Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands

Afmælisstelpan, haustið og tískan í Alþingishúsinu í viku 41

Skrifa athugasemd

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 24. september 2016

Jájájá! Kæra Kristín afmælisbarn,

Nú er runninn upp fæðingardagur þinn. Innilega til hamingju með tilveruna og lífið. Að hugsa sér að á þessum degi fyrir einhverjum árum síðan komst þú í heiminn, nakin og slímug og móttækileg fyrir áhrifum sem þú þróaðir yfir í líf þitt og skrif sem síðan urðu bækur. Núna er haustið komið og þá verður loftið svo ótrúlega ferskt og stökkt, það er eins og umbreytingin beri með sér tæra birtu og tilfinningu sem vekur bæði hroll (út af kuldanum) og mildi (út af hlýjunni sem stafar af birtunni). Ég velti því fyrir mér hvort fæðingin sé fyrsta sjokkið í lífinu. Að verða til og þróast í móðurkviði á sér stað í einhverju algleymi, hlýju og hröðum vexti (þar geta reyndar komið sjokk ef móðirin lendir í háska) og svo þarf barnið víst að fæðast og það hlýtur að vera mjög alvarlegt áfall að fara út í kulda og skerandi ljósið. Þá aðlagast húðin samt fljótt andrúmsloftinu og barnið samlagast móður eða umönnunaraðila. Svo gerist hið stórkostlega seinna, þegar barnið uppgötvar eigið sjálf og aðgreinir sig frá þessum eina umönnunaraðila (æ þetta er ekki nógu fallegt orð, finn ekki annað í augnablikinu). Ég-ið verður til og því fylgir mikill kraftur en líka átök og togstreita. Ég velti því fyrir mér hvort þessi ferli öll endirtaki sig aftur og aftur í gegnum lífið en undir öðrum formerkjum, dulbúin breyting í lífshlaupinu (ath. lífshlaup má líka skoða hlutlægt þannig að hlaupið sé svona dúandi hlaup sem maður borðar sjáðu til, þá er lífshlaupið seigfljótandi ástand). Ætli við séum ekki alltaf á einhvern hátt það fóstur sem við einu sinni vorum? Leitum í hlýja sefjun sem ber okkur áfram í fullkomnu öryggi. Þegar ég sofna á kvöldin set ég hendur í hálsakot eins og mig grunar að ég hafi gert þegar ég var fóstur. Hvernig fóstur ætli þú hafir verið?

Svo er líka merkilegt að hugsa til þess hvað við fæðumst í raun misgömul. Sumir fæðast ferskir og nýir og á meðan aðrir eru gamlar sálir frá byrjun. Vinkonur mínar segja að ég sé gömul sál og mér finnst eins og ég hafi verið hér áður, mér finnst eins og ég hafi verið hér oft áður en get ekki útskýrt það frekar, bara óljós tilfinning. Kannast þú við þetta? Svo kemur stundum fyrir að ég hitti fólk sem ég finn að mér er annað hvort ætlað að kynnast eða ég hafi þekkt áður, finn fyrir dýpinu í fasinu og allt sem er ósagt í ásjónunni eða fasinu (veit ekki hvort eða hvort ég geti lýst þessu) titrar létt (stundu létt og stundum þungt) eins og gárað vatn.

Nú þarf ég að halda út í daginn, stíga út í haustbirtuna, fara í leiðangur í bæinn til að finna tvær snúrur. Í lífi okkar er svo mikilvægt að réttu rafmagnssnúrurnar tengist á réttan hátt svo að ljósin kvikni, sambandið náist og allt verði gott. Vonandi finn ég þessa svörtu snáka í dag svo ég nái að tengja.

Hér kemur afmælislag til þín:

Þetta lag er úr magnaðri bíómynd sem heitir Ashes and Snow og er … já ólýsanleg. Ég mæli með að þú hækkir lagið í botn og dansir trylltan diskódans og þá skapast mótvægi og óbærileg tregagleði, spái því.

Eigðu yndislegan afmælisdag og burtséð frá öllum kertum, söngvum og gjöfum óska ég þér aðeins eins á þessum degi: UNDRUNAR!

Ciao,

Bjarney

~

Reykjavík í september 2016

Takk kæri pennavinur,

Takk fyrir afmælisóskirnar. Dagurinn var frábær. Ég fékk stærstu afmælisgjöfina sem ég hef fengið á ævi minni. Hún er umþaðbil 1 eða 2 rúmfermetrar. Ég veit ekki hvernig fóstur ég var, en mér finnst ég hafa fæðst mjög glöð, eiginlega æðislega glöð, þannig man ég fæðinguna. Fyrsta sem ég hugsaði: Vá, hér er gaman að vera. Vonandi deyr maður: þetta var æðislegt, takk! Eða hvað? Kannski má ekki skrifa eitthvað svona. Frida Kahlo skrifaði í dagbókina nokkru áður en hún dó: Hingað kem ég aldrei aftur. Ég man ekki setninguna orðrétt. Ég hef líka svona tilfinningu fyrir að hafa verið hér áður, einsog þú, kannski hittumst við, drukkum te á testofu, unnum á baðmullarakri, ég var leigubílsstjóri og keyrði þig eitt sinn milli hverfa, þú varst á leið úr einu bókasafni í annað í leit að bók og ég beið fyrir utan söfnin, horfði á fólkið sem kom út úr byggingunni og gekk inn í hana á meðan þú leitaðir að bókinni þar inni. Að lokum beið ég of lengi, þú hlýtur að hafa fundið bókina, ég keyrði burt og þá hafði dimmt, fólkið horfið af götunum og byrjað að rigna. Ég var klædd þjóðbúningadúkkufötum að keyra leigubíl, safn perlufesta hékk neðan úr baksýnisspeglinum. Gult nestisbox lá við hliðina á riti – e.t.v. trúarriti – ofan í farþegasætinu frammí, en þetta gerðist samt fyrir tíma skrefamælinga og eyðublaðatrúnaðarmannsins.

Ég ætla að sjá myndina Ashes and Snow. Takk fyrir ábendinguna og takk fyrir lagið.

Ég er að byrja að lesa bókina Einn af okkur, kollegi okkar sem ég ræddi við í síma benti mér á að lesa bókina, annar kollegi okkar sagðist í útvarpinu hafa lesið bókina í flugvél. Sá fyrrnefndi vill að bókin verði skyldulesning fyrir krakka á unglingastiginu í grunnskólunum. Ertu búin að lesa? Hlustaðirðu á þáttinn Bók vikunnar daginn eftir afmælið mitt? Þau voru að lesa Stúlkuna í skóginum eftir Vigdísi Grímsdóttur. Þetta var æðislegur þáttur, þau töluðu svo skemmtilega og venjulega – sem varð óvenjulegt – um bókina, bókina langar mig til að lesa aftur í fyrsta sinn, og aftur í annað sinn.

Ég vildi að allir væru aldir upp einsog stelpur – strákarnir fá stórmennskuheilkenni í vöggugjöf – ó, strákauppalendur, slakið á, plís, alið bara strákana ykkur upp einsog stelpurnar eru aldar upp, með enn þá meira dassi af auðmýkt! Þessa vöggugjöf getur enginn mannlegur máttur borið.

Afsakaðu, ég er ósofin, verð að hátta, meira síðar, þinn pennavinur

Nokkrum vikum seinna: Daginn eftir afmælið hennar Ráðu sama dag og friðarsúlan í Viðey er tendruð við hátíðlega athöfn, búin að sofa vel

Einu sinni var ég í Viðey þegar friðarsúlan var tendruð – en ég skil það nú ekki alveg afþví það var enn sumar þá: ágústkvöld en ekki október, og ég var að lesa upp með nokkrum skáldum og tónskáldum sem léku verk sín. Það er ofsalega gaman í Viðeyjarferjunni. Og eyjan er falleg, þar vex kúmenið í kúmenbrauðið. Ég fór á upplestur fyrir viku síðan, annars staðar en í Viðey, bara hérna rétt bakvið naflann á Reykjavík, mörg ljóðskáld lásu upp fyrir framan rautt leikhústjald. Úff, ég dýrka rauð leikhústjöld. Mörg ljóð hrifu. Og nú er þín ljóðabók að fara að koma út – ég hlakka til. Hvenær kemur hún út?

Hvað ætli maður eigi stundum margar handrita útgáfur af einu ljóði? 50?

Á skalanum 0 til 10 hversu auðvelt eða erfitt er að yrkja ljóð?

Ég spyr því eitt skáldið þetta kvöld sagði að það væri auðvelt að yrkja ljóð: maður skrifi upp það sem maður sér. Auðvitað deili ég á orð þess. En. Það er líka auðvelt að yrkja ljóð. Einsog Taó segir um verk mannsins – það skyldi ekki vera streð. Það er einsog þegar lækur rennur. Lækur rennur. Ljóð.

Kæri pennavinur, senn líður að kosningum. En áður en þingi lýkur verð ég að fá að teikna best klædda þingfólkið þessa þings og kjörtímabils. Hvernig á ég að snúa mér í því? Best að hringja í hana Ragnheiði okkar, hún á ráð.

Sálfræðingurinn, manstu, sem elti mig í vor, hefur horfið eitthvert – kannski í sumarfríi.

Ciao, k

~

Uppsala, 17. október 2016

Kæra Kristín,

Mikið hlakka ég til að sjá best klædda þingfólkið spretta úr þínum penna. Svo ég svari nú nokkrum af spurningum þínum þá kemur bókin mín út á morgun á þriðjudegi, held að þriðjudagar séu bara fínir fyrir ljóðabókaútgáfu. Vonandi verður þá hægt að nálgast hana í bókabúðum en sjálf hef ég fengið til mín eitt eintak sem ég er búin að kyssa og faðma í bak og fyrir. Syninum fannst kápan ljót og kýldi bókina en ég klappaði henni þá bara enn meira fyrir vikið. Það er mjög misjafnt hvað ég á margar handritaútgáfur af sama ljóðinu, en af sama bókahandritinu (þegar ég byrja að raða saman í bók) gætu einmitt verið 50 eintök ef ekki meira. Ég held að mælikvarðinn auðvelt/erfitt geti ekki átt við ljóð, held það sé einhver annar mælikvarði sem hefur ekki ennþá verið fundinn. Kannski aflstig eða þrýstingsmæling eða þess háttar. Oft þarf ég að snurfusa ljóð endalaust aftur og aftur og mörg þannig ljóð enda í ruslinu en svo eru önnur alveg undursamleg sem bara mæta fullmótuð. Það hefur komið fyrir að ég skrifa ljóð sem þarf ekkert að breyta og það er algjörlega magnað en mjög óalgengt, ekkert sem hægt er að stóla á. Einu sinni skrifaði ég ljóð og hugsaði: Þetta er komið, nú hef ég skilað ævistarfinu og get dáið sátt og sæl.

Hér í Uppsala kemur haustið hratt og myrkrið orðið allsráðandi um kl. 18 á daginn. Hér koma dagsbirtan og næturmyrkrið af meiri hraða en heima á Íslandi, kannski bara á 15 mínútum verður allt í einu bjart og allt í einu þreifandi myrkur. Haustlitirnir eru svo fagrir og svo margir. Rauður kemur sterkur inn þetta árið og það vekur hjá mér mikla gleði að mörg laufblöð og heilu trén verða rauð, dimmrauð jafnvel. Svo eru inni á milli tré sem eru ennþá græn. Í gær fór ég í strætisvagni framhjá trjáröð þar sem annað hvert tré var gult og annað hvert grænt. Svona mætir haustið af mikilli nákvæmni og velur tré og liti af natni. Nú þarf ég að stökkva á hjólið og sækja soninn í skólann en í gær fann hann fimm laufa smára og hann óskaði sér og hvíslaði óskina í lófann og svo pressuðum við rauð og gul blöð í bókinni Koparakur eftir Gyrði Elíasson en þá bók náði ég einmitt að lesa um helgina. Ég held að Koparakur sé fullkomin bók til að pressa laufblöð í.

Næsta dag, 18. október

Vaknaði fyrir allar aldir með ljóðsótt því sólin mín mætir í bókabúðir í dag. Því meira sem ég hugsa út í það þá er þessi sterka þörf til að skapa svo undarleg, þetta nær ekki nokkurri átt. Þetta er eins og hungur sem þarf að seðja, raunverulegt hungur og sköpunin er næringin, súrefnið. Ég á eftir að hlusta á þáttinn um Stúlkuna í skóginum. Ég las Vigdísi upp til agna þegar ég var um 15-20 ára og les hana enn. Mig grunar hins vegar að sá lestur sem átti sér stað frá 15-20 ára aldri hafi haft meiri áhrif en sá lestur sem fer fram núna, hafi mótað mig meira á einhvern undarlegan hátt. Það væri efni í mjög langt bréf að greina áhrifamáttinn. Að minnsta kosti tvö af ljóðunum í nýju bókinni minni voru samin samkvæmt skipun Vigdísar, ég fór á skrifnámskeið hjá henni og dró fyrirmæli upp úr hatti og setti saman ljóð. Stundum eru hattar besta uppspretta ljóða, að fylgja fyrirmælum og brjóta í leiðinni allar reglur.

Núna hlusta ég af miklu eldmóði á nýju plötuna með Bon Iver samkvæmt fyrirmælum Hrafnhildar vinkonu minnar (hún hefur svo gott nef fyrir öllu í veröldinni allt frá hnetusmjöri til litasamsetninga). Það mætti halda að ég væri í fullri vinnu og það mjög alvarlegri við að taka inn plötuna. Það tekur tíma að ná henni inn en þannig eru líka bestu plöturnar, þær sem þarf að hafa fyrir og svo festast þær og breyta og bæta heiminn í nokkrar mínútur eða um eitt stykki mannsaldur (eftiráskýringarnar munu segja til um það). Ég greini tilraunamennsku, brjálæði og líka gospel í lögunum og í gospelinu er sál, svona djúpsálargospel, já það er orðið sem ég leitaði að en er kannski aðeins of háleitt. Hér er eitt af lögunum góðu með sálardjúpi, í augnablikinu er þetta uppáhaldslagið en það á eftir að breytast, allt breytist, alltaf og stöðugt. Lagið nær epísku hámarki þegar hann segir orðið “butterflies” í falsettu, það gerist ekki betra og svo eru fallegar sveigjur í laglínunni, held það sé örugglega hægt að búa til skúlptúra út frá laglínum. Á eftir að skoða textann, það gerist alltaf löngu seinna og þá opnast ný vídd:

Hið háleita er ennþá á puttunum mínum þegar ég pikka á lyklaborðið. Náði í gær að klára texta frá 18. öld um hið háleita en þar leggur höfundur (Edmund Burke heitir hann víst) mesta áherslu á skynjun mannsins og hvernig hið háleita er sprottið af ótta, heilögum ótta og undrun. En í lokin kemst hann að þeirri niðurstöðu að hið háleita búi í tungumálinu því þar sé hægt að slá saman ólíkum myndum sem eru ferskar. Reyndar var þarna afar skemmtilegur kafli um það hvað sætleikinn í bragði, ásjónu og heyrn er góður og mikilvægur og róandi og ég kímdi og hugsaði um alla sykurandstöðu nútímans. Næst á dagskrá er að endurnýja kynnin af bók eftir konu (Marjorie Hope Nicolson) um fjalladýrð og fjalladrunga. Eins og þú sérð eru jólabækurnar í ár nokkuð sérstakar hjá mér. Sé fyrir mér bókina eftir Burke í jólabókarflóðinu í Bretlandi á 18. öld og hvernig Kiljan hefði fjallað um efnið og ýmist slátrað henni eða sleikt vegna sætleikans eða bæði og hvernig bókinni hefði tekist af ótrúlegri elju að forðast alla umræðu á fésbókinni en höfundur farið hamförum á twitter til að auka söluna sko. Mér finnst svo gott að setja ,,sko” aftast í setningar, sko-ið finnst mér hafa þrýstingslækkandi afl sko. Æ, það er útgáfudagur og þá fer maður á furðulegt flug og allar tilfinningar verða öfgafullar, á morgun er tími fyrir hugarró og skipulag, í dag er það óreiða og angistarfull gleði.

Komdu nú fljótt með teikningarnar, það verða bráðum kosningar og kjósendur eiga rétt á að vita hver tískuvitund þingmanna er. Fólk þarf að ræða þennan málaflokk svo það geti gengið upplýst og óbundið að kosningaborðinu. Í ár ætla ég ekki að kjósa, lestarmiðinn inn í Stokkhólm er of dýr.

Bestu bestu kveðjur,

Bjarney

~

Í Reykjavík, 20. október 2016

Kæri pennavinur,

Til hamingju með nýju bókina þína. Tungusól og nokkrir dagar í maí.

Þetta er æðislegur titill og ég öfunda þig af uppfinningunni, orðinu: tungusól. Hlakka mikið til að lesa. Bókin bætist nú við safn fyrri bóka eftir þig sem ég er einmitt með hérna við höndina.

Á næstsíðasta degi 145. löggjafarþings heimsótti ég Alþingishúsið. Úti var hvasst, það rigndi, kolómögulegt að fá bílastæði í miðbænum, kortin virkuðu ekki í stöðumælinn hjá Hjálpræðishershúsinu, það kom ekki að sök, nú, nú.

Inní þinghúsinu tók Þorfinnur hjá Framsóknarflokknum á móti mér en Guðjón Íðir hjá Pírötunum leiðbeindi mér fyrst inn í húsið. Rósa Björk hjá Vinstri grænum lá heima hjá sér í flensu og hafði líka ætlað að taka á móti mér. Þegar ég stóð við aðaldyrnar – sem ég vissi ekki að opnast ekki – benti Guðjón Íðir af svölunum í húsi hinum meginn við Austurvöll mér á það símleiðis hvernig ég skyldi ganga til hliðar við húsið og finna hurð. Þegar inn kom fylgdi Þorfinnur mér inn í herbergi flokks síns, þau sátu þar nokkur að vinnu, og síðan í Kringluna, í Kringlunni fékk ég að mynda þingfólk og starfsfólk sem gekk framhjá, öll tóku þau fallega á móti mér.

Mikið var um að vera – næstsíðasti dagurinn – matarhlé að hefjast, atkvæðagreiðsla stóð yfir í þingsalnum. Þorfinnur og Sigurbjörn, hjá Sjálfstæðisflokknum, settust niður. Við áttum notalega stund í skjóli atkvæðagreiðslunnar, töluðum um málningarsletturnar í Gálgahrauninu, þær sem Kjarval skildi eftir – brúsarnir hans voru þar lengi en eru horfnir. Þeir klæddust vinalegum fötum og eru inní flestum málefnunum sem kunna að koma upp í samræðum. Alþingishúsið er skemmtilegur vinnustaður. Húsið er fallegt að innan.

gudmundur-vika-41

Guðmundur starfar í Alþingishúsinu klæddur hrafnsvörtum einkennisbúningi. Stuttar ermarnar minna á skyrtur sem fólk klæðist við Miðjarðarhafið. Húsin hér á landi eru jafn heit og sumardagur og því er viðeigandi að stytta ermarnar. Búningurinn minnir á hrafninn sem fylgist líka vel með umhverfinu. Búningurinn segir manni líka – liturinn, áletrunin, ermarnar og samlitt bindið – að Ísland sé alvöruland á meðal alvörulanda en oft nær skáldskapurinn yfirhöndinni hér og maður gleymir sér, gleymir að Ísland er ekki saga eða ævintýri og smá plat. Munurinn á raun og sögu í samræðum sem fara fram á íslensku er oft ekki skýr og mikill sjarmi yfir óskýrleikanum. Inní í íslenska tungumálinu býr líka rík blíða, ljóðræna og draumórar. Kæri pennavinur um þetta hef ég lengi ætlað að skrifa þér: um eiginleika og skapferli íslenskunnar, bréfið skrifaði ég þér eitt sinn í huganum seint í fyrravetur þegar ég gekk að kvöldlagi úr austurbænum yfir Klambratún og vestureftir. Fráneygt og milt augnaráð Guðmundar kemur sér örugglega vel í starfi. Þetta er flottur búningur.  

johanna-maria-vika-41

Þingkonan Jóhanna María Sigmundsdóttir er best klæddi þingmaðurinn í 41. viku ársins. Hún settist á þing fyrir þremur árum og býður sig ekki fram í kosningunum nú. Hún er kúabóndi og mun setjast á skólabekk. Hógvær fatastíllinn sem inniheldur fleiri en eitt tímabil hrífur augu manns. Blússan sækir áhrif í hippastíl, fiðrildaeldflaugablóm mynstra blússuna, böndin úr hálsmálinu hanga lengi niður eftir pilsinu, pilsið hefur íhaldsaman front, eins ljósbeislitaðir háhælaskórnir, maður hverfur snöggvast til sjötta áratugarins, hugsar til Marilynar Monroe, nú er Marilyn Monroe komin með húðflúr ofan á hægri ristinni, þar má lesa setninguna með gamaldags rithönd:

Broken wings can´t stop me from flying.

Húðflúrið sjá þeir sem horfa vel og þó er Jóhanna María ekki að fela það.

lilja-rafney-vika-41

Þingkonan Lilja Rafney Magnúsdóttir er einnig best klæddi þingmaðurinn í 41. viku ársins. Hún settist á þing fyrir sjö árum og stendur í kosningabaráttunni, hafði fyrr um morguninn heimsótt Fjölbrautarskólann á Akranesi, alltaf gaman að hitta krakka. Klæðaburðurinn er kátur einsog hún virkar sjálf, þægilegur, fínn og hversdagslegur, hún er skrautlega yfirveguð. Blússan er mynstruð eldgeislablómum. Buxurnar eru svartar og skórnir dökkfagurbrúnir með dularfjólubjarma. Þórunn Egilsdóttir þingkona sem er líka ein hinna best klæddu segir að þingmenn þurfi að klæðast fötum sem krumpist ekki því starfið krefjist ferðalaga. T.d. komi þingmaðurinn utan af landi ferðast hann á mánudagsmorgni mislangar vegalengdir á bíl inná eða útá flugvöll og upp í vél og hingað til borgarinnar. Þá leggur maður snemma af stað í ferðafötum og mætir í þinghúsið í sparifötum. Það vantar aðstöðu til fataskipta í þinghúsinu. Fólk verður að vera útsjónarsamt. Lilja Rafney er það.

willum-vika-41

Þingmaðurinn Willum Þór Þórsson er einnig best klæddi þingmaðurinn í 41. viku ársins. Hann settist á þing fyrir þremur árum og stendur í kosningabaráttunni. Klæðaburðurinn er hefðbundinn, jakkaföt sem eru við líði í heiminum núna, skyrtan og bindið falla einsog flís inn í samtímann,  eins belti í öðrum lit en fötin. En atgervið er engu líkt. Willum Þór er sérstök manneskja og skemmtileg sem klæðir sig í einkennisbúning samtímans; kannski eins gott að fela sig.

birgitta-vika-41

Þingkonan Birgitta Jónsdóttir er einnig best klæddi þingmaðurinn í 41. viku ársins. Hún settist á þing fyrir sjö árum og stendur í kosningabaráttunni. Hún er kollegi okkar og hefur sent frá sér margar bækur. Klæðaburður Birgittu er óhefðbundinn/hefðbundinn. Hún klæðist í svarta dragt sem hefur tímalausan arf og tilheyrir þó frekar fortíð en nútíð, en nostalgíuna er hvergi að finna því fas Birgittu er mjög framsýnt. En fatastíllinn merkir að hún hefur ekki gleymt fortíðinni en hyllir hana ekki einsog fána við fánastöng. Hún er skædd hinum þekktu Dr. Martins skóm og þeir sem að því er virðist fá sér einu sinni þannig skó geta ekki hætt að ganga á þeim. Þetta eru hefðbundnir skór alþjóðlegs borgarbúa. Innri skóhliðar prýða rauðar rósir: þetta eru kvenlegir klossar. Þeir hafa rennilás. Það þykir mér dálítið svindl en auðvitað er það til þæginda, leiðinlegt að vera að klöngrast í og úr stórum skóm. Undir dragtinni er hún í blússu úr kóngulóarefni og inní efninu sýna sig óræðir hnútar. Hún hefur eiturdökkt naglalakk og stóra hringi á fingrunum. Hárgreiðslan er einnig tímalaus, eins glæsileikinn.

ragnheidur-vika-41

Þingkonan Ragnheiður Ríkharðsdóttir er einnig best klæddi þingmaðuirnn í 41. viku ársins. Ragnheiður settist á þing fyrir níu árum, þetta var næstsíðasti dagurinn í vinnunni, hún býður sig ekki fram í kosningunum nú. Ég veit ekki hvað hún ætlar að gera en hún hefur verið kennari og skólastjóri og einu sinni heyrði ég skemmtilegt viðtal við hana í útvarpinu. Klæðaburðurinn er glæsilegur. Jakkinn – sem er ekki bara jakki – er í frísklegum lit, dökkapríkósu, langar perslufestir hanga niður eftir blússunni sem sækir áhrif til frjálslegs lífernis hinnar sjálfsöruggu veru sem nýtur lífsins án komplexa. Ég gæti trúað því að fólk fái þörf fyrir að segja Ragnheiði ævisöguna.

sigrun-vika-41

Sigrún hefur unnið sem þingvörður í eitt ár og kann vel við starfið. Traustið lýsir af henni, hún er gætin og yfirveguð. Ég hef ekkert að segja um búning þingvarða, sem er bæði blár og dökkur, en blátt hálsbindið skreytir mynd af alþingishúsinu og er til fyrirmyndar. Allir þingverðirnir sem ég hitti voru kátir og yndislegir. Til starfsins hefur valist mjög gott fólk.

Nú er 145. löggjafarþingi lokið og þingfólkið horfið til annarra starfa eða inn í kosningabaráttuna. Þingfólkið hefur þjónað landinu í rúm þrjú ár eins vel og hver er fær um. Það á þakkið skilið fyrir störfin, góðar óskir fylgi því. Ég þakka fyrir kærar móttökur í Alþingishúsinu.

Það er dálítið öðruvísi að fjalla um innitísku en útitísku. Ég hef hingað til sagt þér frá klæðaburði fólks sem ég hitti fyrir tilviljun úti á götu. Nú skiptast árstíðir, fólk tekur upp úlpurnar en húfurnar eru enn ekki komnar upp á kolla heimamanna, frekar á túristahausana. Það er enn hlýtt á heimalandinu þínu. Tískan boðar fjallalaga húfur með stórum dúski – og dúskurinn má ekki vera lítill – í alls konar lit og dúskurinn í öðrum. Enn hef ég bara séð túristastelpur með þessar húfur. Uppúr vetrarpokanum í gær – þar geymast ullasokkar, vettlingar, treflar – dró ég líktog upp úr pípuhatti – rauða alpahúfu sem ég erfði eftir mömmu mína. Hún gaf mér aðra þegar ég var fimmtán, ég gekk með hana í tíu ár, skrifaði fyrsta leikritið mitt með húfuna á hausnum, þá leit hún ekki lengur út einsog alpahúfa. Eitt sinn bjó ég í borg og gekk iðulega (ég hef aldrei notað orðið iðulega fyrr) framhjá búðarglugga með um það bil þrjátíu alpahúfum. Ég var stödd í alvöru alpahúfulandi þar sem menn gengu með alvöru alpahúfur og kröfðust frelsis en fengu ánauð og áratugamarglanga einræðisstjórn. Ég veit ekki hvert ég er að fara og þess vegna lýkur bréfinu hér. Í næsta bréfi verð ég búin að lesa nýju bókina þína. Bestu hamingjuóskir!

    , k

~

Skildu eftir svar / athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s