Júlía Margrét Einarsdóttir og Steinunn Sigurðardóttir skrifast á:
Elsku Steinunn.
Nú sit ég hérna í sófanum í íbúðinni sem ég bý í í Aþenu um þessar mundir. Ég hef verið á ferðalagi um Evrópu með kærastanum mínum síðan um miðjan júní og hef heimsótt ótal borgir og núna er ég hér, ári eftir að ég var hér síðast, og ég elska þessa borg.
Það er glampandi sól eins og hefur verið síðustu daga og þó að klukkan sé að nálgast eitt og komið framyfir hádegi er borgin eiginlega ekki vöknuð.
Það er svo heitt úti að það svífur yfir mann einhverskonar drómi um leið og maður stígur fæti útfyrir dyrnar. 40 stiga hitinn úti fleygir sig yfir líkamann með höggi, skynjun og umhverfi verður sljótt.