Pétur Gunnarsson skrifar:
Sagt er að aðeins 4% af efni alheims sé sýnilegt, afgangurinn er hulduefni plús orka tómsins sem mun vera hvorki meira né minna en hreyfiafl alls sköpunarverksins. Eins er um egó unga mannsins, mjög lítill hluti af því er sýnilegur, hið innra rúmar hann hulduefni og svarthol. Haustið ´66 hef ég samt afráðið að taka örlagaríkt skref inn á hinn opinbera vettvang. Ég ýtti upp glerhurð Morgunblaðshallarinnar. Vélarhljóð frá prentvélum á jarðhæð barst til eyrna inn í lyftuna á leið upp á þriðju hæð. Brosmild stúlka vísaði mér á skrifstofu þar sem ritstjóri Lesbókar, Sigurður A. Magnússon, sat með hárið í bylgjum upp frá háu enni, vangaskegg og hökutopp eins og grískur Pan. Jafnframt hárbeittum Lesbókarpistlum, var hann hnífskarpur leikdómari blaðsins. En tók mér af ljúfmennsku, meðtók ljóðið og sagði mér að hringja eftir helgi.
Um leið var eins og jörðin hægði á snúningi sínum, það var föstudagur og um kvöldið fór ég á Borgina og fékk mér að venju tvöfaldan asna. En að þessu sinni fann ég ekki nein hrif. Ég sló Stebba vin minn fyrir öðrum, en það sama gerðist, það gerðist ekki neitt. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég átt að verða þvoglumæltur og riða á fótum. Á heimleið lék ég mér að því að ganga eftir þráðbeinni línu gangstéttanna.
Kominn heim úr skóla á mánudeginum hóf ég að hringja í skiptiborðið á Mogganum. En Sigurður var ekki í húsi. Ekki heldur á hálftíma fresti. Á þriðjudeginum hafði ég skipt um skoðun og hætt við birtingu, vonaði að ljóðið fengi að lognast út af í skúffu ritstjórans. En á föstudeginum greip mig einhver hybris og nú var engu líkara en Sigurður hefði beðið við símann. Hann ætlaði að birta ljóðið.
Hvenær?
Núna!