Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands

Hið óhugsandi langsótta er að rætast

Skrifa athugasemd

SN, blue wall-test2 Sverrir Norland

Sverrir Norland skrifar bréf til Dags Hjartarsonar:

Sunnudaginn 14. mars 2017

Elsku Dagur, kæri vin,

í dag var skrítinn dagur í New York. Öðru hverju æða eftirköst hvirfilbylja yfir borgina, þá hefur jafnan verið send út stormviðvörun, farið nú varlega, kæru New York-búar, haldið ykkur bara heima hjá ykkur. Og það gerðum við einmitt í dag: Ullarsokkar, vínglas, skonsur, ég las skáldsögu (Transit eftir Rachel Cusk), pottréttur, gítarleikur.

Tvær vinkonur okkar litu inn í „storm-heimsókn“, til að „vinna“, og því hef ég að mestu varið deginum inni í stofu ásamt þremur fögrum, frönskum konum og Apple-fartölvunum þeirra, lyklaborðaslátturinn hefur varla hjaðnað í sekúndubrot síðustu tíu klukkustundirnar, sándtrakk samtímans. Ég er heppinn að því leytinu að ég er oft umkringdur fallegum, frönskum konum.

Ég mokaði snjó í heila klukkustund, fékk lánaða skóflu og saltpoka hjá nágranna okkar, írskum klippara/kvikmyndatökumanni sem heldur regluleg partí ásamt konu sinni þar sem allir verða svo fullir að þeir rúlla um bakgarðinn.

Þegar óveðrið lægði fórum við á nýtt veitingahús, L’estudio, í Kínahverfinu á Manhattan. Frábær staður. Á næsta stað (slúður) sátu Bono, Michael Stipe og gellan úr Pussy Riot. (Man ekki hvað hún heitir.) Eftir máltíðina kíktum við í búð sem hefur lengi verið á listanum, blýantabúðina CW Pencil Enterprise: búð sem sérhæfir sig í blýöntum. Ímyndaðu þér … búð … sem selur bara blýanta.

Fyrsta apríl má svo búast við því fjölgun í fjölskyldunni, dóttur. Ég er að spá í hvort ég eigi að kenna henni íslensku – eða bara ensku og frönsku. Hvað finnst þér?

Sendi kæra kveðju, til þín, til Helenu, yfir hafið, inn í myrkrið og draumana,

S.

#

Líður nú heil vika án þess að nokkurt svar berist frá Degi.

#

Þriðjudaginn 21. mars 2017

Sæll, Dagur, minn góði vinur.

Ég ákvað að senda þér línu, veðrið er svo gott.

Af mér er allt meinhægt að frétta. Stundum líður mér vel, þá er ég fullur af lífsgleði og orku, og stundum er ég dapur, gjörsneyddur öllum þrótti og kærleika.

En er ekki þannig að vera manneskja?

Mig langaði að forvitnast: Hvernig líður þér? Ertu glaður með líf þitt? Ertu dapur yfir heiminum? Eða ertu kannski stundum glaður og stundum dapur?

Endilega sendu mér svar, helst fyrr en síðar. Ég þarfnast þess.

Þinn vinur,

S.

#

Ekkert svar berst frá Degi.

#

Miðvikudaginn 22. mars 2017

Kæri Dagur!

Ég man ekki lykilorðið að vefsíðunni skattur.is. Ég þyrfti að rifja það upp svo að ég geti leiðrétt skattskýrsluna mína.

Manstu þú öll lykilorðin í lífi þínu, Dagur?

Með kærri kveðju,

S.

#

Enn berst ekkert svar frá Degi.

#

Fimmtudaginn 23. mars 2017

Jæja, Dagur minn kær.

Í dag lauk ég við skáldsöguna Native Son eftir Richard Wright. Næst ætla ég að lesa I Love Dick eftir Chris Kraus.

Hefur þú lesið þessar bækur, Dagur?

Hlakka til að heyra hvað þú hefur um þær að segja!

Með kærri kveðju,

S.

es.

Ég er líka að endurlesa Morgunþulu í stráum eftir Thor Vilhjálmsson, ömmubróður minn heitinn. Ég held að það sé kannski ein besta skáldsaga sem komið hefur út á íslensku.

Í eintakinu mínu, sem er útkrotað og myndskreytt af mér, rakst ég meðal annars á gamla teikningu, sem ég gerði þegar ég las bókina fyrir mörgum árum, í stúdentaíbúð sem við C. framleigðum yfir sumarmánuð í Reykjavík. Og ég man hvar ég sat úti á svölum og las fyrir mörgum árum; sumarlyktina í loftinu, snertinguna við blýantinn og bókina, hvar ég var staddur í lífi mínu.

Svona eru bækurnar í lífi okkar: pappírstímavélar.

#

Dagur svarar aldrei þessu tölvuskeyti Sverris.

#

Föstudaginn 24. mars 2017

Elsku Dagur minn!

Í kvöld snæddum við Cerise afar góðan kvöldverð á eþíópísku veitingahúsi, Bunna Café, ásamt gömlum félaga mínum úr MR og konunni hans, sem er bandarísk/japönsk.

Hefur þú borðað eþíópískan mat?

Maður fær nokkrar pönnukökur, injera, og feykistóran disk með alls kyns baunum, gumsi og grænmeti. Síðan rífur maður tægju úr injera-pönnuköku og notar hana til að skófla upp í sig matnum.

Ég hugsa að þér myndi líka eþíópískur matur vel enda grunar mig að þér finnist gaman að borða með puttunum.

Með kærri kveðju,

S.

es.

Nú er aðeins tæp vika í að ég eignist dóttur!

#

Engin svör berast frá Degi.

#

Laugardaginn 25. mars 2017

Kæri Dagur.

Í dag sá ég nýja kvikmynd eftir einn uppáhaldsleikstjórann minn, Terrence Malick. Myndin heitir Song to Song og var meingölluð en ákaflega falleg. Ég klökknaði undir lokin.

Eftir sýninguna sátum við Cerise lengi grafkyrr fyrir utan bíóhúsið, sem nefnist Nitehawk og er í Williamsburgh, eins og brothætt hylki, hrædd um að molna niður og missa út úr okkur allar fallegu tilfinningarnar sem myndin hafði vakið með okkur.

Hlakka til að heyra um áhrifaríkar kvikmyndir sem þú hefur séð!

– Sverrir

#

Aldrei berst nokkurt svar frá Degi.

#

Sunnudaginn 26. mars 2017

Minn kæri Dagur.

Nú eru aðeins örfáir dagar í að ég eignist litla dóttur!

Hún er sett á 1. apríl. Ég er nú þegar búinn að semja til hennar texta: Afsökunarbeiðni til dóttur minnar fyrir að þurfa að tilheyra mannkyninu. (Nei, nei, er að grínast.)

Hvað finnst þér að ég ætti að segja henni, þegar ég hitti hana?

Hlakka til að sjá hvað vísdóm þú hefur fram að færa!

Með kærri kveðju,

S.

es.

Má rekja þögn þína til þess að þú lítur svo á að hin forna list bréfaskiptanna sé dauð?

#

Enn berast engin svör frá Degi.

#

Mánudaginn 27. mars 2017

Sæll, elsku Dagurinn minn.

Hér í íbúðinni okkar í Brooklyn á ég gamla íslensk-franska orðabók eftir Gerard Boots, gefna út af Ísafoldarprentsmiðju árið 1950.

Stundum fletti ég lengi í þessari snotru, litlu bók – ekki til að stúdera frönskuna heldur frekar íslenskuna. Þessi orðabók er full af fallegum, sjaldgæfum, íslenskum orðum.

Skólpdýr

Hugsunarlíf

Trassafenginn

Kannt þú fleiri skemmtileg, íslensk orð, orð sem eru öllum gleymd og grafin, Dagur?

Með kærri kveðju,

S.

Ég ítreka fyrri spurningu: Finnst þér að ég eigi að kenna dóttur minni íslensku? Eða kannski bara ensku og frönsku?

#

Ekkert svar berst frá Degi.

#

Þriðjudaginn 28. mars 2017

Kæri Dagur.

Í dag samdi ég, líkt og svo oft, nokkur ljóð. Ég er strax búinn að týna þeim öllum, nema einu.

Bíddu, ég er með það hér í vasanum … Ætla að bera það undir þig (gaman væri að fá viðbrögð!). Ljóðið heitir Erfðaskrá á útdauðu tungumáli og hljóðar svo:

ERFÐASKRÁ Á ÚTDAUÐU TUNGUMÁLI

(hlutir sem ég mun sakna

þegar þeir hverfa loks alveg

úr veröldinni)

ég mun sakna sólskinsrákarinnar sem

skáklýfur þetta herbergi (þar sem ég sit

núna og skrifa þetta) og ég mun sakna

einhveru í herbergjum á borð

við þetta og einnig herbergja fullum

af fólki, og fólks, ég mun sakna

fólksins,

myrkurs, mikils myrkurs

mun ég sakna og

bókabúða, ég sakna

síðustu bókabúðarinnar,

einnig góðra samræðna,

víns, síðasta víndropans,

kaffibaunarinnar,

vináttunnar mun ég sakna, þess að

eiga góða vini, og fingranna á mér,

fullnæginga mun ég sakna og nostalgíunnar,

ljóðskálda og kynlífs og kynlífs með ljóðskáldum,

jarðarinnar þegar hún

hefur breyst í skorpna baun

og sólarinnar þegar hún kulnar út,

tölvuleikja og kvikmynda mun ég sakna,

tímasóunar og bláberjamöffins, bræðra minna

mun ég sakna og kyrrlátra

helga þegar ég gerði ekkert

nema spila á gítarinn, sötra vín

og ráfa um hið skrítna stórborgarlandslag nútímans,

listaverka mun ég sakna

og þagnarinnar,

innra lífs þegar allt hefur verið ferjað

upp á yfirborðið

íslenskunnar mun ég sakna og

allra tilfinninganna í mannslíkamanum,

einnig þín, elsku bragð, þín mun ég sakna

og sjónarinnar

og ykkar, elsku heyrn, þefskyn og snerting,

og sólarlagsins mun ég sakna, fjallanna,

dalanna, lækjanna og hafsins

(en væri þetta allt saman

jafn fallegt ef maður hefði

engan til að elska? ég mun sakna

slíkra spurninga)

og pappírs mun ég sakna og bleks

og trjánna

og depurðarinnar

og tímans, mikið hvað ég mun sakna tímans

þegar hann hættir að líða

og ég mun sakna fjölskyldu minnar

og lífsins

og dýranna þegar sjöttu útrýmingunni

er lokið

og tungumála mannanna,

snæviþaktra fjallstinda

og tjáningaraðferðar blómanna

og jurtanna, hinna óteljandi tungumála sem

okkur, sem öllu tortímum, eru hulin

og ég mun sakna þess að vera manneskja

og hugsa: lífið er stutt,

það er nú eða aldrei!

ég mun sakna orðsins

aldrei

og upphrópunarmerkisins (!)

og orðsins alltaf

og ég mun sakna kvíðans

og þess að hafa áhyggjur af öllum

sköpuðum hlutum, sakna

mun ég augnabliksins þegar maður heilsar góðum

vini eftir langa fjarveru

eða tekur á móti nýfæddri dóttur sinni í heiminn og

þerrar tár úr vöngum, ég mun sakna

táranna

og mjúkra viðarhúsgagna

og blústónlistar

og trommusettsins í bílskúrnum

og þeirrar gleði að hafa (þrátt fyrir allt)

ferðast, lesið, skrifað, elskað, verið,

og ég mun sakna þín, elsku vinur

og ég mun sakna hljóðanna í skóginum

og ilmsins af nýristuðu brauði

og snýtuklúta og stjarnanna

og þess sem mér þykir kannski vænst um

af öllu: ég mun sakna

ímyndunaraflsins og eyðunnar

undir lok hvers ljóðs

sem kallar á að haldið sé áfram

að yrkja

 

#

Ekkert svar berst frá Degi.

#

Miðvikudaginn 29. mars 2017

Kæri Dagur.

Í dag hef ég ekkert að segja, mér finnst sárt að þú skulir aldrei svara mér.

– S.

#

Fimmtudaginn 30. mars 2017

Coline, systir Cerise, er hér í heimsókn. Hún verður hér næstu tvo mánuðina til að hjálpa okkur með litla barnið (sem er nú væntanlegt á hverri stundu!).

(Nær allar frönsku konurnar í lífi mínu bera nafn sem hefst á C: Cerise, Coline, Catherine, Camille, Celine, Coco … Stundum ruglar þetta mig í ríminu.)

Coline færði okkur heila ferðatösku af barnagjöfum frá París; stofan (þar sem ég sit og skrifa þér þetta bréf) er þakin barnafötum, böngsum, sængurverum, leikföngum. En mig langar að segja þér annað: Á meðan ég opnaði pakka með lítilli tuskumús, var dyrabjöllunni hringt niðri. Það reyndist þá vera meindýraeyðirinn vinur okkar, að vitja okkur í þriðja skipti á stuttum tíma. Ég stökk niður til að hleypa honum inn, ennþá með tuskumúsina í hendinni (mér fannst það viðeigandi). Meindýraeyðirinn er einstæður faðir, á sex ára dóttur, og hann lítur út alveg eins og mús. Undanfarið höfum við rekist á músaskít í pottunum okkar og pönnunum, á eldhúsborðinu og víðar. Meindýraeyðirinn tjáði mér að í New York væru fimm rottur á hverja manneskju. Mér þótti gott að heyra það; þegar ég hef áhyggjur af fílunum (sem eru í útrýmingarhættu sem aldrei fyrr), get ég þó huggað mig við að mýsnar og rotturnar verða hér enn; að þær eru seig, ódrepandi kvikyndi. Kannski getum við einn daginn, Dagur minn, þegar við hittumst – hvar sem það nú verður – smalað saman svo sem þúsund rottum og raðað þeim saman í fíl, eins og í sirkús? Og síðan selt inn: Komdu og sjáðu rottufílinn í Sirkúsi Dags og Sverris. Hvað segirðu um það?

Svaraðu mér nú, Dagur minn.

– S.

#

Ekkert svar berst frá Degi.

#

Föstudaginn 31. mars 2017

Sæll, Dagur minn, heillakarl.

Heyrðu, ég var eitthvað að róta í tölvunni og rakst á eftirfarandi texta, Eilífðarbarnið. Mér finnst einhvern veginn óhjákvæmilegt að senda þér hann:

Eilífðarbarnið

Stundum óttast ég að geta ekki eignast börn, að ég sé ófrjór. Að öll þessi brjálæðislega listaverkaframleiðsla mín (sögur, ljóð, teikningar, tónlist, helst nokkur stykki af hverju tagi daglega) sé einhvers konar sárabætur fyrir líffræðilega vangetu mína; annars vegar til að vera heilsteypt, þokkalega fúnkerandi manneskja (ekki að slíkar manneskjur séu til) og hins vegar til að „fullorðnast“ (reyndar trúi ég ekki að það sé hægt að fullorðnast). Allir í kringum mig eru að eignast börn: Ég má varla líta af vinum mínum í nokkra daga og þá dúkka þeir upp með nýfætt, rauðþrútið, krukklað barn í fanginu næst þegar leiðir okkar liggja saman.

„Er hann ekki sætur?“

„Öh … juuu-ú, jú.“

Börn, börn, börn, humma ég nú fyrir vörum mér meðan ég geri morgunteygjuæfingarnar hér við rúmstokkinn. Ég horfi á C. sem andar svo vært og rólega í rúminu, enn sofandi, og ímynda mér að lítil vera kvikni til lífs innan í henni, agnarlítið barn sem með tímanum gerðist svo plássfrekt og fyrirferðarmikið að það blæs út maga hennar eins og tyggjókúlu – og svo, búmm, þrýstir það sér leið út með öskrum, blóði og sprikli. Gjörsovel: Komin ný mannvera í heiminn. Þetta virkar næstum óhugsandi langsótt þar sem ég krýp hér á köldum viðarflísunum, stirður eftir nætursvefninn, og horfi á hana undir sænginni. Hún sefur enn, svo hljóð og falleg, og morgunsólin teiknar geislamynstur á hvíta veggina að baki hennar, sólskin gegnum hvítar rimlagardínur.

#

Virkar óhugsandi langsótt!

Þetta er skrifað fyrir svona tveimur, þremur árum. Og á morgun er settur dagur fyrir dóttur mína: 1. apríl!

Hið „óhugsandi langsótta“ er að rætast.

Og enn teiknar morgunsólin sitt geislamynstur á hvíta veggina hér í íbúðinni okkar í Brooklyn, sólskin gegnum hvítar rimlagardínur.

#

Ekki berst nokkurt lífsmark frá Degi.

#

Laugardaginn 1. apríl 2017

Kæri Dagur,

Cerise var með hríðir í alla nótt!

Ég mældi tíðni samdráttanna í einhverju símaforriti, lauk við að lesa I Love Dick (góð bók), við dormuðum, úti rigndi og rigndi alla nóttina en þegar ég vaknaði hafði stytt upp og sólskinið glampaði á regnvotum götunum, ég skreið á fætur til að taka til morgunverð – eflaust liggur leiðin nú brátt á spítalann.

Ég hef því ekki tíma til að skrifa þér fleiri bréf í bili, Dagur minn. Enda verð ég að segja – og virkar ekki nema sanngjarnt – að nú finnst mér orðið löngu tímabært að þú endurgjaldir mér skrifin, þó ekki væri nema með nokkrum orðum?

Sendi boltann yfir til þín, þarf að panta leigubíl á spítalann!

– S.

#

Óvíst er hvort Dagur hafi svarað þessu síðasta skeyti Sverris, enda hefur ekkert náðst í Sverri  (eða Dag) síðan ritun þess fór fram.

Skildu eftir svar / athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s