Höfundurinn

vefrit félaga í Rithöfundasambandi Íslands

Biðtími: ∞ í laufskrúði úr gallaefni

Skrifa athugasemd

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Uppsala, 4. og 5. ágúst 2016

 

Kæra Kristín,

 

Takk enn og aftur fyrir bréfin þín. Ég er farin að bíða eftir því að haustið komi með sinni reglubundnu rútínu. Er alltaf að bíða eftir að hlutirnir breytist, að eitthvað gerist, eitthvað sem er í framtíðinni, seinna, bráðum, kannski.

Þegar ég skrifaði dagbók fjórtán ára var fyrsta dagbókarfærslan í byrjun ársins 1989. Þar er kostulegt að lesa hvernig ég þvældist á milli staða án árangurs því jólafríið var ennþá í gangi (sundlaugin lokuð o.s.frv.) og vinirnir út og suður. Þá voru símarnir fastir við veggi og maður þurfti að fara á staðinn til að sjá hvort viðburðurinn væri í gangi eða hvort vinkona væri heima og gæti hangið með manni. Páskafriín gátu stundum orðið strembin þegar vinirnir voru í ferðalögum. Ég man sérstaklega eftir einum páskum þar sem mér leið eins og ég væri eina barnið í bænum og ég ráfaði á milli staða, hringdi dyrabjöllum og dyrastafir stóðu fastir og enginn hreyfing inni í húsunum. Fór á hverjum degi sama hringinn á milli húsa í veikri von um að núna væri einhver kominn heim. Ég hefði svo sem getað farið heim að hlusta á gula útvarpið mitt sem útvarpaði bæði rás 2 og bylgjunni, stundum sat ég við skrifborð og hlustaði á lítið gult útvarp, en ég hef greinilega ekki nennt því þessa páska. Þetta útvarp var með þunnum, mjúkum vír sem þurfti að sveigja og beygja til að ná sambandi við rásirnar. Seinna átti ég kasettutæki með hörðu loftneti.

Er tími loftnetanna horfinn? Munu börn framtíðarinnar ekki þurfa að færa til loftnet til að ná sambandi, heyra skruðning í tæki og svo lágan óm sem hreinsast og verður tær þegar loftnetið hefur komist í réttar skorður? Stundum lenti ég í því að snúa takka í gegnum allar tíðnir án þess að ná sambandi, eilífur skruðningur. Sumir dagar eru svona skruðningur á meðan aðrir eru tær hljómur og stöðugt samband. Flestir eru blanda af þessu tvennu.

Þegar ég sit og skrifa sé ég út um gluggann risastór tré sem bærast í vindi. Trén hér í Svíþjóð eru óbærilega stór og mörg. Þau eru loftnet. Mörg eru svo gömul og stór og mögnuð að ég hreinlega verð að snerta þau, leggja lófa á börk. Núna er til dæmis vindur uppi í trjákrónunum en logn niðri á jörðinni. Kvöldsólin dvelur oft á laufunum efst og nær ekki niður til jarðar. Þetta virðast tveir ólíkir heimar: laufskrúðið efst og jörðin. Ég veit varla rómantískara orð en laufskrúð. Best væri ef ég gengi um og tæki myndir af flottustu trjám vikunnar og teiknaði, gerði úttekt á þeim og gæfi skýrslu. Já, það er góð hugmynd. Hér í sveitinni rekst ég á fleiri tré en mannfólk, hér eru trén fleiri en mannfólkið og þau eru eflaust fleiri en maurarnir.

Ég veit það hljómar illa og jafnvel hrokafullt en ég tek eftir því að Svíjar eru góðir í tvennu: að nota símann sinn og henda sígarettustubbum. Í strætó í gær kom ég með þá kenningu að ef Svíjar væru ekki að hjóla þá væru þeir í símanum. Við börnin fórum að telja og sannreyna kenninguna. Það grotnaði fljótt undan kenningunni en hún gekk upp í nokkrar mínútur og þá var gaman. Annars eru sígarettustubbar vannýtt auðlind, það á eftir að finna eitthvert gagn fyrir þá. Til dæmis væri hægt að planta fræi í filterinn eða eitthvað annað þannig að stubbarnir fái annan tilgang eftir sogkossana alla. Stubbarnir koma sjaldan fyrir í skáldverkum og þeirra tími mun koma, ég treysti því, kannski munu þeir í raun bjarga heiminum þegar fram í sækir, maður veit aldrei hvað framtíðin ber í filterstubb sínum. Þetta hljómar eins og ég sitji allan daginn við gluggann í ró og næði en í raun eru krakkar hér allt í kring, ýmist inni eða úti eða að kalla á mig og biðja um athygli og ást. Ég stend reglulega upp og sinni ástinni, þessi texti yrði allt annar ef ég væri ekki stöðugt að standa upp og setjast niður, að mæna út um gluggann til að athuga með krakkaskarann, að skipuleggja næstu máltíð og sumarfrísdagskrána sem var þétt í fyrstu en gisnar stöðugt eftir því sem lengra líður á fríið. Nú þarf ég að rjúka í ástina, það er aðkallandi.

 

Bestu sumarkveðjur,

Bjarney

 

~

 

Reykjavík, 12. ágúst, 2016

 

Kæra Bjarney,

 

Afsakaðu biðina, ég svara seint afþví ég brá mér í burtu, úr Reykjavík til að vinna annars staðar og með fólki. Það var tilbreyting frá því að vera hér, þar sem ég vinn og bý og vinn ein. Svo hef ég verið að einbeita mér að einu í einu, afþví ég ólst upp á stað þar sem fólk hefur vitið í löppunum, einsog mér var sagt þegar ég var lítil, þess vegna á ég erfitt með að gera margt í einu – þversagnakennt? – já, en ef vitið er í löppunum þá á maðurinn erfitt með að múltítaska – ennnn – ég er oft að múltítaska og svo hef ég oftar verið að semja en endurskrifa í sumar og safna í hlöðurnar, nýjum hugmyndum, byggingum, hljómum, en nú þarf ég að einbeita mér að því að koma frá mér handriti. Þetta er ónúmeruð atrenna, ég vann líka í handritinu í vor og í fyrrahluta sumars og fór nokkra umganga í fyrra og hitteðfyrra. Og nú er ég hér, í því, þessu umrædda handriti og bregð mér frá og hingað: inní bréfaskriftirnar.

Hugur minn hefur verið svoldið að herma eftir flugunum og fuglunum, án fyrirætlunar þó, og hefur ekki almennilega sett sig í fótspor snigils eða rólegs dádýrs sem sest undir fallegt orð (laufskrúðið) á meðan rignir – lengi – og raðar saman vandlega ljóðunum sínum í ljóðabók.

Já, biðin i heiminum hefur eitthvað smávegis breyst, eða hvað? Fjarlægðin er á mörgum sviðum = 0 sekúnda. En var á þessum sömu sviðum áður fyrr = margir dagar, vikur. Bréfdúfurnar fljúga núorðið á ljóshraða. Í morgun fékk ég bréf frá stað öðrum megin á hnettinum en það var sent rétt áður en ég vaknaði, skrifað þegar bréfritari er að fara að kaupa í kvöldmatinn, samtímis og lokadraumnum hér lýkur. Sendingatími = núll sekúndur. Þar rigndi. Ég fékk sendar myndir af (samtíma) rigningu sem er fjörtíu sinnum stríðari en rigningin sem féll hér úr skýjunum í gær. Nákvæmlega einsog skvett úr fötu. Skvettið s é s t. Skvettið sást, sést eða sást eða sést en horfið kannski núna af staðnum.

Þegar ég var lítil beið ég mikið, sat á ganginum í skólanum og beið eftir að systir mín kæmi út úr skólastofu og fylgdi henni svo heim, beið við glugga, horfði endalaust út, á fjall sem myrkrið tók um kvöldið og skilaði að morgni, ég glápti á myrkrið og á sjóndeildarhringinn. Ég sat í tröppugangi lögðum gráu teppi og beið þess ég yrði sótt og stóð ekki upp á meðan, þurfti ekki að fara á klósettið, kannski liðu nítíu mínútur, hlustaði á konu taka til, þvo upp, tala í símann, ég var róleg, tíminn var rólegur, foreldrar mínir voru stundvísir, mamma kenndi mér að mæta snemma á strætóstöðina og bíða. Þar horfði maður á unglingana, tíminn næstum því stóð í stað því það sást ekki berum augum hvað unglingarnir stækkuðu.

Ég fór aldrei í danstíma, á hestanámskeið, í skátana, í KFUM og K – það var bannað – ekki í sunnudagsskóla, foreldrar mínir voru trúlausir, ekki í fimleika, ekki í handbolta, ekki að selja happdrættismiða, en ég eignaðist svona lítið útvarp í blindsvörtum leðurkjól með götum á brjóstinu þar sem var hátalarinn þegar ég var tíu ára, það náði tveimur stöðvum. Frænka mín átti gult kasettutæki.

Í næsta bréfi birti ég umfjöllun um best klædda fólk tímabilsins. Því miður var ég að vinna á fjarlægum stað og missti af Hinsegin dögunum í Reykjavík, hef því enga skýrslu að gefa af klæðaburðinum þaðan. Ég bið kynvilluna afsökunar á fjarveru minni og reyni að bæta henni upp einhvern veginn í fátækt minni síðar.

Að vera móðir er göfugast alls. Það er = að vera guð og gyðja.

 

Bestu sumarkveðjur, k

 

P.s.

Komst að því að lesbíubók sem ég skrifaði og kom út árið 2012 var ekki til sölu í bókabúðunum á Hinsegin dögunum en Eymundsson búðirnar höfðu stillt upp mjög fínum og flottum hommabókastandi. Z ástarsaga eftir Vigdísi Grímsdóttur var heldur ekki til. Og heldur ekki LGBT bækur Guðbergs Bergssonar. Heldur ekki ljóðabækur eftir Ingunni Snædal, Evu Rún Snorradóttur, Elías Knörr og fleiri. Að vísu er úttekt mín ekki vísindalega framkvæmd. En það vantar bókmenntalega bókabúð í heimaborg okkar. Hér er laust viðskiptatækifæri: bókabúð sem selur fullt af bókum.

 

P.s. n.2:

Það tekur jafn langan tíma að lesa og áður fyrr. En að skrifa?

 

~

 

Uppsala, 15. ágúst 2016

 

Kæra Kristín (varúð þetta bréf er fullt af angist og væmni),

 

Það er í mér einhver ólund og eflaust hefur það sitt að segja að það er mánudagsmorgunn og enn einu sinni er hann mættur fyrir utan gluggann hjá mér sláttumaðurinn sem slær grasið samviskusamlega alla mánudagsmorgna. Mér þykir þetta algjör óþarfi að slá gras sem hefur varla fengið andrúm til að vaxa. Hins vegar grunar mig að ég sé að varpa ólund minni yfir á þennan mann (ég hef ekki einu sinni haft fyrir því að skoða hvernig hann lítur út) því að sönn orsök ólundarinnar er skortur á skrifum. Þessi maður hefur getað sinnt starfi sínu í allt sumar en ég hef ekki komist í vinnuna mína neitt að ráði núna í meira en fjórar vikur vegna sumarfrísins. Það er að sjálfsögðu dásamlegt að vera í fríi, slappa af og njóta og brjóta upp hversdaginn. En núna þrái ég hversdaga þar sem ég næ að sinna vinnunni, næ að skrifa meira og einbeita mér. Að ég nái að setjast niður og verið nokkuð viss um að næsta klukkutímann eða tvo verði ég ekki trufluð. Mér hefur sem sagt tekist illa upp með að vakna á undan börnunum og vinna, þau eru farin að taka upp á því að vakna um leið og ég eða þá að ég nái að vinna í mesta lagi hálftíma og þá byrjar fjörið. Á sama tíma finnst mér ég ekki hafa rétt á því að kvarta. En ég kvarta samt en veit að þetta mun lagast á næstunni. Ég veit líka að ég er ekki ein um að líða svona. Núna eru þúsundir þúsunda að snúa aftur til vinnu eftir sumarfríin og þá hleðst upp svipuð spenna. Þetta er líka til marks um að ég elska vinnuna mína. Ég bæði elska vinnuna mína og elska börnin mín og samveruna með þeim og til að ég þrífist á báðum sviðum þarf ég eflaust meira jafnvægi á milli þessara tveggja póla sem eru kannski ekki pólar heldur gjafir. Ég er líka þreytt því ég tók upp á því að vakna um miðja nótt og liggja andvaka og ástæður þess eru eflaust margþættar. Hins vegar veit ég að um leið og ég er búin að skrifa þetta bréf mun mér líða betur. Mér líður alltaf svo vel eftir að hafa skrifað bréf því þá hef ég farið inn í elementið mitt, þá hef ég náð að gera það sem mér er ætlað að gera, þá hef ég gefið mér tíma og rúm til að blómstra. Þá hef ég tekið skrefið í áttina að því að vera í essssinu mínu. (Þetta er væmni parturinn en væmni er nauðsynleg og hana má ekki vanmeta).

Ég lofaði þér teikningu og hér kemur tré vikunnar:
2016-08-14 16.25.35
Tréð í viku 33 sá ég í viku 27 og þótti það svo tilkomumikið að ég tók mynd af því. Síðan setti ég blað á tréborð og teiknaði mynd og litaði með trélitum. Tré skapar tré. Stofninn er þykkur og ég reyndi að taka utan um hann en náði ekki allan hringinn. Greinarnir vaxa í allar áttir eins og trjágreinum er tamt að gera. Það sem vakti athygli mína var að hafið sem myndaðist af greinum og laufum var svo mikið og þungt að greinarnir svignuðu og námu á nokkrum stöðum næstum við jörðu. Þannig stóð tréð nánast eins og regnhlíf og ég reyndi að ímynda mér allt það lífkerfi sem fylgir einu svona tré. Það er statt í Sunnersta ekki svo langt frá vatninu Mälaren og inni í miðri íbúðabyggð. Taktu eftir því á myndinni hvernig myndast sérstakur skuggi á mótunum þegar grein fer út úr stofni. Vöxtur skapar skugga. Þetta tré ber með sér þokka sem er bæði þungur og breiður og líka laufléttur. Þyngdin kemur neðan frá og leitar upp þar sem léttleikinn tekur við í kræklóttum greinum og laufum sem leita aftur til jarðarinnar rétt eins og stofninn en rétt nær að snerta grasið. Þunginn er forsenda léttleikans. Starfsemin inni í stofninum er ekki augljós en hægt að ímynda sér vatnsbúskap, kvoðu og alls konar gúmmelaði.

Ég hef ekkert vit á trjátegundum en reyndi að gúggla og gæti trúað að þetta sé Elmur en er þó ekki viss. Skipta tegundir máli þegar kemur að trjám? Jú, kannki ef maður vill vita útbreiðslu og helstu einkenni. Hér í Uppsala er sko Carl von Linné ennþá aðalstjarnan með tilheyrandi söfnum, görðum og göngustígum svo að mér ber hálfpartin skilda að segja að líklegast sé þarna á ferðinni Ulmus minor. Reyndar er Ulmus með marga undirflokka og þar dúkkar meðal annars upp Bonsai tréð fræga. Samkvæmt upplýsingum sem ég fann verður laufblöðin gul í haust. Nú langar mig helst að finna tréð aftur, taka lauf og kanna þetta allt nánar. En það breytir því ekki að tré vikunnar er tilkomumikið, þungt og létt. Ulmusinn þessi er sérlega smekkvís á að velja sér rólegan og góðan stað til að dvelja á. Það hvernig Ulmusinn breiðir úr krónum sínum virðist handahófskennt en í því er samt dulin regla sem kallast reglubundið handahóf.

Nú er liðið á daginn og ég er allt önnur en í morgun. Fór á bókasafn og svo í sund. Ég held að allsnægtirnar verði ekki meiri en ég þarf bara að setjast á hjól og hjóla í 5 mínútur og þá er ég komin í litla kringlu þar sem eru veitingastaðir, búðir og svo bókasafn og æðisleg sundlaug. Hér eru bóksafn og sundlaug hlið við hlið, það ætti að setja þessa samsetningu í reglugerðir. Mér er að takast að auka ást barnanna minna á bókasöfnum og þá er til einhvers unnið. Bókasöfn eru svo fallegt fyrirbæri og sundlaugar líka. Í þessari sundlaug er sauna inn af sturtunni og þar höngum við löngum stundum. Svo er innilaug sem opnar nýja möguleika (reyndar kynntist ég örlítið innilaugarmenningunni á Vestfjörðum) sem þýðir að ég get setið á bakkanum, drukkið kaffi og lesið bók á meðan börnin ærslast í lauginni.

Á sundlaugarbakkanum las ég í bókinni Síðasta ástarjátningin eftir Dag Hjartarson en ég átti alltaf eftir að klára hana og geri það vonandi á næstu dögum. Um daginn fór ég í sund með Open City eftir Teju Cole. Alveg hreint ágætis bók um flandur manns í New York og Brussel og tímaplön sem skarast og mætast. Á einum stað ræðir aðalpersónan Júlíus við eldri konu á veitingastað í Brussel um vin sinn sem er innflytjandi og reiður yfir þeim glerveggjum sem hann mætir. Þá svarar konan af svo mikilli visku að það fór beint, lóðbeint, inn í mig. Hún svaraði og sagði: “Look, I know this type, she said, these young men who go around as if the world is an offense to them. It is dangerous. For people to feel that they alone have suffered, it is very dangerous. Having such a degree of resentment is a recipe for trouble.” Það var aðallega þetta atriði um að halda að maður burðist einn með sársauka sinn sem mér þótti gott að sjá. Seinna segir hún: “… but if you’re too loyal to your own suffering, you forget that others suffer, too.” (bls. 143). Bókin er blanda af innra tali aðalpersónunnar og svo því sem persónan gerir og lýsingar á fólkinu sem hann hittir – hmmm kannski er ég að lýsa næstum öllum skáldsögum. Pikkaði líka upp þessar pælingar hér um bænina, þótti þær fallegar: “Prayer was, I had long settled in my mind, no kind of promise, no device for getting what one wanted out of life; it was the mere practice of presence, that was all, a therapy of being present, of giving a name to the heart’s desires, the fully formed ones, the as yet formless ones.” (bls. 215). Sund er svo gott, það róar taugarnar og mér líður alltaf eins og ég hafi átt hamskipti eftir sund og svefninn verður ljúfur. Hef oft sagt að best væri að búa á stað sem er bæði nálægt sundlaug og bókasafni og er að átta mig á því að sá draumur hefur nú þegar ræst.

Núna er dóttirin að lesa og sonurinn úti að spila fótbolta með krökkum úr hverfinu, þess vegna næ ég að setjast niður og skrifa. Man hér um árið þegar ég var að paufast við að skrifa í laumi þá drakk ég í mig allt sem kom út af skáldsögum og las öll viðtöl við alla höfunda. Þá leitaði ég uppi hvað höfundar hefðu að segja um það að samtvinna vinnuna við barnauppeldi og yfirleitt fann ég ekkert um það. Þess vegna varð ég mjög ánægð þegar ég sá einu sinni viðtal við Kristínu Marju Baldursdóttur þar sem hún lýsir því  minnir mig hvernig hún skrifaði Mávahlátur með tvær ungar dætur og þurfti að skrifa seint á kvöldin (vonandi man ég þetta rétt, eflaust hefur þetta skolast allt til hjá mér). Börnin mín hafa svo sterk áhrif á mig að ég væri annar höfundur ef ég væri ekki samferða þeim. Allar bækurnar sem mér finnst ég ætti að vera búin að skrifa mun ég bara skrifa seinna. Einu sinni hlustaði ég á Ólaf Egil Egilsson leikara lýsa því hvernig hann setti upp leikritið Fólkið í kjallaranum (sýnt í Borgarleikhúsinu fyrir mörgum árum út frá samnefndri bók eftir Auði Jónsdóttur). Þá höfðu þau ekki eins marga leikara og þau vildu og urðu að finna lausnir. Lausnirnar sem þau fundu varð síðan aðalstyrkur sýningarinnar. Hann talaði um það að nýta takmarkanirnar til sköpunar, til að búa til eitthvað nýtt. Láta takmarkanirnar ekki draga mann niður heldur finna lausn – svo reynist stundum sú lausn mesta snilldin í verkinu. Eftir þetta tal hans gekk ég um á grænu trjáskýi í nokkrar vikur því ég ákvað að yfirfæra þetta á hversdagslífið mitt. Gott að rifja þetta upp núna.

Megi hversdagslíf þitt verða fullt af trjám á alls konar formi! Megi skiptast á angist og von, angist og von, aspir og birki, aspir og birki, hindranir og lausnir, hindranir og lausnir!

 

Adios,

Bjarney

 

~

 

Ónúmeraður ágústdagur

 

Kæra Bjarney,

 

Takk fyrir bréfið. Takk fyrir tréð. Ég gleypti hvert orð og á meðan ég las stóð tíminn í stað og samt breyttist ég. Mér fannst ég vera nýbúin að læra að lesa – einsog ég væri að lesa í fyrsta skipti – takk fyrir þau áhrif sem bréfið þitt færði. Nú er ég með fjörfisk, akkúrat núna. Og það skiptast á angist og von, hjá mér, angist og von, og skiptingarnar eru ansi hraðskreiðar, úff. Vonandi gleymi ég ekki orðum konunnar í bókinni eftir Telju Cole. Sjálfhverfa mín hefur náð áður óþekktum hæðum á þessu ári, mér er orðið nóg um, ég hugleiði að leita andlegrar aðstoðar gegn egóismanum í íhugun og björgunarstarfi. Ég hefði valið Telju Cole best klædda herramann bókmenntahátíðarinnar í fyrra hefðum við verið byrjaðar að skrifast á, mig langar til að teikna hann, vonandi kemur hann aftur á bókmenntahátíðina á næsta ári. Best að lesa flótlega bók eftir hann.

Ég segi þér ekki hvaða bók ég les núna því segi ég frá því hætti ég að lesa en það hefur gerst of oft til að ég taki sjensinn. Áður en ég byrjaði á þessari las ég bókina um stelpuna í lestinni. Hefurðu lesið hana? Mér fannst persónurnar sjónvarpsþáttarlegar, sá þær og umhverfið sjónvarpsþáttarlega fyrir mér. Heimsmyndin virkar glerkassaleg. En bókin fjallar um heimilisofbeldi og ég segi ekki meir. En þú mátt gjarnan segja mér eins mikið af söguþráðum bóka einsog þig lystir, það spillir aldrei lestri hjá mér að hafa heyrt næstum allt innihaldið. Ó boj, hvað er innihald bókar eiginlega? Persónurnar í ónefndu bókinni eru skáldsögulegar á hefbundinn gamaldags hátt, smá íronískar og hnyttnar, en höfundurinn er ansi lélegur í að móta kvenpersónur, en góður í að lýsa fötunum þeirra og karlanna og lýsir á eftirminnilegan hátt ungum karlkyns líkama sem er ber að ofan. Úff, ber að ofan piltur! Úff! Bjútí! Best að hafa svoleiðis lýsingu á þrjátíu síðna fresti í næstu skáldsögu sem næst kemur út. Þá ætla ég líka að hafa auglýsingar á tuttugu síðna fresti og auglýsa alltaf ríkisstjórnir hvers tíma sem ég skrifa fyrir. Eiginlega eru persónurnar í gamaldagsbókinni ekki margvíðar en þykjast vera það. Er hægt að búa til margvíða eða -hliða kúbíska persónu? Já, já.

Ég held að ef rithöfundur búi með barni býr hann algjörlega allur í ævintýrinu – en ekki bara hálfur á meðan hann situr við skrifborðið að rita – afþví að ímyndunarafl barns er beintengt við töfrana og ævintýraheiminn. Svo ef krakkarnir þínir láta illa skaltu bara láta illa líka. Öskra t.d.. Svo eru til alls konar aðferðir til að róa krakka, (ekki þó róandi lyf, ég er andstæðingur sefjunarlyfja), til þess að fá frið fyrir látunum og næði til að skrifa. Gefðu þeim eitthvað þungt að borða í eftirrétt á kvöldin og sendu þau beint í rúmið, einsog t.d. hrísgrjónargraut með þeyttum rjóma og sultuslurki, smjörbombu og kanil. Hafðu kvöldmatinn snemma. Klukkan sex. Sendu þau í bað snemma á eftirmiddögunum – eða – hvenær sem er – hanga þau ekki í baði tímunum saman? Svo eru kvikmyndir ágæt heilsulind. Þegar þau vakna snemma skaltu láta þau hræra í pönnukökudeig, fara í bað, skipa þeim að lesa tíu síður áður en þau opna munninn og endursegja þér svo síðurnar – eða kannski bara endurskrifa þær. Eða búa til eitthvað í höndunum: Segðu: Krakkar fariði að föndra svo fingurnir vakni og hafið hljótt á meðan því morguninn fær hausverk ef talað er of mikið og of hátt snemma. Láttu þau spila veiðimann, hlusta á tónlist með eyrnatólum, einhverja holla tónlist svo þau verði klár. Láttu þau gera jóga í hálftíma. Um að gera að þegar þau hafa læti að æsa lætin meira svo þau verði almennilega þreytt á eftir, án þess þó að þreyta sjálfa þig. Finndu upp aðferð sem þreytir þau meira en þig og hún má alls ekki innihalda ofbeldi. En ég þarf ekki að segja þér það og heldur ekki mér sjálfri, en ef ofbeldismanneskja les bréf okkar fær hún hérmeð ekki leyfi til að þreyta krakka með illu. Bara með góðu. Ekki gefa þeim of mikið nammi heldur frekar grauta og svona kakó-, berja- og brauðsúpur. En börn þurfa að hreyfa sig mikið (jóga er alls ekki nóg) og allir aldursflokkar þurfa þess. Það sagði mér eitt sinn hjúkrunarfræðingur sem tók næturvaktir og dansaði eftir göngunum, dansaði með þvagílátin í höndunum þegar hann sótti þau inn á herbergin og dansaði með þau langar leiðir eftir göngunum í skolið, alltaf dansandi í myrkrinu þegar sjúklingar sváfu, hann sagði mér:

Líkami dýra er búinn til fyrir hreyfingu.

Ég vildi óska þess að Jesús kæmi núna niður á jörðina úr geimskipinu sínu og læknaði allt fólk sem bundið er við hjólastól. Eða hvíslaði uppskriftinni að vísindafólkinu.

Semsagt láttu krakkana hreyfa sig útivið svo mikið yfir daginn að þau sofni hratt og snemma á kvöldin svo þú fáir að skrifa innspíréruð af ímyndunarafli sem aldrei verður jafn kreisílega róttækt og þegar maður er lítill.

Tískublogg:

Í þrítugustu og fyrstu viku ársins lagði ég leið mína til eyjunnar Bornholm. Þar eru karlmenn mikið til klæddir í gallaefni, gallabuxur, -skyrtur, -jakka, og ég hef hug á að kaupa  mér gallaefnisföt hjá Rauða krossinum fljótlega, fyrir haustið. Það var eftirtektarvert að sjá að í bænum sem ég kom til sá ég margt gamalt fólk og fór að sakna þess hve lítið ég sé eldri borgara á bæjarröltinu í Reykjavík. Þá má minna á hve langur veturinn er hér hjá okkur og ég minni líka á hvað ráðhúsið er lélegt við að láta moka snjó af gangstéttunum. Fuss, skamm, svei: Moka snjó, moka snjó af fortorfinu!

Best klæddi herramaður þessarar viku – á sjálfum íslenska geipræd deginum – skipast danskur kollegi okkar, Svend Aage Sandahl. Hann hefur meðal annarra verka skrifað bókina Gademusikantens dagbog. Ég hitti hann á reiðhjóli með kerruvagni, ofan í vagninum voru harmonikka og falleg leðurtaska með bókunum sem komið hafa út. Hann var til í myndatöku og sýndi mér bækurnar. Taktu eftir hvað skórnir eru vel pússaðir einsog jafnan gildir um skó rithöfunda. Litur ólarinnar, skónna og töskunnar er sá sami: þessi mildi brúni litur járnríkrar jarðar. Úrskífan er indígóblá en það er klassískasti litur úrskífna. Rauða bindið myndskreytt hamingjuhjólinu fýkur í hlýrri hafgolunni.

 

Vika 31

 

Best klæddu dömuna í þrítugustu og þriðju viku hitti ég í hverfisbúðinni, þar vinnur hún og heitir Sigrún. Það var sunnudagur. Auðvitað var hún í sparifötunum en sú sem valdi fötin á hana þennan dag var fjagra ára stelpa sem á hrós skilið fyrir hvað hún gerði unnustu frænda síns mjúklega glerfína. Sigrún er hvers manns hugljúfi og þekkir flesta kúnnana. Hún vinnur mikið og í mörgum vinnum en í haust byrjar hún í Listaháskólanum og telur dagana. Hún er búin að teikna lengi og halda nokkrar sýningar, síðast í Póllandi. Hún er ótrúlega fallega og vel máluð, naglalakkið á fingrunum fullkomið. Litur varanna, naglanna og skónna er hárauður. Það er drottningarlitur hinnar ungu konu sem fengið hefur kraftinn og styrkinn sem þarf til að ýta á hnappinn: gó gó gó!

 

Vika 33

 

Í þrítugustu og annarri viku mættu mér margir sem komast í flokk hinna best klæddu en ég læt staðar numið í bili, senn geri ég sumarúttekt. Svo á ég líka eftir að bæta fyrir fjarveruna á kynvilltu dögunum.

P.s.ið birtist á undan kveðjunni.

P.s.

Í sambandi við leikhúsin og sparnaðaráætlanir þeirra:

Á níunda áratugnum – á hinu glamúrös eitís tímabili – flæddu peningar inní tónlistar- og bíómyndariðnaðinn. Teldu upp klassískar bíómyndir fyrir börn frá tímabilinu?*

Það borgar sig ekki að spara. Lífið er svo stutt.

 

Adíós, k

 

*Ókeypis-p.s.: sýndu krökkunum þínum eitís-bíó!

 

Og ó hér kemur nýtt p.s. og s.o.s.:

Hefur þú heyrt frá borgarsálfræðingnum?

 

~

 

Skildu eftir svar / athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s