi hér með vonarneista til þín, hann er veikur en mun samt lifa og stækka!
Adios,
Bjarney
⁓
10. nóvember 2016
Kæra Bjarney,
Já. Algjörlega. Algjörlega. Já. Úff. Útlitið er ekki gott, ég hugsaði: nú verður maður að vera duglegur. Það gerist ekkert að sjálfu sér.
(Ó: ég verð strax svöng af athafnanauðsyn, fæ mér brauðsneið með viskýmarmelaði).
Mágur minn bjó til marmelaðið.
Ég borðaði með fjölskyldu minni í gærkvöldi, hún er mjög pólitísk, þar eru líka ólíkar skoðanir, við við borðið kusum fimm flokka fyrir Alþingiskosningarnar, öll miður okkar og döpur eftir úrslitin í gær.
Velkomin til Svíþjóðar stóð á spjöldunum sem sænsku hermennirnir héldu á í sænsku fjörunni fyrir meira en sjötíu og eitthvað árum þegar þeir tóku á móti Gyðingum á flótta á smábátum frá Danmörku.
Fjaran var ekki sænskari en við.
Í boðinu minntumst við hinna örfáu Gyðinga sem Íslendingar buðu velkomna á sama tíma og í boðinu minntumst við hinna óteljandi sem Íslendingar buðu ekki velkomna og á flóttafólkið í dag.
Segðu mér meira af snjónum. Tölum um snjó og snjóleysi í vetur. Það rigndi óskaplega í gær, svona skvetti-sturtudrunur. Ég hljóp út í bíl að ná í flís sem bróðir minn vildi gefa mér og hitti vin minn – okkur rigndi niður -vinur minn vildi knús, ég var að flýta mér, eldsnöggt augnablik, afdrifaríkt, á milli okkar hvítt garðshlið, okkur rigndi niður, bróðir minn hoppaði upp í bílinn, öll föt snöggblotna – ég knúsa vinn minn bréfleiðis.
Minnumst Ingibjargar Haraldsdóttur, skáldsins besta og þýðanda, vinkonu og vinar, mömmu og ömmu.
Yfir til þín, kæri pennavinur.
Adios, k
~
11.11.2016
Kæra Kristín,
Já, minnumst Ingibjargar og ljóðanna hennar ljúfu. Í morgun vaknaði ég við fréttina um andlát Leonards Cohens og þá er heldur betur erfitt að koma sér af stað inn í daginn og halda einbeitingu yfir fræðitextum. Melankólían vex, svona heimsangist sem maður skilur ekki hvaðan kemur og helst langar mann að leggjast undir teppi og sjúga lögin og textana og röddina hans Cohens eins og sæta mjólk úr pela. Ég spilaði Cohen fyrir börnin yfir morgunmatnum og svo gengum við í skólann og fundum fyrir tilviljun nýja leið sem er mörgum mínútum styttri. Við glöddumst yfir því og líka því að á leiðinni sáum við brekku fyrir snjóþotur, brekku sem við vissum ekki af. Svo fór ég heim að vinna en Cohen er úti um allt. Það magnar upp óbærilega umbreytandi seið þegar koma saman rödd, laglína, texti og andrúmsloft sem er engu líkt, þá verð litla sprengingar innra með manni og jarðflekar í beinunum færast til, ýmist í sundur, saman eða hliðar saman hliðar en aldrei án orku og aldrei án þrýstings. Þetta eru undarlegir tímar, það er vetur og snjórinn hefur málað Uppsala hvíta. Skaflar á trjágreinum og stundum hrímþoka. Fyrir konu sem elskar þoku þá er hrímþokan ný upplifun og meiri stilla í henni en þeirri heitu. Það er svo fallegt þegar þoka leggst yfir allt og magnar upp mystík, felur hóla og felur tré. Tranströmer segir í einu ljóði að einhvers staðar í lífi okkar sé mikill óupplýstur kærleikur og kannski lúrir hann einmitt þarna, innan seilingar í felum og birtist bara ef maður gengur áfram. Á sama hátt er í lífi okkar einhver þoka, hlutir sem við vitum ekki og áttum okkur ekki á, hlutir sem við munum aldrei fá að vita um aðra, um sárin sem aðrir bera og reyna að hylja og græða, hylja og græða. Þokan hefur græðandi afl, hér er jörðin að fela sig til að setja græðandi smyrsl á sár sín, til að fá frí frá ágengum augum, til að geta sveipað um sig þokuteppi og drukkið tónlist úr pela sem ómar dauft úr moldinni, tónlist um trén þar sem hundarnir koma til að deyja, tónlist um stól með dauðum tímaritum, sveitt tungl og tónleikasal í Vínarborg og vals og ást og munúð. Hjá Cohen er kraumandi munúð, lífskraftur, dularfullur ómur. Svo koma stundum ein eða fleiri kvenraddir sem styðja við hann í bakgrunni og þá finnur maður samslátt ólíkrar orku, djúpa og tæra tóna sem blandast saman, dansa vals.
Með melankólískum kveðjum úr snjóríkinu,
Bjarney
Ps Við þurfum að ræða betur um þetta viskímarmelaði!
~
16. nóvember 2016
Kæra Bjarney,
Takk fyrir fallegt bréf, dauðu tímaritin á stólnum, þetta með kærleikann og hugrenningar þínar um þokuna sem við klæðum okkur í og úr. Ég klæði mig úr þokunni núna á meðan ég rita þér bréf, svo verður mér kalt og klæði mig aftur í kalda þokuna. Í gærmorgun kom hagl. Ég sat á fundi með kollegum okkar þegar það byrjaði og þegar því lauk, kollegar okkar eru með nýjar bækur, ég ætla að spyrja þá útúr á höfundakvöldi í næstu viku, í gegnum þokuna og úr þokunni. Það er gaman að fara í bókabúðirnar núna og skoða nýju bækurnar, spennt að lesa þær, byrjuð að lesa nokkrar og búin með. Takk fyrir sendinguna. Takk, takk, takk. Kemurðu heim? Muntu ekki lesa upp úr bókinni? Vona það, þá mæti ég. Í gærkvöldi fór ég á upplestur á bókasafni Mosfellsbæjar, hlustaði á Ragnar Jónasson, Sigríði Hagalín Björnsdóttur, Vigdísi Grímsdóttur, Sigríði Halldórsdóttur, Steinunni Sigurðardóttur, Þórarinn Eldjárn. Katrín Jakobsdóttir sem fær líklega stjórnarmynundarumboðið í dag frá forsetanum á Bessastöðum stjórnaði umræðunum. Salurinn var kappfullur, hef aldrei komið á jafn fjölmennan upplestur, kvöldið var frábært. Á meðan snjóaði og slabbaði úti, veit ekki hvort. Sjúgðu hneturnar mínar, sagði konan í útvarpinu áðan. Í nótt vaknaði ég við mjúkt hljóð í óteljandi glerbrotum: eitthvað hrundi niður af himninum, mmm, sagði ég við vinkonu mína, heyrirðu í glerbrotunum? Hún sagði: já. Ég er núna komin í skotapils, engin þoka.
Njóttu þín, k
~