Sigurbjörg Þrastardóttir og Halldór Armand Ásgeirsson skrifast á:
10. janúar 017
ástsæli halldór,
(fyrirgefðu, datt í hug að velja ávarp sem enginn notar, því þetta er ekki alvöru bréf) mig langar að biðja þig um greiða. Er einhver sjens að þú getir útvegað mér innsigli til að loka bréfum? Það sagði mér maður um daginn að hann hefði fundið innsigli afa síns í dánarbúi og þótt það töff, spurði af hverju ég léti ekki gera svona fyrir mig, ég gæti haft S … (svo mundi hann ekki föðurnafnið mitt, ég hjálpaði honum), já, og Þ, ég gæti látið útbúa innsiglið SÞ og brætt í vax aftan á öll umslög. Ég benti manninum á að enginn skrifi þannig bréf lengur, menn skrifa í mesta lagi tölvupóst, þess vegna hefði þetta ekkert upp á sig, en þegar lagt var (hart?) að mér að skrifa þér (ekki-) bréf, Halldór, datt mér í hug hvort þú værir gæinn sem gætir útvegað svona, hávaxinn eins þú ert og víðsýnt hjá þér (ég veit, skrýtinn stíll, ég er að reyna að hafa þetta ópersónulegt). Mér dettur í hug að ég geti notað þetta í daglegu lífi, hitað innsiglið og markað alla sem ég hitti. Með fangamarkinu mínu. Það mætti jafnvel víkka þetta út, brennimerkja fólk (er þetta núna dulbúinn pistill?) með læki eða hjarta eða broskalli, væri það ekki skynsamlegra en random húðflúrið sem ratar í tísku og dettur úr henni aftur, að samskiptasagan væri á húðinni, í skinninu? Kannski er þér annt um eigin húð, það væri vel skiljanlegt, og ég gæti lofað að brenna þig ekki í skiptum fyrir þennan greiða sem ég kem ekki út úr kerfinu á mér, eníhá, þú ferð varlega, SÞ
p.s. ég set fólk hér í cc. til þess að venjast því að aðrir lesi þetta bréf, ímynda mér í æfingaskyni að þú sért í fangelsi, þótt það kalli strax á ákveðna þversögn, jæja
~