Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:
Uppsala, 9. febrúar 2017
Kæra Kristín,
Í dag skín sól og snjófölin brakar undir skónum. Hversdagurinn hefur undanfarið verið í mjög föstum skorðum, rammaður inn af gönguferð okkar sonarins í og úr skóla. Á leið okkar á göngustígnum er skógarjaðar og ég rýni reglulega inn á milli trjánna í leit af lífsmarki en sé yfirleitt ekki neitt. Einstaka sinnum skottast íkorni á milli trjáa á einum stað. Við höfum þó tekið eftir því að seinnipartinn í kringum 16:30 flýgur iðulega hópur syngjandi/gargandi fugla yfir hverfið. Um daginn sá sonurinn fuglana mynda hvalaform. Mig grunar að þetta séu múrsvölungar og að þeir séu að hópa sig saman til að dvelja við vatnið stóra yfir nóttina. Rétt áðan gúgglaði ég múrsvölunga og þeir eru líka kallaðir turnsvölur en fræðiheiti þeirra er apus apus. Mér finnst alltaf jafn merkilegt að hugsa til þess að allt í kringum okkur eru dýr að draga fram lífið í föstum skorðum, verða á vegi okkar og við vitum ekki hvað þau eru að sýsla.
Um daginn breyttum við þó út af vananum og þáðum boð pakistansks vinar um að hitta nokkra dýralæknanema, borða og horfa á bollívúdd mynd. Við fórum í aðalhús dýralækninga og búvörufræða (þar nálægt er risastór dýraspítali). Þegar einn kennarinn heyrði að ég væri að lesa hugmyndasögu sagði hann að það væri allt allt annað en þau gera þarna því þarna ræddu þau bara dýralækningar. Það hvarflaði að mér að útskýra fyrir honum að hugmyndasagan er alls staðar og að dýrafræðin blómstra innan hugvísindanna enda dýr út um allt í goðsögum, trúarbrögðum, bókmenntum, kvikmyndum o.s.frv., en ég greip ekki gæsina. Ég er að átta mig á því að líf mitt er uppfullt af svona ógripnum gæsum, þegar tungan bólgnar í munninum og ég þegi en hugsa þeim mun meira um það sem ég hefði betur sagt. Ætli sé ekki skárra að segja of lítið en of mikið? Passlegt er eflaust best en ég þekki ekki þessa mælieiningu. Bíómyndin var yndisleg, fyndin, sorgleg og tregablandin og endaði á hálfgerðu júróvísjónsjóvi (svona er evrópa nafli alls) í lokin.
Nú fer síson eitt að vera búið hjá okkur Kristín! Manstu við vorum búnar að ákveða að láta gott heita á eins árs birtingarafmælinu. Mér finnst flott að gefa verkefnum afmarkaðan tíma og leyfa þeim þannig ekki að renna út í sandinn, það er svo margt sem rennur út í sandinn. Ég mun örugglega halda áfram að skrifa bréf til þín, bréfaskrif eru orðin svo mikilvægur hluti af taktinum í lífi mínu. Kannski söfnum við bara kröftum, snúum okkur að öðrum skrifum og hefjum síðan síson tvö í framtíð sem er óræð og full af tísku og trömpum og orðum undir þrýstingi. Ég er byrjuð að undirbúa marsípanát af miklum metnaði á afmælisdeginum þann 19. febrúar. Fann marsípan í matvörubúðinni en keypti óvart núgat (mjög dæmigerður ruglandi í mér, skapandi umbúðalestur). Mér þykir marsípan svo gott að ég get borðað það beint af beljunni. Mér þótti mjög merkilegt að þú skyldir nefna marsípan því um daginn kom allt í einu til mín hugsunin um marsípan og ég hugsaði: ,,Nú hugsa ég óvænt og skyndilega um marsípan, mig langar í marsípan, þetta er undarlegt, hvernig ætli standi á þessu? Er eðlilegt að fá allt í einu marsípan á heilann?” Kannski fékkst þú sama marsípanhugboð á sama tíma, það kæmi mér ekki á óvart. Í næsta bréfi skal ég segja þér meira frá marsípanplönum mínum og senda mynd með.
Bestu bestu vetrarsólarkveðjur,
Bjarney
Ps. Vinur minn fór á Moonlight og var líka yfir sig hrifinn. Hér í Svíþjóðarheiminum kemst ég ekki á fullorðinsbíó svo að ég sé myndina seinna seinna.
Pps. Ég þori ekki að segja þetta en hvísla bara laust/lágt: ég á afmæli í dag (búin að stroka út oft en hætti nú þessi stroki)
~
Reykjavík á afmælisdegi Bjarneyjar
Til hamingju með afmælið sæli pennavinur, megi dagurinn verða gleðilegur, fylling hans djúp og bragðgóð sem marsipan. Fékkstu afmælisgjöf? Hélduð þið afmælismorgunverð? Var kveikt á kerti? Hvernig var kertið á litin? Blöðrur? Kaka? Muntu spila á ukuleleið? Hvers konar fánar skreyta afmæliskökurnar í heiminum okkar?
Senn birtir. Þórdís leikur á ukulele og syngur gömul amerísk þjóðlög. Eldfiðrildi situr á morgunverðaborðinu hjá epli sem búið er að bíta í og blikkar rauðu, grænu og bláu. Benedikt Erlingsson leikstjóri og leikari talaði áðan í útvarpinu um umhverfismál. Í andvöku fyrrinætur las ég um rifuna sem myndast hefur á Antarktíku á síðustu mánuðum, rifan sést úr geimnum, hún má alls alls alls ekki rifna meir. Yfirborð sjávar hækkar hraðar en vísindafólk ályktaði.
Mig langar að heyra allt sem þú segir ekki þegar við hittumst á kaffihúsinu við bryggjuna á ritstjórnarfundum. Mikið mjög langar mig til að heyra allt sem fólk segir ekki: hvað það hugsar og skynjar sem ég skynja ekki og skilur hryllilega mun betur en ég.
Er örlátt að tala mikið – fólkið sem heldur uppi fjörinu í boðunum með sögum? Ætli oftar sé kvartað undan einhverjum sem talar en þöglum persónugerðum? Örlæti, óróleiki, feimni. Maður hrífst af manni sem talar í stresskasti, maður hrífst af manstu: feiminni þögn. Svo er margt sem ekki er hægt að nálgast með orðum. Einsog hvað? Teljum upp. Þorir þú að byrja upptalningu hins óorðanlega?
Kæra afmæliskona, það líður að lokum sísonsins, sísons eitt, mér finnst ég hafa brugðist, gleymt að spyrja útí nám, útí ritstörf, útí nýja lífið útí löndum. Tíminn er liðinn, ég get ekki bætt afturábak. Allt sem við höfum látið ósagt og ritskoðað.
Í gær fórum við Þórdís í fótabað og fótanudd og eftirlitsmyndavél fylgdist með athöfninni og sendi út on-line / í beinni útsendingu. Við sátum berfættar í sýningarglugga sem er Window Gallery við Hverfisgötu og ræddum um listir og flettum listatímaritum á meðan listakonan Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir nuddaði fætur okkar. Það er hægt að panta tíma hjá Katrínu þar til sýningunni The Masseuse, Friction in Art lýkur þ.26. þ.m. – hvet lesendur til þess.
Ath. málsgreinin átti ekki að vera óbein auglýsing, ég ætlaði að ræða um hvað maður lendir núna oft í útsendingu.
Í þar síðustu viku tók ég viðtal við kollega okkar í sýningarglugganum og undir linsu sem kveikt var á. Í eitt ár höfum við skrifast á fyrir opnum tjöldum, leiðréttum og strokum út áður en við birtum. Á skypeinu og þar og hér og alls staðar er maður var um sig, situr við tölvuna / símann í mynd í líki x-veru og svarar fyrir sig. En ég er samt ekkert hrædd, ég gleymi mér, segi það sem veggir ættu ekki (og þrá ekki) að heyra. Mig langar til að fela mig, kannski ekki, alla vega stundum. Borga ferðir með reiðufé – kassi – peningaseðlum með milljón fingraförum, fitugu – söltu – klinki – tala í síma sem rekur ekki sporin – ó – ég fann – (ógegnsæjan) tíkallasíma – á Safnanótt – við hliðina á lyftunni uppá Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Eða þá: sýna allt, opna dagbækurnar, vera gegnsær…
Eða þá: Passlega gegnsær / passlega ógegnsær… *
Tala mikið, tala í hófi, þegja, etc. Á skalanum 1 til 10 hvernig met ég gáfur mínar ef 0 er heimska?
Marsipanið var hugskeyti – ég hef lifað í meira en hálfa öld og aldrei fyrr langað í marsipan eða keypt – þetta var hugskeyti. Takk. Búin að borða 2 stykki síðan.
Hvernig finnst þér Rimbaud?
Ég slekk á bleika fiðrildinu, slökkt, fiðrildið sofnar.
Njóttu afmælisdagsins í marga daga!
/ k
P.s.
Pennavinirnir þakka Rithöfundasambandi Íslands fyrir að hýsa bréfin á heimavettvangi þess frá febrúar 2016 til febrúar 2017 um það bil fjörtíu að tölu.
P.p.s. minnismiði fyrir sjálfa mig: passa sum orð, nota þau ekki of mikið.
*Stundum stór stafur eftir : og stundum lítill.
~
14. febrúar 2017
Sæla Kristín,
Takk fyrir afmæliskveðjuna. Á afmælisdeginum komu tvær æskuvinkonur í heimsókn og við fórum út að borða. Þær gáfu mér pakka með íslensku jurtakremi og jurtasápu. Þær færðu mér líka lítil páskaegg og harðfisk. Fyrr um daginn heimsótti ég góða vinkonu og fékk hjá henni piparkökukaffi og bæði púsl og bíl að láni. Sama dag settist ég alklædd í rúmið að lesa bókina sem hefur heltekið mig undanfarna daga: Americanah eftir Chimamanda Ngozi Adichie, ég mæli með henni. Hér er viðtal við hana um bókina úr sænska þættinum Babel:
Já, það er margt sem ekki er hægt að segja og koma í orð. Hér er vanmáttug tilraun til upptalningar: Djúpstæð skömm, eftirsjá og sorg lituð af skömm, fjölskynjun þ.e. þegar mörg skynfæri verða fyrir ómótstæðilegri/einstakri skynjun, órökréttur grunur, andrúmsloft, hraði minninga (þegar minningar herja á mann eða stökkva óvænt undan næsta steini), samband andardráttar, steinefna og orða sem verða til í heilarými. Er ég að gleyma einhverju?
Mér þótti Rimbaud undarlega undarlegur, heillandi og óskiljanlegur. Að lesa Rimbaud er eins og að lesa Dante, ég skil ekki neitt en finn hvernig dulvitundin þefar og kjamsar og nuddar sér upp úr þessum djúpstæðu orðum. Textinn er handan hins röklega og mig grunar að þá hafi hann mun öflugri, ágengari áhrif. Hvernig fannst þér Rimbaud?
Oft er það mikið örlæti að tala mikið, segja margt og gefa sögur. Það er svo oft sem ég hef haldið aftur af mér og ekki gefið sögur eða pælingar en það eldist af mér hægt og bítandi. Hormónakokteillinn nærir blaðurskjóðuna. Tek eftir að stundum kemur til mín rödd sem segir áður en ég fer í kennslutíma: ,,Bjarney, nú skaltu reyna að tala minna, reyndu bara að hlusta og þegja og vera einu sinni til friðs.” Ég er svo undrandi á þessari rödd og skil ekki hvaðan hún kemur. Þessi rödd segir aldrei: ,,Bjarney mín, nú skaltu endilega leggja orð í belg, segðu það sem þér dettur í hug og taktu þátt í umræðum.” Svona er líf mitt fullt að röddum sem segja hitt og þetta og margt af því er hin mesta vitleysa. Leyfi þessum röddum að hrópa og kalla og emja og æpa en hlýði þeim ekki, mjög mikilvægt að hlýða ekki niðurdrepandi röddum. Kristín, ég hvet þig til að gaspra og kjafta og spjalla og mala sem allra mest.
Ég hef fréttir að færa þér!! Síðasta laugardag gerði ég tvennt: borðaði marsípan og keypti mér buxur með hliðarklauf (reyndar með rennilás en það er allt í lagi). Í ljósi þess að ég hafði ekki keypt mér buxur í eitt ár gaf ég mér góðfúslegt leyfi til þess. Marsípanið leyndist inni í gómsætri bollu en hér heita bolludagsbollurnar Semla og eru reyndar ekki eins og þessi á myndinni, yfirleitt eru þær súkkulaðilausar, berar en með ýmist vanillukremi eða marsípani með rjómanum eftir því sem ég best veit. Hér koma myndir af bollu og klauf:
Á sunnudaginn kíkti ég í fallega sælgætisbúð sem var með þetta fallega orð í glugganum:
Veistu, ég kem bráðum aftur heim og er þegar komin í ferðagírinn. Í sumar ætla ég sem sagt að koma aftur og finna undurfagra leiguíbúð í Vesturbænum og næsta vetur tek ég frí frá námi og finn mér vinnustarf. Draumastarfið er að skrifa og lesa ljóð og dansa. Bráðum kemur atvinnuauglýsing í blöðin: ,,Laust starf við ljóðagerð og dans með áherslu á hugmyndaheim sautjándu aldar, frjáls vinnutími, krafa um mikla sköpunargleði og dans.” Allar setningar ættu að enda á þessum orðum: ,,og dans.” Þetta er ekkert grín! Ég á mér eitt draumahús en það er Faxaskjól 14 (hér opinbera ég gamalt leyndarmál), ég hef reyndar aldrei komið inn í það en hef dáðst að fegurð þess í mörg ár. Húsið er við rólega götu við sjóinn, hvítt með svölum, fallegum gluggum og sætum garði. Mér hefur dottið í hug að hringja í húsráðendur og athuga hvort þau vanti húsapössun en svo þori ég því ekki, símtalið yrði svo undarlegt. Áttu þér draumahús?
Ég man hvað það var erfitt að velja upphafsorðin í fyrsta bréfinu í síson eitt, nú líður mér eins og ég þurfi að velja lokaorð en hugga mig við það að síson tvö kemur seinna. Lokaorð eru erfiðari en upphafsorð en þegar maður skoðar orðin ,,hæ” og ,,bæ” eru þau ótrúlega lík og líka ,,blessuð” og ,,bless”. Já, ég ætla að velja blessunina. Hlakka mikið til að fá lokabréfið frá þér.
Blessi þig allar góðar vættir og allir/allar almættir!
Þinn síson eitt pennavinur,
Bjarney
Ps. Í dag er ástardagurinn og ég endurtek efni bréfsins: ég elska marsípan, ljóð og dans!
Pps. Var að kaupa Hindenburg útvarpsklippiforrit, langar að læra að nota það. Líður eins og ég eigi í vændum stóra nammibúð.
Ps ps Afmælisbirtingardag síson eitt ber upp á Konudaginn 19. febrúar við upphaf Góu.
~
V-dagur, 14 ii 2017
Kæra Bjarney,
Í dag gekk ég borgina á enda. Í laumuregni. Fór yfir stórar og litlar götur, undirgöng, ekki hringtorg – ég er hrædd við að fara yfir götur sem eru eiginlega hraðbrautir, niðurinn hefur undarleg áhrif og tekur næstum af mér ráðin og rænuna; til varnar má nota heyrnatól, það geri ég sjaldan; ég vildi gjarnan að bílar keyrðu ekki svona greitt.
Grasið á Klambratúni var mjúkt og skrælgult. Fyrr um daginn, rétt fyrir hádegi, eftir að ég hitti þig á skype – og stúdentana og kennarann í stofu 303 – sá ég líka annan fallegan lit, grænan, í grasinu og mosanum í Hólavallakirkjugarði. Nýbylgjugrænn er bráðabirgðaheiti litarins. Þennan lit hef ég ekki áður séð eða grænan lit yfirhöfuð í febrúar.
Göngurnar í dag voru lofgjörð til ástarinnar – í eitt ár hefur þú minnt í bréfunum á mikilvægi ástarinnar og dansins; ég hef ekki dansað í dag.
Takk fyrir tímann í stofu 303 um ljóðagerð. Fundur okkar einsog flest annað núna var tekinn upp, hvort tveggja mynd og hljóð.
Í kvöld liggur leiðin eftir Ástarbrautinni áleiðis að risastórum munni sem mun greiða minningunum með froðu, tungum og salti.
17 ii 017
Til hamingju með nýju buxurnar! Þá er tískuiðnaðurinn byrjaður að leiðrétta einsleitni miðjuklaufalausnarinnar, og líka með íþróttabuxum sem eru orðnar þverfaglegar og ég tek eftir að strákar klæðast, oft gráum, úr efni sem lítur út næstum einsog ull – blandaður felldur. Mig langar í glansandi íþróttabuxur og í buxur með hliðarklauf. Pils með miðjuklaufum hafa ekki sömu skírskotun og buxur með miðjuklauf.
Takk fyrir upptalninguna, nei þú gleymir engu. Maður á víst að mæta skömm með gleði, einsog öllum tilfinningum, því þær eru gestir og leiðbeinendur manns, segir Rumi. Vonandi kemst ég í Americanah, takk fyrir klippuna. Þá vona ég að þú fáir vinnu sem verði hliðholl ritstörfunum og þú fáir aukinn tíma og allan tímann til að skrifa sögur, leikrit og ljóð. Mun seint gleyma því sem þú skrifar um innri röddina ~ ætla að prófa þetta, innri rödd hvíslar að mér: ekki standa þig í boðinu í kvöld.
Í göngutúrnum í fyrradag, daginn eftir V-daginn, sá ég í hornið á draumahúsinu þínu – fallegt er það. Ég á ekki draumahús en stundum dreymir mig hús sem er að mestu úr gleri. Rendur himinsins í göngutúrnum í fyrradag voru í þessari röð: gul – blágrá – gul – mintugræn – gul – fölslæðuljóst.
18 ii 017
Kæra Bjarney,
Enn fór ég í göngutúr í dag. Hér er teikning úr göngutúrnum:
Strákarnir, e.t.v. 13 ára, gengu um ströndina í Nauthólsvík á sundbuxum með handklæðin á öxlunum og hlupu líka og hoppuðu í sjóinn, böðuðu sig þar og í pollunum og í heita pottinum.
$$$$$, ást, dans, egó, á árinu hef ég ekki fengið háan hita, lækur, bækur, gjósa, kjósa. Í morgun lá mjólkurþorstahvít þoka yfir bænum. Marsipan á morgun. Skrifa um Rimbaud næst –
Yðar einlæg,
k
~~~