Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:
Reykjavík, 20. desember 2016
Heil og sæl Kristín,
Í sömu viku ferðuðumst við yfir hafið, ég flaug í átt að eyjunni köldu og þú í burtu frá henni. Ég ætla rétt að vona að leiðir okkar beggja hafi verið hlykkjóttar og flugvélarnar flogið í slaufur og hringi. Beinar og óslitnar línur eru svo óalgengar, það er helst að þær nái sér á strik á hvítum blöðum og húsbyggingum og gangstéttum. Náttúran býr sjaldan til langar óslitnar línur. Nú er ég kannski komin fram úr sjálfri mér (varðandi línurnar og náttúruna) en mig langar að spyrja: Hvernig er umhorfs hjá þér? Hér hjá mér eru umhleypingar, birtuglæta sem felur sig stöðugt lengur með dekkri tjöldum, á morgun eða hinn þorir birtan að sýna sig en bara hægt og bítandi. Sjórinn er á sínum stað á stöðugri hreyfingu, allt er á stöðugri hreyfingu hér á þessari eyju, fólk að keyra og ganga á milli staða. Ég er nýstigin úr sundi og sest á kaffihús þar sem kliðurinn berst við tónlistina. Mér þykir það alltaf jafn merkilegt hvað heitt vatn róar taugarnar mikið, hitinn mýkir húðina, taugarnar, hugsanirnar og liðina og línur sem eru bæði bognar og sléttar.
Hvernig leggjast jólin í þig? Ertu jólabarn? Þegar desember nálgast má ég yfirleitt ekkert vera að því að undirbúa og ýti öllu á undan mér. Svo kemur yfirvofandi samviskubit og ég fæ framkvæmdakraft af ótta við að sitja á aðfangadagskvöld með hugsanir sem byrja á: ,,Ég hefði átt…” Ég legg mikið á mig til að forðast þessa setningu en á sama tíma lifi ég í þeirri stöðugu ,,staðreynd” (ég upplifi það sem staðreynd en reyni að hlusta ekki á það) að ég sé ekki að gera nóg, að ég sé að klúðra öllu svo stórkostlega að allir taka eftir því nema ég. Jólunum fylgja samt einhver helgi, kyrrð og fegurð, sem endist í nokkrar sekúndur og þar er þakklæti. Þessi jólahelgi tengist ekki gjöfum og pökkum heldur djúpstæðu þakklæti fyrir lífið, fyrir fólkið sitt og vinina sína, fyrir tengslin sem ganga ekki eftir beinum línum, hafa tekið dýfur og oft farið í hlykkjótta hnúta sem svo greiðist úr og þeir leysast upp. Stundum velti ég því þó fyrir mér hvort jólin séu meira áfallastreita/tráma en gleði. Ég hef séð svo marga upplifa aftur gamla angist í tengslum við jólin og séð hvernig þessi angist smitast frá einni kynslóð til annarrar. Smitleiðir eru margar og lúmskar. Þetta fær mig til að spyrja: Er einstaklingurinn til? Erum við ekki miklu frekar tengiverur eða smitstaklingar? Við erum til í tengslum og þrífumst ekki í einangrun, kerfið okkar gerir ráð fyrir öðrum, gerir ráð fyrir faðmlögum og kossum. Við smitum aðra og smitumst.
Ég ætlaði á fyrirlestur í hádeginu en ég er nú þegar orðin of sein svo að ég sleppi því bara. Það er miklu betra að sitja hér í kliðnum og skrifa bréf til konu sem dvelur hinum megin við hafið. Við getum haft það sem markmið að dvelja aldrei samtímis í sama landi, þannig að ef ég kem til Íslands þá þarft þú að komast í burtu og öfugt. Bréf sem eru skrifuð yfir hafið hafa stærri vídd. Svo væri líka hægt að hittast, sitja við sama borð og skrifast á yfir borðið. Það á eflaust eftir að rannsaka það hvernig bréf breytast eftir nálægð/fjarlægð bréfritaranna. Svo eigum við alveg eftir að prufa póstkortaformið, ég legg það til að við gerum tilraunir með það form á næsta ári. Árið 2017 verður ár tilrauna, leikjatilrauna.
Kærar jólakveðjur,
Bjarney
~
Uppsveitir New york fylkis, 21. desember 2016
Heil og sæl Bjarney,
Takk fyrir bréfið, velkomin til Reykjavíkur. Mér finnst leitt að missa af því að heyra þig lesa úr nýju bókinni sem ég er búin að lesa. Þar eru ljóð sem ég mun ekki gleyma. Bestu þakkir fyrir bókina. Í nóvember og desember hef ég heimsótt bókabúðirnar og fylgst með nýju bókunum birtast á borðunum. Þessi bókajól eru æðisleg. Ætti ég sex börn sem ættu þrjá, fjóra maka, hin tækju ekki þátt í sambúðarforminu, eða væru á milli sambanda, tíu, tuttugu barnabörn, sum komin með vini, og e.t.v. ung barnabarnabörn, þá væri ég ekki í vandræðum með að velja hverju þeirra bók í jólagjöf.
Hefurðu tekið eftir úrvalinu af barnabókum? Maður gleðst innilega – öll hin frumsömdu verk, nýjar þýðingar, frábærar endurútgáfur, ofsalega fallegar og fínar bækur. Á íslensku eru samdar nýjar bækur fyrir krakka á öllum aldri, alls konar bækur, fallega myndskreyttar af lókal teiknurum og fallega prentaðar. Þetta er ótrúlegt, algjörlega.
Síðan eru á veisluborðum margar æðislegar bækur (sem óþarfi væri að kalla fullorðins-) : skáldsögur, smásögur, ævisögur, ljóð, fræði. Börnin mín átján mundu fá átján ólíkar nýjar bækur í jólagjöf plúss tengdafólk og vinir, bara verst hvað bækur eru dýrar, veit ekki hvort ég væri fátæk eða rík mamma.
Til hamingju íslenska með jólabækurnar.
Þú spyrð væntanlega næst: er bréf þitt óbein auglýsing? Já, en hún er ekki keypt.
Útum gluggann sé ég hæðir huldar snjó og yst fjall þakið grenitrjám, mynd fjallsins minnir á teikningu framan á kápu Sandársbókarinnar eftir Gyrði Elíasson – þetta eru svoldið sveitirnar hans, ég veit hann hefur ferðast hingað, hér ekki svo fjarri er Walden Pond að finna, þar sem Thoreau bjó og skrifaði. Þetta er mikið bókmenntaland, en ég kann ekki sögurnar, bókasöfn í öllum þorpunum sem maður keyrir í gegnum á tíu mínútna, kortérs fresti, og bókabúðir með bókum upp eftir veggjunum og hlöður með bókum. Á jóladag fer ég til borgarinnar. Þar ætla ég að sjá yfirlitssýningu á verkum myndlistarkonunnar Agnes Martin.
Í morgun sá ég tvær mýs sem kettirnir í húsinu höfðu veitt. Í gær var fjórtán stiga frost, manneskja frá Íslandi er ágætlega búin undir árferðið. Hér er mjög fallegt. Í gær fór ég að Indjánagiil og inn í vetrarskóg, þar heyrði ég um andana þrjá : söngandann, vatns- og ísandann og trjáandann. Þessir þrír andar ferðast saman um skóglendið með litla kokkabók sem þeir elda upp úr á kvöldin. Trjáandinn borðar greniflísarnar ofan af jörðinni. Vatnsandinn borðar klaka. Og söngandinn þytinn og pípið.
Heyrðu, vinsamleg skilaboð til ríkisins: bókasafnsskírteini eiga að vera ókeypis. Borgari í lýðræði hlýtur að eiga rétt á að nálgast upplýsingar án þess að borga fyrir þær. Til þess að lýðræði fúnkeri þarf fólk að vera læst og upplýsingar að vera í handleggjarfjarlægð.
Sundlaugunum heima – á vetrarmorgnum, kvöldum, og í hádeginu – þori ég ekki að líkja við móðurkvið. Ég byrjaði að stunda sund í sumar. Mér finnst leiðinlegt að telja ferðirnar en ég miða rútínuna við rauðu klukkuna á bakkanum. Um daginn keypti ég mér sundgleraugu. Nærsýnir sjá betur í vatni en í lofti. Stundum fer ég í sund klukkan sjö á morgnanna. Njóttu sundtímanna á meðan þú ert heima yfir jólin.
Já, tilraunir. Skrifarðu mér bréf fyrir jólin? Verða þetta jólabréfin okkar?
Kærar jólakveðjur, k
~
Þorláksmessa 2016 í Reykjavík
Kæra Kristín
Takk kærlega fyrir bréfið þitt og fallegar lýsingar á þeim fjarlægu slóðum sem þú núna vermir (er hægt að verma slóðir, jú segjum það bara). Bréfið þitt minnti mig á það að ég hef í nokkur ár verið á leiðinni að lesa Walden eftir Thoreau (í þessum töluðu orðum er ég búin að finna textann á pdf formi í tölvunni). Það er svolítið hátíðlegt og um leið jólalegt að hugsa til þess að þú sért stödd á slóðum hans og eins og þú segir þá tengir maður Gyrði við þetta allt. Svona tengjast bækur og staðir (orð og rými) órjúfanlegum böndum og minna á sig á ólíkum tímum. Hvernig ætlar þú að halda jólin í ár? Hvernig mat ætlar þú að borða?
Núna er Þorláksmessa og ég hef keypt inn, pakkað og afhent alla pakkana nema einn. Það er alltaf svona einn pakki sem verður eftir og veldur því að ég þarf að keyra á fullu spani korter í jól til að afhenda í tæka tíð. Á morgun keyri ég þennan pakka inn í Hafnarfjörð. Ég gleymi seint jólunum fyrir nokkrum árum þegar ég hafði í mörg horn að líta, gerði mitt eigið rauðkál, sauð kartöflur og hitaði hrygg og allt heila gillimójið. En þegar klukkan var 20 mínútur í jól þá hreinilega var svo mikið sem átti eftir að gera að ég fór bara að strauja, já ég þurfti mjög mikið að strauja þó það væri engin skynsemi að baki þeirri framkvæmd.
Í dag fór ég aftur í sund (myndina hér fyrir neðan tók ég óvart í anddyri Vesturbæjarlaugarinnar). Ég hef komist að því að grunna vaðlaugin í Vesturbæjarlauginni er hættuleg, maður leggst þar niður í heitt vatnið, horfir upp til himins og lætur kalt loftið leika um nefið og svo er hreinlega ekki hægt að standa upp og koma sér í sturtu. Yfirleitt er ég á leiðinni upp úr í svona hálftíma og mikið vildi ég óska þess að sundlaugarnar væru opnar lengur um helgar.
Ég ætla að borða jólamatinn á morgun með börnunum mínum tveimur í húsi barnsföður míns ásamt konunni hans og tveimur ungum börnum þeirra. Á boðstólnum verður kalkúnabringa en í ár munum við sleppa rækjukokteilnum í forrétt í fyrsta lagi vegna þess að börnin fúlsa við honum og í öðru lagi vegna þess að á heimilinu er ekki uppþvottavél og því allt gert til að spara uppvaskið. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við eyðum jólunum saman og mikil gleði sem því fylgir. Núna sit ég í húsi í vesturbænum þar sem er útsýni út að sjónum þá fáu klukkutíma sem birtir. Úti er snjór og nokkuð jólalegt, svei mér þá. Núna er myrkur og ég smakka á berjavíninu sem Bibba frænka gaf mér í jólaboði áðan. Vínið er afbragðsgott! Það er í raun undarlegt en svo margt af fólkinu mínu hitti ég aldrei nema í kringum jólin og þess vegna reyni ég að mæta í jólaboðin til að segja ,,Hæ, mikið er gaman að sjá þig. Það er svo sjaldan sem við hittumst, bless og gleðileg jól, já ég þarf nú að kíkja til þín í kaffi við tækifæri”. Svo líður árið eins og sundsprettur og áður en ég veit af er komið aftur að árlegu jólaboði. Það er eins og tíminn fari hraðar þegar maður eldist, eins og hann þjappist meira saman, kannski af því maður hefur í fleiri horn að líta en þegar maður var ungur og saklaus.
Ó, já þetta bókaflóð var svo fallegt. Barnabækurnar allar svo vandaðar og hlaðborðið óbærilega kræsilegt. Eftir vikudvöl á Íslandi var ég komin með háan stafla af nýjum bókum (það góða við að vera sjálfur með bók er að þá bíttar maður við suma höfunda og það er voðalega voðalega gaman). Jólagjöfin frá mér til mín í ár var bókin Skriftir eftir Pétur Gunnarsson, ég ætla að hefja lesturinn annað kvöld. Ég er ferlega svekkt en bókin mín fékk enga umfjöllun í Kiljunni en hver veit nema hún komist þar að í janúar eða febrúar. Þessu svekkelsi deili ég eflaust með mýmörgum öðrum höfundum. Þakklátir og hrærðir lesendur hafa haft samband við mig og það þykir mér voðalega vænt um, til þess skrifa ég, til að hræra upp í mér og öðrum. Svo horfði ég á Kiljuna síðasta miðvikudag og þátturinn var meira en hálfnaður og bara ein kona hafði komið fram og karlarnir komu í löngum röðum í viðtöl og þá varð ég óþolandi kaldhæðin með Bechtelsvip en svo komu fleiri konur síðar í þættinum, guði sé lof. Mig langar ekki að dvelja í samanburðarorkunni og ég sendi Kiljunni góða strauma, treysti því að hver bók fái að sigla þann sjó sem henni er ætlað. Set Tungusól í flösku og lauma henni á seglskútu til Korsíku.
Ég sé fyrir mér staðinn sem þú ert á og hann er eins og jólakort. Vonandi ertu ennþá með snjó. Segðu mér endilega frá ferðinni þinni á jóladag og listasýningunni.
Bestu óskir um gleðileg jól og heilar hugarþakkir fyrir öll bréfin á árinu, ég er ekki búin að telja en þau eru mörg og glöddu mig mikið. Takk fyrir seigluna (flott orð, seigla) og næsta febrúar verður held ég komið ár frá því að við byrjuðum að skrifast á. Við verðum að halda upp á eins árs bréfa-afmælið með ógleymanlegu bréfapartýi.
Dingalingaling,
Bjarney
~
New york, þriðji í jólum 2016
Kæra Bjarney,
Gleðileg jól.
Nú er ég komin til borgarinnar, í glugganum sé ég Mannhattan brú. Bílaumferðin er stöðug og nóttin var þétt, ekki linnti á umferð, flakkað margt á milli eyjar og lands, einhverjir búnir að taka inn meðul sem brúa draumaheimana og vökuna á óvæntan hátt, þannig að inn í höfðinu leika þeir á innri brú samtímis þessari. Svo rifnar litla brúin en ekki sú stóra, best að taka inn meiri lyf eða fara að sofa. Lestir fara yfir, blikkandi bíll með bláum ljósum, blikkandi bíll með rauðum ljósum, fyrir framan mig er há bygging með fimmhundruð gluggum, kveikt ljós í fleiri en hundrað og jólaskreytt.
Ég er langt komin að lesa heimsendalokabók sem ég fékk í jólagjöf. Á aðfangadagskvöld borðaði ég lamb, rauðrófusalat, spínat-valhnetu-peru-salat, trönuberjasósu, granatepli og í eftirmat: möndlugraut með kanel og trönuberjasósu, súkkulaðibangsa og fleiri granatepli. Í jólagjöf fékk ég einnig hvalaskoðunarferð á Faxaflóa og lopapeysu.
Það er að birta, dökkt orðið dimmgrátt, þá er líktog slokkni á ljósunum í fimmhundruðgluggahúsinu. Í nótt hugsaði ég um tímann – já einmitt, hann fer hraðar með árunum, dagarnir styttast, manstu: þeir eru langir þegar maður er barn. Ætli hraðinn fari eftir hæð manns? En í janúar eru dagarnir a.m.k. lengri en í hinum mánuðunum og gott að koma fleiru í verk. Annars sá ég tímann fyrir mér í nótt einsog óskilgreint flæmi eða teppi eða óefnilegt svæði sem skreytt væri óteljandi lituðum glitperlum. Þannig glitperlur vildi ég leggja ofan á grafir foreldra minna, þær munu lýsa inn í nóttina.
Ég hef ekki horft á Kiljuna, var án nets í sveitinni og missti af þáttunum í desember. Fúlt að fá ekki umfjöllun um bókina sína. Svo skiptir víst máli hvenær umfjöllunin kemur, rétt fyrir jól hefði umfjöllun ekki mátt til að skerpa á sölu einsog umfjöllun í nóvember getur triggerað, en umfjöllun má heldur ekki koma of snemma í vertíðinni; það hef ég heyrt af gólfinu.
Amma mín spurði reglulega enda þekkti hún til í bisnessheimi: Hvernig gengur salan? (Æ, ég er að endursegja þér…) Síðan hermi ég eftir ömmu í lífsins keðjuleik og spyr: Hvernig gengur salan?
Hún spurði ekki að öðru hvað varðaði ritstörf fyrir utan eitt skipti að hún hafði frétt ég hefði skrifað klámbók og spurði mig og ég svaraði neitandi. Að henni látinni frétti ég að hún fékk síðan ungan frænda minn til að lesa bókina upphátt fyrir hana. Frænka mín var mjög glöð með umfjöllunina sem bókin mín Flækingurinn fékk í Kiljunni. Ég var líka glöð. Og ég hefði svarað ömmu minni hefði hún getað spurt: vel. Umfjöllunin í þættinum hafði allt að segja um gengi bókarinnar. Það er eðlilegt að setja upp Bechtelsvip þegar talningin verður ójöfn. Vona að þáttafólkið fjallið um bókina þína fljótt á næsta ári og noti mælieiningu Bechtel við skipulagningu á þættinum.
Himinninn er bleikur og sjórinn speglar litinn. Mynstrin í brúnni koma í ljós, ská og stubbamynstur, línur með misjöfnum en líka svipuðum takti. Mynstur sem menn teikna í nútímabyggingar eru öðruvísi en þessi. Á meðan bleiki liturinn vex styrkjast stafirnir í brúnni. Við störf að listum skiptir úthald kannski næstum því öllu.
Notaðu tímann heima vel og skemmtilega, hangtu bara í heitu pottunum, syntu –
Bless á meðan, k
~