Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:
Uppsala, 24. september 2016
Jájájá! Kæra Kristín afmælisbarn,
Nú er runninn upp fæðingardagur þinn. Innilega til hamingju með tilveruna og lífið. Að hugsa sér að á þessum degi fyrir einhverjum árum síðan komst þú í heiminn, nakin og slímug og móttækileg fyrir áhrifum sem þú þróaðir yfir í líf þitt og skrif sem síðan urðu bækur. Núna er haustið komið og þá verður loftið svo ótrúlega ferskt og stökkt, það er eins og umbreytingin beri með sér tæra birtu og tilfinningu sem vekur bæði hroll (út af kuldanum) og mildi (út af hlýjunni sem stafar af birtunni). Ég velti því fyrir mér hvort fæðingin sé fyrsta sjokkið í lífinu. Að verða til og þróast í móðurkviði á sér stað í einhverju algleymi, hlýju og hröðum vexti (þar geta reyndar komið sjokk ef móðirin lendir í háska) og svo þarf barnið víst að fæðast og það hlýtur að vera mjög alvarlegt áfall að fara út í kulda og skerandi ljósið. Þá aðlagast húðin samt fljótt andrúmsloftinu og barnið samlagast móður eða umönnunaraðila. Svo gerist hið stórkostlega seinna, þegar barnið uppgötvar eigið sjálf og aðgreinir sig frá þessum eina umönnunaraðila (æ þetta er ekki nógu fallegt orð, finn ekki annað í augnablikinu). Ég-ið verður til og því fylgir mikill kraftur en líka átök og togstreita. Ég velti því fyrir mér hvort þessi ferli öll endirtaki sig aftur og aftur í gegnum lífið en undir öðrum formerkjum, dulbúin breyting í lífshlaupinu (ath. lífshlaup má líka skoða hlutlægt þannig að hlaupið sé svona dúandi hlaup sem maður borðar sjáðu til, þá er lífshlaupið seigfljótandi ástand). Ætli við séum ekki alltaf á einhvern hátt það fóstur sem við einu sinni vorum? Leitum í hlýja sefjun sem ber okkur áfram í fullkomnu öryggi. Þegar ég sofna á kvöldin set ég hendur í hálsakot eins og mig grunar að ég hafi gert þegar ég var fóstur. Hvernig fóstur ætli þú hafir verið?