Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands


Skrifa athugasemd

Að þekkja sig og þekkja sig ekki, lóðbeint og af drukkinni einbeitingu

Hrafnhildur Þórhallsdóttir og Bragi Ólafsson skrifast á:

Sameinuð HÞ minnkuð

 

Reykjavík, júlí 2016

 

Kæra Hrafnhildur,

alveg vissi ég að þessi bréfaskrif myndu byrja með spurningu. Ég spyr mig nefnilega að því hvernig maður eigi að koma sér að efninu þegar maður skrifast á við manneskju sem maður þekkir jafn lítið og ég þekki þig. (Hvaða efni? spyr ég mig líka.) Og svarið sem ósjálfrátt kemur upp í hugann er að best sé að láta sem ég þekki þig alls ekki, að ég hreinlega viti ekki hver þú ert. Ég veit reyndar ekki hver ég er sjálfur, þannig að þetta gæti ekki byrjað betur.

Alltaf best að byrja frá grunni.

Ég ætlaði að vera búinn að skrifa þér fyrr, en bakmeiðsl (eftir átök við sandpoka) ollu því að mér tókst ekki sem skyldi að draga líkamann að skrifborðinu, og koma honum þannig fyrir við borðið að ég ætti gott með að skrifa. Ég þarf nefnilega borð til að geta skrifað; mér finnst eitthvað tilgerðarlegt við hitt, að geta skrifað án þess að hafa borð.

En það eru forréttindi að geta leyft sér að skrifa fólki bréf. Ég veit að orðið forréttindi er of mikið notað nútildags; mér finnst það samt eiga við hér. En aðeins aftur að þessu með að vita ekki hver maður er. Auðvitað er það hallærisleg spurning, og of mikið gert af því að klæða hana í nýjan búning til að hún þekkist ekki. En þá verður maður bara að gangast við því að vera hallærislegur sjálfur, því ég fyrir mitt leyti verð oft dauðhræddur (við sjálfan mig) og svitna af angist yfir þeirri vissu (eða óvissu) að hafa ekki hugmynd um hver ég er. Þess á milli gerist það þó stundum (ekki síst þegar ég hlusta á ákveðna tónlist) að ég fyllist þvílíkri vissu um áðurnefnt atriði að mér líður eins og ég sé að springa úr þekkingu. Það gerðist núna síðast fyrir nokkrum dögum, daginn eftir að EM í fótbolta lauk (ég ætla ekki að lýsa því nánar). En eins og gerðist með Ibsenleikarann í bókinni um Skógarhöggið, bókinni sem Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi hafði ætlað sér að þýða (í framhaldi af Steinsteypu sama höfundar) – og hefur vonandi enn – þá varð mín augnabliksuppgötvun um daginn (um hver ég væri, og allt það) jafn fljót að verða að engu og það tók hana að verða til. Á svipaðan hátt og drukkin einbeiting Ibsenleikarans gufaði upp, þótt ekki hefði það gerst á jafn skjótan hátt hjá honum og hjá mér. (Þetta með drukknu einbeitinguna sagði Eggert Þorleifsson mér að væri kallað að vera „sljóbeittur“ – hann hafði það frá Magnúsi Þór Jónssyni, Megas.) En ég var að tala um forréttindin sem felast í því að mega skrifa manneskju bréf. Alveg vissi ég að ég færi að tala um eitthvað svoleiðis. Ég þekki sjálfan mig nefnilega betur en mig grunar. Ég hafði ætlað mér að vitna í skáldið Apollinaire í því sambandi, í fyrstu línu ljóðsins um tónlistarmanninn frá Saint-Merry, en mundi svo eftir að ég var búinn að nota þá línu í skáldsögunni sem ég gaf út í fyrra, Sögumanni, að minnsta kosti óbeint. (Maður verður að leyfa aðeins lengri tíma að líða milli þess sem maður vitnar í sömu hlutina, finnst þér það ekki?)

Lesa meira