Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands


Skrifa athugasemd

Afmælisstelpan, haustið og tískan í Alþingishúsinu í viku 41

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 24. september 2016

Jájájá! Kæra Kristín afmælisbarn,

Nú er runninn upp fæðingardagur þinn. Innilega til hamingju með tilveruna og lífið. Að hugsa sér að á þessum degi fyrir einhverjum árum síðan komst þú í heiminn, nakin og slímug og móttækileg fyrir áhrifum sem þú þróaðir yfir í líf þitt og skrif sem síðan urðu bækur. Núna er haustið komið og þá verður loftið svo ótrúlega ferskt og stökkt, það er eins og umbreytingin beri með sér tæra birtu og tilfinningu sem vekur bæði hroll (út af kuldanum) og mildi (út af hlýjunni sem stafar af birtunni). Ég velti því fyrir mér hvort fæðingin sé fyrsta sjokkið í lífinu. Að verða til og þróast í móðurkviði á sér stað í einhverju algleymi, hlýju og hröðum vexti (þar geta reyndar komið sjokk ef móðirin lendir í háska) og svo þarf barnið víst að fæðast og það hlýtur að vera mjög alvarlegt áfall að fara út í kulda og skerandi ljósið. Þá aðlagast húðin samt fljótt andrúmsloftinu og barnið samlagast móður eða umönnunaraðila. Svo gerist hið stórkostlega seinna, þegar barnið uppgötvar eigið sjálf og aðgreinir sig frá þessum eina umönnunaraðila (æ þetta er ekki nógu fallegt orð, finn ekki annað í augnablikinu). Ég-ið verður til og því fylgir mikill kraftur en líka átök og togstreita. Ég velti því fyrir mér hvort þessi ferli öll endirtaki sig aftur og aftur í gegnum lífið en undir öðrum formerkjum, dulbúin breyting í lífshlaupinu (ath. lífshlaup má líka skoða hlutlægt þannig að hlaupið sé svona dúandi hlaup sem maður borðar sjáðu til, þá er lífshlaupið seigfljótandi ástand). Ætli við séum ekki alltaf á einhvern hátt það fóstur sem við einu sinni vorum? Leitum í hlýja sefjun sem ber okkur áfram í fullkomnu öryggi. Þegar ég sofna á kvöldin set ég hendur í hálsakot eins og mig grunar að ég hafi gert þegar ég var fóstur. Hvernig fóstur ætli þú hafir verið?

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Dulvitund og dulkynjun mæla með engu

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

 

Uppsala, dagarnir fljúga

 

Kæra Kristín,

 

Já, dagarnir fljúga og núna er 28. júlí og þessir síðustu dagar mánaðarins renna meira og minna saman og ég spyr mig alla daga, oft á daga: ,,Tuttugasti og hvað er aftur í dag?” Ekki að talan skipti endilega miklu máli en við eigum það eflaust mörg sameiginlegt að þegar tölurnar hækka á almanakinu þá lækka þær á bankabókinni, og svo er talan á hitastiginu alltaf að breytast, best að miða allt við þá tölu. Mælingarárátta mannsins finnst mér bæði undursamleg og skopleg. Við mælum tíma og vegalengdir og þyngdir og ummál og hraða og allt mögulegt. Hið ómælanlega nær samt alltaf að smjúga undan þessum einingum öllum. Glottir og heldur sig handan við, fyrir aftan og framan og til hliðar. Núna helli ég í mig kaffi og gíra mig upp í stofnanarölt. Þarf að fara á skrifstofu (skatturinn sko) til að mega fara í bankann til að borga fyrir það sem ég sæki um að skrifstofan geri fyrir mig og þegar ég er búin að borga get ég farið aftur á skrifstofuna með kvittunina og þá er hægt að setja umsóknarferlið af stað, held ég. Galdurinn liggur í því að gera rétta hluti í réttri röð. En ég var að tala um hið ómælanlega og fór svo út í skattinn en það er tenging þarna á milli. Til að undirbúa þessa skattaheimsókn skrifaði ég um daginn á blað bankaupplýsingar með rauðum penna. Síðan sat þetta blað hjá mér við tölvuna og seinna hlustaði ég á tónlist sem hreyfði við mér (Amy Winehouse (Love is a Losing Game) og Adele (Set Fire to the Rain) til að vera nákvæm) og þá hripaði ég á sama blaðið rauðum stöfum: Tónlist og ljóð fitla og daðra við dulvitundina. Andrúmsloft. Í tónlistinni er eitthvað ómælanlegt, sterk áhrif sem maður getur ekki útskýrt því hvernig útskýrir maður andrúmsloft í listaverkum? Hvernig útskýrir maður hugboð, andrúmsloft, grun sem er hálf hugsun, óáþreyfanlega áferð og liti og hreyfingu? Kraftinn sem myndast þegar fullkomnlega frumleg hugsun fæðist? Þegar tveimur ólíkum þáttum slær saman og þeir mynda rafmagn, renna huganum í hugrenningatengslum yfir á aðra braut? Þarna var ég sem sagt komin með á sama blaðinu bankaupplýsingar fyrir skattinn og pælingar um tónlist og ljóð og dulvitund. Ég þurfti að taka blaðið með mér í einn banka og þá voru góð ráð dýr. Átti ég að hafa dulvitundarpælinguna með á blaðinu eða rífa á milli? Hvað ef ég þyrfti að útskýra pælinguna fyrir bankastarsmanni? Ætti ég þá að segja: ,,Well, you see both music and poetry flirt with the subconscious. Atmosphere is there and can’t be described. Can I open an account for money and atmosphere?” Ég ákvað að rífa á milli, leyfa þessum tveimur textum að fara í sitt hvora áttina. Þessa stundina er ég að uppgötva að þegar ég skrifa á blað mikilvæga hluti eins og bankanúmer og innkaupalista þá er línan alltaf lárétt en þegar ég hripa svona ómálga pælingu þá er línan á ská, hvorki lóðrétt né lárétt.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Í landamæralausum heimi tökum við myndir og vöskum upp

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 14. júlí 2016

 

Kæra Kristín,

Takk fyrir þínar fögru og ljóðrænu fatalýsingar. Ég vil byrja á því að svara spurningum þínum en þessa dagana spranga ég mest um á eldgömlum hlaupaskóm sem eru með slitinn sóla en sandalarnir mínir eru fastir held ég í Hamstad. Tollurinn var að hrökkva í gírinn í dag þegar ég sendi þeim staðfestingu á nýrri kennitölu og þá mun brettið sem ég sendi yfir hafið ná loksins til mín með tilheyrandi góssi. Þá fæ ég loksins sandalana og get þá spókað mig um á þeim. Ég átti engar stuttbuxur þegar ég kom hingað en fjárfesti í þægilegum munstruðum buxum með vösum og hlýrabol í stíl, keypti líka mosagrænar stuttbuxur úr gallaefni. Ég hef þegar sent til þín mynd af munstrinu fagra og það hjálpar þér vonandi við teikninguna.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Furðulegur hryllingur og fullorðin börn

Emil Hjörvar Petersen og Gunnar Theodór Eggertsson skrifast á:

pjimage

Lundur, Svíþjóð, 13. apríl, 2016.

 

Heill og sæll, Gunnar.

Það er allt of langt síðan við hittumst. Mig rekur minni til að síðast hafi það verið haustið 2012 þegar við rákumst hvor á annan í Eymundsson á Skólavörðustíg. Við vorum þá báðir nýbúnir að gefa út nýja bók og komnir fremur langt inn á braut furðunnar (ég kýs að nota þetta orð yfir hugtakið Fantastic) og þurftum augljóslega á því að halda að skrafa aðeins. Við settumst niður í kaffibolla, gleymdum stað og stund — enda fékk ég stöðumælasekt — og ræddum um höfunda, um heima og geima og um hvers konar sögur við værum hrifnir af. En ég man ekki eftir því hvort við ræddum ritstörfin sérstaklega.

Margt vatn hefur runnið til sjávar síðan þá, við höfum skrifað fleiri bækur en á sama tíma fjarlægst, sem á sér eflaust skýringar í önnum og fjölskyldulífi. Og, já, ég bý víst í öðru landi.

Lesa meira