Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands

Vængjuð kveðja inn í vorið

Skrifa athugasemd

Sigurbjörg Þrastardóttir og Halldór Armand Ásgeirsson skrifast á:

Sigurbjörg og Halldór saman

10. janúar 017

ástsæli halldór,

(fyrirgefðu, datt í hug að velja ávarp sem enginn notar, því þetta er ekki alvöru bréf) mig langar að biðja þig um greiða. Er einhver sjens að þú getir útvegað mér innsigli til að loka bréfum? Það sagði mér maður um daginn að hann hefði fundið innsigli afa síns í dánarbúi og þótt það töff, spurði af hverju ég léti ekki gera svona fyrir mig, ég gæti haft S … (svo mundi hann ekki föðurnafnið mitt, ég hjálpaði honum), já, og Þ, ég gæti látið útbúa innsiglið SÞ og brætt í vax aftan á öll umslög. Ég benti manninum á að enginn skrifi þannig bréf lengur, menn skrifa í mesta lagi tölvupóst, þess vegna hefði þetta ekkert upp á sig, en þegar lagt var (hart?) að mér að skrifa þér (ekki-) bréf, Halldór, datt mér í hug hvort þú værir gæinn sem gætir útvegað svona, hávaxinn eins þú ert og víðsýnt hjá þér (ég veit, skrýtinn stíll, ég er að reyna að hafa þetta ópersónulegt). Mér dettur í hug að ég geti notað þetta í daglegu lífi, hitað innsiglið og markað alla sem ég hitti. Með fangamarkinu mínu. Það mætti jafnvel víkka þetta út, brennimerkja fólk (er þetta núna dulbúinn pistill?) með læki eða hjarta eða broskalli, væri það ekki skynsamlegra en random húðflúrið sem ratar í tísku og dettur úr henni aftur, að samskiptasagan væri á húðinni, í skinninu? Kannski er þér annt um eigin húð, það væri vel skiljanlegt, og ég gæti lofað að brenna þig ekki í skiptum fyrir þennan greiða sem ég kem ekki út úr kerfinu á mér, eníhá, þú ferð varlega, SÞ

p.s. ég set fólk hér í cc. til þess að venjast því að aðrir lesi þetta bréf, ímynda mér í æfingaskyni að þú sért í fangelsi, þótt það kalli strax á ákveðna þversögn, jæja

~

17. janúar 017

Sigurbjörg.

Afi minn hafði sömu upphafsstafi og þú. Ég minnist þess ekki að hafa erft frá honum innsigli, en ég get kannað málið, spurt pabba og Dodda frænda minn. Afi skrifaði bréf — ég veit það vegna þess að ég á bréf frá honum til ömmu minnar. Það er skrifað við Nürnberg-réttarhöldin 1946 og þarna er afi minn, SÞ, 24 ára gamall blaðamaður, að verja bróðurhluta bleksins í að skrifa útlitslýsingar á nasistum í réttarsal. Efast ekki um að ömmu hefur þótt þetta áhugaverðara en eitthvert hjal um söknuð og hlýju hjartans. Hinum megin við hafið er sagan með ónot í maganum. Þetta bréf er eins og spegilbrot á floti í straumi tímans. Ég get veitt það upp úr vatninu og virt fyrir mér flís úr einhverju sem er horfið. En þarna stendur fortíðin, á öðrum stað, samt ennþá hér. Ég lít í spegilbrotið og finnst skyndilega eins og ég hafi verið þarna sjálfur, einhver arða af mér, séð með augum afa míns, ungs manns í réttarsal í Nürnberg, og horft þar í augu Albert Speer og von Ribbentrops og Görings og ákveðið að skrifa til eiginkonu minnar myndrænar lýsingar á nefbroddi Rudolfs Hess. Kannski var ég þar í einhverjum skilningi. Sjá þeir mig enn? Og kannski brosir afi minn að einhverju leyti í fingrum mínum þegar ég rita þessi orð. Heldurðu að það geti verið eitthvað til í þessu? Eða á maður bara að tolla í tískunni, rækta sjálfan sig, hugsa um núið? Þú sagðir við manninn sem þótti innsigli töff að enginn skrifaði bréf lengur. En ég get sagt þér að ég fékk bréf í dag. Það beið mín í svörtu umslagi í almenningsgarði og í því stóð meðal annars að lífið sé einskis virði án drauma. Svo kannski er ekki öll nótt úti enn.

– Dóri

~

2. febrúar 017

Hugheili Halldór,

(þú sérð að ég er enn að vinna í ávarpinu!)

Afi minn bjargaðist klæðafár úr köldum sjó eftir að Þjóðverjar sökktu skipi sem hann var farþegi á, þetta var fáum mánuðum áður en afi þinn sat og teiknaði sakborningana í Nürnberg. Merkilegir, þessir afar, að hafa átt hlut í heimssögulegum viðburðum. Þeir hafa verið á sama aldri. Hver veit hvort þeir þekktust – kannski af afspurn? (Ég hef oft furðað mig á því hvernig fólk hneigist til að tipla í kringum gamalt fólk, segir að það megi ekki heyra ákveðið orðbragð, að ekki megi sjokkera það með sjónvarpsþáttum … mín kenning er að eldra fólk hafi einmitt séð allt og sé þess vegna sterkara en flest okkar. En ég veit líka að afi minn hefði alveg viljað vera laus við lífsháskann, það var tráma sem fylgdi honum alla tíð.) Ég elska kenninguna þína um að flís af þér hafi verið með afa þínum, SÞ, ungum í réttarsalnum, upptakturinn að þér, þetta er öfugsnúin hugsun sem gengur samt fullkomlega upp og fær mann til að trúa á lífið á nýjan hátt. Og það er ekki lítið. Þegar ég stari á jólatrén sem liggja á túninu mínu eins og fallnir hermenn missi ég nefnilega trúna. Ég hef annars verið heima að raða bókum, heima lasin, heima að rótera húsgögnum. Nema eitt kvöldið fyrir stuttu, þá reif ég mig upp og fór út að borða. Og þá, ég veit ekki hvort ég á að segja þér þetta, en þegar ég kom upp Ingólfsstrætið sá ég þig sigla niður það sem mér skilst að sé kallað Bakarabrekka (ég er alin upp annars staðar). Instínktið var samstundis að rífa upp bílhurðina, elta þig niður götuna og afhenda þér bréf, en það gekk ekki því a) ég var ekki með bréf, og b) þér hefði krossbrugðið, þú varst með eitthvað í eyrunum. Forvitnin sér það auðvitað ekki í friði, á hvað ætli þú hafir verið að hlusta, en ég ætla ekki að spyrja. Sumt á ekki að gefa upp. Svipað er með svarta umslagið, það lætur mig ekki í friði nema auðvitað það tákni annað, tákni náttmyrkrið sem gætir okkar (allra), þetta er orðalag úr Eyrbyggju sem ég hef lengi haldið uppá – „lát náttmyrkrið gæta þín“ – ég laumaði því einu sinni í ljóð og fannst fara býsna vel, svo sá ég að Sigurður Pálsson er með þetta í nýjustu bókinni sinni og þá hugsaði ég: oh.

Í framhaldi af þessu er ég með spurningu um bækur, en ég þarf að ná að orða hana betur, þannig að hún er opin til túlkunar í bili. (Hún beinist að svæðinu í kringum brjóstkassann.)

Ungi Dóri, eftir sjötíu ár mun enginn vita hvernig þú stikaðir niður Bakarabrekkuna í vikunni nema sá sem finnur þetta bréf. Póstrjómantíkin er ofmetin, samt nauðsyn. Þín S.

p.s. Það kemur annars aldrei yfir mig að vitna í Eyrbyggju, eða aðrar fornsögur for that matter. Þú afsakar.

~

9. mars 017

Elsku Sigurbjörg,

Líf mitt er uppfullt af bréfum þessa dagana. Bréfum í lófanum, bréfum á bókahillunni, bréfum í huganum. Svöl bréf sem ilma eins og Öskjuhlíð í vornótt. Blek á pappír, allt í kringum mig. Ég veð þetta flóð upp í hnésbætur heima hjá mér, fyllti sængurverið af þeim og sef úti á svölum undir stjörnum og hlýjum hugsunum annarra. Hvaðan komu þau? Ég hef ekki handskrifað bréf í nokkur ár. Kannski vildi Guð smella fingrum framan í mig og segja Vaknaðu, strákur! Þetta er líf, þetta er heimur, þetta er þrá, gerðu það fyrir mig að vera nú búinn að lifa aðeins, titra aðeins, óska aðeins áður en ég kalla þig aftur til mín. Ekki lifa gegnum fokking skjá — ég er ekki þar. Ég held hann sé að segja þetta.

Á eftir svörtu umslagi í almenningsgarði — og já, kannski var það verndarengill myrkursins sem þarna beið mín, eins og þú segir — fylgdi annað inni í ljóðabók á Laugavegi. Í bréfi þess stóð að ég væri danskur prins, með funheita glóð í augunum og guðdómlega vitfirringu í hjartanu. Ég hélt um stund, eða ég allavega sagði sjálfum mér — og trúði því í einhver andartök — að ég væri mávur á ljósastaur í draumi hennar. Þannig sá ég það fyrir mér. Bara lítill, þögull mávsi, hátt fyrir ofan, keikur og mjúkur og horfandi á eitthvað úti í buskanum sem hún þráði að skilja hvað var. En það var rangt, svo dásamlega rangt! Ég var bara derhúfa, fimmtánhundruð króna flík til að máta við spegilinn og skilja svo eftir. Það tók mig sjö klukkutíma að verða ástfanginn af þessari uppgötvun.

Afi þinn að skríða á þurrt land eftir hremmingar á hafi í heimi glundroðans. Þú að raða bókum í hillur og fölnandi jólatré fyrir utan gluggann eins og þeim hafi rignt niður. Afi minn á óþægilegum stól í réttarsal í Nürnberg, ómeðvitaður um barnabarn sitt sem þreifar á svörtu umslagi í framtíðinni og þylur fyrir munni sér að hann sé mávur. Nú sé ég á netinu að kunningi minn var að læka extistensíalískt vídjó frá Kastljósi þar sem viðmælandi nokkur segir að einn daginn renni upp fyrir hverju einasta okkar að seinna verði kannski aldrei. Líklega er það rétt. Seinna er nú þegar búið að eiga sér stað.

Og já, þú varst með opna spurningu um bækur sem beinist að svæðinu við brjóstkassann. Svarið er lokað í hjarta mínu! Læst inni í litla Special Price Free Shipping derhúfuhjartanu mínu! Þegar ég dey og breytist loks í máv skal ég hvísla það uppi á girnilegasta staurnum við Sæbraut.

Vængjuð kveðja inn í vorið,

Dóri

Skildu eftir svar / athugasemd