Bréfaskrif – Margrét Bjarnadóttir og Haraldur Jónsson skrifast á:
Reykjavík, 23.02. 2016
Elsku Halli,
ég var að átta mig á því að við höfum þekkst í 17 ár. Ég var 17 ára þegar við kynntumst. Ég þarf ekki að orða hið augljósa en geri það samt: Ég hef lifað jafn lengi með þér og án þín. Þegar þú verður 74 ára munt þú fyrst hafa lifað jafn lengi með mér og án mín. Þetta snýst ekki um sanngirni heldur undirstrikar bara enn og aftur hversu dramatískt lífið er.
Talandi um dramatík. Ég á bara einn dag eftir í tökum á dramatíska þrillernum. Um daginn var ég að leika í senu þar sem karakterinn minn átti að segja: „Ég er búin að hringja á lögregluna!“ Ég er ekki að uppljóstra neinu með því að segja þetta. Þetta er glæpaþriller og þá má gefa sér að það sé stundum hringt á lögregluna. En allavega, ég áttaði mig á því að ég hef aldrei hringt á lögregluna. Ég vissi ekkert hvernig ég ætti að tilkynna þetta – með upphrópunarmerki og öllu. Hvernig líður manni eftir að hafa hringt á lögregluna? Tilefnið getur náttúrlega verið allt frá því að kvarta yfir partýglöðum nágrönnum yfir í að tilkynna hrottalegt morð. Ég má ekkert segja hvar á skalanum þetta símtal var en ég gat ekki leitað í eigin reynslu því ég hef einfaldlega aldrei hringt á lögregluna. Ég þurfti að ímynda mér – setja mig í spor – eins og leikarar þurfa víst að gera.
En hugsaðu þér, margir fara í gegnum lífið án þess að hafa nokkurn tíma hringt á lögregluna. Hefur þú hringt á lögregluna? Hvert var tilefnið? Þú verður að segja mér það.