Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands

Kveðja yfir hafið: Uppsala ~ New York

Skrifa athugasemd

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, Svíþjóð 2. júlí 2016

Sæl og blessuð Kristín,

Hér er raki í loftinu og hitinn hærri en ég á að venjast. Líkamskerfið þarf að venjast þessu og líka tónlistinni í því tungumáli sem hér er talað. Tíminn hefur flogið áfram og það að taka saman dót og pakka því í kassa yfirtók líf mitt í allt of marga daga. Mikið er ég fegin að vera komin út úr þeirri orku. Núna er ég í því hlutverki að vera utanveltu og utangátta og reyni að aðlagast og villast ekki. Á eftir að læra á strætókerfið, að komast á milli staða og fylla út flókin eyðublöð. Þetta kemur samt í gusum, ólíkum gusum með ólíkri orku. Ein gusan kemur í kjölfar annarrar en það er gott, gusurnar þoka manni á milli staða, milli orkukerfa eða eitthvað svoleiðis. Núna þarf ég að rjúka, þarf að kaupa þvottaefni og annað dótarí. Held áfram seinna 🙂

Sami staður, 5. júlí 2016

Sæl enn og aftur Kristín,

Í dag kom svo mikil rigning að himnarnir opnuðust og sendu niður eldingardrunur. Ég tók strætó niður í bæ því tollinn vantaði plagg frá skattinum og ég arkaði í rigningaflóðinu eftir götunum til að komast í skattinn og redda plagginu. Þar eru allir voðalega elskulegir og hjálplegir. Þegar ég steig út frá skattinum hafði stytt upp og ég gekk eftir ánni og sólin braust fram. Sólin varð svo sterk að ég gleymdi því strax að ég var ennþá blaut í fæturna. Mér finnst alltaf jafn merkilegt hvað vötn og ár eru mikilvæg í bæjum og borgum. Við viljum helst sitja og hanga yfir vatni, í sól og blíðu og horfa á vatnið færast úr stað, fugla synda á þessu sama vatni og kafa og fljúga og vatnið færast af einum stað á annan. Eins og þú sérð hefur vatnið flætt yfir þennan dag og framundan er kvöldganga í sólinni. Vinur minn segir að í kvöld verði birtan bæði fersk og góð því kvöld-og morgunbirta séu best fyrir ljósmyndara og að allir litir verði tærir eftir regnhreinsun dagsins. Hér í nýja húsinu er ósköp rólegt, í kringum húsahverfið eru engi og skógar og á göngustígunum eru dökkbrúnir sniglar og líka ljósgrænir sem bera kuðung á bakinu. Ennþá hef ég ekki séð stærri dýr bregða fyrir en ég hef ekki ennþá haldið inn í skóginn en mig er farið að langa þangað. Ég skal segja þér frá því þegar ég sný aftur úr skóginum.

Ég er farin að hlakka svo til þess að heyra hvaða áreiti skellur á skynjun þinni þessa dagana. Þetta bréf er skrifað til að geta fengið bréf frá þér. Er vatn á þínum slóðum? Gleymirðu nokkuð að drekka nóg vatn?

Bestu vatnsstraumakveðjur,

Bjarney

~

New York, 6. júlí 2016

Sæl og blessuð Bjarney,

Takk fyrir bréfin. Velkomin í nýtt land og nýja íbúð. Hugsaði oft til þín þegar ég vissi að þú stóðst í flutningunum. Til hamingju með nýja tíð. Já, ég er nálægt vatni: í glugganum sé ég á og tvær brýr, það merlar á hafið, sólin er sterk, birtan falleg, birtan er mjög falleg í þessari borg: ljósmyndarar og kvikmyndatökumenn hafa nú aldeilis fagnað því og gera enn og alltaf. Í dag gengu konurnar með regnhlífar um Kínahverfið, margar leiddust, margar báru hatt, að kaupa inn, mat og dót, göturnar voru fullar af fólki.

Dáleidd fylgist ég með klæðaburðinum í þessar fínu og skemmtilegu borg sem svo margir kjósa að eiga heima í: á hverjum degi sé ég svo marga: best klæddu dömur og best klæddu herramenn, hendur mínar eru of fáar fyrir talninguna.

Það sem ég hrífst af er tilviljunin í klæðaburðinum og hvernig tilviljunin virðist setja saman flíkur, liti, mynstur, efni og efnisgerðir, á fallegan hátt. Nú dýrka ég tilviljunina í klæðaburði. Hér eru líka óteljandi margar búðir sem selja ódýr föt og það er samsetningur ódýrs fatnaðar sem titrar eins og fiðrildi fyrir augum mér. Svo bætast við sólgleraugu, beltin, skór, hattar, taska. Hér sé ég ýkta litir og alls konar og liti sem ég hef aldrei séð á buxum eða bol.

Gömul kona í safaríbleikum bol, eiturgrænum buxum og svörtum skóm heillaði mig. Þegar hún kvaddi og stormaði yfir götuna lyftist önnur buxnaskálminn og heiðgulir sokkarnir birtust. Við hittumst við götuljós. Hún er hrifin af íslenskum kvikmyndum sem hún hefur séð í skandinavíska húsinu, en hún er hætt að ferðast.

26. og 27. vika - 3 meiri litir

Best klædda dama borgarinnar í 26. viku.

Konan var að tala í síma í Kínahverfinu. Kvöldgjósturinn – það var klukkustund í sólarlag – hreyfði pilsið og skyrtuna. Fólk kom út, á leið til kvöldverðar. Hún var að tala við mömmu sína sem sagði henni að allt þyrfti ekki alltaf að gerast strax. Hún var ósammála mömmunni og einnig ég á sínum tíma, þegar við mamma mín áttum þetta samtal (ekkert víst ég segi satt).  Því miður er ég með takmarkað úrval af litum á ferðalaginu og blágræni liturinn og fölgræni liturinn í skyrtumunstrinu (mynstrinu, ég skrifa til skiptis með i og y)  kemur ekki vel út á myndinni – ég náði þeim ekki, mig vantar bláan vatnslit. Og skórnir hennar eru fjólubláir. Taktu eftir gula polkapunkta pilsinu. Gulur er liturinn í ár.

26. og 27. vika-2

 

 

 

 

 

Best klædda dama borgarinnar í 27. viku.

Konan var á leiðinni að horfa á flugeldasýninguna í tilefni þjóðhátíðarinnar og sem fram fór á Austurá. Hún auglýsir bleikt lemmóneid í frístundunum en vinnur á bókasafni við að raða bókum og lesa upphátt fyrir börn og búa til prógröm fyrir þau. Kápan er með stuttum ermum og minnir á kápu í leikriti eftir ungu reiðu bresku leikskáldin frá fyrri tíð. Kápan er úr laus ofinni ull, hún keypti hana á dollar af fólki sem er að flytja og seldi dót út á gangstétt. Taktu eftir: sjaldan sjáum við fólk berfætt í sandölum á landinu okkar. Ég keypti mér sandala í dag. Næstum því alveg eins sandala og mamma gaf mér þegar ég var sextán ára og þess vegna: gat ég ekki annað. Það var útsala. Í kvöld hugsa ég um þessa sandala sem mamma gaf mér, um þegar ég stóð í eldhúsi í unglingapartýi og horfði niður á tærnar, í ljósgrænum buxum.

Hér fær maður ofsalega gott að borða: mochi, macha, dim sum, mochi, kimchi, bibimbopp, moustaka, sake í boxi á 500 kall, önd sem er grænmeti, svín sem er grænmeti, alls konar te, í morgun borðaði ég í fyrsta sinn drekaávöxtinn og durian ávöxtinn, lychee ávöxtinn hafði ég bragðað áður, hann er mjög vítamín og míneralríkur. Maturinn sem ég hef borðað í ferðinni fæst ekki á landinu okkar. Heldurðu að það sé vegna þess að landið vantar fólk frá öllum heimshlutum? Í þessari borg býr allur heimurinn. Gæti verið að Ísland tími ekki að verða fyrir áhrifum?

Þetta er skrítin spurning.

Ekki veit ég hvað Ísland vill.

Reglurnar sem Útlendingastofnun starfar eftir hirða ekki um náungakærleik, fólk sem er í nauðum statt, fólk sem á hvergi heima.

Hvert fara menn ef Ísland byrjaði að sökkva í sæ?

Ekki það að við ættum að kaupa okkur gúddvill, nei, nei, nei, öryggi okkar gefur okkur styrk til að hjálpa öðrum án þess að krefjast endurgreiðslu. Ástin starfar ekki eftir bókhaldsreglum um debet og kredit. Skilyrðislaus fellur hún aldrei úr gildi.

Það verður, það á, að breyta reglunum sem Útlendingastofnun skýlir sig á bakvið.

Notar maður reglur til að komast hjá því að bjarga fólki úr brennandi húsi?

Notar maðurinn reglur til að komast hjá því að bjarga fólki frá drukknun?

Afsakaðu drukknandi frú, reglurnar í landinu mínu heimila mér ekki að bjarga þér þótt ég gjarnan vildi stökkva á eftir þér og synda með þig heim til mín, og veita þér húsaskjól þar sem þú myndir þorna og hvílast eftir volkið og borða nægju þína af matnum mínum sem ég á mikið nóg af, landar mínir margir eru vel aldir, komdu velkomin heim til mín –

Ísland er stórt land, það verður opna landið fyrir flóttafólki.

Á  meðan á landinu – og ég segi núna ekki: landinu okkar, það tilheyrir fámennum forréttindi hópi – er ríkjandi sú hugsun að á útlendingum ber manni að græða og græða vel verður þetta land (okkar) varasamt, varhugavert, hættulegt öðrum og öllum.

Þegar ein manneskja er meidd meiðist allur heimurinn.

Einsog forsetaframbjóðendurnir sögðu allir sem einn.

Best að flýta mér að ná mér í glas af fersku vatni – takk fyrir að minna mig á – drakk of lítið vatn í dag og hitinn krafðist og varúðartilkynningar í fjölmiðlum auglýstu mikla vatnsdrykkju, sett voru upp kæliskýli útum alla borg.

Fyrir nokkrum dögum fór ég í jóga í Central Park.

Kæri pennavinur, segðu mér (næstum því) allt.

Bestu vatnsstraumakveðjur,

k

~

Uppsala, 7. júlí 2016

Kæra Kristín,

Það er ánægjulegt að heyra að þú ert í námunda við vatn. Takk fyrir að taka tískuna yfir á nýjar fagurfræðilega hæðir með úttekt þinni og myndum. Hér á slóðum finn ég hvað meðalhiti sem er um tíu gráðum hærri en heima hefur mikið að segja. Allt í einu varð nauðsynlegt að kaupa stuttbuxur og ég spranga berleggjuð um allt. Kálfar mínir og sköflungar eru kátir en líka hissa yfir nýjum víðáttum.

Hefur þú fylgst með fótboltakeppninni undanfarið? Ég náði að horfa á alla íslensku leikina nema reyndar þann frægar þegar Ísland sigraði England. Þá var ég að bóna og flytja og heyrði mörkin enduróma um Vesturbæinn. Fór á írskan pöbb í Uppsala til að horfa á leikinn við Frakka en þegar ég sá sokkana sem Frakkarnir klæddust þá vissi ég hvernig leikurinn færi. Þeir voru í eldrauðum sokkum. Það er svo mikill kraftur í eldrauðum sokkum að það gefur fullkomna yfirburði fyrirfram. Núna eru Frakkar að keppa við Þjóðverja og aftur í sömu sokkum og þá vitum við hvernig sá leikur fer. Reyndar eru Þjóðverjar í svörtum sokkum sem skapar gott mótvægi. Frakkar verða EM sigurvegarar þökk sé sokkunum. Sumir leikir hafa verið þannig að ég hef saknað einhverrar snilli, svona léttleikandi mörkum með hjólhestaspyrnum af miðjum velli (var að skoða mörkin hans Zlatans Ibrahimovic og þar eru eitthvað svona touch, svona tilfinning fyrir léttleikandi snilli). Væri til í að sjá fleiri svona takta eins og á þessu myndbandi:

 

 

Keppnin var rétt að byrja þegar ég uppgötvaði að ef við erum með leik sem fer 1-1 og fyrra markið er skorað fyrir hálfleik og hitt eftir hálfleik þá fær annað markið tvo bolta í sig á meðan hitt fær ekkert. Það er örugglega frekar fúlt að vera markið sem fær engan bolta heilan leik á meðan þetta beint á móti fær tvö. Það er margt skemmtilegt við þetta allt saman en stundum fer ég að hugsa um hvað við erum föst í ægivaldi karldýrkunarinnar. Karldýrin og kvendýrin dýrka karldýrin og ausa peningum í karldýrin því þau eru svo sterk og úthaldsgóð. En ég segi og skrifa, Frakkar eru í rauðum sokkum og munu því sigra. Þessi íþrótt snýst ekki um réttlæti heldur meira heppni og hver kemst upp með mesta ruddaskapinn án þess að það fattist, mér hugnast ekki slíkt. Svo er líka margt annað gott og fallegt sem má finna í íþróttinni. Hver er þín skoðun á knattspyrnu?

Í allan dag er ég búin að reyna að skrifa ritdóm um ljóðabók og orðin standa á sér, eins og endalaust hik í hálsinum. Á einhvern hátt þykir mér óþolandi þessi valdastelling sem maður setur sig í að þykjast hafa eitthvað að segja um eitthvað, að geta lagt dóm á skáldskap annarra. Á sama tíma lít ég á mig sem dyggan samfélagsþjón sem þarf að varpa ljósi á skáldskapinn, benda í átt að honum og nýta lestrarreynslu sína til að hnoða saman texta um texta. Jú, það er mikilvægt. Nú ætla ég að kíkja á leikinn og svo er ég orðin háð sjónvarpsþáttaseríunni Breaking Bad og þarf að halda áfram í þeim ruddaheimi. Fékk í gær áskrif að Netflix og þarf að hemja mig í því nammilandi.

Með brjálæðislegum sumarhitakveðjum,

Bjarney

~

 

New York borg, 12. júlí 2016

 

Kæra Bjarney,

 

Afsakaðu seinaganginn sem ég kalla ekki leti, og þó, ég hef fundið meira en tylft dömu og herra sem ég saman hef valið best klædda fólkið í 28. viku, og einhver þeirra tilheyra viku 27. Myndavélasíminn er fullur, það komast ekki fleiri fyrir í minninu og orsök seinagangsins er þessi: mig vantaði bláan og frestaði þess vegna að skrifa bréfið. Nú hef ég keypt blátt og kemst í að teikna fólkið og lita. Þig kýs ég best klæddu dömu Uppsalaborgar í 28. viku; sé þig í anda í nýjum stuttbuxum á leið í skattinn. Mun teikna mynd af þér þar sem þú gengur hjá vatni og kannski tvær: á hinni klæðist þú rauðum sokkum.

Takk fyrir fótboltaskýringarnar, þeim trúi ég, og þvi sem þú segir um rauða sokka. Þó liturinn hafi ekki gagnast Rauðsokkuhreyfingunni til langframa þá knúðu sokkarnir upphafið. Á ég að kaupa rauða sokka fyrir haustið? Hvernig voru sokkar sigurvegaranna frá Portúgal á litinn?

Og takk fyrir myndbandið af mörkunum: ég dýrka núna Zlatan Ibrahimovic.

Alls staðar upphefja menn karlmenn, einsog þú bendir á.

Þú spyrð, nei, ég hef enga skoðun á knattspyrnu. Fjölskylda mín og líka einn besti vinur minn eru einlægir aðdáandendur knattspyrnunnar. Hann vinur minn segir að fótbolti sé góður því í fótbolta drepa karlmenn ekki hvern annan. Iðagrænn völlurinn er friðarteigur. Best sé að breyta ofbeldi í fótbolta. Liturinn á fótboltavöllum er reyndar mjög fallegur og sem betur fer búum við ekki í landi þar sem blóð hefur flotið á íþróttaleikvöngum. Einu sinni fóru við nokkrir krakkar í fótbolta og við frænka mín stóðum saman í markinu. Mér finnst leitt að ég geti aldrei tekið keppnir alvarlega og heldur ekki leikreglur, mér myndi ekki sárna þó tveir markverðir stilltu sér upp í markinu og verðu það.

Í dag á hitinn að fara hátt, úti geng ég með hatt.

Undanfarnar vikur hef ég verið óvenju heimsk – í júní tek ég mér venjulega frí frá djúpum hugsunum en júlímánuður leitar þangað á ný, í dýptina. Ég er að velta fyrir mér að fara að stunda daglega hugleiðslu en vitna nú í vin minn sem sagði við dóttur sína í votta viðurvist: Dóttir góð, ég hugleiði í svefni.

Í nótt fór ég á hugleiðslunámskeið og ég er aðeins minna heimsk í dag en í gær.

Það er alltaf gaman að setjast að á nýjum stað. Njóttu hvers smáatriðis á meðan þú kemur þér fyrir: kaupa tvö viskustykki, skæri, gult sjampó. Og gangi þér vel að skrifa og líka ritdóma – ritdómar sem rithöfundar skrifa eru kúl.

Ég er búin að kynnast mörgum hverfum á síðustu vikum: slömmi, ríku hvítu hverfi, arabísku, afríkönsku, listamanna, latínó, kínversku. Nú hefst tískuþátturinn.

28. vika best klædda daman í lit

 

Ein best klædda dama borgarinnar í 28. viku.

Konan sat í hjólastól og ræddi við vinkonur sem sátu á bátabláum bekk. Þær voru glaðar. Konan var höfðingleg, stolt og ekki hress með ljósmyndarann, teikningin er því mikið ritskoðuð, einsog þú sérð. Ég hitti þær að morgni dags, hitinn var þegar orðinn þykkur. Konurnar sátu undir barðarstóru tré. Ég mun senda nágrannanum teikningu í pósti.

 

 

 

 

 

27. vika best klædda parið í lit

 

 

Best klædda par viku 27 og glaðasta New York borgar.

Við vinkona mín leituðum að dumplingastað sem hún hafði áður farið á og spurðum Oleg sem stóð fyrir utan óákveðinn matsölustað. Það var laugardagskvöld, sólin færi brátt að setjast, vika var liðin síðan ég sá konuna í gula polkadot pilsinu, allir voru svangir og nýkomnir úr baði. Oleg var kátur og viðræðugóður en hann vissi ekkert um dumplingastaði. Útúr húsinu gekk Erin með mat í poka, hún var nákvæmlega jafn kát og Oleg. Þau stilltu sér upp fyrir myndatökuna þegar ég sagði þeim að þau hefðu verið kosin glaðasta og best klædda par borgarinnar þessa vikuna. Af þeim stafaði hlýja og væntumþykja sem fyllti okkur gleði sem nóg var þó af fyrir. Við ræddum um dumplingastaði áður en við kvöddumst og við vinkona mín óhóflega glaðar héldum áfram leitinni að kvöldverðinum.

28. vika í lit

 

 

Ein best klædda dama New York borgar í 28. viku.

Hún er nafnlaus nágranni. Kotið var orðið tómt eftir helgina svo hún fór snemma út á mánudagsmorgni að kaupa í matinn. Hér sjáum við hana á heimleiðinni. Hún gekk gætilegum skrefum, horfði vel fram fyrir sig, klædd í þennan mintugræna lit sem maður sér oft inni á sjúkrahúsum í bíómyndum sem gerast eiga á sjötta áratugnum. Þessi sami litur var á innri veggjum gamla skólahúss framhaldsskólans sem ég gekk í. Ég minntist á þennan lit í fyrra bréfi: þegar ég var sextán átti ég mintugrænar buxur sem mamma gaf mér. Krakkarnir sem ég umgekkst klæddust ekki svona lituðum buxum. Mig langar í buxurnar. Klaufinn var með hnöppum. Þetta vor (ég var reyndar fimmtán) gaf mamma mér í síðasta sinn ný föt á degi sem var ekki afmæli eða jól.

Gaf mamma þín þér föt þegar þú varst unglingur? Hvenær hætti hún að gefa þér föt?

(Ó, ég plata, minnist nú kjólsins sem hún kom með handa mér úr Lundúnarferðinni! Bláa prjónakjólsins!)

Steingráir sandalar sem konan skæddist fara undur vel við mintugrænu dragtina. Konan var vel og fallega máluð, hárið liðað hagaði sér einsog kóróna, gleraugun glæsileg, naglalakkið vel málað á neglurnar, hún var jafn fullkomin og blóm. Eru menn minna fullkomnari en blóm? Þú veist svarið.

Með brjálæðislegum sumarhitakveðjum,

þín k

ps

spurning:

segðu mér kæri pennavinur: ertu í sandölum, strigaskóm…, hvernig eru stuttbuxurnar á litinn, bolur, skyrta?

~

Skildu eftir svar / athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s