Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands


Skrifa athugasemd

„Mig dreymdi þig í nótt. Þetta var í ljósaskiptunum og við stóðum í lygnri tjörn.“

 

Kristín Eiríksdóttir og Karí Grétudóttir skrifast á:

 

 

Elsku Karí,

ég er nýkomin á fætur. Kaffið er þarna, hálfa leið með tilheyrandi hvissi. Það fyrsta sem ég gerði í morgun var að lesa grein um Aung San Suu Kyi á The Intercept. Mér varð hugsað til þín útaf tilvísun í greininni. Tilvísunin er í fræga grein eftir George Orwell, um Mahatma Gandhi: Dýrlingar eru sekir þar til sakleysi þeirra verður sannað.

(Finnst þér ekki pínu fyndið að George Orwell kvót minni mig á þig? Það er kannski vegna þess að þú er steingeit?) Annars hef ég ekkert lesið George Orwell nema kvót. Er það nóg kannski? Kannski komin heil saga í kvótum?

En ég er í áfalli eftir þessa grein. Ertu búin að sjá? Að Aung San Suu Kyi er svipaður aðili og Trump? Búrmíski herinn fremur þjóðarmorð á Rohingya fólkinu, múslimskum minnihluta í norðurhluta Búrma og Aung San Suu Kyi bendir á að reyndar sé þetta fólk frá Bangladesh og kvartar síðan undan því þegar blaðamaður frá New York Times tekur viðtal við hana og er múslimatrúar.

Hún getur það ekki. Talað við múslima?

Og ég sé þau fyrir mér hlið við hlið, Trump, þennan gíruga grísamann og hana, föla stofufangann með nóbelinn. Í alveg hvítu hljóðeinangruðu rými og þau klessa aftur augun og herpa saman varirnar nema það er eitthvað suð, eitthvað, sláttur?

Ég var að tala við T. um daginn og við vorum að gera grín að aðilum sem skortir ytri og innri mörk og svo fattaði ég allt í einu að það eru bara mín mörk sem skipta máli. Að markaleysi annarra skiptir mig engu. Ég veit ekki hvers vegna ég er fyrst að fatta þetta núna. Er þetta kannski eitthvað sem allir kunna bara áreynslulaust, eins og að borða með hnífapörum? Nei. Að HJÓLA. GANGA. Er betra dæmi, alveg harðvírað í líkamann.

En ekki að stíga eitt skref aftur, líta uppúr fúgunni.

Markalaus aðili semsagt reynir að káfa í andlitinu á mér, klípa mig í kinnina með hvítlauksputtum, og ég ósjálfrátt tek eitt skref aftur á bak eða ekki? Viðbrögðin harðvíruð í líkamann á mér eða ekki.

Ég káfa í andlitinu á ókunnugri persónu. Hún tekur eitt skref aftur á bak. Horfir á mig eins og eitthvert úrhrak. Svo aftur daginn eftir. Bara prófa. Klípa. Kann ekki annað, treð puttunum inn í persónulegt rými annarrar manneskju og hrifsa í húð sem ég á ekki.

Í píkuna á einhverri vesalings konu.

Úrhrak.

En áfallameðferðin gengur vel. Ég er farin að geta farið í sund án þess að finnast allt í klofi og jarðneskum leifum. Hver veit nema ég keyri til Osló að heimsækja þig, aki um borð í norrænu og svo frá kaupmannahöfn eins og einhver Paddington í lestarferðalagi og við K. förum á A. Lindgren tónleika og bara ekkert elsku míó minn neitt. Hann myndi elska spyt i panden og allt þetta.

Ég tek strætó út á Höfðabakka og stundum er eins og bílarnir muni klessa inn í hliðina á vagninum og líkaminn bregst við því, auðvitað, en svo ná þeir alltaf framhjá. Hingað til hafa þeir alltaf náð framhjá, Líkaminn bregst við því eins og bráðum komi högg, það hefur ekkert með hugsun að gera, ekkert sem ég hef stjórn á. Ekki frekar en ímyndunaraflið eða álit annarra. Alveg úr böndunum bara, nema maður sé stílisti auðvitað og strípi veggi innað steini alla daga og eitthvað, stingi upp á kyndli og plexidýrahausum yfir kerta-arina annarra. Smá stjórn undir glerkúpli úr Le Pier.

Stundum hugsa ég um garðana í Osló og trén og mold og sakna þín en þá finn ég þig á fb eða hringi eins og eðlileg manneskja og þá lagast það pínu en manstu þegar þú fluttir þegar við vorum unglingar og þurftum að senda bréf í pósti og það var svo flókið að skrifa þessi bréf, maður þurfti að byggja upp senur og skýra framvindu til þess að hin næði öllu. X var hjá Xsjoppu með X og klukkan var níu um kvöld. Ögn kalt í veðri. X í vondu skapi vegna X. Ný Karl Kani úlpa og hver er þessi Tommi Hilfiger? Fruits of loom.

Hvaða fólk var þetta og hverju skyldi það ráða í dag? Rekur þetta fólk söfn og sjoppur og skrifar tilgerðarleg bréf fyrir heimasíður félagasamtaka? Spurningarmerki eru ósköp þreytandi, ég veit, og yfirleitt ofaukið, ég veit, en þetta er “sendibréf,” ég er ekki að staðhæfa, ég er að spyrja spurninga, smárra, leiðigjarnra, óþarfra. ÞETTA ER DÍALÓGUR.

Hvernig hefurðu það? Hvað er á seyði? Svaraðu mér nú!

Þín,

Stína

 

Góðan daginn meistari!

 

Takk fyrir bréfið, ég las það oft og mér leiddist aldrei….

Mig dreymdi þig í nótt.

Þetta var í ljósaskiptunum og við stóðum í lygnri tjörn. Það hafði myndast einhverskonar löður við bakkana en það var skjannahvítt og þykkt eins og tólg. Með sérstakri lagni tókst okkur að ná út úr þessu þykka hvíta efni teikningum sem voru gerðar á gagnsæjan pappír. Teikningarnar sáust ekki nema við létum sólarljósið skína í gegnum pappírinn. Meira man ég ekki.

Núna sit ég á uppáhaldskaffihúsinu mínu. Osló er svo græn og ilmandi á sumrin, ég gekk í gegnum Lindern og kom við hjá dýralæknaskólanum. Í dag voru hestarnir úti. Ég gaf þeim gras og klappaði þeim, þeir biðja að heilsa þér. Þú hittir þá í ágúst.

En veistu bara hvað? Það er til sérstök sálfræðiþerapía hér þar sem hestar leika stóran þátt í bataferlinu. Sjúklingar eru látnir horfa í augun á hestum og partur af meðferðinni felst í að sitja hest og losa þannig um höft (áföll í líkama) á mjaðmasvæðinu. Áhugavert en að sama skapi ógeðslegt. Það er svo skrítið hvernig manneskjan nálgast dýrin, endalaust frávarp og yfirfærslur ha! Kannski er ég að klappa þeim í þerapískum tilgangi??? En dýrin nota okkur líka. Ekki bara til að sjúga úr okkur blóðið. Pöddur sem gefa ekki frá sér hljóð en langar til að öskra. Þær nota fólk með fóbíu fyrir skordýrum til að öskra í gegnum.

En Stína nú spyr ég þig hvort þú, mikli dýravinur, ert hrædd við einhver dýr? Ég meina auðvitað svona meira en eðlilega? Mér er til dæmis illa við hrossaflugur en vel við maura og köngulær. Í íbúð greifans í Róm voru maurar sem ferðuðust í langri halarófu á milli matarafganga í ruslinu og út á svalir, fram og tilbaka, daginn út og inn, duglegir. Nærvera dýra er góð. Mér finnst samt alltaf eins og þau séu í einhverri paralellveröld við okkar.

Var ég búin að segja þér að Magnus vinur okkar var með fyrirtæki sem bjó til jarðafarakitt fyrir gæludýr. Hann er rosalega alvarlegur þegar hann talar um þetta. Litlar líkkistur fyrir hamstra…

Ég las greinina um Aung San Suu Kyi. Svona er hatrið stundum vúlgar og heitt og stundum þögult og kalt. Já þau eru bæði samanherpt hún og Trump. Hið eina pervertíska, að beygja sig undir öfugsnúin lögmál, líta í spegil á morgnana og finnast maður mikilvægur.

Já Stína ég er alveg viss um að það hafi með stjörnumerki mitt að gera að kvót í Orwell minni þig á mig.

„Því hreinni að utan því óhreinni að innan“ Er akkúrat það sem ég sagði við Á í morgun. Svona speki finnst steingeitum voða mikið varið í.

Sund segir þú og klof allstaðar, mér finnst þetta hljóma eins og einhver vönunarótti hjá þér. Þetta leyfi ég mér að segja vegna þess að ég held að Freud hafi bara haft rétt fyrir sér um þetta allt saman. Og ég þjáist svo sannarlega af reðuröfund. Ég sendi T myndir af teikningum sem hann ætlar að velja úr. Eins og hann orðaði það þá fannst honum góð myndin af fallosvöndlinum á harðaspretti! Undirvitundin mín gegnsýrð af fallusarkomplexum! Ég horfði á íslenskan viðtalsþátt í sjónvarpinu og þar var karlkyns myndlistamaður sem sagði að reðuröfundin væri bara bull. Svona er að vera kona, fyrst er manni gefin reðuröfund af karli svo hundrað árum síðar reynir annar karl að hrifsa hana af manni. Ég ætla bara að velja og hafna þessu sjálf. Allt er þetta hvort sem er bara leikur að orðum. DSM eða Freud.

En samt. Ung kona sem missir foreldra sína skyndilega þarf að redda sér bílprófi. Hún á ekki fyrir því en tekur þátt og vinnur smásagnakeppni erótísks blað sem heitir Cupido. Skrifa klámsögu í sorginni. Þar er ekkert skrítið samkvæmt F.

Mörk! Það er einhverskonar eilífðarverkefni er það ekki??? Ég finn ekki jafn mikið fyrir þessu hérna og heima á Íslandi. Kannski er það þess vegna sem mér líður svona vel hér. Engin fer yfir mörkin en maður þarf heldur ekki að draga inn magann í mannmergðinni og fela neðrivörina undir þeirri efri.

Ég ætla samt að prófa að fara í sund og segi þér frá því hvernig gekk í næsta bréfi.

Einu sinni fékk ég það á heilann að einhver gæti hvenær sem er hent þungum hlut út um gluggann af efstu hæð. Þetta var í Berlín og ég gat ekki gengið á gangstéttinni án þess að hugsa um hvernig það væri að fá sjónvarp ofan af sjöundu hæð í frjálsu falli í hausinn.

Kvíði er eitthvað svona fyrirbæri sem sneiðir af veröldinni manns. Lætur mann varpast inn á við í stað þess að fylla út í sjálfan sig. Teygja sig út í heiminn.

Í gærkvöldi horfðum ég og Á á heimildaþátt frá 1973 um móderniska málara. Það er svo fullnægjandi að hlusta á hvernig þau töluðu um verkin og vinnuna sína. Þegar þau notuðu orð eins og t.d. skali eða dýpt þá hljómar það barasta eins og járnstöng að detta á marmaragólf eða eitthvað álíka. Ég held ég sé að hugsa um þetta út frá hugmyndinni um að fylla út í líkamanum (þessum sem er alltaf að hliðrast).

Ég fór á æðislega sýningu um daginn, þar voru húlahringir sem snerust í andvaranum, bunki af ullarteppum með teikningu af klukku þar sem hringurinn náði ekki saman heldur vísaði út fyrir rammann og tölustafirnir miklu fleiri en tólf, páfagaukar sem snerust á grein yfir túlípana akri og blómin svignuðu undan golunni….hvernig lýsir maður þessu? Virkar beint á lungun. Djúpöndun.

Ég hugsa stundum um verk eftir listamann sem ég man ekki hvað heitir en mig minnir að hann sé pólskur. Þetta voru textar og ljósmyndir og eitt fjallaði um það þegar einstaklingur leggur sig hvernig orkustöðvarnar losna undan stigveldi sínu. Liggja bara í láréttri línu og vagga til og frá. Að sofa og anda er að treysta.

Á föstudaginn fór ég út á lífið eins og sagt er. Ég fór fyrst í leikhús með vinkonum og síðan á sumarhátíð Klassekampen (vinstra blaðið) á Kunstnerneshus. Geiri smart hitti okkur þar og við dönsuðum á marmaragólfi undir hvítlökkuðum hátölurum sem festir ofarlega á veggnum (þar er mjög hátt til lofts). Það er vont að dansa á marmara og tónlistin einhvern veginn náði ekki niður til okkar. Æ þú veist rými og efni. Mér finnst ég einhvern veginn aldrei ná tökum á þessu. Eins og sumir kunna að hjóla og ganga, nota hnífapör og eiga mörk kunna sumir þá líka bara sjálfkrafa að gera notalegt í kringum sig? Þarf maður að vera krabbi eða vog til þess að vita bara hvar skærin eiga heima? Skilja hvernig hulstur á að vera utan um hvaða hlut? Kemur þetta með bættum svefni og dýpri andardrætti?

Herregud nú held ég að ég hætti þessu masi og sendi þér bréfið!

Ást , friður og jafnvægi

Þín

Karí


Skrifa athugasemd

Hið óhugsandi langsótta er að rætast

SN, blue wall-test2 Sverrir Norland

Sverrir Norland skrifar bréf til Dags Hjartarsonar:

Sunnudaginn 14. mars 2017

Elsku Dagur, kæri vin,

í dag var skrítinn dagur í New York. Öðru hverju æða eftirköst hvirfilbylja yfir borgina, þá hefur jafnan verið send út stormviðvörun, farið nú varlega, kæru New York-búar, haldið ykkur bara heima hjá ykkur. Og það gerðum við einmitt í dag: Ullarsokkar, vínglas, skonsur, ég las skáldsögu (Transit eftir Rachel Cusk), pottréttur, gítarleikur.

Tvær vinkonur okkar litu inn í „storm-heimsókn“, til að „vinna“, og því hef ég að mestu varið deginum inni í stofu ásamt þremur fögrum, frönskum konum og Apple-fartölvunum þeirra, lyklaborðaslátturinn hefur varla hjaðnað í sekúndubrot síðustu tíu klukkustundirnar, sándtrakk samtímans. Ég er heppinn að því leytinu að ég er oft umkringdur fallegum, frönskum konum.

Ég mokaði snjó í heila klukkustund, fékk lánaða skóflu og saltpoka hjá nágranna okkar, írskum klippara/kvikmyndatökumanni sem heldur regluleg partí ásamt konu sinni þar sem allir verða svo fullir að þeir rúlla um bakgarðinn.

Þegar óveðrið lægði fórum við á nýtt veitingahús, L’estudio, í Kínahverfinu á Manhattan. Frábær staður. Á næsta stað (slúður) sátu Bono, Michael Stipe og gellan úr Pussy Riot. (Man ekki hvað hún heitir.) Eftir máltíðina kíktum við í búð sem hefur lengi verið á listanum, blýantabúðina CW Pencil Enterprise: búð sem sérhæfir sig í blýöntum. Ímyndaðu þér … búð … sem selur bara blýanta.

Fyrsta apríl má svo búast við því fjölgun í fjölskyldunni, dóttur. Ég er að spá í hvort ég eigi að kenna henni íslensku – eða bara ensku og frönsku. Hvað finnst þér?

Sendi kæra kveðju, til þín, til Helenu, yfir hafið, inn í myrkrið og draumana,

S.

#

Líður nú heil vika án þess að nokkurt svar berist frá Degi.

#

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Esjan er klædd í fallega gráa vinnuskyrtu

Myndlistarkonurnar Gunnhildur Hauksdóttir og Anna Hallin skrifast á:

Washington stræti, New York borg
í nóvember, 2016

MILLILENDING

Gott kvöld Gunnhildur,

Áðan sá ég mynd af þér í ponsjóinu hennar Olgu sem ég prjónaði. Ég sit hérna í íbúð Grétu og Susan í vesturþorpinu í New York borg og ætla að hitta vinkonu okkar, Angelu, í kvöld. Hún er nýkomin í bæinn frá feitum styrk í Róm og er að sýna i Cleveland eftir tvo daga, allt á fullu svo ég hitti hana bara á morgun.

Ég er núna búin að ákveða að byrja þetta bréfasamtal okkar.

Hér allt svolítið óraunverulegt en samt gaman, erfitt að útskýra, en við vorum hérna í Ameríku í námi sem hefur mótað okkur ansi mikið og myndlistin sem við erum búnar að upplifa þessa daga er mjög mögnuð og líka arkitektúrinn.

Ég var líka að framkalla tíu þynnur af 4×5 filmum og þori núna að láta þá hafa tuttuguogeina þynnu í viðbót, en fyrirtækið er á súperbissí stað á Manhattan – ég er annars alveg hissa hvað Manhattan er næs……róleg og kósi; fimmta breiðgata er nálægt ljósmyndastaðnum – úff – fólkið á stofunni er mjög fínt, það getur samt ekki stafað nafnið manns, en ég er alveg vön því eftir að búa á Íslandi.

Er frekar vön millilandinu, kannski „fíla” ég það betur en hitt – örugglega þú líka sem ert mikið á ferðalagi. Mig langar samt svolítið mikið í „pönkið.”

Ég er líka að hugsa um uppskurði – uppskurðir eru eitthvað sem breytir manni. Ég er ekki búin að spyrja þig hvernig þér líður? Og hver var ástæðan fyrir öllu saman hjá þér? Hugsar einhver um þig? Fylgist með?

Við erum sem sagt hér og ég er að fara þann þriðja til Steph Tamez til að fá húðflúr yfir örið mitt – ég er smá efins, samt fékk ég nafnið hennar frá tveimur vinkonum – Maiju og Angelu. Mig langar í þessi konuvöld og að breyta „galla” í vald, kraft. Ég vil vera stolt með hrukkur og ör og hugsa þetta á hátt sem ég passa inn í.

Ég hugsa að ég noti eitt af flugmynstrunum okkar Olgu fyrir tattúið – veiðiflug uglunnar – en það er erfitt að fá það til að virka á þrívíðum fleti.

Afsakaðu mig fyrir að tuða mikið um þetta en það stressar mig núna afþví ég á tímann á tattústofunni á fimmtudaginn.

Fyrsta daginn í borginni sáum við alveg æðislega sýningu, Pippilotti Rist á New Museum. Þegar ég svo gúglaði þessa sýningu og umfjöllunina um hana rakst ég á nýja myndbandið með Pussy Riot – æðislegt – og ótrúleg sýning! Ég er uppfull af hughrifum en ég er samtímis týnd. Á persónulega planinu

hafa verið ansi miklar breytingar sem ég get ekki útskýrt og mig langar ekki að dvelja við og sem mér finnast ekki endilega neikvæðar. Hér getur líka átt sér stað ný byrjun.

Milliland – þar sem ég á heima.

kkv,

A

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Jólakveðjur yfir Atlantshafshrygginn: Reykjavík ~ New York

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

midhafshryggir_161008

Reykjavík, 20. desember 2016

Heil og sæl Kristín,

Í sömu viku ferðuðumst við yfir hafið, ég flaug í átt að eyjunni köldu og þú í burtu frá henni. Ég ætla rétt að vona að leiðir okkar beggja hafi verið hlykkjóttar og flugvélarnar flogið í slaufur og hringi. Beinar og óslitnar línur eru svo óalgengar, það er helst að þær nái sér á strik á hvítum blöðum og húsbyggingum og gangstéttum. Náttúran býr sjaldan til langar óslitnar línur. Nú er ég kannski komin fram úr sjálfri mér (varðandi línurnar og náttúruna) en mig langar að spyrja: Hvernig er umhorfs hjá þér? Hér hjá mér eru umhleypingar, birtuglæta sem felur sig stöðugt lengur með dekkri tjöldum, á morgun eða hinn þorir birtan að sýna sig en bara hægt og bítandi. Sjórinn er á sínum stað á stöðugri hreyfingu, allt er á stöðugri hreyfingu hér á þessari eyju, fólk að keyra og ganga á milli staða. Ég er nýstigin úr sundi og sest á kaffihús þar sem kliðurinn berst við tónlistina. Mér þykir það alltaf jafn merkilegt hvað heitt vatn róar taugarnar mikið, hitinn mýkir húðina, taugarnar, hugsanirnar og liðina og línur sem eru bæði bognar og sléttar.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Þokuslæða á dimmum vetri

 

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

9. nóvember 2016

Kæra Kristín,

Hér kyngir niður snjónum og allt í hægagangi og við byrjuðum daginn á því að mæta of seint í skólann og ég hugsaði að þetta væri svona dagur þar sem hvítt vetrarríkið leggst yfir allt og það hægist á öllu og allt mætir of seint alls staðar. Þegar ég tilkynnti úrslit kosninga hrópaði sonurinn ,,Neii, þessi prump-trömt ætlar að byggja múr!“ en um daginn þegar Dylan fékk nóbelinn spurði hann ,,Já eru þetta ekki Nóbel Trump verðlaunin?“ Dóttirin sagði ,,Æ, er það?“ og varð hugsi. Áfram kyngir niður snjónum og ruðningstækin voru mætt fyrir utan hjá okkur kl. 6 í morgun og komu aftur á hálftíma fresti, það kyngir niður sjó og við ryðjum snjó. Kyngjum, ryðjum, höldum út í daginn í hægagangi og handleikum von í úlpuvasanum, reynum að missa ekki veika von úr vasanum.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Kartöfluprinsessa og Berlínardraumar

 

Júlía Margrét Einarsdóttir og Steinunn Sigurðardóttir skrifast á:

julia-og-steinunn

 

Elsku Steinunn.

Nú sit ég hérna í sófanum í íbúðinni sem ég bý í í Aþenu um þessar mundir. Ég hef verið á ferðalagi um Evrópu með kærastanum mínum síðan um miðjan júní og hef heimsótt ótal borgir og núna er ég hér, ári eftir að ég var hér síðast, og ég elska þessa borg.

Það er glampandi sól eins og hefur verið síðustu daga og þó að klukkan sé að nálgast eitt og komið framyfir hádegi er borgin eiginlega ekki vöknuð.

Það er svo heitt úti að það svífur yfir mann einhverskonar drómi um leið og maður stígur fæti útfyrir dyrnar. 40 stiga hitinn úti fleygir sig yfir líkamann með höggi, skynjun og umhverfi verður sljótt.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Afmælisstelpan, haustið og tískan í Alþingishúsinu í viku 41

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 24. september 2016

Jájájá! Kæra Kristín afmælisbarn,

Nú er runninn upp fæðingardagur þinn. Innilega til hamingju með tilveruna og lífið. Að hugsa sér að á þessum degi fyrir einhverjum árum síðan komst þú í heiminn, nakin og slímug og móttækileg fyrir áhrifum sem þú þróaðir yfir í líf þitt og skrif sem síðan urðu bækur. Núna er haustið komið og þá verður loftið svo ótrúlega ferskt og stökkt, það er eins og umbreytingin beri með sér tæra birtu og tilfinningu sem vekur bæði hroll (út af kuldanum) og mildi (út af hlýjunni sem stafar af birtunni). Ég velti því fyrir mér hvort fæðingin sé fyrsta sjokkið í lífinu. Að verða til og þróast í móðurkviði á sér stað í einhverju algleymi, hlýju og hröðum vexti (þar geta reyndar komið sjokk ef móðirin lendir í háska) og svo þarf barnið víst að fæðast og það hlýtur að vera mjög alvarlegt áfall að fara út í kulda og skerandi ljósið. Þá aðlagast húðin samt fljótt andrúmsloftinu og barnið samlagast móður eða umönnunaraðila. Svo gerist hið stórkostlega seinna, þegar barnið uppgötvar eigið sjálf og aðgreinir sig frá þessum eina umönnunaraðila (æ þetta er ekki nógu fallegt orð, finn ekki annað í augnablikinu). Ég-ið verður til og því fylgir mikill kraftur en líka átök og togstreita. Ég velti því fyrir mér hvort þessi ferli öll endirtaki sig aftur og aftur í gegnum lífið en undir öðrum formerkjum, dulbúin breyting í lífshlaupinu (ath. lífshlaup má líka skoða hlutlægt þannig að hlaupið sé svona dúandi hlaup sem maður borðar sjáðu til, þá er lífshlaupið seigfljótandi ástand). Ætli við séum ekki alltaf á einhvern hátt það fóstur sem við einu sinni vorum? Leitum í hlýja sefjun sem ber okkur áfram í fullkomnu öryggi. Þegar ég sofna á kvöldin set ég hendur í hálsakot eins og mig grunar að ég hafi gert þegar ég var fóstur. Hvernig fóstur ætli þú hafir verið?

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Hið háleita slím og röddin á bókasafninu

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

Uppsala, 3. september 2016

 

Kæra Kristín,

 

Nú kemst ég loksins í að skrifa þér bréf og mikið er það nú gaman. Hér hefur hversdagurinn blandast ofurlöngu sumarfríi því börnin mín fengu ekki skólavist í nýju landi fyrr en núna. Í næstu viku byrjar sem sagt hjá okkur vetrar-rútínan með öllum sínum yndislegu reglum og römmum. Núna eru krakkarnir í herbergjum sínum að leika sér, hvort með sínum hætti. Úr herbergi sonarins heyrast iðulega skemmtileg hljóð eins og skothljóð og söngur. Rétt áðan sönglaði hann einkennislag evrópskra sjónvarpsstöðva og stundum sönglar hann auglýsingastef eða lög úr barnaþáttum eða laglínur úr lögum sem við höfum verið að dansa við af jútúb. Á stofuborðinu er risaeðla sem hefur dottið á höfuðið við hliðina á umsóknareyðublaði til sjúkratrygginga Íslands. Ég hef ekki tölu á umsóknareyðublöðunum sem ég hef fyllt úr undanfarnar vikur. Til að geta klárað þetta tiltekna eyðublað vantar mig staðfestingu frá þjóðskrá. Yfirleitt eru svona eyðublöð voðalega sniðug að biðja um önnur eyðublöð eða staðfestingar frá öðrum stofnunum og þannig  geta stofnanirnar talað saman í gegnum þann sem fyllir út eyðublaðið. Fyrrum samstarfsfélagi minn sagði mér einu sinni frá því að í gamla daga starfaði maður hjá ríkinu sem bar starfstitilinn ,,eyðublaðasérfræðingur”, það þótti mér gaman að heyra. Eflaust var þetta fyrir tölvuvæðinguna miklu og þá þurfti sér starfsmann í að passa upp á dálkana. Ætli einhver hafi búið til listagjörning þar sem þátttakendur þurfa að komast í gegnum rýmið með því að fylla út alls konar eyðublöð og svo blikka rauð ljós ef þau fylla blöðin út vitlaust? Nei, það væri ekki nógu skemmtilegt og í raun of realískt. Á hverjum degi dett ég ofan í skáldsögu eftir Kafka, þannig er það nú bara. En risaeðlan er á borðinu og skapar mikilvægt mótvægi við eyðublaðið.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Biðtími: ∞ í laufskrúði úr gallaefni

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 4. og 5. ágúst 2016

 

Kæra Kristín,

 

Takk enn og aftur fyrir bréfin þín. Ég er farin að bíða eftir því að haustið komi með sinni reglubundnu rútínu. Er alltaf að bíða eftir að hlutirnir breytist, að eitthvað gerist, eitthvað sem er í framtíðinni, seinna, bráðum, kannski.

Þegar ég skrifaði dagbók fjórtán ára var fyrsta dagbókarfærslan í byrjun ársins 1989. Þar er kostulegt að lesa hvernig ég þvældist á milli staða án árangurs því jólafríið var ennþá í gangi (sundlaugin lokuð o.s.frv.) og vinirnir út og suður. Þá voru símarnir fastir við veggi og maður þurfti að fara á staðinn til að sjá hvort viðburðurinn væri í gangi eða hvort vinkona væri heima og gæti hangið með manni. Páskafriín gátu stundum orðið strembin þegar vinirnir voru í ferðalögum. Ég man sérstaklega eftir einum páskum þar sem mér leið eins og ég væri eina barnið í bænum og ég ráfaði á milli staða, hringdi dyrabjöllum og dyrastafir stóðu fastir og enginn hreyfing inni í húsunum. Fór á hverjum degi sama hringinn á milli húsa í veikri von um að núna væri einhver kominn heim. Ég hefði svo sem getað farið heim að hlusta á gula útvarpið mitt sem útvarpaði bæði rás 2 og bylgjunni, stundum sat ég við skrifborð og hlustaði á lítið gult útvarp, en ég hef greinilega ekki nennt því þessa páska. Þetta útvarp var með þunnum, mjúkum vír sem þurfti að sveigja og beygja til að ná sambandi við rásirnar. Seinna átti ég kasettutæki með hörðu loftneti.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Að þekkja sig og þekkja sig ekki, lóðbeint og af drukkinni einbeitingu

Hrafnhildur Þórhallsdóttir og Bragi Ólafsson skrifast á:

Sameinuð HÞ minnkuð

 

Reykjavík, júlí 2016

 

Kæra Hrafnhildur,

alveg vissi ég að þessi bréfaskrif myndu byrja með spurningu. Ég spyr mig nefnilega að því hvernig maður eigi að koma sér að efninu þegar maður skrifast á við manneskju sem maður þekkir jafn lítið og ég þekki þig. (Hvaða efni? spyr ég mig líka.) Og svarið sem ósjálfrátt kemur upp í hugann er að best sé að láta sem ég þekki þig alls ekki, að ég hreinlega viti ekki hver þú ert. Ég veit reyndar ekki hver ég er sjálfur, þannig að þetta gæti ekki byrjað betur.

Alltaf best að byrja frá grunni.

Ég ætlaði að vera búinn að skrifa þér fyrr, en bakmeiðsl (eftir átök við sandpoka) ollu því að mér tókst ekki sem skyldi að draga líkamann að skrifborðinu, og koma honum þannig fyrir við borðið að ég ætti gott með að skrifa. Ég þarf nefnilega borð til að geta skrifað; mér finnst eitthvað tilgerðarlegt við hitt, að geta skrifað án þess að hafa borð.

En það eru forréttindi að geta leyft sér að skrifa fólki bréf. Ég veit að orðið forréttindi er of mikið notað nútildags; mér finnst það samt eiga við hér. En aðeins aftur að þessu með að vita ekki hver maður er. Auðvitað er það hallærisleg spurning, og of mikið gert af því að klæða hana í nýjan búning til að hún þekkist ekki. En þá verður maður bara að gangast við því að vera hallærislegur sjálfur, því ég fyrir mitt leyti verð oft dauðhræddur (við sjálfan mig) og svitna af angist yfir þeirri vissu (eða óvissu) að hafa ekki hugmynd um hver ég er. Þess á milli gerist það þó stundum (ekki síst þegar ég hlusta á ákveðna tónlist) að ég fyllist þvílíkri vissu um áðurnefnt atriði að mér líður eins og ég sé að springa úr þekkingu. Það gerðist núna síðast fyrir nokkrum dögum, daginn eftir að EM í fótbolta lauk (ég ætla ekki að lýsa því nánar). En eins og gerðist með Ibsenleikarann í bókinni um Skógarhöggið, bókinni sem Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi hafði ætlað sér að þýða (í framhaldi af Steinsteypu sama höfundar) – og hefur vonandi enn – þá varð mín augnabliksuppgötvun um daginn (um hver ég væri, og allt það) jafn fljót að verða að engu og það tók hana að verða til. Á svipaðan hátt og drukkin einbeiting Ibsenleikarans gufaði upp, þótt ekki hefði það gerst á jafn skjótan hátt hjá honum og hjá mér. (Þetta með drukknu einbeitinguna sagði Eggert Þorleifsson mér að væri kallað að vera „sljóbeittur“ – hann hafði það frá Magnúsi Þór Jónssyni, Megas.) En ég var að tala um forréttindin sem felast í því að mega skrifa manneskju bréf. Alveg vissi ég að ég færi að tala um eitthvað svoleiðis. Ég þekki sjálfan mig nefnilega betur en mig grunar. Ég hafði ætlað mér að vitna í skáldið Apollinaire í því sambandi, í fyrstu línu ljóðsins um tónlistarmanninn frá Saint-Merry, en mundi svo eftir að ég var búinn að nota þá línu í skáldsögunni sem ég gaf út í fyrra, Sögumanni, að minnsta kosti óbeint. (Maður verður að leyfa aðeins lengri tíma að líða milli þess sem maður vitnar í sömu hlutina, finnst þér það ekki?)

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Dulvitund og dulkynjun mæla með engu

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

 

Uppsala, dagarnir fljúga

 

Kæra Kristín,

 

Já, dagarnir fljúga og núna er 28. júlí og þessir síðustu dagar mánaðarins renna meira og minna saman og ég spyr mig alla daga, oft á daga: ,,Tuttugasti og hvað er aftur í dag?” Ekki að talan skipti endilega miklu máli en við eigum það eflaust mörg sameiginlegt að þegar tölurnar hækka á almanakinu þá lækka þær á bankabókinni, og svo er talan á hitastiginu alltaf að breytast, best að miða allt við þá tölu. Mælingarárátta mannsins finnst mér bæði undursamleg og skopleg. Við mælum tíma og vegalengdir og þyngdir og ummál og hraða og allt mögulegt. Hið ómælanlega nær samt alltaf að smjúga undan þessum einingum öllum. Glottir og heldur sig handan við, fyrir aftan og framan og til hliðar. Núna helli ég í mig kaffi og gíra mig upp í stofnanarölt. Þarf að fara á skrifstofu (skatturinn sko) til að mega fara í bankann til að borga fyrir það sem ég sæki um að skrifstofan geri fyrir mig og þegar ég er búin að borga get ég farið aftur á skrifstofuna með kvittunina og þá er hægt að setja umsóknarferlið af stað, held ég. Galdurinn liggur í því að gera rétta hluti í réttri röð. En ég var að tala um hið ómælanlega og fór svo út í skattinn en það er tenging þarna á milli. Til að undirbúa þessa skattaheimsókn skrifaði ég um daginn á blað bankaupplýsingar með rauðum penna. Síðan sat þetta blað hjá mér við tölvuna og seinna hlustaði ég á tónlist sem hreyfði við mér (Amy Winehouse (Love is a Losing Game) og Adele (Set Fire to the Rain) til að vera nákvæm) og þá hripaði ég á sama blaðið rauðum stöfum: Tónlist og ljóð fitla og daðra við dulvitundina. Andrúmsloft. Í tónlistinni er eitthvað ómælanlegt, sterk áhrif sem maður getur ekki útskýrt því hvernig útskýrir maður andrúmsloft í listaverkum? Hvernig útskýrir maður hugboð, andrúmsloft, grun sem er hálf hugsun, óáþreyfanlega áferð og liti og hreyfingu? Kraftinn sem myndast þegar fullkomnlega frumleg hugsun fæðist? Þegar tveimur ólíkum þáttum slær saman og þeir mynda rafmagn, renna huganum í hugrenningatengslum yfir á aðra braut? Þarna var ég sem sagt komin með á sama blaðinu bankaupplýsingar fyrir skattinn og pælingar um tónlist og ljóð og dulvitund. Ég þurfti að taka blaðið með mér í einn banka og þá voru góð ráð dýr. Átti ég að hafa dulvitundarpælinguna með á blaðinu eða rífa á milli? Hvað ef ég þyrfti að útskýra pælinguna fyrir bankastarsmanni? Ætti ég þá að segja: ,,Well, you see both music and poetry flirt with the subconscious. Atmosphere is there and can’t be described. Can I open an account for money and atmosphere?” Ég ákvað að rífa á milli, leyfa þessum tveimur textum að fara í sitt hvora áttina. Þessa stundina er ég að uppgötva að þegar ég skrifa á blað mikilvæga hluti eins og bankanúmer og innkaupalista þá er línan alltaf lárétt en þegar ég hripa svona ómálga pælingu þá er línan á ská, hvorki lóðrétt né lárétt.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Í landamæralausum heimi tökum við myndir og vöskum upp

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 14. júlí 2016

 

Kæra Kristín,

Takk fyrir þínar fögru og ljóðrænu fatalýsingar. Ég vil byrja á því að svara spurningum þínum en þessa dagana spranga ég mest um á eldgömlum hlaupaskóm sem eru með slitinn sóla en sandalarnir mínir eru fastir held ég í Hamstad. Tollurinn var að hrökkva í gírinn í dag þegar ég sendi þeim staðfestingu á nýrri kennitölu og þá mun brettið sem ég sendi yfir hafið ná loksins til mín með tilheyrandi góssi. Þá fæ ég loksins sandalana og get þá spókað mig um á þeim. Ég átti engar stuttbuxur þegar ég kom hingað en fjárfesti í þægilegum munstruðum buxum með vösum og hlýrabol í stíl, keypti líka mosagrænar stuttbuxur úr gallaefni. Ég hef þegar sent til þín mynd af munstrinu fagra og það hjálpar þér vonandi við teikninguna.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Kveðja yfir hafið: Uppsala ~ New York

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, Svíþjóð 2. júlí 2016

Sæl og blessuð Kristín,

Hér er raki í loftinu og hitinn hærri en ég á að venjast. Líkamskerfið þarf að venjast þessu og líka tónlistinni í því tungumáli sem hér er talað. Tíminn hefur flogið áfram og það að taka saman dót og pakka því í kassa yfirtók líf mitt í allt of marga daga. Mikið er ég fegin að vera komin út úr þeirri orku. Núna er ég í því hlutverki að vera utanveltu og utangátta og reyni að aðlagast og villast ekki. Á eftir að læra á strætókerfið, að komast á milli staða og fylla út flókin eyðublöð. Þetta kemur samt í gusum, ólíkum gusum með ólíkri orku. Ein gusan kemur í kjölfar annarrar en það er gott, gusurnar þoka manni á milli staða, milli orkukerfa eða eitthvað svoleiðis. Núna þarf ég að rjúka, þarf að kaupa þvottaefni og annað dótarí. Held áfram seinna 🙂

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Hvað getum við lagt til svo heimurinn batni?

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

6. júní 2016

Kæra Kristín

 

Síðan ég skrifaði þér síðast hefur heimurinn breytt um lit, úr brúngráu yfir í grænt. Gul blóm spretta fram og líka blóm í öðrum litum. Lúpínan er að opnast en Melgresið dokar við þar til síðar í sumar. Ég ólst ekki upp í kringum rósarunna og nellikur heldur rofabörð og melgresi, mosa og blóðberg. Var meira í kringum sand en mold en elska samt moldina meira. Mér þykir vænt um Melgresið á einhvern undarlegan hátt. Kannski af því það dafnar seint, stráin eru full af sætum vökva og góð á bragðið, það vex á svörtum söndum og oft nálægt sjó. Í námunda við Melgresi er yfirleitt ilmur af fjöru og sjó. Já, ég elska moldina og lyktina af henni, moldin er frumstæð og hrá. Blaut, þung mold ber í sér kjarna, möguleika á lífi og sprettu. Moldin tekur við öllu sem hrörnar og deyr og umbreytir í græna sprettu. Moldin biður ekki um neitt nema kannski smá vatn til að þetta græna komist upp í ljósið en það er líka allt og sumt. Moldinni finnst ekkert verra ef varir sem eru ýmist blautar eða þurrar hvísla til hennar orðum um hvað sem er, hvísla og klappa mold með fingrum sem eru ýmist þurrir, klístraðir eða blautir.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Furðulegur hryllingur og fullorðin börn

Emil Hjörvar Petersen og Gunnar Theodór Eggertsson skrifast á:

pjimage

Lundur, Svíþjóð, 13. apríl, 2016.

 

Heill og sæll, Gunnar.

Það er allt of langt síðan við hittumst. Mig rekur minni til að síðast hafi það verið haustið 2012 þegar við rákumst hvor á annan í Eymundsson á Skólavörðustíg. Við vorum þá báðir nýbúnir að gefa út nýja bók og komnir fremur langt inn á braut furðunnar (ég kýs að nota þetta orð yfir hugtakið Fantastic) og þurftum augljóslega á því að halda að skrafa aðeins. Við settumst niður í kaffibolla, gleymdum stað og stund — enda fékk ég stöðumælasekt — og ræddum um höfunda, um heima og geima og um hvers konar sögur við værum hrifnir af. En ég man ekki eftir því hvort við ræddum ritstörfin sérstaklega.

Margt vatn hefur runnið til sjávar síðan þá, við höfum skrifað fleiri bækur en á sama tíma fjarlægst, sem á sér eflaust skýringar í önnum og fjölskyldulífi. Og, já, ég bý víst í öðru landi.

Lesa meira