Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands


Skrifa athugasemd

Esjan er klædd í fallega gráa vinnuskyrtu

Myndlistarkonurnar Gunnhildur Hauksdóttir og Anna Hallin skrifast á:

Washington stræti, New York borg
í nóvember, 2016

MILLILENDING

Gott kvöld Gunnhildur,

Áðan sá ég mynd af þér í ponsjóinu hennar Olgu sem ég prjónaði. Ég sit hérna í íbúð Grétu og Susan í vesturþorpinu í New York borg og ætla að hitta vinkonu okkar, Angelu, í kvöld. Hún er nýkomin í bæinn frá feitum styrk í Róm og er að sýna i Cleveland eftir tvo daga, allt á fullu svo ég hitti hana bara á morgun.

Ég er núna búin að ákveða að byrja þetta bréfasamtal okkar.

Hér allt svolítið óraunverulegt en samt gaman, erfitt að útskýra, en við vorum hérna í Ameríku í námi sem hefur mótað okkur ansi mikið og myndlistin sem við erum búnar að upplifa þessa daga er mjög mögnuð og líka arkitektúrinn.

Ég var líka að framkalla tíu þynnur af 4×5 filmum og þori núna að láta þá hafa tuttuguogeina þynnu í viðbót, en fyrirtækið er á súperbissí stað á Manhattan – ég er annars alveg hissa hvað Manhattan er næs……róleg og kósi; fimmta breiðgata er nálægt ljósmyndastaðnum – úff – fólkið á stofunni er mjög fínt, það getur samt ekki stafað nafnið manns, en ég er alveg vön því eftir að búa á Íslandi.

Er frekar vön millilandinu, kannski „fíla” ég það betur en hitt – örugglega þú líka sem ert mikið á ferðalagi. Mig langar samt svolítið mikið í „pönkið.”

Ég er líka að hugsa um uppskurði – uppskurðir eru eitthvað sem breytir manni. Ég er ekki búin að spyrja þig hvernig þér líður? Og hver var ástæðan fyrir öllu saman hjá þér? Hugsar einhver um þig? Fylgist með?

Við erum sem sagt hér og ég er að fara þann þriðja til Steph Tamez til að fá húðflúr yfir örið mitt – ég er smá efins, samt fékk ég nafnið hennar frá tveimur vinkonum – Maiju og Angelu. Mig langar í þessi konuvöld og að breyta „galla” í vald, kraft. Ég vil vera stolt með hrukkur og ör og hugsa þetta á hátt sem ég passa inn í.

Ég hugsa að ég noti eitt af flugmynstrunum okkar Olgu fyrir tattúið – veiðiflug uglunnar – en það er erfitt að fá það til að virka á þrívíðum fleti.

Afsakaðu mig fyrir að tuða mikið um þetta en það stressar mig núna afþví ég á tímann á tattústofunni á fimmtudaginn.

Fyrsta daginn í borginni sáum við alveg æðislega sýningu, Pippilotti Rist á New Museum. Þegar ég svo gúglaði þessa sýningu og umfjöllunina um hana rakst ég á nýja myndbandið með Pussy Riot – æðislegt – og ótrúleg sýning! Ég er uppfull af hughrifum en ég er samtímis týnd. Á persónulega planinu

hafa verið ansi miklar breytingar sem ég get ekki útskýrt og mig langar ekki að dvelja við og sem mér finnast ekki endilega neikvæðar. Hér getur líka átt sér stað ný byrjun.

Milliland – þar sem ég á heima.

kkv,

A

Lesa meira