Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:
Uppsala, 8. janúar 2017
Kæra Kristín,
Enn og aftur gleðilegt nýtt ár og takk fyrir kaffihúsaspjallið í vikunni. Á einhvern undarlegan hátt þykir mér vænt um Kaffi Haiti. Kaffið þar er undursamlegt (hvergi í heiminum hef ég fengið kaffi með sama bragði) og þar fór ég á örlagaríkt stefnumót á síðasta ári, segi þér kannski betur frá því seinna. Svo er konan sem stýrir kaffihúsinu svo fögur og ég vona að reksturinn blómstri og allt dafni þar vel.
Nokkrum klukkutímum eftir kaffispjallið okkar fór ég í hríðarbyl út á flugvöll með einkasoninn. Við fórum í gegnum öryggishliðið og þar sem ég var upptekin við að klæða mig aftur í skóna og troða tölvunni ofan í tösku vatt drengurinn sér að standi þar sem hægt er að smella á ólík andlitstákn til að gefa þjónustunni einkunn og smellti á fýlukarlinn. Hann var svo snöggur að ég tók ekki eftir því en svo sagði hann og benti á tækið: ,,Ég ýtti á fýlukarlinn, af því að ég sakna pabba svo mikið.” Ég bráðnaði næstum því ofan í gólfið og tók mynd af tækinu og reyndi að sjá fyrir mér hvernig starfsfólkið túlkaði niðurstöðurnar úr þessum tækjum í lok dags en fann fljótt að þetta var öngstræti sem ég varð að koma mér út úr.
Ég fór rakleitt í næstu bókabúð og keypti Skegg Raspútíns eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Flugið gekk vel og þegar við lentum á Arlanda var 17 stiga frost og við komum okkur í hlýjan leigubíl og brunuðum beint heim. Fyrstu klukkutímarnir hér heima fóru í það að hita upp íbúðina en það var 13 stiga hiti í henni og smám saman skreið hitinn upp í 20 gráður. Um kvöldið (og næsta kvöld reyndar líka) var svo mikill harmagrátur hjá syninum að hann emjaði eftir föður sínum, litla greyið. Núna eru nokkrir dagar liðnir og söknuðurinn hjaðnar og nýjar aðstæður venjast betur og betur. Ég sökkti mér ofan í bókina um Raspútínskeggið og lauk við hana seint í gær. Þetta er margslungin bók þar sem síðurnar eru þrútnar af harmi og ást. Bókin sýnir hvað nándin getur verið viðkvæm og vinkonusambönd líka, að byggja brú yfir til annarrar manneskju til að byggja brú til sjálfrar sín krefst hugrekkis og seiglu. Bókin snerti við mér á undarlegan hátt, hún fékk mig til að horfast í augu við sjálfa mig og gangast við áður huldum skuggahliðum. Á meðan ég las bókina dreymdi mig undarlega drauma þar sem börn komu við sögu, í fyrri draumnum birtist barn í baðkari og þegar ég sá augun í því skipta litum spurði ég það ,,Ertu draugabarn?” og í seinni draumnum var maður sem ég kannast við (og ég held að sé líka vinur höfundarins) og hvíthærð dóttir hans sem var algjör skotta og mikið krútt en eftir því sem ég best veit er þessi maður barnlaus.
Nokkur atriði í bókinni minntu mig á eigin reynslu (eflaust nokkuð narsísk nálgun en merkileg finnst mér hún engu að síður). Ég á góða vinkonu frá Úkraínu og saga hennar er fjarlæg og nálæg í senn og harmþrungin eins og saga Ljubu. Einu sinni heimsótti ég hana og hún tók sig til og kenndi mér allt sem hún vissi um blómaræktun. Þegar hún talaði um vikur, mold, vökvun og háttsemi blóma fannst mér hún í senn mæla fram ljóð og vera að kenna mér eitthvað annað og meira um lífið en bara blómarækt.
Á nýársdag fór ég í langan göngutúr um Skerjafjörðinn og fann hvað ég saknaði sárt kartöflugarðsins við Skeggjagötuna. Þegar ég gramsaði þar í moldinni, vökvaði kartöflur og grænkál og sótti mér kálblöð í matinn í göngutúrum upplifði ég sérstaka hamingju. Mold, vöxtur og uppskera gáfu mér von og jarðtengingu. Að fá mold undir neglurnar og moldarryk í nasirnar gaf mér einhvers konar rætur. Fyrstu dagar ársins þykja mér alltaf svo fagrir, fullir af góðum fyrirheitum. Þessir dagar eru eins og hrein sængurföt sem hafa fengið að þorna á snúru í súrefnisríkum andvara. Ég breiði þessa nýju daga yfir mig og leyfi brakandi yfirborði sængurinnar að smitast yfir í draumaheiminn.
Þetta átti að vera stutt bréf og ég ætlaði að byrja að fjalla um nýju ríkisstjórnina sem er í pípunum en svona renna fyrirætlanir mínar út í sandinn. Það er miklu betra að tala um fersk sængurföt en pólitík. Hvernig leggst þetta nýja ár í þig?
Bestu janúarkveðjur,
Bjarney
~
22. janúar 2017
Kæra Bjarney,
Takk fyrir síðast – á kaffihúsinu – og takk fyrir bréfið og skemmtilegu myndina af fýlu- og brosköllunum. Ætli fýlukallarnir gleðjist stöku sinnum og broskallar brotni saman? Lífið er einfalt, flækist brosi maður skakkt, á vitlausum stað, eitthvað – í dag brosti ég í búð til dömu sem hóf í framhaldinu að rífast í mér. Grænt bros, bleik táfýla. Afsakaðu hvað langur tími hefur liðið. Það hefur verið mikið að gera, tekist hefur að fylla upp í glufur klukkutímanna, inn á milli á ég það til sem betur fer að þurfa ekki mikið að sofa og vakna eldsnemma og lesa áður en allt fer af stað, fréttaflutningurinn á rás 2, umferðin, efndir stundatöflunnar; svo þarf maður að fylgjast vel með og betur en áður – á föstudaginn hóf ég að lesa fleiri fréttir en ég hef komist upp með – fór að rýna í fréttirnar á netmiðlunum. Hér í heimalandinu þínu ríkir mikill harmur vegna hvarfs ungrar stúlku. Þú hefur væntanlega heyrt af því. Hvert mannsbarn er slegið, tárin eru þung. Við skulum minnast stúlkunnar sem fékk ekki að heilsa fleiri morgnum en þeim sem tuttugu ár gefa, á heimleið veidd í óhugnaðar net.
Um helgina las ég fréttir, las bók, fór í sund, fór í göngutúr, fór á opnun myndlistasýninga, borðaði pitsu, borðaði slátur, borðaði uppáhaldsmálsverðinn þinn, horfði á nýjan forseta dansa við konu sína, og varaforseta forsetans dansa við konu sína, og börn forsetans, að ég held, dansa við konur sínar. Pörin snerust kringum sjálf sig. Allt snýst um sjálft sig en ekki til þess að geta betur snúist í kringum sólina heldur til þess að geta snúist enn þá meira í kringum sjálft sig að því er virðist. Ég vona að rosti hinna sjálfselskufullu tíma fari senn að lækka.
Nú hefst tískuþáttur í framhaldi af gamalli umræðu um fatnað og tísku, hér fyrir löngu, og sem ég man óljóst en atriðið hef ég næstum því oftast á heilanum: það eru miðju-klaufar á buxum.
Fáir eru alveg fullkomlega sáttir við miðju-staðsetningu klaufar á buxum. Ég hvet landsmenn til að sætta sig ekki lengur við það að klaufar séu saumaðar svona á klofið til miðju og reka áróður fyrir hliðarklaufum; þá eru rassaklaufar mun skárri en framanverð miðjuklauf sem er einhvern veginn vúlgar og af þessum sökum:
– Samhverfan.
– Minnir á hólf. Innan þess eru til staðar viðkvæm kynfæri.
Til þess að bjarga sér fyrir horn – á meðan fataiðnaðurinn sem er glóballý skipulagður og mjög einsleitur býður ekki upp á annað en miðjuklauf – er ráð að nota belti og spenna því afturábak eða til hliðar. Beltið mun þannig leggja ljóðræna hönd ofan á klaufina og draga úr koðnunarlegum áhrifum samhverfunnar á augun.
Besta lausnin er: klauf til hliðar, næst besta: klauf að aftanverðu.
Hér birtist útskýringarmynd:
Með hlýju, k
p.s.: skrifaðu mér fljótt, afsakaðu enn töfina.
~
26.1.2017
Kæra Kristín,
Ég var farin að bíða eftir bréfi frá þér og satt best að segja orðin nokkuð óþolinmóð en síðan dreifðist hugurinn annað en þá kom líka bréfið að lokum. Loksins! Takk fyrir bréfið og klaufirnar fínu, ég hef líka ákveðnar skoðanir á buxnaklofum og viðra þær hér aftar í bréfinu. Þegar ég beið eftir bréfinu þínu fór ég að hugsa um alla þessa bréfabið sem hefur herjað á mannkynið síðustu aldir og ég áttaði mig á því að í erfðamenginu mínu er þessi reynsla: að bíða eftir bréfi. Hefurðu hugsað út í öll bréfin sem hafa aldrei komist til skila? Öll bréfin sem fólk ætlaði að skrifa en gerði það aldrei? Öll þessi óskrifuðu bréf og ólesnu bréf og týndu bréf? Hvað gera pósthúsin við bréf og böggla sem ekki er hægt að koma til skila? Uppi á póstkassanum í anddyrinu mínu er tómt og rifið umslag og ég velti stöðugt fyrir mér hvort bréfið hafi komist í réttar hendur, hvað hafi mögulega verið í þessu umslagi og af hverju umslagið var rifið svona upp þannig að það er tætt á öðrum endanum. Umslög á að opna fallega og af varúð.
Í gær þurfti ég að færa mig um set og hef nú aðgang að skrifborði sem snýr í aðra átt, ég held það snúi í suður (sólarljósið framundan mun skera úr um það). Skrifborðið er hægt að hækka og lækka og í gær stóð ég í fyrsta skipti við skriftir og það var undursamlegt. Sé það fyrir mér að geta tekið örlítil, nánast ósýnileg dansspor um leið og ég vinn standandi. Velti því mikið fyrir mér hvort textinn verði annar þegar ég skrifa standandi. Ég veit það ekki ennþá en ég get staðfest að þetta er mun meira STUÐ!
Áðan mætti ég Nils-Otto í stigaganginum, hann hélt á stórri krukku með að því er virtist drullumalli og sagði (á ensku): ,,Ég er á hraðferð ég er að fara í útvarpsviðtal um verkefnið mitt í vísindaútvarpinu.” Ég leit á krukkuna og sagði: ,,This looks like a messy business,” og hann hló og svaraði ,,It is!” Nils-Otto er í hópi vísindamanna í vísindasögu sem eru að grúska í gömlum handritum sem lýsa lækningajurtum sem eru settar saman til að útbúa Swedish bitter sem er gamalt meðal og hópurinn reynir að endurgera meðalið á rannsóknarstofu sinni út frá handritunum. Um daginn upplýsti hann mig um að þetta gengi bara vel en það var engin leið að vita hvernig færi þegar haldið var af stað. Nýja skrifborðið mitt snýr út að glugga og hér beint fyrir utan er grafa að moka upp mold. Þó að ég sitji og standi við skrifborð sem snýr að fallegum glugga (hér er hátt til lofts en líka voðalega kalt) þá líður mér svolítið eins og ég sé að moka, sé í ,,messy business” að drullumalla kastala úr moldarhaugum. Bókstafirnir í öllum þessum bókum eru mold.
- Janúar 2017
Sæl aftur Kristín. Ég tek undir sorgarþögnina vegna Birnu. Þetta er allt svo óbærilega sorglegt og vonandi mun sannleikurinn leiða í ljós hvað gerðist og hvernig. Öll þjóðin syrgir og þessi tár eru þung. Ég vildi ég gæti tekið þátt í minningarathöfn í miðbæ Reykjavíkur í dag og sendi strauma yfir hafið. Það er fallegt að sjá hvernig vinkonur hennar og fjölskylda lýsa þessari fallegu stelpu og beina þannig athygli okkar að minningunni um hana, þau vilja að hennar verði minnst fyrir þá stelpu sem hún var, ekki fyrir það sem gerðist.
Ég er líka uggandi og sorgmædd út af Trump og þeim skaða sem hann hefur valdið á þeim örstutta tíma sem hann hefur setið við völd. Mér sýnist hann ætla að valda þeim sem minnst mega sín miklum þjáningum. Einmitt þeir þjóðfélagshópar sem þurfa stuðning, hvatningu og hjálp munu fá útskúfun og hörku. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra og getur ekki farið vel. Hann segir “Make America Great Again!” en ég sé ekki mikla reisn framundan, sú Ameríka sem hann skilar af sér eftir fjögur ár verður sviðin jörð ef þetta heldur svona áfram. Nú langar mig til að sá fræjum ástar, umburðarlyndis og kærleika, setja mörk í kærleika, vökva kærleiksblóm og svara í annarri, uppbyggjandi mynt. Það þarf að setja mörk á mjög afgerandi hátt og beina farveginum að nærandi uppsprettu. Það þarf að slökkva á spegilfrumunum og svara ekki í sömu mynt, svara í allt annarri mynd. Mikil er ábyrgð þeirra sem studdu manninn til valda. Mikil er ábyrgð okkar að rækta kærleikann, hann er besta mótspyrnan ( Hollendingar hafa til dæmis stofnað sjóð til styktar fóstureyðingum til mótvægis við aðgerðir Tumpsmanna). Mér dettur í hug að banna beri auðkýfingum að vasast í stjórnmálum því þeir þekkja ekki líf almennings og geta því ekki þjónað honum. Þetta lið þurfi bara að fara í gegnum ákveðið þjónustumat (þar er metin hæfni manneskjunnar til að þjóna almenningi) og siðferðisstyrkurinn metinn yfir langan tíma. Þetta eru undarlegir tímar.
Nú sný ég mér að buxnaklaufunum. Ég er sammála þér varðandi fegurð hliðarklaufarinnar. Stundum velti ég því fyrir mér hvernig buxnaklof og salerni væru ef kvenkynið hefði meira að segja um klof og klósett og hefðu raunverulega ráðið þróuninni. Hver veit nema að þá væru ekki svona buxnaklaufar framaná heldur væru buxur hannaðar þannig að … veistu ég veit ekki hvort ég geti útskýrt þetta í mæltu máli. Ég sé fyrri mér efnisbút sem er saumaður fastur að aftan (við mittið) en hnepptur að framan og hægt að losa og þá er allt klofið frjálst. Þá er nóg að setja fætur í sundur eða fara á eitthvað tæki sem hjálpar fótum í sundur og allt fær að gossa niður í vatnsholu (sem opnast og lokast) eða eitthvað álíka. Rassaklaufin þín er algjör snilld. Á hana væri hægt að setja marga litla hnappa þannig að manneskja í spreng þyrfti alltaf hjálp frá einhverjum öðrum til að hneppa frá og saman, ég sé fyrir mér verulega munúðaraukningu í hversdeginum, ekki veitir af. Tölvutækninni fleytir fram af ótrúlegum hraða og með hverjum mánuðinum fáum við byltingar og ný raftæki sem einfalda lífið. Af hverju eru klósettin búin að vera eins síðustu 50 árin eða jafnvel lengur? Er enginn metnaður í þróun klósetta? Af hverju eru buxnaklaufar alls staðar eins? Af hverju þurfum við að sitja uppi með rennilása að framan (vont fyrir bæði kynin mundi ég halda) og konur að sætta sig við hönnun sem virðist unnin út frá typpum? Er þetta staðlavæðingin sem hamlar framþróun? Ég kalla á klósettbyltingu. Ég kalla á meiri fjölbreytileika í buxnaklaufum.
Kristín, hvað segir þú um að við tökum hliðarskref frá skáldskapnum yfir í fataskáldskap? Svona hliðarklaufaskap (afsakaður fimmaurabrandarann, ég varð). Teiknum og saumum nýjar gerðir af fötum og gefum út glansandi og mött tímarit um fegurð, um klaufar og snið. Saumum föt sem syngja. Saumum föt sem eru full af fræjum sem spýra, föt sem vaxa. Saumum föt sem berjast gegn þyngdaraflinu, helíumföt, helíumhatta sem svífa við hvirfilinn, föt sem gera ráð fyrir ungbörnum og gæludýrum að framan eða aftan, húfur sem tengjast peysum, ullarsokka sem gefa frá sér ástarhormón, peysur sem skipta litum ef þær fá faðmlag, föt sem kalla fram tár, kalla fram bros, föt sem fara með ljóðlínur á 200 metra fresti. Listinn er ótæmandi.
Þetta er spjallþráður númer 20 og þann 19. febrúar eigum við eins árs afmæli, þá er eitt ár frá fyrstu birtingunni en fyrstu bréfin voru skrifuð 10. og 11. febrúar. Höldum upp á alla þessa þrjá daga, fögnum!
Með hlýrri hlýju,
Bjarney
~
Reykjavík 30. janúar 2017
Kæri pennavinur minn,
Mér þykir mjög leitt að hafa látið þig bíða, afsakaðu mig aftur, ég get því miður ekki lofað betrun en ég ætla að reyna.
Ameríska ljóðskáldið Eileen Myles segir: Make Amercia Mexico Again!
Í gær heyrði ég konu segja að þeir – þessir sem eiga heiminn – ætli sér örugglega að eignast þessi 5% eða 1% eða 10% sem enn eru afgangs í eigu almennings; það væri ekki langt síðan almenningur átti 30%. Þeir vilja eiga ríkisstjórnir, ráðstafa skattfé, komast yfir sérhvern brunn sem lönd eiga sameiginlegan, einkaeignast rísorsana, gera sameiginlegar mjólkurkýr að eigin kúm. Og við, við sem eigum skuldir og mínus-eignir, skuggahús og bíla erum háð og ófrjáls, afþví við erum í mínusnum, eignirnar eru tálbeita. Það er víst verið að leggja allan heiminn undir sig – hvert smáatriði skal verða eignarnumið og merkt og líka draumarnir og innra lífið. Eignir manns eru blekking. Frelsið líka og lýðræðið – það ætti að grundvallast á sambandi frjáls fólks þar sem eignarlaus hefur sömu og jafn mikil völd og hinn. Úff, mig langar að vera frjáls. Vonandi mun ástin opna augu heimseigendanna, vonandi mun hún frelsa mann. Hvernig opnast augu manns? Hvernig frelsast maður?
Já: Tískan, tískan!
Undanfarið hef ég hugsað um kanaúlpur. Þegar ég var þrettán eignaðist vinkona mín kanaúlpu – bláa með belgvíðu appelsínugulu innanáfóðri. Mig langaði í silfurgræna. En mamma mín vildi ekki gefa mér kanaúlpu – hún var ekki sátt við ameríska stílinn – fyrir utan strigaskóna þaðan og handklæðin – en margt hefur breyst og ég sæi hana í anda klæðast kanaúlpu í kuldanum um helgina – þá varð allt í einu hressilega kalt: ég kom úr sundi með pólska sumarhúfu og blautt hár – ekki í kanaúlpu! Ó, mér varð svo kalt.
Ég þekki ekki enska orðið og get því ekki gúglað kanaúlpu nema á íslensku. Í þessu tilviki er ég föst inn í tungumáli, það er samt ekki einangrandi í þessu tilviki.
En kanaúlpur eru svoldið kallalegar – líklega myndi mamma ganga í aðskorinni kanaúlpu með belti, svona dömulega útgáfu.
Hlakka til afmælisins – mun fá mér danskt marsipan súkkulaði í bleiku bréfi með hátíðarkaffinu – gerðu þú það líka. Á föstudaginn fór ég í búð og maðurinn á undan mér keypti marsipan súkkulaði í hvítu bréfi. Mér hefur aldrei þótt marsipan eftirsóknarvert en nú hef ég það á heilanum.
—– Hei, ég sá kvikmyndina Moonlight —–mæli með henni. En konan á Rás 2 var ekki ánægð og það gerði mig leiða, hún sagði að myndin hefði ekkert skemmtanagildi, hún sagði það svo oft og ég varð leiðari og leiðari – þetta væri mynd fyrir einhverja sérstaka tegund af manneskjum. Á að gagnrýna bækur og bíómyndir eftir því hvaða „markhópi“ hugnast þær? Og ég vil ekki nota þetta orð: markhópur. Maður skrifar bók eða gerir bíó og svo koma einhverjir menn í karlkyni og kvenkyni og flokka fyrirfram hvaða markhópi verkið muni og eigi eftir að tilheyra. Ég segi mig úr öllum markhópum – gerðu það líka!
Algjörlega sammála þér í einu og öllu um tískuna, smíðina á fatnaði, klaufum og klósettum.
Muna: fjalla bráðum um öryggisnælur, þ.e.a.s. ef öryggisnælur eru ekki of persónulegar.
Og:
Opnum landið! Bjóðum flóttafólk velkomið. Í dag koma 22 sýrlenskir flóttamenn til landsins. Forsetinn býður heim á Bessastaði.
Með hlýrri kveðju,
þinn pennavinur k
P.s.
Útdráttur: Ný snið, ný gerð klósetta – hver manneskja þvær sitt eigið, opnum landamæri, minnki vægi hugmyndarinnar um markhópa – hugsum vel um orðið: frelsi – ást –
P.p.s.
Fór niðrí bæ, sá unga konu í dömukanaúlpu. Það eru svona innvortis belti í kanaúlpum –
P.p.p.s.
Krukkur. Kveðja til Nielsar.
P.p.p.p.s.
Lesbíur eru í tísku.
~