Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands

Esjan er klædd í fallega gráa vinnuskyrtu

Skrifa athugasemd

Myndlistarkonurnar Gunnhildur Hauksdóttir og Anna Hallin skrifast á:

Washington stræti, New York borg
í nóvember, 2016

MILLILENDING

Gott kvöld Gunnhildur,

Áðan sá ég mynd af þér í ponsjóinu hennar Olgu sem ég prjónaði. Ég sit hérna í íbúð Grétu og Susan í vesturþorpinu í New York borg og ætla að hitta vinkonu okkar, Angelu, í kvöld. Hún er nýkomin í bæinn frá feitum styrk í Róm og er að sýna i Cleveland eftir tvo daga, allt á fullu svo ég hitti hana bara á morgun.

Ég er núna búin að ákveða að byrja þetta bréfasamtal okkar.

Hér allt svolítið óraunverulegt en samt gaman, erfitt að útskýra, en við vorum hérna í Ameríku í námi sem hefur mótað okkur ansi mikið og myndlistin sem við erum búnar að upplifa þessa daga er mjög mögnuð og líka arkitektúrinn.

Ég var líka að framkalla tíu þynnur af 4×5 filmum og þori núna að láta þá hafa tuttuguogeina þynnu í viðbót, en fyrirtækið er á súperbissí stað á Manhattan – ég er annars alveg hissa hvað Manhattan er næs……róleg og kósi; fimmta breiðgata er nálægt ljósmyndastaðnum – úff – fólkið á stofunni er mjög fínt, það getur samt ekki stafað nafnið manns, en ég er alveg vön því eftir að búa á Íslandi.

Er frekar vön millilandinu, kannski „fíla” ég það betur en hitt – örugglega þú líka sem ert mikið á ferðalagi. Mig langar samt svolítið mikið í „pönkið.”

Ég er líka að hugsa um uppskurði – uppskurðir eru eitthvað sem breytir manni. Ég er ekki búin að spyrja þig hvernig þér líður? Og hver var ástæðan fyrir öllu saman hjá þér? Hugsar einhver um þig? Fylgist með?

Við erum sem sagt hér og ég er að fara þann þriðja til Steph Tamez til að fá húðflúr yfir örið mitt – ég er smá efins, samt fékk ég nafnið hennar frá tveimur vinkonum – Maiju og Angelu. Mig langar í þessi konuvöld og að breyta „galla” í vald, kraft. Ég vil vera stolt með hrukkur og ör og hugsa þetta á hátt sem ég passa inn í.

Ég hugsa að ég noti eitt af flugmynstrunum okkar Olgu fyrir tattúið – veiðiflug uglunnar – en það er erfitt að fá það til að virka á þrívíðum fleti.

Afsakaðu mig fyrir að tuða mikið um þetta en það stressar mig núna afþví ég á tímann á tattústofunni á fimmtudaginn.

Fyrsta daginn í borginni sáum við alveg æðislega sýningu, Pippilotti Rist á New Museum. Þegar ég svo gúglaði þessa sýningu og umfjöllunina um hana rakst ég á nýja myndbandið með Pussy Riot – æðislegt – og ótrúleg sýning! Ég er uppfull af hughrifum en ég er samtímis týnd. Á persónulega planinu

hafa verið ansi miklar breytingar sem ég get ekki útskýrt og mig langar ekki að dvelja við og sem mér finnast ekki endilega neikvæðar. Hér getur líka átt sér stað ný byrjun.

Milliland – þar sem ég á heima.

kkv,

A

~

Montgomery stræti, á tíundi hæð, New York borg
í nóvember 2016

„Touch Sanitation”

Góðan daginn aftur, hér kemur bréf tvö frá New York.

Við erum núna komnar á tíundu hæð í byggingu við Montgomery stræti og erum í svitabaði – hér er ótrúlega fallegt útsýni en líka ansi heitt – komnar inn á annað heimili fullt af uglum, sem er svolítið skrítin tenging útaf veiðiflugi uglunnar sem ég hef verið að skissa, branduglunnar.

Það er líka skrítið hvað maður heyrir lítið í fuglum hér og hvað hundarnir eru allir hreinir og flöffí. Það er gott til þess að vita að á sama tíma og við erum á heimili hér ert þú á okkar heimili með kisunum. Var að hugsa til þín varðandi verk sem við sáum í gær. Finnst vera tenging á milli þess hvernig þú vinnur með fólki og verkunum eftir Ukeles.

Við fórum með nokkrum vinum á Queens Museum í gær og sáum yfirlitssýningu Mierle Laderman Ukeles, Maintenance Art. Við vorum svolítið sein og náðum bara að sjá hluta af sýningunni en þú þekkir kannski verkin hennar?

Árið 1979 ákvað hún að taka í spaðann á öllum sorphirðumönnum borgarinnar og þakka þeim fyrir vinnuna þeirra. Hún var búin að reikna út að það myndi taka fjóra mánuði að taka í hendina á áttaþúsund og fimmhundruð manns en það tók ellefu.

Mér finnst þetta svo flott og á sama tíma er þetta einfaldur virðingarvottur sem verður svo stór – þessi tengsl á milli snertingar og virðingar. Fór svo að hugsa um hendur og fattaði allt í einu hvað ég er hrifin af höndunum mínum – mér finnst þær vera vinir mínir.

En svo í framhaldinu gerði Ukeles fullt af verkum með fólkinu sem hún kynntist í gegnum gjörninga sína sem hún kallaði m.a. „Touch Sanitation,” „Garbage Truck ballet” og fleiri.

Til þess að halda þemanu til streitu þá keyrðum við á leiðinni á safnið framhjá nýrri „kúka-verksmiðju“ New York borgar: The Newtown Creek Digester Eggs. Sjáðu myndina:

Anna mynd3

Among the most dramatic elements of Newtown Creek’s new plant are its eight futuristic, stainless steel-clad digester eggs.  Processing as much as 1.5 million gallons of sludge every day, the eggs are visible from vantage points in Brooklyn, Queens and Manhattan.

 

 

 

Maður getur víst mætt í leiðsögn en ég held að það bíði næstu heimsóknar.

kkv,     

A    

~

Reykjavík 3. nóvember 2016

Sæl, kæra Anna,

Takk fyrir bréfið og gott að heyra hve spennandi og grípandi borgin er og myndlistin. Ég er hrifin af New York og mér finnst ég aldrei ná að þekkja hana nógu vel, í hvert sinn sem ég fer þaðan hugsa ég: „Næst verð ég lengur“.

Ég er með rútínur í borginni sem eru trúlega klisjur, en það gleður mig alltaf ósegjanlega að ganga yfir Brooklyn-brúna, sérstaklega í kringum sólsetur. Svo hefur Dídí kennt mér að meta lestarstöðina Grand Central og ostrubarinn í kjallaranum. Nú í sumar þegar ég var stödd í borginni fór ég á safnið Park Avenue Armory og skoðaði myndlist en ég fór þangað ekki síður til þess að skoða húsið – það hafði vinninginn yfir listina. Húsið var byggt sem herramannsklúbbur fyrir hermenn sjöundu herdeildar í Þrælastríðinu. Svo stóð risastór byggingin einhvern veginn auð og ónotuð með öllu innvolsinu í mörg ár og hefur hægt og rólega verið gerð upp. Enn er mikið verk eftir. Þarna fær maður sterka tilfinningu fyrir tíma og fornri rykfallinni frægð og glæsileik í bland við samtímalistir. Mjög sérstakt og skemmtilegt að heimsækja.

Nú er tónlistarhátíðin Airwaves í gangi í þessari borg og bæði Hverfisgata og Laugavegur fullar af mjóum rokkstjörnum í þröngum buxum – annaðhvort að koma af hljóðprufu með gítar á öxlinni eða á leiðinni í sándtékk. Mjög fallegt. Daglega eru offvenjú tónleikar. Í gær spiluðu The Sonics á Kex, ég fór. Sonics og Ramones tilheyra mér. Nú sem ég skrifa þetta heyri ég í tónleikum í fjarska.

Og jú, ég var í ponsjóinu hennar Olgu í þrjá daga samfleytt og sat við í ellefu tíma á dag og skrifaði og skrifaði og skipulagði, skipulagði, skipulagði þar til ég var blá í framan, til að reyna að fjármagna:

  1.     a) Gula og svarta útgáfu með hljómplötu og tónverki og fullt af teikningum.
  2.      b) Einksýningu í Berlín með eldri dömu, þýskri leik/söngkonu sem dansar Minuet, les og syngur fyrir mig ef allt gengur eftir og mér tekst að nurla saman peningum.

Ég held að ponsjóið ykkar sé mögulega til lukku, ég fékk til dæmis ekki vöðvabólgu við skrifin einsog stundum. Hendurnar – vinir þínir – prjónuðu ponsjóið, hendurnar þínar eru hér útum allt. Ég drekk kaffið úr bollum sem hendurnar þínar gerðu á snúningshjólinu. Það er ofsalega gott að búa hjá ykkur og gaman að skrifa þér frá þínu heimili þar sem þínar hendur hafa snert allt.

Nú sit ég við eldhúsborðið. Það er íslensk jólakaka á sænskum disk fyrir framan mig og yfir hana hef ég hvolft emíléraðri appelsínugulri skál, svo hún geymist, því ég borða hana ekki sjálf. Mamma kom með kökuna og gestir borða – það er bara töluverður gestagangur hérna hjá mér hjá ykkur. Mikið skrafað, sérstaklega um stjórnarmyndunarumleitanir. Nú hvílir allt í höndunum á Bjartri farmtíð, ef þeir segja nei við Sjálfstæðisflokkinn þarf Framsókn að koma inn, og Viðreisn hefur sagst ekki vilja vinna með Framsókn og Sjöllum. Svo þetta er bara ansi spennandi.  

Morda er alveg hætt að vera feimin og er alltaf hjá mér þegar ég er að vinna og fær greiðslu einu sinni á dag – hún hverfur þó þegar gestir koma. Mér finnst svolítið yndislegt hvað Marsík hefur mikla velþóknun á því þegar ég bursta Mordu. Þeim þykir vænt hvert um annað, þó þau sláist stundum smá, þau eru virkilega einsog systkini.

Ég skil að þú sért stressuð yfir húðflúrinu – ég vona að það gangi vel, falleg hugmynd að leggja flugmynstur uglunnar yfir örið, mjög falleg. Og þakka þér hugulsemina. Jú, allt gekk vel með uppskurðinn, eins vel og hægt er, ég er núna útskrifuð síðan í fyrradag með bravúr. Það var svolítið furðulegt að upplifa, og mögulega ímynda ég mér þetta, en ég held að líkaminn minn hafi tekið einhverslags kipp við þetta inngrip. Hárið á mér og neglurnar vaxa hraðar og örið grær ótrúlega hratt.

Ég læt þetta duga í bili kæra Anna og ég hlakka til að fá næsta bréf frá þér.

Gunnhildur mynd

Gunnhildur Hauksdóttir

Mínar bestu kveðjur, Gunnhildur

ps. Takk fyrir ábendinguna um Ukeles, ég skoða hana.

pps. Og takk fyrir myndina.

~

New York, 6. nóvember, 2016

Sæl kæra Gunnhildur og bestu þakkir fyrir bréfið!   

Við fengum smá aukatíma hérna í íbúðinni vegna tímamismunar sem gerðist í nótt í New York, svo núna sit ég við borð hér á tíundu hæð og bíð eftir kínverskri limmósínu sem ætlar að fara með okkur á JFK. Voða gott að heyra að ponsjóið hennar Olgu virkaði svona vel og ég vona að þú fáir sem bestu uppskeru af umsóknum þínum. Ponsjóið hefur örugglega líka virkað vel á litlu svörtu dömuna mína 🙂  Sleppir vonandi alveg Pollockstælum í þetta skiptið.

Gaman að lesa pælingar þínar um hendur og snertingu þar sem ég var tvo daga á tattú stofu í Brooklyn og var „handfjötluð” og mér snúið á alla kanta af Steph sem gerði flúrið. Hún er höfðinu styttri en ég, með hlýjar og öruggar hendur. Mjög gott þegar maður þarf alveg að treysta á einhver annan.Tattúlínan verður fyrst mjög lík línu eftir þurrnál þar sem hún poppar út – sem er líka í samtali við teikningarnar okkar sem voru ristar í veggi á fangelsinu á Hólmsheiði: húsveggur og húð.

Hér eru auðvitað allir sem við hittum mjög uppteknir af forsetakosningunum, við líka. Við sáum skilti í neðanjarðarlestinni á leiðinni heim úr mataboði í gær og sem mér finnst lýsa þessu ansi vel:

Dude, stop the spread!

Anna mynd5

Gott að heyra að allt með aðgerðina þína hefur gengið vel, en það er áhugavert hvað líkaminn virðist muna svona inngrip og fer i einskonar vörn sem ég held að sé bara fínt. Mér var sagt að það taki frumur líkamans tuttuguogfjóra tíma að skríða yfir skurð í báðar áttir.

Mig langar að nefna eitt áður en við förum út á flugvöll: Olga sá stóran hauk um daginn, rosalega stóran, sem sveif niður til að veiða íkorna. Hann missti af íkornanum og var mjög þungur á loft aftur. En á meðan frusu allar íkornarnir í mismunandi íkornastellingum. Það eru kannski fleiri fuglar hér í borginni en virðist í fyrstu.

Reikna með að bráðum byrji PJ Harvey tónleikarnar í Reykjavík….. 🙂

Þetta var svolítið styttra í þetta sinn en við sjáumst á morgun kæra Gunnhildur.

kkv,

A

Í gær fengum við okkur bröns með mímósum á Orchard stræti. Minnti á ljóðabrönsana okkar. Hlakka til næsta.

Ég er mjög hrifin af Lower East Side hverfinu og skil vel að fólk eignist uppáhaldsstaði í þessari frábæru borg. Við fórum líka í vinnustofuheimsókn í mjög skemmilegu hverfi í suður Brooklyn, Bay Ridge, þar sem Olgu voru gefin í afmælisgjöf nokkur æðisleg grafík verk.

~

Reykjavík, 6. nóvember 2016  

Sæl og blessuð aftur, kæra Anna,

Bestu þakkir fyrir bréfið.

Úff!

Já, það ætlar allt um koll að keyra af spenningi yfir þessum forsetakosningum í Bandaríkjunum, fréttafíkillinn í mér blómstrar og ég trúi því að þetta sé skrítinn tími til að vera þar í landi. En hann er líka skrítinn í Evrópu og líka á Íslandi. Allt orðfæri stjórnmála og öll sjónarhorn eru ýkt og ógeðsleg. Bandaríkin eru sannarlega ekki ein um það. Trump er eðlileg afurð alls þessa hræðsluáróðurs sem á okkur hefur dunið. Ef ég tryði síbyljunni um að nauðgarar og hryðjuverkamenn væru komnir að hliðinu, væru við það að brjóta niður hurðina og pína mig til að ganga í búrku, nauðga mér og stela atvinnunni frá mér, sprengja mig í loft upp á lestarstöð eða murka einhvern veginn úr mér lífið mundi ég ábyggilega vilja kjósa Trump. Það er svo auðvelt að höfða til óttans. Ég man þegar ég var lítil og andvaka og svaf stundum undir rúmi – ég óttaðist svo atómsprengjuna. „Við munum öll, við munum öll, við munum öll deyja… við munum stikna og brenna…“ o.s.frv. Einsog Bubbi söng.  Ég trúði þessu og ímyndaði mér öskuhrúgu í minni mynd. Í hvernig stellingu ætti ég að sofa? Hver mundi finna mína öskuhrúgu? Kannski fornleifafræðingar sem kæmu seinna einsog til Pompei. Ég bjó í Hraunbæ.

Ú – ég hlakka til að fara til Berlínar, mér finnst ekki allt vera á yfirsnúningi þar, einsog hér og víðar, þar er allt svo rólegt. Ég flýg heim sama dag og gengið er til kosninga í Bandaríkjum og er að skipuleggja rómantískt stefnumót með sætum gæja strax um nóttina, hann er skáld. Við ætlum að reyna að svindla okkur á kosningarvöku repúblíkana í Berlín og halda út nóttina þar.

Party Republicans Abroad,
8. November 2016
ab 22.00 Uhr,
Gaststätte Wahlkreis,
Reinhardtstr. 37,
Berlin-Mitte

Vonandi – ef okkur tekst að smygla okkur á gestalista. Hann er að vinna í því. Vonandi verður formlegur klæðnaður. Ég ætla að verða ægilega fín, í mínu fínasta pússi, með klút.

Hann skrifaði ljóð um að brenna íbúðina sína, svo skrifaði hann annað ljóð um dúfur á lestarstöð. Hann skrifar á þýsku og ég þarf að þræla mér í gegnum ljóðin með orðabókum á netinu mér til aðstoðar. Ég veit ekki hvort ég má birta ljóð eftir hann hér, þetta eru ekki einkaskrif. Ég skal spyrja hann. Ljóðið um dúfurnar innihélt tvær turtildúfur, eina dána dúfu og blint fólk. Mér datt ljóðið í hug þegar þú talaðir um haukinn sem Olga sá. Hann hefði nú ekki fúlsað við fersku dúfnakjöti fyrst hann missti af íkornanum. Í ljóðinu stjaka turtildúfurnar við dánu dúfunni, sem liggur á hliðinni á gólfinu í sal Südkreuz lestastöðvarinnar, varlega til að athuga hvort hún sé á lífi. Hún liggur í fersku blóði sínu. Hún liggur hreyfingarlaus og þær ríða eitt stutt ríð þegar þær hafa gengið úr skugga um að hún sé dáin og hverfa svo á braut.

Ég gekk í augun á ljóðastráknum mínum með því að senda honum ljóð eftir Elizabeth Bishop og gat impónerað hann með því að vita bókstaflega allt um hana. Ég sendi honum ljóðið um fiskinn. Mér fannst það viðeigandi því hún veiðir fiskinn, dáist að honum í smá stund, á meðan hann berst við að ná andanum, því hún heldur á honum. Svo sleppir hún honum aftur. Elizabeth er næm fyrir smáatriðum, hún lýsir öllu nákvæmlega og fiskurinn ber með sér lífsbaráttu og hefur oft verið veiddur. Þessir ljóðafundir eru gagnlegir fyrir ástarlíf mitt. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég nota vitneskju sem ég fæ úr ljóðaspjallinu okkar til að draga strák á tálar.

Jæja, ég sé þig fljótt, hlakka til að drekka kaffi með ykkur Olgu.

Næstu bréf, og þau síðustu líklega, verða skrifuð á milli Berlínar og Reykjavíkur. Nú ligg ég til hálfs í sófanum ykkar. Tvær dömur voru í mat í kvöld. Við elduðum silung og ég stalst í kúskúsið ykkar. Reif síðustu rauðrófuna í salat, kreisti hálfa sítrónu yfir, blandaði með rúkóla og rauðri papriku, ólífuolía, salt. Grænt, rautt og rauðrófurautt. Skyr og bláber í eftirmat. Þvottur á snúru, kattasandur hreinn, uppþvottavél í gangi. Þögn að utan, allir tónleikarnir í Valsheimilinu í kvöld. Airwaves hátíðin búin.

Góða ferð heim kæra.

Komið heilar heim.

Mínar bestu kveðjur og óskir um fararheill,

Gunnhildur

~

Reykjavík í nóvember 2016

Sæl kæra Gunnhildur,

Vona að ferðalagið til Berlínar hafi gengið vel og lendingin í berlínskum veruleika verið mjúk. Mér finnst alltaf eins og maður þurfi að stilla sig á rétta rás þegar maður skiptir um umhverfi, tekur alltaf smá tíma.

Ég er í sjokkástandi eftir þessar agalegu kosningar í Bandaríkjunum, en reyni að einbeita mér að myndlistinni til að finna rými þar sem hægt er að halda vitinu. Teikna og steypi gifsstyttur fyrir Listasafn Reykjavíkur þar sem við erum ansi mikið á eftir áætlun eftir að hafa verið í burtu. Olga er að klára fuglahótel fyrir fangelsið á Hólmsheiði sem við erum að vonast til að geta sett upp í vikunni. Þetta er bara ansi flott hjá henni og núna þurfum við bara að staðsetja myndavélarnir. Í vikunni flytja konurnar inn í fangelsið og þá verður aðeins meira maus að vinna á staðnum.

Kisurnar eru í rosalega góðu standi eftir veru þína með þeim á Hverfisgötu og Marsik horfir á okkur og spyr með sínum stóru kringlóttu augum: Hvar er Gunnhildur?

Hann er samt ekki enn búinn að berja litlu svörtu kisudömuna þar sem hún liggur núna límd við hliðina á mér, sniglast bara í hringi og starir kringlótt. En um daginn lágu þau þétt og sneru bökum saman sem gerist mjög sjaldan.

Fundum geisladiska sem þú gleymdir og settum á hilluna hjá öskunni hans Þara hundsins þíns. Láttu okkur vita ef þú vilt fá þetta sent til þín.

Ég er líka búin að gúgla varðandi glerung gerðan úr ösku. Fann eina uppskrift þar sem hundaeigandi notaði ösku hundsins í glerung en bara sirka tíu prósent. Ég held rannsókninni áfram og við getum gert prufur þegar þú kemur aftur. Gæti orðið spennandi.

Fann eina uppskrift þar sem beinaaskan er sextán til þrjátíuogtvö prósent en þá getur glerungurinn „búbblað,” persónulega finnst mér það skemmtilegra en rennisléttur glansandi glerungur. Ég held að reikna þurfi með að glerungur einsog þessi geti runnið mikið í brennslu svo fínt væri ef skúlptúrinn sem glerungurinn yrði settur á væri með formum sem geta tekið við glerungnum.

Sit við eldhúsborðið í stofunni með æðislega góðan kaffibolla og horfi út á Esjuna sem í dag er hálfklædd í fallega gráa vinnuskyrtu. Er að tjékka af listann yfir það sem þarf að gera í dag. Er ennþá í náttfötunum en er búin með fyrsta atriðið á listanum.

Sá á leiðinni heim „Pet Relief Area” á Kennedy flugvelli – með þessu skilti:

Anna mynd2

Síðan er  brunahani fyrir hundinn að pissa á.

Anna mynd1

Vonandi fór rómantíska stefnumótið með skáldinu fram eftir óskum. Ljóð geta verið ansi sexí svo ég skil vel að ljóð geti virkað sem „daðurbeita.” Vorum við með ljóðið um fiskinn eftir E. Bishop í ljóðaklúbbnum? Þú mátt gjarnan senda mér það.

Væri gaman að taka ljóð Ingibjargar Haraldsdóttur næst. Kannski þarf klúbburinn að halda fram hjá þér á meðan þú ert úti.Anna mynd4

Stórt knús frá Hverfó.

Sendi þér nýjustu myndina mína. Veit ekki hvort ég er búin að eyðileggja hana með gráu dúskunum sem ég bætti við í gær.

kkv,

Anna

~

Berlín, 29. nóvember 2016

 

Sæl og blessuð, kæra Anna,

Já, ég lenti hlaupandi í Berlín, hljóp út úr flugvélinni og hef eiginlega ekkert stoppað. Ég biðst innilega afsökunar hvað þetta seinasta bréf var lengi að berast þér og þakka síðasta bréf frá þér. Já, ég tek undir varðandi Trump, þó svona langt sé um liðið þá er ég enn í „Trump-sjokki“ og rífst við pabba um þetta í hvert sinn sem við heyrumst.

Það er einsog við töluðum um í einum af ljóðafundunum. Karlahramminn reis upp: Boris, Trump, Putin, Farage, Edrogan. Til hamingju jarðkringla! Hvíti Satan í vestri ræður og er búinn að festa sig í sessi enn og aftur.

Pabbi hefur áhyggjur af því hvað ég hef miklar áhyggjur af þessu öllu. Ég græt af samkennd með Standing Rock og áhyggjum af umhverfismálum. Ég er þakklát frumbyggja fólki út um allan heim sem stendur vörð um náttúruna og hefur ætíð gert. Ég hef bæði eytt tíma með indíánum í Norður og Suður Ameríku og mér hefur alltaf fundist þeir vera varðmenn og -konur náttúrunnar, lesarar hennar og túlkendur og það er svo fallegt. Það er EINSTAKT sem er að gerast núna að indíánar hvaðanæva úr heiminum standa með Standing Rock, og ég tárast. Mér finnst þetta vera mótvægi við þennan ljóta karlahramm og bjartasta vonin.

Annars er það helst að frétta af mér að ég er flutt, búin að koma mér fyrir og koma allri praktík hér í skikk, er á fullu að gera bókina mína, er búin að finna silkiþrykkverkstæði, vínylpressu og allt hvað eina. Var reyndar rétt í þessu að fá svar frá Myndlistarsjóði og fæ ekki pening, en ég tek þá bara bankalán eða finn einhverja lausn – ég ætla að búa til þessa bók. Jólin eru að stimpla sig inn í Berlín og ég hjálpa vinkonu minni á jólamarkaðinum og sel jólastjörnur. Gaman að taka þátt og ég fæ smá pening.

Frábært að heyra af ykkur, bæði sýningunni þinni í Listasafni Árnesinga – til hamingju með hana – og svo af fuglahúsunum í fangelsinu. Hvað getur verið fallegra en fuglahús í fangelsi – eða hræðilegra? Fuglarnir fljúga inn og út úr fangelsinu, yfir fangelsisveggina (ímynda ég mér) á meðan fangarnir sitja fangaðir.

Ég fór í fuglaskoðun með einum sætum uppháhaldsstrák um síðustu helgi. Ég hélt jafnvel að hann væri fugl í hendi en hann braut í mér hjartað og elskar aðra, rann mér úr greipum. Fugl í skógi. Fuglaskoðunin var falleg. Við sáum sjaldgæfar endur í gegnum sjónauka og ég sá flórgoða og hegra.

Gunnhildar mynd

Ég teiknaði mynd af fuglasnáðanum (vogelknabe). Þeir eru sleipir strákarnir. Ljóðastrákastefnumótið fór ekki vel, það var sem betur fer ekki á kosningavökunni, en við rifumst um ástarlög, tilurð þeirra og Leonard Cohen sem var þá nýdáinn. Rifrildastíllinn hans var svo leiðigjarn að hafi mér þótt hann aðlaðandi á einhverjum tímapunkti hvarf það einsog dögg fyrir sólu við þetta rifrildi. Við gerðum tilraun til að sættast daginn eftir en hún fór út um þúfur og ég hef ekki heyrt í honum síðan. Voðalega sleipir þessir strákar og ég döpur í smá tíma – en ég er að jafna mig, ástin er hröð í Berlín.

Talandi um sleipa stráka þá er hér ljóðið hennar Elizabeth um fiskinn og það er langt – mér finnst best að lesa það upphátt. Þú getur kannski lesið það fyrir Mordu og Marsík, þau hafa gaman að því.

The Fish – eftir Elizabeth Bishop

I caught a tremendous fish
and held him beside the boat
half out of water, with my hook
fast in a corner of his mouth.
He didn’t fight.
He hadn’t fought at all.
He hung a grunting weight,
battered and venerable
and homely. Here and there
his brown skin hung in strips
like ancient wallpaper,
and its pattern of darker brown
was like wallpaper:
shapes like full-blown roses
stained and lost through age.
He was speckled with barnacles,
fine rosettes of lime,
and infested
with tiny white sea-lice,
and underneath two or three
rags of green weed hung down.
While his gills were breathing in
the terrible oxygen
– the frightening gills,
fresh and crisp with blood,
that can cut so badly-
I thought of the coarse white flesh
packed in like feathers,
the big bones and the little bones,
the dramatic reds and blacks
of his shiny entrails,
and the pink swim-bladder
like a big peony.
I looked into his eyes
which were far larger than mine
but shallower, and yellowed,
the irises backed and packed
with tarnished tinfoil
seen through the lenses
of old scratched isinglass.
They shifted a little, but not
to return my stare.
– It was more like the tipping
of an object toward the light.
I admired his sullen face,
the mechanism of his jaw,
and then I saw
that from his lower lip
– if you could call it a lip
grim, wet, and weaponlike,
hung five old pieces of fish-line,
or four and a wire leader
with the swivel still attached,
with all their five big hooks
grown firmly in his mouth.
A green line, frayed at the end
where he broke it, two heavier lines,
and a fine black thread
still crimped from the strain and snap
when it broke and he got away.
Like medals with their ribbons
frayed and wavering,
a five-haired beard of wisdom
trailing from his aching jaw.
I stared and stared
and victory filled up
the little rented boat,
from the pool of bilge
where oil had spread a rainbow
around the rusted engine
to the bailer rusted orange,
the sun-cracked thwarts,
the oarlocks on their strings,
the gunnels- until everything
was rainbow, rainbow, rainbow!
And I let the fish go.

~

Mér finnst gráu dúskarnir á myndinni þinni ekki skemma, þeir eru svolítið einsog mygla eða dúnn. Og varðandi öskuna hans Þara míns – takk innilega fyrir að kukla í þessu og ég hlakka til að vinna keramik með þér og Þara-glerung. Því meira sem ég hugsa um það því fallegra finnst mér það.

Ég læt þetta duga í bili og þakka innilega bréfin þín.

Mín besta kveðja, Gunnhildur

Ps. Hvernig er hægt að rífast um Leonard Cohen?

 

Fugl á grein frá Gunnhildi

~

Skildu eftir svar / athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s