Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands


Skrifa athugasemd

Iljar í sokkamyrkri og tréklossum

Spjallþráður 9 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

9.4.2016

Kæra Kristín

Nú stofna ég spjallþráð númer níu á níunda degi aprílmánaðar. Úthaldið og seiglan eru svo mikilvæg en allt í einu fór ég að beina sjónum að því að fáir lesa bréfin okkar. Og þá fór ég að fá þær gloríur að þetta væri nú bara til einskis, að við værum að taka pláss sem okkur bæri ekki, að við værum að kvaka út í tómið. En svo komst ég hringinn og vil halda áfram. Höfundar mega ekki láta það hvort einhver les eða ekki stjórna skrifum sínum. Hvatinn þarf að koma innan frá. Það er líka eðlilegt að orkan sveiflist upp og niður og þá skrifa ég stundum í andleysi og svo á öðrum tímum í andagift. Æ, veistu ég elska þetta orð ,,andagift” – hef ekki kíkt í orðsifjabókina en er með þá prívat kenningu að þarna sé orðið ,,gift” úr dönsku sem merkir eitur, eitur andans eða eitur fyrir andann. Andagiftin ber með sér bæði líf og tortímingu, andinn tekur inn eitthvað sem stækkar hann og þá getur hann sprungið ef skammturinn er of stór. Þess vegna þurfa andstæð element að verka á okkur stöðugt, til að dempa skammtana sem sækja að, innblástur og útblástur og fráblástur og sandblástur og plástur.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Nokkur orð um uppnám höfundarins og laxa í bílskotti

Hermann Stefánsson og Ragna Sigurðardóttir skrifast á:

 

Reykjavík, 19. mars, 2016

Kæra vinkona

Líf mitt er í algeru uppnámi. Ég segi það satt. Það kemur þér kannski á óvart að ég trúi þér fyrir þessu þar sem við erum ekki einu sinni málkunnug, en satt að segja er þetta engin nýlunda: Ég man ekki til þess að líf mitt hafi nokkru sinni verið öðruvísi en í uppnámi.

Ég laumaðist til að skrá mig örsnöggt inn á félagsmiðilinn Facebook (sem ég er sífellt að skrá mig af fyrir fullt og allt) til að ganga úr skugga um hvort við þekktumst nokkuð og komst að því að við erum ekki einu sinni facebook-vinir, sem þýðir að við þekkjumst ekki neitt. Nema það sé einmitt staðfesting á því að við séum mjög nánir vinir, sem reyndar er líklegra.

Sálarástandi mínu sló ég örsnöggt upp í gamalli norskri skáldsögu (eftir Hamsun) sem ég er að endurlesa og það er rétt, líf mitt hefur verið í algeru uppnámi frá því allavega á síðari hluta nítjándu aldar og því eru engar fréttir í þessu fólgnar. Mér þætti allt annað ástand óviðkunnanlegt.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Skiptum um ham og lærum af geitinni höltu!

Spjallþráður 8 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á: 

 

5.4.2016

Kæra Kristín,

Mér er heitt í hamsi eins og hamsatólg í potti. Vonandi ert þú hins vegar sallaróleg með teppi og te að teikna myndir af blómum. Ekki láta draga þig út í þessa hamslausu hamsatólg. Ég þarf aðeins að blása en ætla síðan að segja þér frá draumdýri næturinnar (þetta er orðin framhaldssagan um draumdýrið dularfulla). Þetta eru undarlegir dagar og við erum á þröskuldi nýrra tíma (vonandi) og þjóðin er að segja hug sinn og kallar á breytingar sem eru í vændum (vonandi). Þjóðin kallar á berskjöldum, einlægni og styrkinn í mýktinni. Við viljum ekki lengur sterka leiðtoga sem sýna aldrei svipbrigði og eru alltaf með allt á hreinu. Við viljum mennskuna og henni fylgja mistök og sá leiðtogi er ekki til sem ekki gerir mistök á einhverjum tímapunkti því við viljum ekki leiðtoga sem eru vélmenni. Sá ummæli frá hægrimanni (sérðu hvernig stafirnir ,,hrægami” felur sig í orðinu) sem spurði síðan hvenær það væri orðinn glæpur að eiga peninga á Íslandi. Ég spyr: Hvenær varð það glæpur á Íslandi að vera fátækur, öryrki, sjúklingur, barn, gamalmenni, verkamaður, læknir, námsmaður og listamaður? Hvenær varð það dyggð á Íslandi að fela, ljúga, svíkja (kosningaloforð til dæmis), þræta, spinna atburðarrás, flýja, græða, skjóta undan, græðagræðagræða, eyða, kaupa, selja, kaupa, selja, eyða, græða? Vandinn er stærri en einhverjir SDG og BB og fleiri nöfn og fólk því þetta snýst um gildi og siðferðisþrek.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Draumapantanir og úttekt á tísku vikunnar

Spjallþráður 7 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á: 

 

30. mars 2016

Kæra Kristín

Þakka þér fyrir síðasta bréf. Nú er ég loksins að detta í bréfagírinn en mér finnst hálf furðulegt að ávarpa þig ,,kæra Kristín” því mér finnst þú ekki heita bara Kristín heldur Kristín Ómarsdóttir. Hefurðu tekið eftir því hvað má sjá mörg skemmtileg orð út úr nafninu þínu? Til dæmi króm, kóma, rós, sómi, kína, krít og svo framvegis. Síðasta bréf þitt hefur heldur betur hrist upp í dulvitund minni. Takk fyrir að spyrja mig út í draumdýrið mitt. Það var fyrst þegar spurningin kom frá þér sem ég áttaði mig á því að mig dreymir aldrei dýr. Mig dreymir alltaf fullt af fólki, oftast fólk sem ég hef aldrei séð áður en þekki í draumunum og er inni í alls konar húsum að leysa verkefni. En aldrei dreymir mig dýr. Ég veit hreinlega ekki hvert er draumdýrið mitt og er búin að hugsa mikið um það undanfarna daga og niðurstaðan er sú að ef ég ætti að velja mér dýr (kannski er það samt dýrið sem velur mann) þá væri það annað hvort kisa eða fugl. Ég elska sjálfstæði og þokka kisunnar en líka yfirsýn og lendingar fuglanna, já helst vildi ég vera fugl, kannski Himbrimi. Heyrðu nú geri ég tilraun og býð hér með dýrinu mínu að birtast í draumi næstu nætur!! Svo læt ég þig vita hvort það hafi komið.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

K(ó)rónur, auðsöfnun og bréfkorn til Frans páfa

Spjallþráður 6 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

23. mars 2016

Kæra Kristín!

Vonandi fer kvefið að yfirgefa þig með sínum fléttuflækjum svo hugsanirnar fái að renna áfram eins og slegið hár, glansandi slétt og slegið hár. Nei, ekki fara að læra hagfræði en þú getur fléttað henni saman við textahugmyndirnar þínar og komið með ferska sýn á allt heila dollaraklabbið eins og þér einni er lagið. Þú ættir að skrifa leiðbeiningar fyrir fjármálafyrirtæki með eigin myndskreytingum. Dollararnir drottna, dollararnir drottna yfir eyjaskeggjum og meginslandsskeggjum og skeggleysingjum og hryggleysingjum líka. Rétt í þessu var ég að uppgötva hvað orðin ,,kóróna” og ,,króna” eru lík, maður tekur bara fyrra ó-ið úr kórónunni og þá er maður kominn með krónupening, váh, þetta býður upp á freudíska eða júngíska eða kristevíska greiningu á sálarkimum krónuþjóðarinnar. Mig grunar að það leynist krónusegull í pungum því þangað fara svo margar krónur, kannski eru krónur hópsálir með hjarðhegðunarblæti eins og mannfólkið flest.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Nokkrar hugleiðingar um buxnaklaufar, hormóna og Fridu Kahlo

Spjallþráður 5 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

14.3.2016

Sæl, mín kæra!

Takk fyrir bréfið og bréfin öll. Það er lúmsk þerapía fólgin í því að skrifa bréf og skrifast á við pennavinkonu. Ég ætla núna að gera tilraun til að greina í hverju þerapían er fólgin: 1. Ávarp: að segja öðrum frá er hollt og gott. 2. Samtalið: bréfaskrif eru vísir að samtali sem fær andrúm og tíma. Bréfinu er hægt að breyta allt þar til það er sent og þá hefst biðin og engin leið að vita hvað viðtakandinn er lengi að lesa og svo svara. 3. Frásögnin: Þörfin fyrir að segja öðrum frá, vera heyrð og séð, er mjög djúpstæð og örugglega ein af grundvallarþörfum manneskjunnar. Rithöfundar og listamenn almennt hafa þessa þörf í miklum mæli mundi ég halda. 4. Man ekki hvað númer fjögur gæti verið (eins og í laginu með Violent Femmes en þar var það nr. 8, þekkirðu það?) 5. Eitthvað orð eða hugtak sem er nafnorð í eintölu karlkyni sem er síðan útskýrt á röklegan hátt. Fyrirgefðu, þetta fór út í einhverja vitleysu. En sem sagt ég hef komist að þessari niðurstöðu (svo ég haldi mig við rökhugsunina): Rétt eins og læknar ávísa lyfseðlum, hreyfiseðlum og vonandi líka ávísun á ljóðabókalestur þá ættu læknar að ávísa bréfaskrifum og gefa nafn og heimilisfang á nýjum pennavini og segja ,,Skrifaðu bréf. Segðu þetta allt í bréfi!” Já, þetta gæti haft góð áhrif á heilsufar þjóðarinnar.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Svimandi kompukláði

Spjallþráður 4 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

9. mars 2016

Sæl, mín kæra!

Nú er orðið langt síðan ég skrifaði þér síðast en ég hélt í útlegð inn í sautjándu öldina. Hægt og bítandi ætla ég að halda lengra og lengra inn í hana og reyna að skilja 400 ára hugsun. Reglulega stökkva spurningar fram og pota í mig með laumulegu hvísli og svona hljóma þær: ,,Til hvers í ósköpunum að vera að þessu streði? Getur maður yfirleitt sagt eitthvað um eitthvað? Er þetta til einhvers gagns? Er skynsamlegt að steypa sér í skuldir til að eltast við grúskdrauma?” En svo laumast vorgeislasólin um með nýjan ilm í lofti og þá seytla tilhlökkun og gleði inn í kerfið. Æ, takk fyrir að setja ljóðabókina Vonarlandið eftir Wislawa Szymborska (ætti maður að beygja nafnið og segja Wislöwu Szyborsku?)í bréfið þitt en ég held að nafnið á þessari bók sé í kompunni minni því vinur minn einn mælti með henni fyrir margt löngu. Notar þú svona kompu eða nótissubók? Ég er alltaf með eina litla hjá mér en stundum snerti ég hana ekki svo mánuðum skiptir og svo er eins og grípi mig einhver svimandi kompukláði og þá er ég stöðugt að grípa til hennar og hripa niður ómerkilegar og merkilegar athugasemdir. Ef mig vantar hugmyndir þá er stundum nóg að fletta í gegn og rekast á punkta sem hafa gleymst en rifjast upp. Kannastu við þessa tilfinningu, þetta andartak þegar maður man aftur eitthvað sem var farið? Ég skrifa oft bara til þess að sjá við þessari hakkavél sem hausinn á mér er því hann hendir út óæskilegu dóti. Æ, nú rann ég yfir á fésbókina og lét ginna mig í leik sem sýnir mér myndirnar yfir bestu mómentin mín. Ég held að fjársjóður fésbókarinnar liggi núna í öllu magninu, öllum minningunum og myndunum sem við getum ekki raðað saman sjálf heldur fáum leiki og tillögur frá forriturum úti í heimi til að raða saman og rifja upp. Hvað ætli fésbókin sjúgi mikið úr minnisforðanum mínum á hverjum degi? Ég á engan minnisvaraforða (nema kompunótissubækurnar séu slíkar) og það gerist eitthvað athyglisvert í heilanum þegar ég dett inn á fésbókina, einhver seiður sem erfitt er að slökkva á og taka augun af. Þetta er dáleiðsla! Nú er ég búin að slökkva á bókinni til að geta opnað aðra, sagnirnar að kveikja og slökkva og opna og loka eru hliðstæðar en samt ekki, þær geta tengst en þessi hugmynd er ekki nógu opin til að hún kveiki í mér löngun til að halda lengra inn í hana svo ég loka og slekk hér með, eða slekk og loka, í þeirri röð. Fyrir nokkrum dögum var ég að segja kunningjum mínum frá þessum skrifum okkar og að í raun þekktumst við harla lítið þegar við byrjuðum að skrifast á. Þau voru mjög hissa og flissuðu síðan. Þetta er fullkomin leið til að kynnast manneskju og nú ætlum við að smita aðra og fá aðra til að kynnast í gegnum bréfaskrif. Bréfabyltingin er hafin!!

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Sautján ára vinátta

Bréfaskrif – Margrét Bjarnadóttir og Haraldur Jónsson skrifast á:

 

Reykjavík, 23.02. 2016

Elsku Halli,

ég var að átta mig á því að við höfum þekkst í 17 ár.  Ég var 17 ára þegar við kynntumst. Ég þarf ekki að orða hið augljósa en geri það samt: Ég hef lifað jafn lengi með þér og án þín. Þegar þú verður 74 ára munt þú fyrst hafa lifað jafn lengi með mér og án mín. Þetta snýst ekki um sanngirni heldur undirstrikar bara enn og aftur hversu dramatískt lífið er.

Talandi um dramatík. Ég á bara einn dag eftir í tökum á dramatíska þrillernum. Um daginn var ég að leika í senu þar sem karakterinn minn átti að segja: „Ég er búin að hringja á lögregluna!“ Ég er ekki að uppljóstra neinu með því að segja þetta. Þetta er glæpaþriller og þá má gefa sér að það sé stundum hringt á lögregluna. En allavega, ég áttaði mig á því að ég hef aldrei hringt á lögregluna. Ég vissi ekkert hvernig ég ætti að tilkynna þetta – með upphrópunarmerki og öllu. Hvernig líður manni eftir að hafa hringt á lögregluna? Tilefnið getur náttúrlega verið allt frá því að kvarta yfir partýglöðum nágrönnum yfir í að tilkynna hrottalegt morð. Ég má ekkert segja hvar á skalanum þetta símtal var en ég gat ekki leitað í eigin reynslu því ég hef einfaldlega aldrei hringt á lögregluna. Ég þurfti að ímynda mér –  setja mig í spor – eins og leikarar þurfa víst að gera.

En hugsaðu þér, margir fara í gegnum lífið án þess að hafa nokkurn tíma hringt á lögregluna.  Hefur þú hringt á lögregluna? Hvert var tilefnið? Þú verður að segja mér það.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Blóm í vasa og fluga á visku

Spjallþráður 3 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

29. febrúar 2016

Sæl mín kæra,

Takk fyrir siglinguna sem varð til í bréfinu þínu. Tekurðu eftir vorinu sem lúrir í loftinu? Það er farið að birta svo skart að mig sundlar og í dag er aukadagur á dagatalinu og því ber að fagna með enn fleiri kaffibollum en áður. Ég er aftur farin að taka inn hörfræolíu og finn mun á mér, allt verður mýkra í lífinu ef olíurnar fá að flæða um æðar. Já, þú spurðir um borgarsálfræðinginn. Nei, hann hefur ekki haft samband og kallað mig í stólinn, væri gaman að fá formlegt bréf um stólasessjón. Reyndar hitti ég stundum aðra sálfræðingu til að dempa áfallastreitu og sjálfsefa og rækta sjálfsmildi (þetta er svona orð sem hefur lent í mýkingarefni). Sálfræðingan er klappstýra, hún hefur fulla trú á mér þó ég hafi það ekki alltaf. Svo hitti ég líka markþjálfa reglulega. Ó bój, ó bój, ég þekki svo marga sem fá hroll þegar talað er um markþjálfa og nú afhjúpa ég mig en sú sem ég hitti virkar eins og fimmföld sálfræðing, sjötíu háskólasjúkrahús. Við förum í göngutúr meðfram sjónum og hún nær með fallegri nærveru sinni og spurningum að hjálpa mér að finna þræði til að draga út úr mér, rekja mig upp og sauma mig saman aftur. Taka ákvarðanir í trylltu hugrekki, risastóru hugrekki, láta vaða og þora. Ég get nefnilega verið sjálfri mér svo vond að ég þarf að búa til öryggisnet í kringum mig. Vernda mig gegn sjálfri mér. Þarf að hemja boxarann innra með mér, niðurrifsraddirnar sem rífa mig á hol. Þær eru stundum svo sannfærandi.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Tryllt tungl, kannski-árátta og vissjónsessjón

Spjallþráður 2 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir halda áfram skrifast á:

 

Sæl mín kæra!

Þá höfum við látið framkalla myndirnar okkar og sýnt öllum þær sem kæra sig um að skoða. Það getur verið ótrúlega mikil togstreita í þessu að vilja bæði sýna sig og fela á sama tíma, ég man þú minntist á þetta einu sinni í sjónvarpsviðtali og ég þóttist kannast við þessa tilfinningu. Samt hafði ég ekki tekið eftir henni áður en þegar þú nefndir þetta þá rann upp fyrir mér ljós. Um þetta snýst öll sköpun: að renna upp ljósum, draga gardínurnar frá augum sem vita ekki að gardínur byrgja sýn, nú eða draga nýjar gardínur fyrir sem gefa nýja skynjun. Allaveganna, draga gardínur (fyrir eða frá, hægt eða hratt), um það snýst þetta allt. Við ættum kannski að setja upp myndlistarsýningu þar sem gardínur dragast lárétt eða ljóðrétt (hmm, ég get aldrei skrifað lóðrétt rétt, ljóðið brýst þar inn) fyrir glugga eða spegla eða myndir eða kannski glugga þar sem sjá má spegilmynd af mynd.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Hitasótt og hjartasár

Spjallþráður 1 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

10. febrúar 2016

Sæl mín kæra,

ætli sé ekki fínt að byrja þannig? Það er oftast erfiðast að byrja, taka til máls, velja upphafstóninn og vera búin að ákveða takttegundina fyrirfram eða nei, best að ákveða sem minnst.

Ég þarf að segja þér frá því en í dag varð ég fyrir dularfullri reynslu. Í byrjun ársins bjó ég til draumaspjald fyrir árið 2016 þar sem ég gramsaði í gegnum alls konar tímarit og myndir og klippti og límdi á blað allt sem mig dreymir um fyrir árið framundan. Sumt var unnið í meðvitund og annað á öðrum slóðum. Ein furðuleg mynd kallaði sterkt til mín og vildi komast á draumaspjaldið og ég skildi ekki af hverju en ákvað að hlýða. Ég sagði viðstöddum að þessi mynd þyrfti að vera þarna en að ég fengi vonandi seinna að vita hvers vegna. Svo hugsaði ég ekki meira út í það þangað til ég sat í kennslutíma í dag þar sem verið var að ræða alkemíu og Jung og ýmsum bókum dreift um borðin og þá dúkkaði þessi sama mynd upp í einni bókinni. Ég fletti af handahófi og þarna blasti hún við mér: Maður liggjandi á jörðinni með ör í hjartanu og upp úr honum stendur stórt tré eins og reðurtákn og hönd á himni bendir á hann. Í bókinni var einhver texti um dauðann og lífið. Þetta er eitthvað mjög dulrænt og sálrænt og krassandi. Reyndar hef ég verið að vinna í ljóðahandriti þar sem trjámaður kemur við sögu, trjámaður sem ég elskaði en hann stakk ör í hjarta mitt og ég held stundum að ég sé bækluð til frambúðar. Annars hef ég verið að lesa texta Jungs um drauma og erkitýpur og gleypi textann í mig eins og nammi, næturlíf mitt verður aldrei samt.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Höfundakvöldin 2014

Hallgrímur Helgason: Höfundakvöldin 2014

Höfundakvöld í Gunnarshúsi 30. október, 2014: fullt út úr dyrum.

Höfundakvöldin í Gunnarshúsi á haustmánuðum 2014 voru tilraun til að gefa nýjum bókum meira pláss og lyfta jólabókavertíðinni á ögn hærra plan. Hingað til hefur íslenska aðferðin verið sú að hrúga höfundum saman á upplestrarkvöld þar sem hver bók fær 10 mínútur í upplestri en enginn tími gefst til að spjalla eða kafa dýpra í verkin. Erlendis tíðkast fremur að fjallað sé um eitt og eitt verk í einu, og höfundurinn spurður út í það af stjórnanda sem lesið hefur bókina. Hér var sama leið farin; hverju höfundakvöldi stjórnaði nýr spyrjandi.

Höfundakvöldin voru á hverju fimmtudagskvöldi frá því í lok október og fram yfir miðjan desember og var hvert þeirra helgað tveimur höfundum og nýjum bókum þeirra. Alls voru kvöldin tíu talsins og því voru bækur 20 höfunda kynntar á þessum vettvangi, af tíu stjórnendum. Verkin voru valin af Húsráði og valið takmarkað við bækur sem komu út hjá forlögum á haustvertíð, skáldsögur jafnt sem ljóð og barna- og unglingabækur. Flestir höfundanna sem haft var samband við þáðu boðið. Tilraun þessi þóttist heppnast vel og verður vonandi framhald á haustið 2015. Aðsókn var misjöfn frá en nokkrum sinnum varð húsfyllir, setið á 70 stólum, í stigaþrepum og staðið með veggjum þannig að mikil stemmning skapaðist.

Til að hægt væri að bjóða upp á veitingar í hléi var farin sú leið að láta kosta 500 kr. inn. Mæltist þetta ágætlega fyrir og engar kvartanir heyrðust um þetta fyrirkomulag. Fyrir vikið komu kvöldin út á sléttu. Velta má því fyrir sér hvort hækka ætti aðgangseyrinn í 1000 krónur fyrir næsta haust, og þannig gæti tekist að greiða spyrlum og höfundum fyrir sitt framlag.

Nokkur kvöldanna voru hljóðrituð fyrir Útvarp. Jórunn Sigurðardóttir frá Rás eitt mætti með míkrófón og sendi efnið út í þætti sínum Orð um bækur. Flest kvöldin voru einnig tekin upp á myndband. Það var Halldór Árni Sveinsson frá vefmiðlinum netsamfelag.is sem var svo elskulegur að gera það endurgjaldslaust. Enn á hinsvegar eftir að hlaða mesta efninu inn á netið, en á slóðinni http://netsamfelag.is/index.php/bein-utsendin/menning-og-listir/bokmenntir má þó sjá helminginn af tveimur kvöldum.


Skrifa athugasemd

Teningunum kastað

Pétur Gunnarsson skrifar:

Sagt er að aðeins 4% af efni alheims sé sýnilegt, afgangurinn er hulduefni plús orka tómsins sem mun vera hvorki meira né minna en hreyfiafl alls sköpunarverksins. Eins er um egó unga mannsins, mjög lítill hluti af því er sýnilegur, hið innra rúmar hann hulduefni og svarthol. Haustið ´66 hef ég samt afráðið að taka örlagaríkt skref inn á hinn opinbera vettvang. Ég ýtti upp glerhurð Morgunblaðshallarinnar. Vélarhljóð frá prentvélum á jarðhæð barst til eyrna inn í lyftuna á leið upp á þriðju hæð. Brosmild stúlka vísaði mér á skrifstofu þar sem ritstjóri Lesbókar, Sigurður A. Magnússon, sat með hárið í bylgjum upp frá háu enni, vangaskegg og hökutopp eins og grískur Pan. Jafnframt hárbeittum Lesbókarpistlum, var hann hnífskarpur leikdómari blaðsins. En tók mér af ljúfmennsku, meðtók ljóðið og sagði mér að hringja eftir helgi.

Um leið var eins og jörðin hægði á snúningi sínum, það var föstudagur og um kvöldið fór ég á Borgina og fékk mér að venju tvöfaldan asna. En að þessu sinni fann ég ekki nein hrif. Ég sló Stebba vin minn fyrir öðrum, en það sama gerðist, það gerðist ekki neitt. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég átt að verða þvoglumæltur og riða á fótum. Á heimleið lék ég mér að því að ganga eftir þráðbeinni línu gangstéttanna.

Kominn heim úr skóla á mánudeginum hóf ég að hringja í skiptiborðið á Mogganum. En Sigurður var ekki í húsi. Ekki heldur á hálftíma fresti. Á þriðjudeginum hafði ég skipt um skoðun og hætt við birtingu, vonaði að ljóðið fengi að lognast út af í skúffu ritstjórans. En á föstudeginum greip mig einhver hybris og nú var engu líkara en Sigurður hefði beðið við símann. Hann ætlaði að birta ljóðið.

Hvenær?
Núna! 

Lesa meira