Hermann Stefánsson og Ragna Sigurðardóttir skrifast á:
Reykjavík, 19. mars, 2016
Kæra vinkona
Líf mitt er í algeru uppnámi. Ég segi það satt. Það kemur þér kannski á óvart að ég trúi þér fyrir þessu þar sem við erum ekki einu sinni málkunnug, en satt að segja er þetta engin nýlunda: Ég man ekki til þess að líf mitt hafi nokkru sinni verið öðruvísi en í uppnámi.
Ég laumaðist til að skrá mig örsnöggt inn á félagsmiðilinn Facebook (sem ég er sífellt að skrá mig af fyrir fullt og allt) til að ganga úr skugga um hvort við þekktumst nokkuð og komst að því að við erum ekki einu sinni facebook-vinir, sem þýðir að við þekkjumst ekki neitt. Nema það sé einmitt staðfesting á því að við séum mjög nánir vinir, sem reyndar er líklegra.
Sálarástandi mínu sló ég örsnöggt upp í gamalli norskri skáldsögu (eftir Hamsun) sem ég er að endurlesa og það er rétt, líf mitt hefur verið í algeru uppnámi frá því allavega á síðari hluta nítjándu aldar og því eru engar fréttir í þessu fólgnar. Mér þætti allt annað ástand óviðkunnanlegt.