Spjallþráður 9 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:
9.4.2016
Kæra Kristín
Nú stofna ég spjallþráð númer níu á níunda degi aprílmánaðar. Úthaldið og seiglan eru svo mikilvæg en allt í einu fór ég að beina sjónum að því að fáir lesa bréfin okkar. Og þá fór ég að fá þær gloríur að þetta væri nú bara til einskis, að við værum að taka pláss sem okkur bæri ekki, að við værum að kvaka út í tómið. En svo komst ég hringinn og vil halda áfram. Höfundar mega ekki láta það hvort einhver les eða ekki stjórna skrifum sínum. Hvatinn þarf að koma innan frá. Það er líka eðlilegt að orkan sveiflist upp og niður og þá skrifa ég stundum í andleysi og svo á öðrum tímum í andagift. Æ, veistu ég elska þetta orð ,,andagift” – hef ekki kíkt í orðsifjabókina en er með þá prívat kenningu að þarna sé orðið ,,gift” úr dönsku sem merkir eitur, eitur andans eða eitur fyrir andann. Andagiftin ber með sér bæði líf og tortímingu, andinn tekur inn eitthvað sem stækkar hann og þá getur hann sprungið ef skammturinn er of stór. Þess vegna þurfa andstæð element að verka á okkur stöðugt, til að dempa skammtana sem sækja að, innblástur og útblástur og fráblástur og sandblástur og plástur.