Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:
Uppsala, dagarnir fljúga
Kæra Kristín,
Já, dagarnir fljúga og núna er 28. júlí og þessir síðustu dagar mánaðarins renna meira og minna saman og ég spyr mig alla daga, oft á daga: ,,Tuttugasti og hvað er aftur í dag?” Ekki að talan skipti endilega miklu máli en við eigum það eflaust mörg sameiginlegt að þegar tölurnar hækka á almanakinu þá lækka þær á bankabókinni, og svo er talan á hitastiginu alltaf að breytast, best að miða allt við þá tölu. Mælingarárátta mannsins finnst mér bæði undursamleg og skopleg. Við mælum tíma og vegalengdir og þyngdir og ummál og hraða og allt mögulegt. Hið ómælanlega nær samt alltaf að smjúga undan þessum einingum öllum. Glottir og heldur sig handan við, fyrir aftan og framan og til hliðar. Núna helli ég í mig kaffi og gíra mig upp í stofnanarölt. Þarf að fara á skrifstofu (skatturinn sko) til að mega fara í bankann til að borga fyrir það sem ég sæki um að skrifstofan geri fyrir mig og þegar ég er búin að borga get ég farið aftur á skrifstofuna með kvittunina og þá er hægt að setja umsóknarferlið af stað, held ég. Galdurinn liggur í því að gera rétta hluti í réttri röð. En ég var að tala um hið ómælanlega og fór svo út í skattinn en það er tenging þarna á milli. Til að undirbúa þessa skattaheimsókn skrifaði ég um daginn á blað bankaupplýsingar með rauðum penna. Síðan sat þetta blað hjá mér við tölvuna og seinna hlustaði ég á tónlist sem hreyfði við mér (Amy Winehouse (Love is a Losing Game) og Adele (Set Fire to the Rain) til að vera nákvæm) og þá hripaði ég á sama blaðið rauðum stöfum: Tónlist og ljóð fitla og daðra við dulvitundina. Andrúmsloft. Í tónlistinni er eitthvað ómælanlegt, sterk áhrif sem maður getur ekki útskýrt því hvernig útskýrir maður andrúmsloft í listaverkum? Hvernig útskýrir maður hugboð, andrúmsloft, grun sem er hálf hugsun, óáþreyfanlega áferð og liti og hreyfingu? Kraftinn sem myndast þegar fullkomnlega frumleg hugsun fæðist? Þegar tveimur ólíkum þáttum slær saman og þeir mynda rafmagn, renna huganum í hugrenningatengslum yfir á aðra braut? Þarna var ég sem sagt komin með á sama blaðinu bankaupplýsingar fyrir skattinn og pælingar um tónlist og ljóð og dulvitund. Ég þurfti að taka blaðið með mér í einn banka og þá voru góð ráð dýr. Átti ég að hafa dulvitundarpælinguna með á blaðinu eða rífa á milli? Hvað ef ég þyrfti að útskýra pælinguna fyrir bankastarsmanni? Ætti ég þá að segja: ,,Well, you see both music and poetry flirt with the subconscious. Atmosphere is there and can’t be described. Can I open an account for money and atmosphere?” Ég ákvað að rífa á milli, leyfa þessum tveimur textum að fara í sitt hvora áttina. Þessa stundina er ég að uppgötva að þegar ég skrifa á blað mikilvæga hluti eins og bankanúmer og innkaupalista þá er línan alltaf lárétt en þegar ég hripa svona ómálga pælingu þá er línan á ská, hvorki lóðrétt né lárétt.
Lesa meira →
Líkar við:
Líka við Hleð...