Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands


Skrifa athugasemd

Margfaldar afmæliskveðjur!

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 9. febrúar 2017

Kæra Kristín,

Í dag skín sól og snjófölin brakar undir skónum. Hversdagurinn hefur undanfarið verið í mjög föstum skorðum, rammaður inn af gönguferð okkar sonarins í og úr skóla. Á leið okkar á göngustígnum er skógarjaðar og ég rýni reglulega inn á milli trjánna í leit af lífsmarki en sé yfirleitt ekki neitt. Einstaka sinnum skottast íkorni á milli trjáa á einum stað. Við höfum þó tekið eftir því að seinnipartinn í kringum 16:30 flýgur iðulega hópur syngjandi/gargandi fugla yfir hverfið. Um daginn sá sonurinn fuglana mynda hvalaform. Mig grunar að þetta séu múrsvölungar og að þeir séu að hópa sig saman til að dvelja við vatnið stóra yfir nóttina. Rétt áðan gúgglaði ég múrsvölunga og þeir eru líka kallaðir turnsvölur en fræðiheiti þeirra er apus apus. Mér finnst alltaf jafn merkilegt að hugsa til þess að allt í kringum okkur eru dýr að draga fram lífið í föstum skorðum, verða á vegi okkar og við vitum ekki hvað þau eru að sýsla.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Um hliðarklaufar og alræði rennilása

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 8. janúar 2017

Kæra Kristín,

Enn og aftur gleðilegt nýtt ár og takk fyrir kaffihúsaspjallið í vikunni. Á einhvern undarlegan hátt þykir mér vænt um Kaffi Haiti. Kaffið þar er undursamlegt (hvergi í heiminum hef ég fengið kaffi með sama bragði) og þar fór ég á örlagaríkt stefnumót á síðasta ári, segi þér kannski betur frá því seinna. Svo er konan sem stýrir kaffihúsinu svo fögur og ég vona að reksturinn blómstri og allt dafni þar vel.

Nokkrum klukkutímum eftir kaffispjallið okkar fór ég í hríðarbyl út á flugvöll með einkasoninn. Við fórum í gegnum öryggishliðið og þar sem ég var upptekin við að klæða mig aftur í skóna og troða tölvunni ofan í tösku vatt dre2017-01-05-14-27-39ngurinn sér að standi þar sem hægt er að smella á ólík andlitstákn til að gefa þjónustunni einkunn og smellti á fýlukarlinn. Hann var svo snöggur að ég tók ekki eftir því en svo sagði hann og benti á tækið: ,,Ég ýtti á fýlukarlinn, af því að ég sakna pabba svo mikið.” Ég bráðnaði næstum því ofan í gólfið og tók mynd af tækinu og reyndi að sjá fyrir mér hvernig starfsfólkið túlkaði niðurstöðurnar úr þessum tækjum í lok dags en fann fljótt að þetta var öngstræti sem ég varð að koma mér út úr.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Jólakveðjur yfir Atlantshafshrygginn: Reykjavík ~ New York

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

midhafshryggir_161008

Reykjavík, 20. desember 2016

Heil og sæl Kristín,

Í sömu viku ferðuðumst við yfir hafið, ég flaug í átt að eyjunni köldu og þú í burtu frá henni. Ég ætla rétt að vona að leiðir okkar beggja hafi verið hlykkjóttar og flugvélarnar flogið í slaufur og hringi. Beinar og óslitnar línur eru svo óalgengar, það er helst að þær nái sér á strik á hvítum blöðum og húsbyggingum og gangstéttum. Náttúran býr sjaldan til langar óslitnar línur. Nú er ég kannski komin fram úr sjálfri mér (varðandi línurnar og náttúruna) en mig langar að spyrja: Hvernig er umhorfs hjá þér? Hér hjá mér eru umhleypingar, birtuglæta sem felur sig stöðugt lengur með dekkri tjöldum, á morgun eða hinn þorir birtan að sýna sig en bara hægt og bítandi. Sjórinn er á sínum stað á stöðugri hreyfingu, allt er á stöðugri hreyfingu hér á þessari eyju, fólk að keyra og ganga á milli staða. Ég er nýstigin úr sundi og sest á kaffihús þar sem kliðurinn berst við tónlistina. Mér þykir það alltaf jafn merkilegt hvað heitt vatn róar taugarnar mikið, hitinn mýkir húðina, taugarnar, hugsanirnar og liðina og línur sem eru bæði bognar og sléttar.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Þokuslæða á dimmum vetri

 

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

9. nóvember 2016

Kæra Kristín,

Hér kyngir niður snjónum og allt í hægagangi og við byrjuðum daginn á því að mæta of seint í skólann og ég hugsaði að þetta væri svona dagur þar sem hvítt vetrarríkið leggst yfir allt og það hægist á öllu og allt mætir of seint alls staðar. Þegar ég tilkynnti úrslit kosninga hrópaði sonurinn ,,Neii, þessi prump-trömt ætlar að byggja múr!“ en um daginn þegar Dylan fékk nóbelinn spurði hann ,,Já eru þetta ekki Nóbel Trump verðlaunin?“ Dóttirin sagði ,,Æ, er það?“ og varð hugsi. Áfram kyngir niður snjónum og ruðningstækin voru mætt fyrir utan hjá okkur kl. 6 í morgun og komu aftur á hálftíma fresti, það kyngir niður sjó og við ryðjum snjó. Kyngjum, ryðjum, höldum út í daginn í hægagangi og handleikum von í úlpuvasanum, reynum að missa ekki veika von úr vasanum.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Afmælisstelpan, haustið og tískan í Alþingishúsinu í viku 41

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 24. september 2016

Jájájá! Kæra Kristín afmælisbarn,

Nú er runninn upp fæðingardagur þinn. Innilega til hamingju með tilveruna og lífið. Að hugsa sér að á þessum degi fyrir einhverjum árum síðan komst þú í heiminn, nakin og slímug og móttækileg fyrir áhrifum sem þú þróaðir yfir í líf þitt og skrif sem síðan urðu bækur. Núna er haustið komið og þá verður loftið svo ótrúlega ferskt og stökkt, það er eins og umbreytingin beri með sér tæra birtu og tilfinningu sem vekur bæði hroll (út af kuldanum) og mildi (út af hlýjunni sem stafar af birtunni). Ég velti því fyrir mér hvort fæðingin sé fyrsta sjokkið í lífinu. Að verða til og þróast í móðurkviði á sér stað í einhverju algleymi, hlýju og hröðum vexti (þar geta reyndar komið sjokk ef móðirin lendir í háska) og svo þarf barnið víst að fæðast og það hlýtur að vera mjög alvarlegt áfall að fara út í kulda og skerandi ljósið. Þá aðlagast húðin samt fljótt andrúmsloftinu og barnið samlagast móður eða umönnunaraðila. Svo gerist hið stórkostlega seinna, þegar barnið uppgötvar eigið sjálf og aðgreinir sig frá þessum eina umönnunaraðila (æ þetta er ekki nógu fallegt orð, finn ekki annað í augnablikinu). Ég-ið verður til og því fylgir mikill kraftur en líka átök og togstreita. Ég velti því fyrir mér hvort þessi ferli öll endirtaki sig aftur og aftur í gegnum lífið en undir öðrum formerkjum, dulbúin breyting í lífshlaupinu (ath. lífshlaup má líka skoða hlutlægt þannig að hlaupið sé svona dúandi hlaup sem maður borðar sjáðu til, þá er lífshlaupið seigfljótandi ástand). Ætli við séum ekki alltaf á einhvern hátt það fóstur sem við einu sinni vorum? Leitum í hlýja sefjun sem ber okkur áfram í fullkomnu öryggi. Þegar ég sofna á kvöldin set ég hendur í hálsakot eins og mig grunar að ég hafi gert þegar ég var fóstur. Hvernig fóstur ætli þú hafir verið?

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Hið háleita slím og röddin á bókasafninu

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

Uppsala, 3. september 2016

 

Kæra Kristín,

 

Nú kemst ég loksins í að skrifa þér bréf og mikið er það nú gaman. Hér hefur hversdagurinn blandast ofurlöngu sumarfríi því börnin mín fengu ekki skólavist í nýju landi fyrr en núna. Í næstu viku byrjar sem sagt hjá okkur vetrar-rútínan með öllum sínum yndislegu reglum og römmum. Núna eru krakkarnir í herbergjum sínum að leika sér, hvort með sínum hætti. Úr herbergi sonarins heyrast iðulega skemmtileg hljóð eins og skothljóð og söngur. Rétt áðan sönglaði hann einkennislag evrópskra sjónvarpsstöðva og stundum sönglar hann auglýsingastef eða lög úr barnaþáttum eða laglínur úr lögum sem við höfum verið að dansa við af jútúb. Á stofuborðinu er risaeðla sem hefur dottið á höfuðið við hliðina á umsóknareyðublaði til sjúkratrygginga Íslands. Ég hef ekki tölu á umsóknareyðublöðunum sem ég hef fyllt úr undanfarnar vikur. Til að geta klárað þetta tiltekna eyðublað vantar mig staðfestingu frá þjóðskrá. Yfirleitt eru svona eyðublöð voðalega sniðug að biðja um önnur eyðublöð eða staðfestingar frá öðrum stofnunum og þannig  geta stofnanirnar talað saman í gegnum þann sem fyllir út eyðublaðið. Fyrrum samstarfsfélagi minn sagði mér einu sinni frá því að í gamla daga starfaði maður hjá ríkinu sem bar starfstitilinn ,,eyðublaðasérfræðingur”, það þótti mér gaman að heyra. Eflaust var þetta fyrir tölvuvæðinguna miklu og þá þurfti sér starfsmann í að passa upp á dálkana. Ætli einhver hafi búið til listagjörning þar sem þátttakendur þurfa að komast í gegnum rýmið með því að fylla út alls konar eyðublöð og svo blikka rauð ljós ef þau fylla blöðin út vitlaust? Nei, það væri ekki nógu skemmtilegt og í raun of realískt. Á hverjum degi dett ég ofan í skáldsögu eftir Kafka, þannig er það nú bara. En risaeðlan er á borðinu og skapar mikilvægt mótvægi við eyðublaðið.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Biðtími: ∞ í laufskrúði úr gallaefni

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 4. og 5. ágúst 2016

 

Kæra Kristín,

 

Takk enn og aftur fyrir bréfin þín. Ég er farin að bíða eftir því að haustið komi með sinni reglubundnu rútínu. Er alltaf að bíða eftir að hlutirnir breytist, að eitthvað gerist, eitthvað sem er í framtíðinni, seinna, bráðum, kannski.

Þegar ég skrifaði dagbók fjórtán ára var fyrsta dagbókarfærslan í byrjun ársins 1989. Þar er kostulegt að lesa hvernig ég þvældist á milli staða án árangurs því jólafríið var ennþá í gangi (sundlaugin lokuð o.s.frv.) og vinirnir út og suður. Þá voru símarnir fastir við veggi og maður þurfti að fara á staðinn til að sjá hvort viðburðurinn væri í gangi eða hvort vinkona væri heima og gæti hangið með manni. Páskafriín gátu stundum orðið strembin þegar vinirnir voru í ferðalögum. Ég man sérstaklega eftir einum páskum þar sem mér leið eins og ég væri eina barnið í bænum og ég ráfaði á milli staða, hringdi dyrabjöllum og dyrastafir stóðu fastir og enginn hreyfing inni í húsunum. Fór á hverjum degi sama hringinn á milli húsa í veikri von um að núna væri einhver kominn heim. Ég hefði svo sem getað farið heim að hlusta á gula útvarpið mitt sem útvarpaði bæði rás 2 og bylgjunni, stundum sat ég við skrifborð og hlustaði á lítið gult útvarp, en ég hef greinilega ekki nennt því þessa páska. Þetta útvarp var með þunnum, mjúkum vír sem þurfti að sveigja og beygja til að ná sambandi við rásirnar. Seinna átti ég kasettutæki með hörðu loftneti.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Dulvitund og dulkynjun mæla með engu

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

 

Uppsala, dagarnir fljúga

 

Kæra Kristín,

 

Já, dagarnir fljúga og núna er 28. júlí og þessir síðustu dagar mánaðarins renna meira og minna saman og ég spyr mig alla daga, oft á daga: ,,Tuttugasti og hvað er aftur í dag?” Ekki að talan skipti endilega miklu máli en við eigum það eflaust mörg sameiginlegt að þegar tölurnar hækka á almanakinu þá lækka þær á bankabókinni, og svo er talan á hitastiginu alltaf að breytast, best að miða allt við þá tölu. Mælingarárátta mannsins finnst mér bæði undursamleg og skopleg. Við mælum tíma og vegalengdir og þyngdir og ummál og hraða og allt mögulegt. Hið ómælanlega nær samt alltaf að smjúga undan þessum einingum öllum. Glottir og heldur sig handan við, fyrir aftan og framan og til hliðar. Núna helli ég í mig kaffi og gíra mig upp í stofnanarölt. Þarf að fara á skrifstofu (skatturinn sko) til að mega fara í bankann til að borga fyrir það sem ég sæki um að skrifstofan geri fyrir mig og þegar ég er búin að borga get ég farið aftur á skrifstofuna með kvittunina og þá er hægt að setja umsóknarferlið af stað, held ég. Galdurinn liggur í því að gera rétta hluti í réttri röð. En ég var að tala um hið ómælanlega og fór svo út í skattinn en það er tenging þarna á milli. Til að undirbúa þessa skattaheimsókn skrifaði ég um daginn á blað bankaupplýsingar með rauðum penna. Síðan sat þetta blað hjá mér við tölvuna og seinna hlustaði ég á tónlist sem hreyfði við mér (Amy Winehouse (Love is a Losing Game) og Adele (Set Fire to the Rain) til að vera nákvæm) og þá hripaði ég á sama blaðið rauðum stöfum: Tónlist og ljóð fitla og daðra við dulvitundina. Andrúmsloft. Í tónlistinni er eitthvað ómælanlegt, sterk áhrif sem maður getur ekki útskýrt því hvernig útskýrir maður andrúmsloft í listaverkum? Hvernig útskýrir maður hugboð, andrúmsloft, grun sem er hálf hugsun, óáþreyfanlega áferð og liti og hreyfingu? Kraftinn sem myndast þegar fullkomnlega frumleg hugsun fæðist? Þegar tveimur ólíkum þáttum slær saman og þeir mynda rafmagn, renna huganum í hugrenningatengslum yfir á aðra braut? Þarna var ég sem sagt komin með á sama blaðinu bankaupplýsingar fyrir skattinn og pælingar um tónlist og ljóð og dulvitund. Ég þurfti að taka blaðið með mér í einn banka og þá voru góð ráð dýr. Átti ég að hafa dulvitundarpælinguna með á blaðinu eða rífa á milli? Hvað ef ég þyrfti að útskýra pælinguna fyrir bankastarsmanni? Ætti ég þá að segja: ,,Well, you see both music and poetry flirt with the subconscious. Atmosphere is there and can’t be described. Can I open an account for money and atmosphere?” Ég ákvað að rífa á milli, leyfa þessum tveimur textum að fara í sitt hvora áttina. Þessa stundina er ég að uppgötva að þegar ég skrifa á blað mikilvæga hluti eins og bankanúmer og innkaupalista þá er línan alltaf lárétt en þegar ég hripa svona ómálga pælingu þá er línan á ská, hvorki lóðrétt né lárétt.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Í landamæralausum heimi tökum við myndir og vöskum upp

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 14. júlí 2016

 

Kæra Kristín,

Takk fyrir þínar fögru og ljóðrænu fatalýsingar. Ég vil byrja á því að svara spurningum þínum en þessa dagana spranga ég mest um á eldgömlum hlaupaskóm sem eru með slitinn sóla en sandalarnir mínir eru fastir held ég í Hamstad. Tollurinn var að hrökkva í gírinn í dag þegar ég sendi þeim staðfestingu á nýrri kennitölu og þá mun brettið sem ég sendi yfir hafið ná loksins til mín með tilheyrandi góssi. Þá fæ ég loksins sandalana og get þá spókað mig um á þeim. Ég átti engar stuttbuxur þegar ég kom hingað en fjárfesti í þægilegum munstruðum buxum með vösum og hlýrabol í stíl, keypti líka mosagrænar stuttbuxur úr gallaefni. Ég hef þegar sent til þín mynd af munstrinu fagra og það hjálpar þér vonandi við teikninguna.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Kveðja yfir hafið: Uppsala ~ New York

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, Svíþjóð 2. júlí 2016

Sæl og blessuð Kristín,

Hér er raki í loftinu og hitinn hærri en ég á að venjast. Líkamskerfið þarf að venjast þessu og líka tónlistinni í því tungumáli sem hér er talað. Tíminn hefur flogið áfram og það að taka saman dót og pakka því í kassa yfirtók líf mitt í allt of marga daga. Mikið er ég fegin að vera komin út úr þeirri orku. Núna er ég í því hlutverki að vera utanveltu og utangátta og reyni að aðlagast og villast ekki. Á eftir að læra á strætókerfið, að komast á milli staða og fylla út flókin eyðublöð. Þetta kemur samt í gusum, ólíkum gusum með ólíkri orku. Ein gusan kemur í kjölfar annarrar en það er gott, gusurnar þoka manni á milli staða, milli orkukerfa eða eitthvað svoleiðis. Núna þarf ég að rjúka, þarf að kaupa þvottaefni og annað dótarí. Held áfram seinna 🙂

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Hvað getum við lagt til svo heimurinn batni?

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

6. júní 2016

Kæra Kristín

 

Síðan ég skrifaði þér síðast hefur heimurinn breytt um lit, úr brúngráu yfir í grænt. Gul blóm spretta fram og líka blóm í öðrum litum. Lúpínan er að opnast en Melgresið dokar við þar til síðar í sumar. Ég ólst ekki upp í kringum rósarunna og nellikur heldur rofabörð og melgresi, mosa og blóðberg. Var meira í kringum sand en mold en elska samt moldina meira. Mér þykir vænt um Melgresið á einhvern undarlegan hátt. Kannski af því það dafnar seint, stráin eru full af sætum vökva og góð á bragðið, það vex á svörtum söndum og oft nálægt sjó. Í námunda við Melgresi er yfirleitt ilmur af fjöru og sjó. Já, ég elska moldina og lyktina af henni, moldin er frumstæð og hrá. Blaut, þung mold ber í sér kjarna, möguleika á lífi og sprettu. Moldin tekur við öllu sem hrörnar og deyr og umbreytir í græna sprettu. Moldin biður ekki um neitt nema kannski smá vatn til að þetta græna komist upp í ljósið en það er líka allt og sumt. Moldinni finnst ekkert verra ef varir sem eru ýmist blautar eða þurrar hvísla til hennar orðum um hvað sem er, hvísla og klappa mold með fingrum sem eru ýmist þurrir, klístraðir eða blautir.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

„Rændu mér, segir einhver við einhvern á vorregndegi“

Spjallþráður 10 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

19. apríl 2016

Kæri pennavinur,

Vorrigningar í stórum borgum búa til dularfulla stemmingu hjá manni, hjá börnum og köttum, öllum, og páfagaukum eins og mér. Ofan á flauelsmjúkum blöðum blómanna í marglita fötunum í hillurekkunum hjá blómasalanum skríða regndropar eins og ormar og kuðunga sig í snúð, renna niður eftir dollunum, niður á stétt. Af plastskerminum fyrir ofan drýpur. Meðfram kantsteininum buna lækir. Bílar aka hjá, hjólbarðarnir svissa í pollunum og vatnið hendist á pils, skó, skálmar – fólks sem bíður eftir að komast yfir götuna. Öllum sem eru ungir finnst heimurinn nýr. Öllum sem eru gamlir fá staðfestingu á því að heimurinn verður alltaf nýr og einnig þeir sjálfir, að ártal breytir ekki öllu. Fólk fer á leyndarfundi – við sjálft sig – við aðra – við regnið, eitthvað. Ef hættir að rigna í stundarbil þornar regnið hraðar en í síðasta mánuði. Vá, hvað allt þornar hratt. Og aftur krumpa skýin slæðuna, niður steypist meira steypiregn. Í dag er svoleiðis dagur.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Iljar í sokkamyrkri og tréklossum

Spjallþráður 9 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

9.4.2016

Kæra Kristín

Nú stofna ég spjallþráð númer níu á níunda degi aprílmánaðar. Úthaldið og seiglan eru svo mikilvæg en allt í einu fór ég að beina sjónum að því að fáir lesa bréfin okkar. Og þá fór ég að fá þær gloríur að þetta væri nú bara til einskis, að við værum að taka pláss sem okkur bæri ekki, að við værum að kvaka út í tómið. En svo komst ég hringinn og vil halda áfram. Höfundar mega ekki láta það hvort einhver les eða ekki stjórna skrifum sínum. Hvatinn þarf að koma innan frá. Það er líka eðlilegt að orkan sveiflist upp og niður og þá skrifa ég stundum í andleysi og svo á öðrum tímum í andagift. Æ, veistu ég elska þetta orð ,,andagift” – hef ekki kíkt í orðsifjabókina en er með þá prívat kenningu að þarna sé orðið ,,gift” úr dönsku sem merkir eitur, eitur andans eða eitur fyrir andann. Andagiftin ber með sér bæði líf og tortímingu, andinn tekur inn eitthvað sem stækkar hann og þá getur hann sprungið ef skammturinn er of stór. Þess vegna þurfa andstæð element að verka á okkur stöðugt, til að dempa skammtana sem sækja að, innblástur og útblástur og fráblástur og sandblástur og plástur.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Skiptum um ham og lærum af geitinni höltu!

Spjallþráður 8 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á: 

 

5.4.2016

Kæra Kristín,

Mér er heitt í hamsi eins og hamsatólg í potti. Vonandi ert þú hins vegar sallaróleg með teppi og te að teikna myndir af blómum. Ekki láta draga þig út í þessa hamslausu hamsatólg. Ég þarf aðeins að blása en ætla síðan að segja þér frá draumdýri næturinnar (þetta er orðin framhaldssagan um draumdýrið dularfulla). Þetta eru undarlegir dagar og við erum á þröskuldi nýrra tíma (vonandi) og þjóðin er að segja hug sinn og kallar á breytingar sem eru í vændum (vonandi). Þjóðin kallar á berskjöldum, einlægni og styrkinn í mýktinni. Við viljum ekki lengur sterka leiðtoga sem sýna aldrei svipbrigði og eru alltaf með allt á hreinu. Við viljum mennskuna og henni fylgja mistök og sá leiðtogi er ekki til sem ekki gerir mistök á einhverjum tímapunkti því við viljum ekki leiðtoga sem eru vélmenni. Sá ummæli frá hægrimanni (sérðu hvernig stafirnir ,,hrægami” felur sig í orðinu) sem spurði síðan hvenær það væri orðinn glæpur að eiga peninga á Íslandi. Ég spyr: Hvenær varð það glæpur á Íslandi að vera fátækur, öryrki, sjúklingur, barn, gamalmenni, verkamaður, læknir, námsmaður og listamaður? Hvenær varð það dyggð á Íslandi að fela, ljúga, svíkja (kosningaloforð til dæmis), þræta, spinna atburðarrás, flýja, græða, skjóta undan, græðagræðagræða, eyða, kaupa, selja, kaupa, selja, eyða, græða? Vandinn er stærri en einhverjir SDG og BB og fleiri nöfn og fólk því þetta snýst um gildi og siðferðisþrek.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Draumapantanir og úttekt á tísku vikunnar

Spjallþráður 7 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á: 

 

30. mars 2016

Kæra Kristín

Þakka þér fyrir síðasta bréf. Nú er ég loksins að detta í bréfagírinn en mér finnst hálf furðulegt að ávarpa þig ,,kæra Kristín” því mér finnst þú ekki heita bara Kristín heldur Kristín Ómarsdóttir. Hefurðu tekið eftir því hvað má sjá mörg skemmtileg orð út úr nafninu þínu? Til dæmi króm, kóma, rós, sómi, kína, krít og svo framvegis. Síðasta bréf þitt hefur heldur betur hrist upp í dulvitund minni. Takk fyrir að spyrja mig út í draumdýrið mitt. Það var fyrst þegar spurningin kom frá þér sem ég áttaði mig á því að mig dreymir aldrei dýr. Mig dreymir alltaf fullt af fólki, oftast fólk sem ég hef aldrei séð áður en þekki í draumunum og er inni í alls konar húsum að leysa verkefni. En aldrei dreymir mig dýr. Ég veit hreinlega ekki hvert er draumdýrið mitt og er búin að hugsa mikið um það undanfarna daga og niðurstaðan er sú að ef ég ætti að velja mér dýr (kannski er það samt dýrið sem velur mann) þá væri það annað hvort kisa eða fugl. Ég elska sjálfstæði og þokka kisunnar en líka yfirsýn og lendingar fuglanna, já helst vildi ég vera fugl, kannski Himbrimi. Heyrðu nú geri ég tilraun og býð hér með dýrinu mínu að birtast í draumi næstu nætur!! Svo læt ég þig vita hvort það hafi komið.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

K(ó)rónur, auðsöfnun og bréfkorn til Frans páfa

Spjallþráður 6 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

23. mars 2016

Kæra Kristín!

Vonandi fer kvefið að yfirgefa þig með sínum fléttuflækjum svo hugsanirnar fái að renna áfram eins og slegið hár, glansandi slétt og slegið hár. Nei, ekki fara að læra hagfræði en þú getur fléttað henni saman við textahugmyndirnar þínar og komið með ferska sýn á allt heila dollaraklabbið eins og þér einni er lagið. Þú ættir að skrifa leiðbeiningar fyrir fjármálafyrirtæki með eigin myndskreytingum. Dollararnir drottna, dollararnir drottna yfir eyjaskeggjum og meginslandsskeggjum og skeggleysingjum og hryggleysingjum líka. Rétt í þessu var ég að uppgötva hvað orðin ,,kóróna” og ,,króna” eru lík, maður tekur bara fyrra ó-ið úr kórónunni og þá er maður kominn með krónupening, váh, þetta býður upp á freudíska eða júngíska eða kristevíska greiningu á sálarkimum krónuþjóðarinnar. Mig grunar að það leynist krónusegull í pungum því þangað fara svo margar krónur, kannski eru krónur hópsálir með hjarðhegðunarblæti eins og mannfólkið flest.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Nokkrar hugleiðingar um buxnaklaufar, hormóna og Fridu Kahlo

Spjallþráður 5 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

14.3.2016

Sæl, mín kæra!

Takk fyrir bréfið og bréfin öll. Það er lúmsk þerapía fólgin í því að skrifa bréf og skrifast á við pennavinkonu. Ég ætla núna að gera tilraun til að greina í hverju þerapían er fólgin: 1. Ávarp: að segja öðrum frá er hollt og gott. 2. Samtalið: bréfaskrif eru vísir að samtali sem fær andrúm og tíma. Bréfinu er hægt að breyta allt þar til það er sent og þá hefst biðin og engin leið að vita hvað viðtakandinn er lengi að lesa og svo svara. 3. Frásögnin: Þörfin fyrir að segja öðrum frá, vera heyrð og séð, er mjög djúpstæð og örugglega ein af grundvallarþörfum manneskjunnar. Rithöfundar og listamenn almennt hafa þessa þörf í miklum mæli mundi ég halda. 4. Man ekki hvað númer fjögur gæti verið (eins og í laginu með Violent Femmes en þar var það nr. 8, þekkirðu það?) 5. Eitthvað orð eða hugtak sem er nafnorð í eintölu karlkyni sem er síðan útskýrt á röklegan hátt. Fyrirgefðu, þetta fór út í einhverja vitleysu. En sem sagt ég hef komist að þessari niðurstöðu (svo ég haldi mig við rökhugsunina): Rétt eins og læknar ávísa lyfseðlum, hreyfiseðlum og vonandi líka ávísun á ljóðabókalestur þá ættu læknar að ávísa bréfaskrifum og gefa nafn og heimilisfang á nýjum pennavini og segja ,,Skrifaðu bréf. Segðu þetta allt í bréfi!” Já, þetta gæti haft góð áhrif á heilsufar þjóðarinnar.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Svimandi kompukláði

Spjallþráður 4 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

9. mars 2016

Sæl, mín kæra!

Nú er orðið langt síðan ég skrifaði þér síðast en ég hélt í útlegð inn í sautjándu öldina. Hægt og bítandi ætla ég að halda lengra og lengra inn í hana og reyna að skilja 400 ára hugsun. Reglulega stökkva spurningar fram og pota í mig með laumulegu hvísli og svona hljóma þær: ,,Til hvers í ósköpunum að vera að þessu streði? Getur maður yfirleitt sagt eitthvað um eitthvað? Er þetta til einhvers gagns? Er skynsamlegt að steypa sér í skuldir til að eltast við grúskdrauma?” En svo laumast vorgeislasólin um með nýjan ilm í lofti og þá seytla tilhlökkun og gleði inn í kerfið. Æ, takk fyrir að setja ljóðabókina Vonarlandið eftir Wislawa Szymborska (ætti maður að beygja nafnið og segja Wislöwu Szyborsku?)í bréfið þitt en ég held að nafnið á þessari bók sé í kompunni minni því vinur minn einn mælti með henni fyrir margt löngu. Notar þú svona kompu eða nótissubók? Ég er alltaf með eina litla hjá mér en stundum snerti ég hana ekki svo mánuðum skiptir og svo er eins og grípi mig einhver svimandi kompukláði og þá er ég stöðugt að grípa til hennar og hripa niður ómerkilegar og merkilegar athugasemdir. Ef mig vantar hugmyndir þá er stundum nóg að fletta í gegn og rekast á punkta sem hafa gleymst en rifjast upp. Kannastu við þessa tilfinningu, þetta andartak þegar maður man aftur eitthvað sem var farið? Ég skrifa oft bara til þess að sjá við þessari hakkavél sem hausinn á mér er því hann hendir út óæskilegu dóti. Æ, nú rann ég yfir á fésbókina og lét ginna mig í leik sem sýnir mér myndirnar yfir bestu mómentin mín. Ég held að fjársjóður fésbókarinnar liggi núna í öllu magninu, öllum minningunum og myndunum sem við getum ekki raðað saman sjálf heldur fáum leiki og tillögur frá forriturum úti í heimi til að raða saman og rifja upp. Hvað ætli fésbókin sjúgi mikið úr minnisforðanum mínum á hverjum degi? Ég á engan minnisvaraforða (nema kompunótissubækurnar séu slíkar) og það gerist eitthvað athyglisvert í heilanum þegar ég dett inn á fésbókina, einhver seiður sem erfitt er að slökkva á og taka augun af. Þetta er dáleiðsla! Nú er ég búin að slökkva á bókinni til að geta opnað aðra, sagnirnar að kveikja og slökkva og opna og loka eru hliðstæðar en samt ekki, þær geta tengst en þessi hugmynd er ekki nógu opin til að hún kveiki í mér löngun til að halda lengra inn í hana svo ég loka og slekk hér með, eða slekk og loka, í þeirri röð. Fyrir nokkrum dögum var ég að segja kunningjum mínum frá þessum skrifum okkar og að í raun þekktumst við harla lítið þegar við byrjuðum að skrifast á. Þau voru mjög hissa og flissuðu síðan. Þetta er fullkomin leið til að kynnast manneskju og nú ætlum við að smita aðra og fá aðra til að kynnast í gegnum bréfaskrif. Bréfabyltingin er hafin!!

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Blóm í vasa og fluga á visku

Spjallþráður 3 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

 

29. febrúar 2016

Sæl mín kæra,

Takk fyrir siglinguna sem varð til í bréfinu þínu. Tekurðu eftir vorinu sem lúrir í loftinu? Það er farið að birta svo skart að mig sundlar og í dag er aukadagur á dagatalinu og því ber að fagna með enn fleiri kaffibollum en áður. Ég er aftur farin að taka inn hörfræolíu og finn mun á mér, allt verður mýkra í lífinu ef olíurnar fá að flæða um æðar. Já, þú spurðir um borgarsálfræðinginn. Nei, hann hefur ekki haft samband og kallað mig í stólinn, væri gaman að fá formlegt bréf um stólasessjón. Reyndar hitti ég stundum aðra sálfræðingu til að dempa áfallastreitu og sjálfsefa og rækta sjálfsmildi (þetta er svona orð sem hefur lent í mýkingarefni). Sálfræðingan er klappstýra, hún hefur fulla trú á mér þó ég hafi það ekki alltaf. Svo hitti ég líka markþjálfa reglulega. Ó bój, ó bój, ég þekki svo marga sem fá hroll þegar talað er um markþjálfa og nú afhjúpa ég mig en sú sem ég hitti virkar eins og fimmföld sálfræðing, sjötíu háskólasjúkrahús. Við förum í göngutúr meðfram sjónum og hún nær með fallegri nærveru sinni og spurningum að hjálpa mér að finna þræði til að draga út úr mér, rekja mig upp og sauma mig saman aftur. Taka ákvarðanir í trylltu hugrekki, risastóru hugrekki, láta vaða og þora. Ég get nefnilega verið sjálfri mér svo vond að ég þarf að búa til öryggisnet í kringum mig. Vernda mig gegn sjálfri mér. Þarf að hemja boxarann innra með mér, niðurrifsraddirnar sem rífa mig á hol. Þær eru stundum svo sannfærandi.

Lesa meira


Skrifa athugasemd

Tryllt tungl, kannski-árátta og vissjónsessjón

Spjallþráður 2 – Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir halda áfram skrifast á:

 

Sæl mín kæra!

Þá höfum við látið framkalla myndirnar okkar og sýnt öllum þær sem kæra sig um að skoða. Það getur verið ótrúlega mikil togstreita í þessu að vilja bæði sýna sig og fela á sama tíma, ég man þú minntist á þetta einu sinni í sjónvarpsviðtali og ég þóttist kannast við þessa tilfinningu. Samt hafði ég ekki tekið eftir henni áður en þegar þú nefndir þetta þá rann upp fyrir mér ljós. Um þetta snýst öll sköpun: að renna upp ljósum, draga gardínurnar frá augum sem vita ekki að gardínur byrgja sýn, nú eða draga nýjar gardínur fyrir sem gefa nýja skynjun. Allaveganna, draga gardínur (fyrir eða frá, hægt eða hratt), um það snýst þetta allt. Við ættum kannski að setja upp myndlistarsýningu þar sem gardínur dragast lárétt eða ljóðrétt (hmm, ég get aldrei skrifað lóðrétt rétt, ljóðið brýst þar inn) fyrir glugga eða spegla eða myndir eða kannski glugga þar sem sjá má spegilmynd af mynd.

Lesa meira