Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands


Skrifa athugasemd

„Mig dreymdi þig í nótt. Þetta var í ljósaskiptunum og við stóðum í lygnri tjörn.“

 

Kristín Eiríksdóttir og Karí Grétudóttir skrifast á:

 

 

Elsku Karí,

ég er nýkomin á fætur. Kaffið er þarna, hálfa leið með tilheyrandi hvissi. Það fyrsta sem ég gerði í morgun var að lesa grein um Aung San Suu Kyi á The Intercept. Mér varð hugsað til þín útaf tilvísun í greininni. Tilvísunin er í fræga grein eftir George Orwell, um Mahatma Gandhi: Dýrlingar eru sekir þar til sakleysi þeirra verður sannað.

(Finnst þér ekki pínu fyndið að George Orwell kvót minni mig á þig? Það er kannski vegna þess að þú er steingeit?) Annars hef ég ekkert lesið George Orwell nema kvót. Er það nóg kannski? Kannski komin heil saga í kvótum?

En ég er í áfalli eftir þessa grein. Ertu búin að sjá? Að Aung San Suu Kyi er svipaður aðili og Trump? Búrmíski herinn fremur þjóðarmorð á Rohingya fólkinu, múslimskum minnihluta í norðurhluta Búrma og Aung San Suu Kyi bendir á að reyndar sé þetta fólk frá Bangladesh og kvartar síðan undan því þegar blaðamaður frá New York Times tekur viðtal við hana og er múslimatrúar.

Hún getur það ekki. Talað við múslima?

Og ég sé þau fyrir mér hlið við hlið, Trump, þennan gíruga grísamann og hana, föla stofufangann með nóbelinn. Í alveg hvítu hljóðeinangruðu rými og þau klessa aftur augun og herpa saman varirnar nema það er eitthvað suð, eitthvað, sláttur?

Ég var að tala við T. um daginn og við vorum að gera grín að aðilum sem skortir ytri og innri mörk og svo fattaði ég allt í einu að það eru bara mín mörk sem skipta máli. Að markaleysi annarra skiptir mig engu. Ég veit ekki hvers vegna ég er fyrst að fatta þetta núna. Er þetta kannski eitthvað sem allir kunna bara áreynslulaust, eins og að borða með hnífapörum? Nei. Að HJÓLA. GANGA. Er betra dæmi, alveg harðvírað í líkamann.

En ekki að stíga eitt skref aftur, líta uppúr fúgunni.

Markalaus aðili semsagt reynir að káfa í andlitinu á mér, klípa mig í kinnina með hvítlauksputtum, og ég ósjálfrátt tek eitt skref aftur á bak eða ekki? Viðbrögðin harðvíruð í líkamann á mér eða ekki.

Ég káfa í andlitinu á ókunnugri persónu. Hún tekur eitt skref aftur á bak. Horfir á mig eins og eitthvert úrhrak. Svo aftur daginn eftir. Bara prófa. Klípa. Kann ekki annað, treð puttunum inn í persónulegt rými annarrar manneskju og hrifsa í húð sem ég á ekki.

Í píkuna á einhverri vesalings konu.

Úrhrak.

En áfallameðferðin gengur vel. Ég er farin að geta farið í sund án þess að finnast allt í klofi og jarðneskum leifum. Hver veit nema ég keyri til Osló að heimsækja þig, aki um borð í norrænu og svo frá kaupmannahöfn eins og einhver Paddington í lestarferðalagi og við K. förum á A. Lindgren tónleika og bara ekkert elsku míó minn neitt. Hann myndi elska spyt i panden og allt þetta.

Ég tek strætó út á Höfðabakka og stundum er eins og bílarnir muni klessa inn í hliðina á vagninum og líkaminn bregst við því, auðvitað, en svo ná þeir alltaf framhjá. Hingað til hafa þeir alltaf náð framhjá, Líkaminn bregst við því eins og bráðum komi högg, það hefur ekkert með hugsun að gera, ekkert sem ég hef stjórn á. Ekki frekar en ímyndunaraflið eða álit annarra. Alveg úr böndunum bara, nema maður sé stílisti auðvitað og strípi veggi innað steini alla daga og eitthvað, stingi upp á kyndli og plexidýrahausum yfir kerta-arina annarra. Smá stjórn undir glerkúpli úr Le Pier.

Stundum hugsa ég um garðana í Osló og trén og mold og sakna þín en þá finn ég þig á fb eða hringi eins og eðlileg manneskja og þá lagast það pínu en manstu þegar þú fluttir þegar við vorum unglingar og þurftum að senda bréf í pósti og það var svo flókið að skrifa þessi bréf, maður þurfti að byggja upp senur og skýra framvindu til þess að hin næði öllu. X var hjá Xsjoppu með X og klukkan var níu um kvöld. Ögn kalt í veðri. X í vondu skapi vegna X. Ný Karl Kani úlpa og hver er þessi Tommi Hilfiger? Fruits of loom.

Hvaða fólk var þetta og hverju skyldi það ráða í dag? Rekur þetta fólk söfn og sjoppur og skrifar tilgerðarleg bréf fyrir heimasíður félagasamtaka? Spurningarmerki eru ósköp þreytandi, ég veit, og yfirleitt ofaukið, ég veit, en þetta er “sendibréf,” ég er ekki að staðhæfa, ég er að spyrja spurninga, smárra, leiðigjarnra, óþarfra. ÞETTA ER DÍALÓGUR.

Hvernig hefurðu það? Hvað er á seyði? Svaraðu mér nú!

Þín,

Stína

 

Góðan daginn meistari!

 

Takk fyrir bréfið, ég las það oft og mér leiddist aldrei….

Mig dreymdi þig í nótt.

Þetta var í ljósaskiptunum og við stóðum í lygnri tjörn. Það hafði myndast einhverskonar löður við bakkana en það var skjannahvítt og þykkt eins og tólg. Með sérstakri lagni tókst okkur að ná út úr þessu þykka hvíta efni teikningum sem voru gerðar á gagnsæjan pappír. Teikningarnar sáust ekki nema við létum sólarljósið skína í gegnum pappírinn. Meira man ég ekki.

Núna sit ég á uppáhaldskaffihúsinu mínu. Osló er svo græn og ilmandi á sumrin, ég gekk í gegnum Lindern og kom við hjá dýralæknaskólanum. Í dag voru hestarnir úti. Ég gaf þeim gras og klappaði þeim, þeir biðja að heilsa þér. Þú hittir þá í ágúst.

En veistu bara hvað? Það er til sérstök sálfræðiþerapía hér þar sem hestar leika stóran þátt í bataferlinu. Sjúklingar eru látnir horfa í augun á hestum og partur af meðferðinni felst í að sitja hest og losa þannig um höft (áföll í líkama) á mjaðmasvæðinu. Áhugavert en að sama skapi ógeðslegt. Það er svo skrítið hvernig manneskjan nálgast dýrin, endalaust frávarp og yfirfærslur ha! Kannski er ég að klappa þeim í þerapískum tilgangi??? En dýrin nota okkur líka. Ekki bara til að sjúga úr okkur blóðið. Pöddur sem gefa ekki frá sér hljóð en langar til að öskra. Þær nota fólk með fóbíu fyrir skordýrum til að öskra í gegnum.

En Stína nú spyr ég þig hvort þú, mikli dýravinur, ert hrædd við einhver dýr? Ég meina auðvitað svona meira en eðlilega? Mér er til dæmis illa við hrossaflugur en vel við maura og köngulær. Í íbúð greifans í Róm voru maurar sem ferðuðust í langri halarófu á milli matarafganga í ruslinu og út á svalir, fram og tilbaka, daginn út og inn, duglegir. Nærvera dýra er góð. Mér finnst samt alltaf eins og þau séu í einhverri paralellveröld við okkar.

Var ég búin að segja þér að Magnus vinur okkar var með fyrirtæki sem bjó til jarðafarakitt fyrir gæludýr. Hann er rosalega alvarlegur þegar hann talar um þetta. Litlar líkkistur fyrir hamstra…

Ég las greinina um Aung San Suu Kyi. Svona er hatrið stundum vúlgar og heitt og stundum þögult og kalt. Já þau eru bæði samanherpt hún og Trump. Hið eina pervertíska, að beygja sig undir öfugsnúin lögmál, líta í spegil á morgnana og finnast maður mikilvægur.

Já Stína ég er alveg viss um að það hafi með stjörnumerki mitt að gera að kvót í Orwell minni þig á mig.

„Því hreinni að utan því óhreinni að innan“ Er akkúrat það sem ég sagði við Á í morgun. Svona speki finnst steingeitum voða mikið varið í.

Sund segir þú og klof allstaðar, mér finnst þetta hljóma eins og einhver vönunarótti hjá þér. Þetta leyfi ég mér að segja vegna þess að ég held að Freud hafi bara haft rétt fyrir sér um þetta allt saman. Og ég þjáist svo sannarlega af reðuröfund. Ég sendi T myndir af teikningum sem hann ætlar að velja úr. Eins og hann orðaði það þá fannst honum góð myndin af fallosvöndlinum á harðaspretti! Undirvitundin mín gegnsýrð af fallusarkomplexum! Ég horfði á íslenskan viðtalsþátt í sjónvarpinu og þar var karlkyns myndlistamaður sem sagði að reðuröfundin væri bara bull. Svona er að vera kona, fyrst er manni gefin reðuröfund af karli svo hundrað árum síðar reynir annar karl að hrifsa hana af manni. Ég ætla bara að velja og hafna þessu sjálf. Allt er þetta hvort sem er bara leikur að orðum. DSM eða Freud.

En samt. Ung kona sem missir foreldra sína skyndilega þarf að redda sér bílprófi. Hún á ekki fyrir því en tekur þátt og vinnur smásagnakeppni erótísks blað sem heitir Cupido. Skrifa klámsögu í sorginni. Þar er ekkert skrítið samkvæmt F.

Mörk! Það er einhverskonar eilífðarverkefni er það ekki??? Ég finn ekki jafn mikið fyrir þessu hérna og heima á Íslandi. Kannski er það þess vegna sem mér líður svona vel hér. Engin fer yfir mörkin en maður þarf heldur ekki að draga inn magann í mannmergðinni og fela neðrivörina undir þeirri efri.

Ég ætla samt að prófa að fara í sund og segi þér frá því hvernig gekk í næsta bréfi.

Einu sinni fékk ég það á heilann að einhver gæti hvenær sem er hent þungum hlut út um gluggann af efstu hæð. Þetta var í Berlín og ég gat ekki gengið á gangstéttinni án þess að hugsa um hvernig það væri að fá sjónvarp ofan af sjöundu hæð í frjálsu falli í hausinn.

Kvíði er eitthvað svona fyrirbæri sem sneiðir af veröldinni manns. Lætur mann varpast inn á við í stað þess að fylla út í sjálfan sig. Teygja sig út í heiminn.

Í gærkvöldi horfðum ég og Á á heimildaþátt frá 1973 um móderniska málara. Það er svo fullnægjandi að hlusta á hvernig þau töluðu um verkin og vinnuna sína. Þegar þau notuðu orð eins og t.d. skali eða dýpt þá hljómar það barasta eins og járnstöng að detta á marmaragólf eða eitthvað álíka. Ég held ég sé að hugsa um þetta út frá hugmyndinni um að fylla út í líkamanum (þessum sem er alltaf að hliðrast).

Ég fór á æðislega sýningu um daginn, þar voru húlahringir sem snerust í andvaranum, bunki af ullarteppum með teikningu af klukku þar sem hringurinn náði ekki saman heldur vísaði út fyrir rammann og tölustafirnir miklu fleiri en tólf, páfagaukar sem snerust á grein yfir túlípana akri og blómin svignuðu undan golunni….hvernig lýsir maður þessu? Virkar beint á lungun. Djúpöndun.

Ég hugsa stundum um verk eftir listamann sem ég man ekki hvað heitir en mig minnir að hann sé pólskur. Þetta voru textar og ljósmyndir og eitt fjallaði um það þegar einstaklingur leggur sig hvernig orkustöðvarnar losna undan stigveldi sínu. Liggja bara í láréttri línu og vagga til og frá. Að sofa og anda er að treysta.

Á föstudaginn fór ég út á lífið eins og sagt er. Ég fór fyrst í leikhús með vinkonum og síðan á sumarhátíð Klassekampen (vinstra blaðið) á Kunstnerneshus. Geiri smart hitti okkur þar og við dönsuðum á marmaragólfi undir hvítlökkuðum hátölurum sem festir ofarlega á veggnum (þar er mjög hátt til lofts). Það er vont að dansa á marmara og tónlistin einhvern veginn náði ekki niður til okkar. Æ þú veist rými og efni. Mér finnst ég einhvern veginn aldrei ná tökum á þessu. Eins og sumir kunna að hjóla og ganga, nota hnífapör og eiga mörk kunna sumir þá líka bara sjálfkrafa að gera notalegt í kringum sig? Þarf maður að vera krabbi eða vog til þess að vita bara hvar skærin eiga heima? Skilja hvernig hulstur á að vera utan um hvaða hlut? Kemur þetta með bættum svefni og dýpri andardrætti?

Herregud nú held ég að ég hætti þessu masi og sendi þér bréfið!

Ást , friður og jafnvægi

Þín

Karí


Skrifa athugasemd

Hið óhugsandi langsótta er að rætast

SN, blue wall-test2 Sverrir Norland

Sverrir Norland skrifar bréf til Dags Hjartarsonar:

Sunnudaginn 14. mars 2017

Elsku Dagur, kæri vin,

í dag var skrítinn dagur í New York. Öðru hverju æða eftirköst hvirfilbylja yfir borgina, þá hefur jafnan verið send út stormviðvörun, farið nú varlega, kæru New York-búar, haldið ykkur bara heima hjá ykkur. Og það gerðum við einmitt í dag: Ullarsokkar, vínglas, skonsur, ég las skáldsögu (Transit eftir Rachel Cusk), pottréttur, gítarleikur.

Tvær vinkonur okkar litu inn í „storm-heimsókn“, til að „vinna“, og því hef ég að mestu varið deginum inni í stofu ásamt þremur fögrum, frönskum konum og Apple-fartölvunum þeirra, lyklaborðaslátturinn hefur varla hjaðnað í sekúndubrot síðustu tíu klukkustundirnar, sándtrakk samtímans. Ég er heppinn að því leytinu að ég er oft umkringdur fallegum, frönskum konum.

Ég mokaði snjó í heila klukkustund, fékk lánaða skóflu og saltpoka hjá nágranna okkar, írskum klippara/kvikmyndatökumanni sem heldur regluleg partí ásamt konu sinni þar sem allir verða svo fullir að þeir rúlla um bakgarðinn.

Þegar óveðrið lægði fórum við á nýtt veitingahús, L’estudio, í Kínahverfinu á Manhattan. Frábær staður. Á næsta stað (slúður) sátu Bono, Michael Stipe og gellan úr Pussy Riot. (Man ekki hvað hún heitir.) Eftir máltíðina kíktum við í búð sem hefur lengi verið á listanum, blýantabúðina CW Pencil Enterprise: búð sem sérhæfir sig í blýöntum. Ímyndaðu þér … búð … sem selur bara blýanta.

Fyrsta apríl má svo búast við því fjölgun í fjölskyldunni, dóttur. Ég er að spá í hvort ég eigi að kenna henni íslensku – eða bara ensku og frönsku. Hvað finnst þér?

Sendi kæra kveðju, til þín, til Helenu, yfir hafið, inn í myrkrið og draumana,

S.

#

Líður nú heil vika án þess að nokkurt svar berist frá Degi.

#

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Esjan er klædd í fallega gráa vinnuskyrtu

Myndlistarkonurnar Gunnhildur Hauksdóttir og Anna Hallin skrifast á:

Washington stræti, New York borg
í nóvember, 2016

MILLILENDING

Gott kvöld Gunnhildur,

Áðan sá ég mynd af þér í ponsjóinu hennar Olgu sem ég prjónaði. Ég sit hérna í íbúð Grétu og Susan í vesturþorpinu í New York borg og ætla að hitta vinkonu okkar, Angelu, í kvöld. Hún er nýkomin í bæinn frá feitum styrk í Róm og er að sýna i Cleveland eftir tvo daga, allt á fullu svo ég hitti hana bara á morgun.

Ég er núna búin að ákveða að byrja þetta bréfasamtal okkar.

Hér allt svolítið óraunverulegt en samt gaman, erfitt að útskýra, en við vorum hérna í Ameríku í námi sem hefur mótað okkur ansi mikið og myndlistin sem við erum búnar að upplifa þessa daga er mjög mögnuð og líka arkitektúrinn.

Ég var líka að framkalla tíu þynnur af 4×5 filmum og þori núna að láta þá hafa tuttuguogeina þynnu í viðbót, en fyrirtækið er á súperbissí stað á Manhattan – ég er annars alveg hissa hvað Manhattan er næs……róleg og kósi; fimmta breiðgata er nálægt ljósmyndastaðnum – úff – fólkið á stofunni er mjög fínt, það getur samt ekki stafað nafnið manns, en ég er alveg vön því eftir að búa á Íslandi.

Er frekar vön millilandinu, kannski „fíla” ég það betur en hitt – örugglega þú líka sem ert mikið á ferðalagi. Mig langar samt svolítið mikið í „pönkið.”

Ég er líka að hugsa um uppskurði – uppskurðir eru eitthvað sem breytir manni. Ég er ekki búin að spyrja þig hvernig þér líður? Og hver var ástæðan fyrir öllu saman hjá þér? Hugsar einhver um þig? Fylgist með?

Við erum sem sagt hér og ég er að fara þann þriðja til Steph Tamez til að fá húðflúr yfir örið mitt – ég er smá efins, samt fékk ég nafnið hennar frá tveimur vinkonum – Maiju og Angelu. Mig langar í þessi konuvöld og að breyta „galla” í vald, kraft. Ég vil vera stolt með hrukkur og ör og hugsa þetta á hátt sem ég passa inn í.

Ég hugsa að ég noti eitt af flugmynstrunum okkar Olgu fyrir tattúið – veiðiflug uglunnar – en það er erfitt að fá það til að virka á þrívíðum fleti.

Afsakaðu mig fyrir að tuða mikið um þetta en það stressar mig núna afþví ég á tímann á tattústofunni á fimmtudaginn.

Fyrsta daginn í borginni sáum við alveg æðislega sýningu, Pippilotti Rist á New Museum. Þegar ég svo gúglaði þessa sýningu og umfjöllunina um hana rakst ég á nýja myndbandið með Pussy Riot – æðislegt – og ótrúleg sýning! Ég er uppfull af hughrifum en ég er samtímis týnd. Á persónulega planinu

hafa verið ansi miklar breytingar sem ég get ekki útskýrt og mig langar ekki að dvelja við og sem mér finnast ekki endilega neikvæðar. Hér getur líka átt sér stað ný byrjun.

Milliland – þar sem ég á heima.

kkv,

A

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Vængjuð kveðja inn í vorið

Sigurbjörg Þrastardóttir og Halldór Armand Ásgeirsson skrifast á:

Sigurbjörg og Halldór saman

10. janúar 017

ástsæli halldór,

(fyrirgefðu, datt í hug að velja ávarp sem enginn notar, því þetta er ekki alvöru bréf) mig langar að biðja þig um greiða. Er einhver sjens að þú getir útvegað mér innsigli til að loka bréfum? Það sagði mér maður um daginn að hann hefði fundið innsigli afa síns í dánarbúi og þótt það töff, spurði af hverju ég léti ekki gera svona fyrir mig, ég gæti haft S … (svo mundi hann ekki föðurnafnið mitt, ég hjálpaði honum), já, og Þ, ég gæti látið útbúa innsiglið SÞ og brætt í vax aftan á öll umslög. Ég benti manninum á að enginn skrifi þannig bréf lengur, menn skrifa í mesta lagi tölvupóst, þess vegna hefði þetta ekkert upp á sig, en þegar lagt var (hart?) að mér að skrifa þér (ekki-) bréf, Halldór, datt mér í hug hvort þú værir gæinn sem gætir útvegað svona, hávaxinn eins þú ert og víðsýnt hjá þér (ég veit, skrýtinn stíll, ég er að reyna að hafa þetta ópersónulegt). Mér dettur í hug að ég geti notað þetta í daglegu lífi, hitað innsiglið og markað alla sem ég hitti. Með fangamarkinu mínu. Það mætti jafnvel víkka þetta út, brennimerkja fólk (er þetta núna dulbúinn pistill?) með læki eða hjarta eða broskalli, væri það ekki skynsamlegra en random húðflúrið sem ratar í tísku og dettur úr henni aftur, að samskiptasagan væri á húðinni, í skinninu? Kannski er þér annt um eigin húð, það væri vel skiljanlegt, og ég gæti lofað að brenna þig ekki í skiptum fyrir þennan greiða sem ég kem ekki út úr kerfinu á mér, eníhá, þú ferð varlega, SÞ

p.s. ég set fólk hér í cc. til þess að venjast því að aðrir lesi þetta bréf, ímynda mér í æfingaskyni að þú sért í fangelsi, þótt það kalli strax á ákveðna þversögn, jæja

~

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Margfaldar afmæliskveðjur!

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 9. febrúar 2017

Kæra Kristín,

Í dag skín sól og snjófölin brakar undir skónum. Hversdagurinn hefur undanfarið verið í mjög föstum skorðum, rammaður inn af gönguferð okkar sonarins í og úr skóla. Á leið okkar á göngustígnum er skógarjaðar og ég rýni reglulega inn á milli trjánna í leit af lífsmarki en sé yfirleitt ekki neitt. Einstaka sinnum skottast íkorni á milli trjáa á einum stað. Við höfum þó tekið eftir því að seinnipartinn í kringum 16:30 flýgur iðulega hópur syngjandi/gargandi fugla yfir hverfið. Um daginn sá sonurinn fuglana mynda hvalaform. Mig grunar að þetta séu múrsvölungar og að þeir séu að hópa sig saman til að dvelja við vatnið stóra yfir nóttina. Rétt áðan gúgglaði ég múrsvölunga og þeir eru líka kallaðir turnsvölur en fræðiheiti þeirra er apus apus. Mér finnst alltaf jafn merkilegt að hugsa til þess að allt í kringum okkur eru dýr að draga fram lífið í föstum skorðum, verða á vegi okkar og við vitum ekki hvað þau eru að sýsla.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Um hliðarklaufar og alræði rennilása

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 8. janúar 2017

Kæra Kristín,

Enn og aftur gleðilegt nýtt ár og takk fyrir kaffihúsaspjallið í vikunni. Á einhvern undarlegan hátt þykir mér vænt um Kaffi Haiti. Kaffið þar er undursamlegt (hvergi í heiminum hef ég fengið kaffi með sama bragði) og þar fór ég á örlagaríkt stefnumót á síðasta ári, segi þér kannski betur frá því seinna. Svo er konan sem stýrir kaffihúsinu svo fögur og ég vona að reksturinn blómstri og allt dafni þar vel.

Nokkrum klukkutímum eftir kaffispjallið okkar fór ég í hríðarbyl út á flugvöll með einkasoninn. Við fórum í gegnum öryggishliðið og þar sem ég var upptekin við að klæða mig aftur í skóna og troða tölvunni ofan í tösku vatt dre2017-01-05-14-27-39ngurinn sér að standi þar sem hægt er að smella á ólík andlitstákn til að gefa þjónustunni einkunn og smellti á fýlukarlinn. Hann var svo snöggur að ég tók ekki eftir því en svo sagði hann og benti á tækið: ,,Ég ýtti á fýlukarlinn, af því að ég sakna pabba svo mikið.” Ég bráðnaði næstum því ofan í gólfið og tók mynd af tækinu og reyndi að sjá fyrir mér hvernig starfsfólkið túlkaði niðurstöðurnar úr þessum tækjum í lok dags en fann fljótt að þetta var öngstræti sem ég varð að koma mér út úr.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Jólakveðjur yfir Atlantshafshrygginn: Reykjavík ~ New York

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

midhafshryggir_161008

Reykjavík, 20. desember 2016

Heil og sæl Kristín,

Í sömu viku ferðuðumst við yfir hafið, ég flaug í átt að eyjunni köldu og þú í burtu frá henni. Ég ætla rétt að vona að leiðir okkar beggja hafi verið hlykkjóttar og flugvélarnar flogið í slaufur og hringi. Beinar og óslitnar línur eru svo óalgengar, það er helst að þær nái sér á strik á hvítum blöðum og húsbyggingum og gangstéttum. Náttúran býr sjaldan til langar óslitnar línur. Nú er ég kannski komin fram úr sjálfri mér (varðandi línurnar og náttúruna) en mig langar að spyrja: Hvernig er umhorfs hjá þér? Hér hjá mér eru umhleypingar, birtuglæta sem felur sig stöðugt lengur með dekkri tjöldum, á morgun eða hinn þorir birtan að sýna sig en bara hægt og bítandi. Sjórinn er á sínum stað á stöðugri hreyfingu, allt er á stöðugri hreyfingu hér á þessari eyju, fólk að keyra og ganga á milli staða. Ég er nýstigin úr sundi og sest á kaffihús þar sem kliðurinn berst við tónlistina. Mér þykir það alltaf jafn merkilegt hvað heitt vatn róar taugarnar mikið, hitinn mýkir húðina, taugarnar, hugsanirnar og liðina og línur sem eru bæði bognar og sléttar.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Þokuslæða á dimmum vetri

 

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

9. nóvember 2016

Kæra Kristín,

Hér kyngir niður snjónum og allt í hægagangi og við byrjuðum daginn á því að mæta of seint í skólann og ég hugsaði að þetta væri svona dagur þar sem hvítt vetrarríkið leggst yfir allt og það hægist á öllu og allt mætir of seint alls staðar. Þegar ég tilkynnti úrslit kosninga hrópaði sonurinn ,,Neii, þessi prump-trömt ætlar að byggja múr!“ en um daginn þegar Dylan fékk nóbelinn spurði hann ,,Já eru þetta ekki Nóbel Trump verðlaunin?“ Dóttirin sagði ,,Æ, er það?“ og varð hugsi. Áfram kyngir niður snjónum og ruðningstækin voru mætt fyrir utan hjá okkur kl. 6 í morgun og komu aftur á hálftíma fresti, það kyngir niður sjó og við ryðjum snjó. Kyngjum, ryðjum, höldum út í daginn í hægagangi og handleikum von í úlpuvasanum, reynum að missa ekki veika von úr vasanum.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Kartöfluprinsessa og Berlínardraumar

 

Júlía Margrét Einarsdóttir og Steinunn Sigurðardóttir skrifast á:

julia-og-steinunn

 

Elsku Steinunn.

Nú sit ég hérna í sófanum í íbúðinni sem ég bý í í Aþenu um þessar mundir. Ég hef verið á ferðalagi um Evrópu með kærastanum mínum síðan um miðjan júní og hef heimsótt ótal borgir og núna er ég hér, ári eftir að ég var hér síðast, og ég elska þessa borg.

Það er glampandi sól eins og hefur verið síðustu daga og þó að klukkan sé að nálgast eitt og komið framyfir hádegi er borgin eiginlega ekki vöknuð.

Það er svo heitt úti að það svífur yfir mann einhverskonar drómi um leið og maður stígur fæti útfyrir dyrnar. 40 stiga hitinn úti fleygir sig yfir líkamann með höggi, skynjun og umhverfi verður sljótt.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Hið háleita slím og röddin á bókasafninu

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

Uppsala, 3. september 2016

 

Kæra Kristín,

 

Nú kemst ég loksins í að skrifa þér bréf og mikið er það nú gaman. Hér hefur hversdagurinn blandast ofurlöngu sumarfríi því börnin mín fengu ekki skólavist í nýju landi fyrr en núna. Í næstu viku byrjar sem sagt hjá okkur vetrar-rútínan með öllum sínum yndislegu reglum og römmum. Núna eru krakkarnir í herbergjum sínum að leika sér, hvort með sínum hætti. Úr herbergi sonarins heyrast iðulega skemmtileg hljóð eins og skothljóð og söngur. Rétt áðan sönglaði hann einkennislag evrópskra sjónvarpsstöðva og stundum sönglar hann auglýsingastef eða lög úr barnaþáttum eða laglínur úr lögum sem við höfum verið að dansa við af jútúb. Á stofuborðinu er risaeðla sem hefur dottið á höfuðið við hliðina á umsóknareyðublaði til sjúkratrygginga Íslands. Ég hef ekki tölu á umsóknareyðublöðunum sem ég hef fyllt úr undanfarnar vikur. Til að geta klárað þetta tiltekna eyðublað vantar mig staðfestingu frá þjóðskrá. Yfirleitt eru svona eyðublöð voðalega sniðug að biðja um önnur eyðublöð eða staðfestingar frá öðrum stofnunum og þannig  geta stofnanirnar talað saman í gegnum þann sem fyllir út eyðublaðið. Fyrrum samstarfsfélagi minn sagði mér einu sinni frá því að í gamla daga starfaði maður hjá ríkinu sem bar starfstitilinn ,,eyðublaðasérfræðingur”, það þótti mér gaman að heyra. Eflaust var þetta fyrir tölvuvæðinguna miklu og þá þurfti sér starfsmann í að passa upp á dálkana. Ætli einhver hafi búið til listagjörning þar sem þátttakendur þurfa að komast í gegnum rýmið með því að fylla út alls konar eyðublöð og svo blikka rauð ljós ef þau fylla blöðin út vitlaust? Nei, það væri ekki nógu skemmtilegt og í raun of realískt. Á hverjum degi dett ég ofan í skáldsögu eftir Kafka, þannig er það nú bara. En risaeðlan er á borðinu og skapar mikilvægt mótvægi við eyðublaðið.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Biðtími: ∞ í laufskrúði úr gallaefni

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 4. og 5. ágúst 2016

 

Kæra Kristín,

 

Takk enn og aftur fyrir bréfin þín. Ég er farin að bíða eftir því að haustið komi með sinni reglubundnu rútínu. Er alltaf að bíða eftir að hlutirnir breytist, að eitthvað gerist, eitthvað sem er í framtíðinni, seinna, bráðum, kannski.

Þegar ég skrifaði dagbók fjórtán ára var fyrsta dagbókarfærslan í byrjun ársins 1989. Þar er kostulegt að lesa hvernig ég þvældist á milli staða án árangurs því jólafríið var ennþá í gangi (sundlaugin lokuð o.s.frv.) og vinirnir út og suður. Þá voru símarnir fastir við veggi og maður þurfti að fara á staðinn til að sjá hvort viðburðurinn væri í gangi eða hvort vinkona væri heima og gæti hangið með manni. Páskafriín gátu stundum orðið strembin þegar vinirnir voru í ferðalögum. Ég man sérstaklega eftir einum páskum þar sem mér leið eins og ég væri eina barnið í bænum og ég ráfaði á milli staða, hringdi dyrabjöllum og dyrastafir stóðu fastir og enginn hreyfing inni í húsunum. Fór á hverjum degi sama hringinn á milli húsa í veikri von um að núna væri einhver kominn heim. Ég hefði svo sem getað farið heim að hlusta á gula útvarpið mitt sem útvarpaði bæði rás 2 og bylgjunni, stundum sat ég við skrifborð og hlustaði á lítið gult útvarp, en ég hef greinilega ekki nennt því þessa páska. Þetta útvarp var með þunnum, mjúkum vír sem þurfti að sveigja og beygja til að ná sambandi við rásirnar. Seinna átti ég kasettutæki með hörðu loftneti.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Að þekkja sig og þekkja sig ekki, lóðbeint og af drukkinni einbeitingu

Hrafnhildur Þórhallsdóttir og Bragi Ólafsson skrifast á:

Sameinuð HÞ minnkuð

 

Reykjavík, júlí 2016

 

Kæra Hrafnhildur,

alveg vissi ég að þessi bréfaskrif myndu byrja með spurningu. Ég spyr mig nefnilega að því hvernig maður eigi að koma sér að efninu þegar maður skrifast á við manneskju sem maður þekkir jafn lítið og ég þekki þig. (Hvaða efni? spyr ég mig líka.) Og svarið sem ósjálfrátt kemur upp í hugann er að best sé að láta sem ég þekki þig alls ekki, að ég hreinlega viti ekki hver þú ert. Ég veit reyndar ekki hver ég er sjálfur, þannig að þetta gæti ekki byrjað betur.

Alltaf best að byrja frá grunni.

Ég ætlaði að vera búinn að skrifa þér fyrr, en bakmeiðsl (eftir átök við sandpoka) ollu því að mér tókst ekki sem skyldi að draga líkamann að skrifborðinu, og koma honum þannig fyrir við borðið að ég ætti gott með að skrifa. Ég þarf nefnilega borð til að geta skrifað; mér finnst eitthvað tilgerðarlegt við hitt, að geta skrifað án þess að hafa borð.

En það eru forréttindi að geta leyft sér að skrifa fólki bréf. Ég veit að orðið forréttindi er of mikið notað nútildags; mér finnst það samt eiga við hér. En aðeins aftur að þessu með að vita ekki hver maður er. Auðvitað er það hallærisleg spurning, og of mikið gert af því að klæða hana í nýjan búning til að hún þekkist ekki. En þá verður maður bara að gangast við því að vera hallærislegur sjálfur, því ég fyrir mitt leyti verð oft dauðhræddur (við sjálfan mig) og svitna af angist yfir þeirri vissu (eða óvissu) að hafa ekki hugmynd um hver ég er. Þess á milli gerist það þó stundum (ekki síst þegar ég hlusta á ákveðna tónlist) að ég fyllist þvílíkri vissu um áðurnefnt atriði að mér líður eins og ég sé að springa úr þekkingu. Það gerðist núna síðast fyrir nokkrum dögum, daginn eftir að EM í fótbolta lauk (ég ætla ekki að lýsa því nánar). En eins og gerðist með Ibsenleikarann í bókinni um Skógarhöggið, bókinni sem Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi hafði ætlað sér að þýða (í framhaldi af Steinsteypu sama höfundar) – og hefur vonandi enn – þá varð mín augnabliksuppgötvun um daginn (um hver ég væri, og allt það) jafn fljót að verða að engu og það tók hana að verða til. Á svipaðan hátt og drukkin einbeiting Ibsenleikarans gufaði upp, þótt ekki hefði það gerst á jafn skjótan hátt hjá honum og hjá mér. (Þetta með drukknu einbeitinguna sagði Eggert Þorleifsson mér að væri kallað að vera „sljóbeittur“ – hann hafði það frá Magnúsi Þór Jónssyni, Megas.) En ég var að tala um forréttindin sem felast í því að mega skrifa manneskju bréf. Alveg vissi ég að ég færi að tala um eitthvað svoleiðis. Ég þekki sjálfan mig nefnilega betur en mig grunar. Ég hafði ætlað mér að vitna í skáldið Apollinaire í því sambandi, í fyrstu línu ljóðsins um tónlistarmanninn frá Saint-Merry, en mundi svo eftir að ég var búinn að nota þá línu í skáldsögunni sem ég gaf út í fyrra, Sögumanni, að minnsta kosti óbeint. (Maður verður að leyfa aðeins lengri tíma að líða milli þess sem maður vitnar í sömu hlutina, finnst þér það ekki?)

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Kveðja yfir hafið: Uppsala ~ New York

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, Svíþjóð 2. júlí 2016

Sæl og blessuð Kristín,

Hér er raki í loftinu og hitinn hærri en ég á að venjast. Líkamskerfið þarf að venjast þessu og líka tónlistinni í því tungumáli sem hér er talað. Tíminn hefur flogið áfram og það að taka saman dót og pakka því í kassa yfirtók líf mitt í allt of marga daga. Mikið er ég fegin að vera komin út úr þeirri orku. Núna er ég í því hlutverki að vera utanveltu og utangátta og reyni að aðlagast og villast ekki. Á eftir að læra á strætókerfið, að komast á milli staða og fylla út flókin eyðublöð. Þetta kemur samt í gusum, ólíkum gusum með ólíkri orku. Ein gusan kemur í kjölfar annarrar en það er gott, gusurnar þoka manni á milli staða, milli orkukerfa eða eitthvað svoleiðis. Núna þarf ég að rjúka, þarf að kaupa þvottaefni og annað dótarí. Held áfram seinna 🙂

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Hvað getum við lagt til svo heimurinn batni?

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

6. júní 2016

Kæra Kristín

 

Síðan ég skrifaði þér síðast hefur heimurinn breytt um lit, úr brúngráu yfir í grænt. Gul blóm spretta fram og líka blóm í öðrum litum. Lúpínan er að opnast en Melgresið dokar við þar til síðar í sumar. Ég ólst ekki upp í kringum rósarunna og nellikur heldur rofabörð og melgresi, mosa og blóðberg. Var meira í kringum sand en mold en elska samt moldina meira. Mér þykir vænt um Melgresið á einhvern undarlegan hátt. Kannski af því það dafnar seint, stráin eru full af sætum vökva og góð á bragðið, það vex á svörtum söndum og oft nálægt sjó. Í námunda við Melgresi er yfirleitt ilmur af fjöru og sjó. Já, ég elska moldina og lyktina af henni, moldin er frumstæð og hrá. Blaut, þung mold ber í sér kjarna, möguleika á lífi og sprettu. Moldin tekur við öllu sem hrörnar og deyr og umbreytir í græna sprettu. Moldin biður ekki um neitt nema kannski smá vatn til að þetta græna komist upp í ljósið en það er líka allt og sumt. Moldinni finnst ekkert verra ef varir sem eru ýmist blautar eða þurrar hvísla til hennar orðum um hvað sem er, hvísla og klappa mold með fingrum sem eru ýmist þurrir, klístraðir eða blautir.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

„Rændu mér, segir einhver við einhvern á vorregndegi“

Spjallþráður 10 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

19. apríl 2016

Kæri pennavinur,

Vorrigningar í stórum borgum búa til dularfulla stemmingu hjá manni, hjá börnum og köttum, öllum, og páfagaukum eins og mér. Ofan á flauelsmjúkum blöðum blómanna í marglita fötunum í hillurekkunum hjá blómasalanum skríða regndropar eins og ormar og kuðunga sig í snúð, renna niður eftir dollunum, niður á stétt. Af plastskerminum fyrir ofan drýpur. Meðfram kantsteininum buna lækir. Bílar aka hjá, hjólbarðarnir svissa í pollunum og vatnið hendist á pils, skó, skálmar – fólks sem bíður eftir að komast yfir götuna. Öllum sem eru ungir finnst heimurinn nýr. Öllum sem eru gamlir fá staðfestingu á því að heimurinn verður alltaf nýr og einnig þeir sjálfir, að ártal breytir ekki öllu. Fólk fer á leyndarfundi – við sjálft sig – við aðra – við regnið, eitthvað. Ef hættir að rigna í stundarbil þornar regnið hraðar en í síðasta mánuði. Vá, hvað allt þornar hratt. Og aftur krumpa skýin slæðuna, niður steypist meira steypiregn. Í dag er svoleiðis dagur.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Iljar í sokkamyrkri og tréklossum

Spjallþráður 9 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

9.4.2016

Kæra Kristín

Nú stofna ég spjallþráð númer níu á níunda degi aprílmánaðar. Úthaldið og seiglan eru svo mikilvæg en allt í einu fór ég að beina sjónum að því að fáir lesa bréfin okkar. Og þá fór ég að fá þær gloríur að þetta væri nú bara til einskis, að við værum að taka pláss sem okkur bæri ekki, að við værum að kvaka út í tómið. En svo komst ég hringinn og vil halda áfram. Höfundar mega ekki láta það hvort einhver les eða ekki stjórna skrifum sínum. Hvatinn þarf að koma innan frá. Það er líka eðlilegt að orkan sveiflist upp og niður og þá skrifa ég stundum í andleysi og svo á öðrum tímum í andagift. Æ, veistu ég elska þetta orð ,,andagift” – hef ekki kíkt í orðsifjabókina en er með þá prívat kenningu að þarna sé orðið ,,gift” úr dönsku sem merkir eitur, eitur andans eða eitur fyrir andann. Andagiftin ber með sér bæði líf og tortímingu, andinn tekur inn eitthvað sem stækkar hann og þá getur hann sprungið ef skammturinn er of stór. Þess vegna þurfa andstæð element að verka á okkur stöðugt, til að dempa skammtana sem sækja að, innblástur og útblástur og fráblástur og sandblástur og plástur.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Nokkur orð um uppnám höfundarins og laxa í bílskotti

Hermann Stefánsson og Ragna Sigurðardóttir skrifast á:

 

Reykjavík, 19. mars, 2016

Kæra vinkona

Líf mitt er í algeru uppnámi. Ég segi það satt. Það kemur þér kannski á óvart að ég trúi þér fyrir þessu þar sem við erum ekki einu sinni málkunnug, en satt að segja er þetta engin nýlunda: Ég man ekki til þess að líf mitt hafi nokkru sinni verið öðruvísi en í uppnámi.

Ég laumaðist til að skrá mig örsnöggt inn á félagsmiðilinn Facebook (sem ég er sífellt að skrá mig af fyrir fullt og allt) til að ganga úr skugga um hvort við þekktumst nokkuð og komst að því að við erum ekki einu sinni facebook-vinir, sem þýðir að við þekkjumst ekki neitt. Nema það sé einmitt staðfesting á því að við séum mjög nánir vinir, sem reyndar er líklegra.

Sálarástandi mínu sló ég örsnöggt upp í gamalli norskri skáldsögu (eftir Hamsun) sem ég er að endurlesa og það er rétt, líf mitt hefur verið í algeru uppnámi frá því allavega á síðari hluta nítjándu aldar og því eru engar fréttir í þessu fólgnar. Mér þætti allt annað ástand óviðkunnanlegt.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Skiptum um ham og lærum af geitinni höltu!

Spjallþráður 8 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á: 

 

5.4.2016

Kæra Kristín,

Mér er heitt í hamsi eins og hamsatólg í potti. Vonandi ert þú hins vegar sallaróleg með teppi og te að teikna myndir af blómum. Ekki láta draga þig út í þessa hamslausu hamsatólg. Ég þarf aðeins að blása en ætla síðan að segja þér frá draumdýri næturinnar (þetta er orðin framhaldssagan um draumdýrið dularfulla). Þetta eru undarlegir dagar og við erum á þröskuldi nýrra tíma (vonandi) og þjóðin er að segja hug sinn og kallar á breytingar sem eru í vændum (vonandi). Þjóðin kallar á berskjöldum, einlægni og styrkinn í mýktinni. Við viljum ekki lengur sterka leiðtoga sem sýna aldrei svipbrigði og eru alltaf með allt á hreinu. Við viljum mennskuna og henni fylgja mistök og sá leiðtogi er ekki til sem ekki gerir mistök á einhverjum tímapunkti því við viljum ekki leiðtoga sem eru vélmenni. Sá ummæli frá hægrimanni (sérðu hvernig stafirnir ,,hrægami” felur sig í orðinu) sem spurði síðan hvenær það væri orðinn glæpur að eiga peninga á Íslandi. Ég spyr: Hvenær varð það glæpur á Íslandi að vera fátækur, öryrki, sjúklingur, barn, gamalmenni, verkamaður, læknir, námsmaður og listamaður? Hvenær varð það dyggð á Íslandi að fela, ljúga, svíkja (kosningaloforð til dæmis), þræta, spinna atburðarrás, flýja, græða, skjóta undan, græðagræðagræða, eyða, kaupa, selja, kaupa, selja, eyða, græða? Vandinn er stærri en einhverjir SDG og BB og fleiri nöfn og fólk því þetta snýst um gildi og siðferðisþrek.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Draumapantanir og úttekt á tísku vikunnar

Spjallþráður 7 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á: 

 

30. mars 2016

Kæra Kristín

Þakka þér fyrir síðasta bréf. Nú er ég loksins að detta í bréfagírinn en mér finnst hálf furðulegt að ávarpa þig ,,kæra Kristín” því mér finnst þú ekki heita bara Kristín heldur Kristín Ómarsdóttir. Hefurðu tekið eftir því hvað má sjá mörg skemmtileg orð út úr nafninu þínu? Til dæmi króm, kóma, rós, sómi, kína, krít og svo framvegis. Síðasta bréf þitt hefur heldur betur hrist upp í dulvitund minni. Takk fyrir að spyrja mig út í draumdýrið mitt. Það var fyrst þegar spurningin kom frá þér sem ég áttaði mig á því að mig dreymir aldrei dýr. Mig dreymir alltaf fullt af fólki, oftast fólk sem ég hef aldrei séð áður en þekki í draumunum og er inni í alls konar húsum að leysa verkefni. En aldrei dreymir mig dýr. Ég veit hreinlega ekki hvert er draumdýrið mitt og er búin að hugsa mikið um það undanfarna daga og niðurstaðan er sú að ef ég ætti að velja mér dýr (kannski er það samt dýrið sem velur mann) þá væri það annað hvort kisa eða fugl. Ég elska sjálfstæði og þokka kisunnar en líka yfirsýn og lendingar fuglanna, já helst vildi ég vera fugl, kannski Himbrimi. Heyrðu nú geri ég tilraun og býð hér með dýrinu mínu að birtast í draumi næstu nætur!! Svo læt ég þig vita hvort það hafi komið.

Lesa meira