Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands


Skrifa athugasemd

Þokuslæða á dimmum vetri

 

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

9. nóvember 2016

Kæra Kristín,

Hér kyngir niður snjónum og allt í hægagangi og við byrjuðum daginn á því að mæta of seint í skólann og ég hugsaði að þetta væri svona dagur þar sem hvítt vetrarríkið leggst yfir allt og það hægist á öllu og allt mætir of seint alls staðar. Þegar ég tilkynnti úrslit kosninga hrópaði sonurinn ,,Neii, þessi prump-trömt ætlar að byggja múr!“ en um daginn þegar Dylan fékk nóbelinn spurði hann ,,Já eru þetta ekki Nóbel Trump verðlaunin?“ Dóttirin sagði ,,Æ, er það?“ og varð hugsi. Áfram kyngir niður snjónum og ruðningstækin voru mætt fyrir utan hjá okkur kl. 6 í morgun og komu aftur á hálftíma fresti, það kyngir niður sjó og við ryðjum snjó. Kyngjum, ryðjum, höldum út í daginn í hægagangi og handleikum von í úlpuvasanum, reynum að missa ekki veika von úr vasanum.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Kartöfluprinsessa og Berlínardraumar

 

Júlía Margrét Einarsdóttir og Steinunn Sigurðardóttir skrifast á:

julia-og-steinunn

 

Elsku Steinunn.

Nú sit ég hérna í sófanum í íbúðinni sem ég bý í í Aþenu um þessar mundir. Ég hef verið á ferðalagi um Evrópu með kærastanum mínum síðan um miðjan júní og hef heimsótt ótal borgir og núna er ég hér, ári eftir að ég var hér síðast, og ég elska þessa borg.

Það er glampandi sól eins og hefur verið síðustu daga og þó að klukkan sé að nálgast eitt og komið framyfir hádegi er borgin eiginlega ekki vöknuð.

Það er svo heitt úti að það svífur yfir mann einhverskonar drómi um leið og maður stígur fæti útfyrir dyrnar. 40 stiga hitinn úti fleygir sig yfir líkamann með höggi, skynjun og umhverfi verður sljótt.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Afmælisstelpan, haustið og tískan í Alþingishúsinu í viku 41

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 24. september 2016

Jájájá! Kæra Kristín afmælisbarn,

Nú er runninn upp fæðingardagur þinn. Innilega til hamingju með tilveruna og lífið. Að hugsa sér að á þessum degi fyrir einhverjum árum síðan komst þú í heiminn, nakin og slímug og móttækileg fyrir áhrifum sem þú þróaðir yfir í líf þitt og skrif sem síðan urðu bækur. Núna er haustið komið og þá verður loftið svo ótrúlega ferskt og stökkt, það er eins og umbreytingin beri með sér tæra birtu og tilfinningu sem vekur bæði hroll (út af kuldanum) og mildi (út af hlýjunni sem stafar af birtunni). Ég velti því fyrir mér hvort fæðingin sé fyrsta sjokkið í lífinu. Að verða til og þróast í móðurkviði á sér stað í einhverju algleymi, hlýju og hröðum vexti (þar geta reyndar komið sjokk ef móðirin lendir í háska) og svo þarf barnið víst að fæðast og það hlýtur að vera mjög alvarlegt áfall að fara út í kulda og skerandi ljósið. Þá aðlagast húðin samt fljótt andrúmsloftinu og barnið samlagast móður eða umönnunaraðila. Svo gerist hið stórkostlega seinna, þegar barnið uppgötvar eigið sjálf og aðgreinir sig frá þessum eina umönnunaraðila (æ þetta er ekki nógu fallegt orð, finn ekki annað í augnablikinu). Ég-ið verður til og því fylgir mikill kraftur en líka átök og togstreita. Ég velti því fyrir mér hvort þessi ferli öll endirtaki sig aftur og aftur í gegnum lífið en undir öðrum formerkjum, dulbúin breyting í lífshlaupinu (ath. lífshlaup má líka skoða hlutlægt þannig að hlaupið sé svona dúandi hlaup sem maður borðar sjáðu til, þá er lífshlaupið seigfljótandi ástand). Ætli við séum ekki alltaf á einhvern hátt það fóstur sem við einu sinni vorum? Leitum í hlýja sefjun sem ber okkur áfram í fullkomnu öryggi. Þegar ég sofna á kvöldin set ég hendur í hálsakot eins og mig grunar að ég hafi gert þegar ég var fóstur. Hvernig fóstur ætli þú hafir verið?

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Hið háleita slím og röddin á bókasafninu

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

Uppsala, 3. september 2016

 

Kæra Kristín,

 

Nú kemst ég loksins í að skrifa þér bréf og mikið er það nú gaman. Hér hefur hversdagurinn blandast ofurlöngu sumarfríi því börnin mín fengu ekki skólavist í nýju landi fyrr en núna. Í næstu viku byrjar sem sagt hjá okkur vetrar-rútínan með öllum sínum yndislegu reglum og römmum. Núna eru krakkarnir í herbergjum sínum að leika sér, hvort með sínum hætti. Úr herbergi sonarins heyrast iðulega skemmtileg hljóð eins og skothljóð og söngur. Rétt áðan sönglaði hann einkennislag evrópskra sjónvarpsstöðva og stundum sönglar hann auglýsingastef eða lög úr barnaþáttum eða laglínur úr lögum sem við höfum verið að dansa við af jútúb. Á stofuborðinu er risaeðla sem hefur dottið á höfuðið við hliðina á umsóknareyðublaði til sjúkratrygginga Íslands. Ég hef ekki tölu á umsóknareyðublöðunum sem ég hef fyllt úr undanfarnar vikur. Til að geta klárað þetta tiltekna eyðublað vantar mig staðfestingu frá þjóðskrá. Yfirleitt eru svona eyðublöð voðalega sniðug að biðja um önnur eyðublöð eða staðfestingar frá öðrum stofnunum og þannig  geta stofnanirnar talað saman í gegnum þann sem fyllir út eyðublaðið. Fyrrum samstarfsfélagi minn sagði mér einu sinni frá því að í gamla daga starfaði maður hjá ríkinu sem bar starfstitilinn ,,eyðublaðasérfræðingur”, það þótti mér gaman að heyra. Eflaust var þetta fyrir tölvuvæðinguna miklu og þá þurfti sér starfsmann í að passa upp á dálkana. Ætli einhver hafi búið til listagjörning þar sem þátttakendur þurfa að komast í gegnum rýmið með því að fylla út alls konar eyðublöð og svo blikka rauð ljós ef þau fylla blöðin út vitlaust? Nei, það væri ekki nógu skemmtilegt og í raun of realískt. Á hverjum degi dett ég ofan í skáldsögu eftir Kafka, þannig er það nú bara. En risaeðlan er á borðinu og skapar mikilvægt mótvægi við eyðublaðið.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Biðtími: ∞ í laufskrúði úr gallaefni

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 4. og 5. ágúst 2016

 

Kæra Kristín,

 

Takk enn og aftur fyrir bréfin þín. Ég er farin að bíða eftir því að haustið komi með sinni reglubundnu rútínu. Er alltaf að bíða eftir að hlutirnir breytist, að eitthvað gerist, eitthvað sem er í framtíðinni, seinna, bráðum, kannski.

Þegar ég skrifaði dagbók fjórtán ára var fyrsta dagbókarfærslan í byrjun ársins 1989. Þar er kostulegt að lesa hvernig ég þvældist á milli staða án árangurs því jólafríið var ennþá í gangi (sundlaugin lokuð o.s.frv.) og vinirnir út og suður. Þá voru símarnir fastir við veggi og maður þurfti að fara á staðinn til að sjá hvort viðburðurinn væri í gangi eða hvort vinkona væri heima og gæti hangið með manni. Páskafriín gátu stundum orðið strembin þegar vinirnir voru í ferðalögum. Ég man sérstaklega eftir einum páskum þar sem mér leið eins og ég væri eina barnið í bænum og ég ráfaði á milli staða, hringdi dyrabjöllum og dyrastafir stóðu fastir og enginn hreyfing inni í húsunum. Fór á hverjum degi sama hringinn á milli húsa í veikri von um að núna væri einhver kominn heim. Ég hefði svo sem getað farið heim að hlusta á gula útvarpið mitt sem útvarpaði bæði rás 2 og bylgjunni, stundum sat ég við skrifborð og hlustaði á lítið gult útvarp, en ég hef greinilega ekki nennt því þessa páska. Þetta útvarp var með þunnum, mjúkum vír sem þurfti að sveigja og beygja til að ná sambandi við rásirnar. Seinna átti ég kasettutæki með hörðu loftneti.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Að þekkja sig og þekkja sig ekki, lóðbeint og af drukkinni einbeitingu

Hrafnhildur Þórhallsdóttir og Bragi Ólafsson skrifast á:

Sameinuð HÞ minnkuð

 

Reykjavík, júlí 2016

 

Kæra Hrafnhildur,

alveg vissi ég að þessi bréfaskrif myndu byrja með spurningu. Ég spyr mig nefnilega að því hvernig maður eigi að koma sér að efninu þegar maður skrifast á við manneskju sem maður þekkir jafn lítið og ég þekki þig. (Hvaða efni? spyr ég mig líka.) Og svarið sem ósjálfrátt kemur upp í hugann er að best sé að láta sem ég þekki þig alls ekki, að ég hreinlega viti ekki hver þú ert. Ég veit reyndar ekki hver ég er sjálfur, þannig að þetta gæti ekki byrjað betur.

Alltaf best að byrja frá grunni.

Ég ætlaði að vera búinn að skrifa þér fyrr, en bakmeiðsl (eftir átök við sandpoka) ollu því að mér tókst ekki sem skyldi að draga líkamann að skrifborðinu, og koma honum þannig fyrir við borðið að ég ætti gott með að skrifa. Ég þarf nefnilega borð til að geta skrifað; mér finnst eitthvað tilgerðarlegt við hitt, að geta skrifað án þess að hafa borð.

En það eru forréttindi að geta leyft sér að skrifa fólki bréf. Ég veit að orðið forréttindi er of mikið notað nútildags; mér finnst það samt eiga við hér. En aðeins aftur að þessu með að vita ekki hver maður er. Auðvitað er það hallærisleg spurning, og of mikið gert af því að klæða hana í nýjan búning til að hún þekkist ekki. En þá verður maður bara að gangast við því að vera hallærislegur sjálfur, því ég fyrir mitt leyti verð oft dauðhræddur (við sjálfan mig) og svitna af angist yfir þeirri vissu (eða óvissu) að hafa ekki hugmynd um hver ég er. Þess á milli gerist það þó stundum (ekki síst þegar ég hlusta á ákveðna tónlist) að ég fyllist þvílíkri vissu um áðurnefnt atriði að mér líður eins og ég sé að springa úr þekkingu. Það gerðist núna síðast fyrir nokkrum dögum, daginn eftir að EM í fótbolta lauk (ég ætla ekki að lýsa því nánar). En eins og gerðist með Ibsenleikarann í bókinni um Skógarhöggið, bókinni sem Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi hafði ætlað sér að þýða (í framhaldi af Steinsteypu sama höfundar) – og hefur vonandi enn – þá varð mín augnabliksuppgötvun um daginn (um hver ég væri, og allt það) jafn fljót að verða að engu og það tók hana að verða til. Á svipaðan hátt og drukkin einbeiting Ibsenleikarans gufaði upp, þótt ekki hefði það gerst á jafn skjótan hátt hjá honum og hjá mér. (Þetta með drukknu einbeitinguna sagði Eggert Þorleifsson mér að væri kallað að vera „sljóbeittur“ – hann hafði það frá Magnúsi Þór Jónssyni, Megas.) En ég var að tala um forréttindin sem felast í því að mega skrifa manneskju bréf. Alveg vissi ég að ég færi að tala um eitthvað svoleiðis. Ég þekki sjálfan mig nefnilega betur en mig grunar. Ég hafði ætlað mér að vitna í skáldið Apollinaire í því sambandi, í fyrstu línu ljóðsins um tónlistarmanninn frá Saint-Merry, en mundi svo eftir að ég var búinn að nota þá línu í skáldsögunni sem ég gaf út í fyrra, Sögumanni, að minnsta kosti óbeint. (Maður verður að leyfa aðeins lengri tíma að líða milli þess sem maður vitnar í sömu hlutina, finnst þér það ekki?)

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Dulvitund og dulkynjun mæla með engu

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

 

Uppsala, dagarnir fljúga

 

Kæra Kristín,

 

Já, dagarnir fljúga og núna er 28. júlí og þessir síðustu dagar mánaðarins renna meira og minna saman og ég spyr mig alla daga, oft á daga: ,,Tuttugasti og hvað er aftur í dag?” Ekki að talan skipti endilega miklu máli en við eigum það eflaust mörg sameiginlegt að þegar tölurnar hækka á almanakinu þá lækka þær á bankabókinni, og svo er talan á hitastiginu alltaf að breytast, best að miða allt við þá tölu. Mælingarárátta mannsins finnst mér bæði undursamleg og skopleg. Við mælum tíma og vegalengdir og þyngdir og ummál og hraða og allt mögulegt. Hið ómælanlega nær samt alltaf að smjúga undan þessum einingum öllum. Glottir og heldur sig handan við, fyrir aftan og framan og til hliðar. Núna helli ég í mig kaffi og gíra mig upp í stofnanarölt. Þarf að fara á skrifstofu (skatturinn sko) til að mega fara í bankann til að borga fyrir það sem ég sæki um að skrifstofan geri fyrir mig og þegar ég er búin að borga get ég farið aftur á skrifstofuna með kvittunina og þá er hægt að setja umsóknarferlið af stað, held ég. Galdurinn liggur í því að gera rétta hluti í réttri röð. En ég var að tala um hið ómælanlega og fór svo út í skattinn en það er tenging þarna á milli. Til að undirbúa þessa skattaheimsókn skrifaði ég um daginn á blað bankaupplýsingar með rauðum penna. Síðan sat þetta blað hjá mér við tölvuna og seinna hlustaði ég á tónlist sem hreyfði við mér (Amy Winehouse (Love is a Losing Game) og Adele (Set Fire to the Rain) til að vera nákvæm) og þá hripaði ég á sama blaðið rauðum stöfum: Tónlist og ljóð fitla og daðra við dulvitundina. Andrúmsloft. Í tónlistinni er eitthvað ómælanlegt, sterk áhrif sem maður getur ekki útskýrt því hvernig útskýrir maður andrúmsloft í listaverkum? Hvernig útskýrir maður hugboð, andrúmsloft, grun sem er hálf hugsun, óáþreyfanlega áferð og liti og hreyfingu? Kraftinn sem myndast þegar fullkomnlega frumleg hugsun fæðist? Þegar tveimur ólíkum þáttum slær saman og þeir mynda rafmagn, renna huganum í hugrenningatengslum yfir á aðra braut? Þarna var ég sem sagt komin með á sama blaðinu bankaupplýsingar fyrir skattinn og pælingar um tónlist og ljóð og dulvitund. Ég þurfti að taka blaðið með mér í einn banka og þá voru góð ráð dýr. Átti ég að hafa dulvitundarpælinguna með á blaðinu eða rífa á milli? Hvað ef ég þyrfti að útskýra pælinguna fyrir bankastarsmanni? Ætti ég þá að segja: ,,Well, you see both music and poetry flirt with the subconscious. Atmosphere is there and can’t be described. Can I open an account for money and atmosphere?” Ég ákvað að rífa á milli, leyfa þessum tveimur textum að fara í sitt hvora áttina. Þessa stundina er ég að uppgötva að þegar ég skrifa á blað mikilvæga hluti eins og bankanúmer og innkaupalista þá er línan alltaf lárétt en þegar ég hripa svona ómálga pælingu þá er línan á ská, hvorki lóðrétt né lárétt.

Lesa meira