Kristín Eiríksdóttir og Karí Grétudóttir skrifast á:
Elsku Karí,
ég er nýkomin á fætur. Kaffið er þarna, hálfa leið með tilheyrandi hvissi. Það fyrsta sem ég gerði í morgun var að lesa grein um Aung San Suu Kyi á The Intercept. Mér varð hugsað til þín útaf tilvísun í greininni. Tilvísunin er í fræga grein eftir George Orwell, um Mahatma Gandhi: Dýrlingar eru sekir þar til sakleysi þeirra verður sannað.
(Finnst þér ekki pínu fyndið að George Orwell kvót minni mig á þig? Það er kannski vegna þess að þú er steingeit?) Annars hef ég ekkert lesið George Orwell nema kvót. Er það nóg kannski? Kannski komin heil saga í kvótum?
En ég er í áfalli eftir þessa grein. Ertu búin að sjá? Að Aung San Suu Kyi er svipaður aðili og Trump? Búrmíski herinn fremur þjóðarmorð á Rohingya fólkinu, múslimskum minnihluta í norðurhluta Búrma og Aung San Suu Kyi bendir á að reyndar sé þetta fólk frá Bangladesh og kvartar síðan undan því þegar blaðamaður frá New York Times tekur viðtal við hana og er múslimatrúar.
Hún getur það ekki. Talað við múslima?
Og ég sé þau fyrir mér hlið við hlið, Trump, þennan gíruga grísamann og hana, föla stofufangann með nóbelinn. Í alveg hvítu hljóðeinangruðu rými og þau klessa aftur augun og herpa saman varirnar nema það er eitthvað suð, eitthvað, sláttur?
Ég var að tala við T. um daginn og við vorum að gera grín að aðilum sem skortir ytri og innri mörk og svo fattaði ég allt í einu að það eru bara mín mörk sem skipta máli. Að markaleysi annarra skiptir mig engu. Ég veit ekki hvers vegna ég er fyrst að fatta þetta núna. Er þetta kannski eitthvað sem allir kunna bara áreynslulaust, eins og að borða með hnífapörum? Nei. Að HJÓLA. GANGA. Er betra dæmi, alveg harðvírað í líkamann.
En ekki að stíga eitt skref aftur, líta uppúr fúgunni.
Markalaus aðili semsagt reynir að káfa í andlitinu á mér, klípa mig í kinnina með hvítlauksputtum, og ég ósjálfrátt tek eitt skref aftur á bak eða ekki? Viðbrögðin harðvíruð í líkamann á mér eða ekki.
Ég káfa í andlitinu á ókunnugri persónu. Hún tekur eitt skref aftur á bak. Horfir á mig eins og eitthvert úrhrak. Svo aftur daginn eftir. Bara prófa. Klípa. Kann ekki annað, treð puttunum inn í persónulegt rými annarrar manneskju og hrifsa í húð sem ég á ekki.
Í píkuna á einhverri vesalings konu.
Úrhrak.
En áfallameðferðin gengur vel. Ég er farin að geta farið í sund án þess að finnast allt í klofi og jarðneskum leifum. Hver veit nema ég keyri til Osló að heimsækja þig, aki um borð í norrænu og svo frá kaupmannahöfn eins og einhver Paddington í lestarferðalagi og við K. förum á A. Lindgren tónleika og bara ekkert elsku míó minn neitt. Hann myndi elska spyt i panden og allt þetta.
Ég tek strætó út á Höfðabakka og stundum er eins og bílarnir muni klessa inn í hliðina á vagninum og líkaminn bregst við því, auðvitað, en svo ná þeir alltaf framhjá. Hingað til hafa þeir alltaf náð framhjá, Líkaminn bregst við því eins og bráðum komi högg, það hefur ekkert með hugsun að gera, ekkert sem ég hef stjórn á. Ekki frekar en ímyndunaraflið eða álit annarra. Alveg úr böndunum bara, nema maður sé stílisti auðvitað og strípi veggi innað steini alla daga og eitthvað, stingi upp á kyndli og plexidýrahausum yfir kerta-arina annarra. Smá stjórn undir glerkúpli úr Le Pier.
Stundum hugsa ég um garðana í Osló og trén og mold og sakna þín en þá finn ég þig á fb eða hringi eins og eðlileg manneskja og þá lagast það pínu en manstu þegar þú fluttir þegar við vorum unglingar og þurftum að senda bréf í pósti og það var svo flókið að skrifa þessi bréf, maður þurfti að byggja upp senur og skýra framvindu til þess að hin næði öllu. X var hjá Xsjoppu með X og klukkan var níu um kvöld. Ögn kalt í veðri. X í vondu skapi vegna X. Ný Karl Kani úlpa og hver er þessi Tommi Hilfiger? Fruits of loom.
Hvaða fólk var þetta og hverju skyldi það ráða í dag? Rekur þetta fólk söfn og sjoppur og skrifar tilgerðarleg bréf fyrir heimasíður félagasamtaka? Spurningarmerki eru ósköp þreytandi, ég veit, og yfirleitt ofaukið, ég veit, en þetta er “sendibréf,” ég er ekki að staðhæfa, ég er að spyrja spurninga, smárra, leiðigjarnra, óþarfra. ÞETTA ER DÍALÓGUR.
Hvernig hefurðu það? Hvað er á seyði? Svaraðu mér nú!
Þín,
Stína
∼
Góðan daginn meistari!
Takk fyrir bréfið, ég las það oft og mér leiddist aldrei….
Mig dreymdi þig í nótt.
Þetta var í ljósaskiptunum og við stóðum í lygnri tjörn. Það hafði myndast einhverskonar löður við bakkana en það var skjannahvítt og þykkt eins og tólg. Með sérstakri lagni tókst okkur að ná út úr þessu þykka hvíta efni teikningum sem voru gerðar á gagnsæjan pappír. Teikningarnar sáust ekki nema við létum sólarljósið skína í gegnum pappírinn. Meira man ég ekki.
Núna sit ég á uppáhaldskaffihúsinu mínu. Osló er svo græn og ilmandi á sumrin, ég gekk í gegnum Lindern og kom við hjá dýralæknaskólanum. Í dag voru hestarnir úti. Ég gaf þeim gras og klappaði þeim, þeir biðja að heilsa þér. Þú hittir þá í ágúst.
En veistu bara hvað? Það er til sérstök sálfræðiþerapía hér þar sem hestar leika stóran þátt í bataferlinu. Sjúklingar eru látnir horfa í augun á hestum og partur af meðferðinni felst í að sitja hest og losa þannig um höft (áföll í líkama) á mjaðmasvæðinu. Áhugavert en að sama skapi ógeðslegt. Það er svo skrítið hvernig manneskjan nálgast dýrin, endalaust frávarp og yfirfærslur ha! Kannski er ég að klappa þeim í þerapískum tilgangi??? En dýrin nota okkur líka. Ekki bara til að sjúga úr okkur blóðið. Pöddur sem gefa ekki frá sér hljóð en langar til að öskra. Þær nota fólk með fóbíu fyrir skordýrum til að öskra í gegnum.
En Stína nú spyr ég þig hvort þú, mikli dýravinur, ert hrædd við einhver dýr? Ég meina auðvitað svona meira en eðlilega? Mér er til dæmis illa við hrossaflugur en vel við maura og köngulær. Í íbúð greifans í Róm voru maurar sem ferðuðust í langri halarófu á milli matarafganga í ruslinu og út á svalir, fram og tilbaka, daginn út og inn, duglegir. Nærvera dýra er góð. Mér finnst samt alltaf eins og þau séu í einhverri paralellveröld við okkar.
Var ég búin að segja þér að Magnus vinur okkar var með fyrirtæki sem bjó til jarðafarakitt fyrir gæludýr. Hann er rosalega alvarlegur þegar hann talar um þetta. Litlar líkkistur fyrir hamstra…
Ég las greinina um Aung San Suu Kyi. Svona er hatrið stundum vúlgar og heitt og stundum þögult og kalt. Já þau eru bæði samanherpt hún og Trump. Hið eina pervertíska, að beygja sig undir öfugsnúin lögmál, líta í spegil á morgnana og finnast maður mikilvægur.
Já Stína ég er alveg viss um að það hafi með stjörnumerki mitt að gera að kvót í Orwell minni þig á mig.
„Því hreinni að utan því óhreinni að innan“ Er akkúrat það sem ég sagði við Á í morgun. Svona speki finnst steingeitum voða mikið varið í.
Sund segir þú og klof allstaðar, mér finnst þetta hljóma eins og einhver vönunarótti hjá þér. Þetta leyfi ég mér að segja vegna þess að ég held að Freud hafi bara haft rétt fyrir sér um þetta allt saman. Og ég þjáist svo sannarlega af reðuröfund. Ég sendi T myndir af teikningum sem hann ætlar að velja úr. Eins og hann orðaði það þá fannst honum góð myndin af fallosvöndlinum á harðaspretti! Undirvitundin mín gegnsýrð af fallusarkomplexum! Ég horfði á íslenskan viðtalsþátt í sjónvarpinu og þar var karlkyns myndlistamaður sem sagði að reðuröfundin væri bara bull. Svona er að vera kona, fyrst er manni gefin reðuröfund af karli svo hundrað árum síðar reynir annar karl að hrifsa hana af manni. Ég ætla bara að velja og hafna þessu sjálf. Allt er þetta hvort sem er bara leikur að orðum. DSM eða Freud.
En samt. Ung kona sem missir foreldra sína skyndilega þarf að redda sér bílprófi. Hún á ekki fyrir því en tekur þátt og vinnur smásagnakeppni erótísks blað sem heitir Cupido. Skrifa klámsögu í sorginni. Þar er ekkert skrítið samkvæmt F.
Mörk! Það er einhverskonar eilífðarverkefni er það ekki??? Ég finn ekki jafn mikið fyrir þessu hérna og heima á Íslandi. Kannski er það þess vegna sem mér líður svona vel hér. Engin fer yfir mörkin en maður þarf heldur ekki að draga inn magann í mannmergðinni og fela neðrivörina undir þeirri efri.
Ég ætla samt að prófa að fara í sund og segi þér frá því hvernig gekk í næsta bréfi.
Einu sinni fékk ég það á heilann að einhver gæti hvenær sem er hent þungum hlut út um gluggann af efstu hæð. Þetta var í Berlín og ég gat ekki gengið á gangstéttinni án þess að hugsa um hvernig það væri að fá sjónvarp ofan af sjöundu hæð í frjálsu falli í hausinn.
Kvíði er eitthvað svona fyrirbæri sem sneiðir af veröldinni manns. Lætur mann varpast inn á við í stað þess að fylla út í sjálfan sig. Teygja sig út í heiminn.
Í gærkvöldi horfðum ég og Á á heimildaþátt frá 1973 um móderniska málara. Það er svo fullnægjandi að hlusta á hvernig þau töluðu um verkin og vinnuna sína. Þegar þau notuðu orð eins og t.d. skali eða dýpt þá hljómar það barasta eins og járnstöng að detta á marmaragólf eða eitthvað álíka. Ég held ég sé að hugsa um þetta út frá hugmyndinni um að fylla út í líkamanum (þessum sem er alltaf að hliðrast).
Ég fór á æðislega sýningu um daginn, þar voru húlahringir sem snerust í andvaranum, bunki af ullarteppum með teikningu af klukku þar sem hringurinn náði ekki saman heldur vísaði út fyrir rammann og tölustafirnir miklu fleiri en tólf, páfagaukar sem snerust á grein yfir túlípana akri og blómin svignuðu undan golunni….hvernig lýsir maður þessu? Virkar beint á lungun. Djúpöndun.
Ég hugsa stundum um verk eftir listamann sem ég man ekki hvað heitir en mig minnir að hann sé pólskur. Þetta voru textar og ljósmyndir og eitt fjallaði um það þegar einstaklingur leggur sig hvernig orkustöðvarnar losna undan stigveldi sínu. Liggja bara í láréttri línu og vagga til og frá. Að sofa og anda er að treysta.
Á föstudaginn fór ég út á lífið eins og sagt er. Ég fór fyrst í leikhús með vinkonum og síðan á sumarhátíð Klassekampen (vinstra blaðið) á Kunstnerneshus. Geiri smart hitti okkur þar og við dönsuðum á marmaragólfi undir hvítlökkuðum hátölurum sem festir ofarlega á veggnum (þar er mjög hátt til lofts). Það er vont að dansa á marmara og tónlistin einhvern veginn náði ekki niður til okkar. Æ þú veist rými og efni. Mér finnst ég einhvern veginn aldrei ná tökum á þessu. Eins og sumir kunna að hjóla og ganga, nota hnífapör og eiga mörk kunna sumir þá líka bara sjálfkrafa að gera notalegt í kringum sig? Þarf maður að vera krabbi eða vog til þess að vita bara hvar skærin eiga heima? Skilja hvernig hulstur á að vera utan um hvaða hlut? Kemur þetta með bættum svefni og dýpri andardrætti?
Herregud nú held ég að ég hætti þessu masi og sendi þér bréfið!
Ást , friður og jafnvægi
Þín
Karí
∼